Geturðu gert breytingar á stundaskrá þinni?
1. Að hverju ættum við að laga stundaskrá okkar fyrir boðunarstarfið?
1 Eins og allir sannkristnir menn höfum við þegið boðið um að ‚veiða menn‘. (Matt. 4:19) Líkt og bókstaflegir fiskimenn sjáum við sennilega betri árangur af starfi okkar ef við tökum frá tíma til að fara í boðunarstarfið þegar fólk er heima. Nú lengir daginn óðum og bjart er fram eftir kvöldi. Oft eru fleiri heima seinni part dags og snemma kvölds. Og þá er fólk oft afslappað og kannski tilbúnara til að fá heimsókn. Geturðu gert breytingar á stundaskrá þinni til að komast í boðunarstarfið á þessum tíma? — 1. Kor. 9:23.
2. Hvernig getum við náð til fleira fólks í boðunarstarfinu?
2 Boðunarstarf á kvöldin: Ef við gerum ráðstafanir til að fara í boðunarstarfið á kvöldin gæti það gert okkur kleift að koma fagnaðarerindinu á framfæri við fleira fólk en ella. (Orðskv. 21:5) Unglingar gætu haft tök á því að starfa eftir skóla og aðrir geta kannski starfað eftir vinnu. Sumir bóknámshópar gætu gert ráðstafanir til að fara í boðunarstarfið í klukkutíma fyrir bóknám.
3. Hvernig er gott að starfa seinnipartinn og snemma kvölds?
3 Þegar við förum hús úr húsi seinnipart dags og snemma kvölds náum við kannski tali af fólki sem er sjaldan heima. Á mörgum svæðum má einnig vitna fyrir fólki á götum úti og á almannafæri að kvöldi til. Og mörgum finnst kvöldin vera besti tíminn til að fara í endurheimsóknir og til að hefja biblíunámskeið.
4. Hvers vegna er mikilvægt að sýna góða dómgreind og vera nærgætinn þegar starfað er á kvöldin?
4 Góð dómgreind er nauðsynleg: Við verðum að sýna góða dómgreind þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu að kvöldi til. Oftast er best að vera aðeins á ferðinni snemma kvölds frekar en að koma seint þegar húsráðendur eru kannski að fara að ganga til náða. (Fil. 4:5) Þegar þú bankar upp á skaltu standa þar sem þú sést vel, kynna þig skýrt og greinilega og gera strax grein fyrir erindinu. Ef þú kemur á óheppilegum tíma, til dæmis þegar fjölskyldan er að borða, skaltu bjóðast til að koma seinna. Vertu alltaf nærgætinn. — Matt. 7:12.
5. Hvernig getum við forðast hugsanlegar hættur í boðunarstarfinu?
5 Við þurfum líka að vera vakandi fyrir hugsanlegum hættum. Ef þú ert í boðunarstarfinu í ljósaskiptunum eða þegar dimmt er orðið er skynsamlegt að vera tveir eða fleiri saman. Haltu þig á vel upplýstum götum þar sem þú ert ekki einn á ferli. Og starfaðu aðeins á svæðum sem þér finnst hættulaus. Forðastu staði sem eru ef til vill hættulegir þegar dimmt er orðið. — Orðskv. 22:3.
6. Hvaða blessun fylgir því að starfa síðla dags og á kvöldin?
6 Þegar við störfum síðla dags og á kvöldin gefst okkur tækifæri til að starfa með aðstoðarbrautryðjendum og brautryðjendum. (Rómv. 1:12) Geturðu gert breytingar á stundaskrá þinni til að komast í boðunarstarfið á kvöldin?