Sýnum persónulegan áhuga með því að vera vingjarnleg og kurteis
1 Enda þótt Jehóva sé alheimsdrottinn er hann vingjarnlegur, nærgætinn og hógvær í samskiptum sínum við ófullkomna menn. (1. Mós. 13:14; 19:18-21, 29, NW) Við getum kynnt fagnaðarboðskapinn á árangursríkari hátt með því að líkja eftir ljúflyndi hans. (Kól. 4:6) En það er ekki nóg að vera kurteis og nærgætin í tali.
2 Hús úr húsi: Hvað er til ráða ef illa stendur á fyrir húsráðanda þegar við hittum hann eða hann getur ekki talað við okkur vegna annríkis? Þá er best fyrir okkur að taka tillit til aðstæðna og hafa kynninguna mjög stutta eða bjóðast til að koma aftur seinna. Við förum ekki fram á að fólk taki við ritum ef það vill ekki þiggja þau. Nærgætni í garð annarra felst einnig í því að virða eigur þeirra eins og að loka hliðum og dyrum og venja börn okkar á að gera slíkt hið sama. Við ættum að gæta þess að ritin, sem við skiljum eftir hjá þeim sem eru ekki heima, sjáist ekki utanfrá. Ef við erum vingjarnleg komum við fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur. — Lúk. 6:31.
3 Götustarf: Í götustarfinu getum við sýnt tillitsemi með því að standa ekki í vegi fyrir gangandi fólki og safnast ekki saman framan við verslanir. Verum vakandi fyrir aðstæðum annarra og leitumst við að tala heldur við þá sem hafa nokkrar mínútur aflögu en þá sem eru greinilega að flýta sér. Stundum þurfum við að hækka róminn til þess að í okkur heyrist fyrir umferðarhávaða en gerum það á sómasamlegan hátt, ekki til að vekja á okkur athygli. — Matt. 12:19.
4 Símastarf: Vegna tillitssemi við aðra skulum við sjá til þess að ekki sé mikill hávaði í kringum okkur þegar við erum í símastarfinu. Við sýnum háttvísi með því að kynna okkur strax í byrjun og skýra ástæðuna fyrir upphringingunni. Það er auðveldara að koma á uppbyggilegum samræðum um biblíulegt efni þegar talað er beint inn í símtólið og símtalinu haldið áfram með vingjarnlegri röddu. (1. Kor. 14:8, 9) Við líkjum eftir Jehóva Guði okkar, með því að vera vingjarnleg, nærgætin og kurteis í viðmóti.