Hvernig geturðu náð andlegum markmiðum þínum?
1. Hvaða andleg markmið hafa margir kristnir unglingar?
1 Ef þú ert kristinn unglingur hefur kærleikur þinn til Jehóva og hvatning Jesú um að ‚leita fyrst ríkis hans‘ án efa áhrif á það hvaða markmið þú hefur í lífinu. (Matt. 6:33) Kannski hefurðu það markmið að færa út kvíarnar í boðunarstarfinu með því að gerast brautryðjandi eða starfa þar sem þörfin fyrir boðbera Guðsríkis er meiri. Suma langar kannski til að vinna við alþjóðlegar byggingaframkvæmdir, starfa á Betel eða gerast trúboðar. Þetta eru sannarlega verðug markmið til að keppa að.
2. Hvað getur hjálpað þér að ná settum markmiðum?
2 Það sem getur hjálpað þér að ná settum markmiðum er að setja þau niður á blað. Í Varðturninum á ensku 15. júlí 2004 kom fram að „þegar [maður] tjáir hugmynd með orðum skýrist hún og mótast. Þess vegna gæti verið gott að skrifa markmið [sín] niður á blað ásamt aðferðinni til að ná þeim.“ Þar að auki geta skammtímamarkmið hjálpað þér að leggja mat á framfarir þínar og komið í veg fyrir að þú missir sjónar á langtímamarkmiðinu sem þú hefur sett þér.
3. Nefndu nokkur skammtímamarkmið sem geta hjálpað manni að verða hæfur til að láta skírast.
3 Skammtímamarkmið: Ef þú ert ekki búinn að láta skírast skaltu hugleiða hvað þú þarft að gera til að ná því markmiði. Kannski þarftu að fá betri skilning á grundvallarkenningum Biblíunnar. Ef sú er raunin skaltu setja þér það markmið að fara yfir bókina Hvað kennir Biblían? og fletta upp öllum ritningarstöðunum sem vísað er í. (1. Tím. 4:15) Settu þér einnig það markmið að lesa alla Biblíuna í gegn frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar eins og Betelítar og nemendur í Gíleaðskólanum eiga að gera. Haltu síðan áfram að lesa daglega í Biblíunni. (Sálm. 1:2, 3) Hugsaðu þér hversu mikið það mun hjálpa þér að vaxa og dafna í trúnni! Farðu með einlæga bæn í upphafi og lok hverrar biblíulestrar- og námsstundar og leitastu alltaf við að fara eftir því sem þú lærir. — Jak. 1:25.
4. Hvaða skammtímamarkmið er hægt að setja sér ef maður stefnir að Betel- eða trúboðsstarfi?
4 Hvaða önnur markmið geturðu sett þér ef þú hefur þegar látið skírast? Þarftu meiri þjálfun í boðunarstarfinu? Gætirðu til dæmis lagt þig fram um að verða leiknari í að nota orð Guðs? (2. Tím. 2:15) Hvernig geturðu fært út kvíarnar í boðunarstarfinu? Settu þér skammtímamarkmið sem eru í samræmi við aldur þinn og aðstæður og sem gera þér kleift að ná langtímamarkmiðum þínum.
5. Hvernig hjálpuðu skammtímamarkmið bróður nokkrum að ná því markmiði að starfa á Betel?
5 Reynslusaga: Þegar Tony var 19 ára heimsótti hann eina af deildarskrifstofum Votta Jehóva. Þá kviknaði með honum löngun til að þjóna á Betel. En hann var ekki á réttri braut í lífinu og átti þar að auki eftir að vígja líf sitt Jehóva Guði. Tony ákvað að færa líf sitt til samræmis við lífsreglur Jehóva og keppti að því markmiði að verða hæfur til að láta skírast. Þegar hann hafði náð þessu markmiði stefndi hann að því að verða aðstoðarbrautryðjandi og síðan brautryðjandi og merkti við í dagatalinu hjá sér hvenær hann vildi byrja. Hann hlýtur að hafa verið mjög ánægður yfir því að vera boðið að starfa á Betel eftir að hafa verið brautryðjandi um tíma.
6. Hvað getur hjálpað þér að ná andlegum markmiðum þínum?
6 Þú getur líka náð andlegum markmiðum þínum ef þú lætur þjónustuna við Guð ganga fyrir. Leggðu „verk þín“ fyrir Jehóva í bæn og kappkostaðu svo að ná markmiðum þínum. — Orðskv. 16:3; 21:5.