Hjálpaðu biblíunemendum að meta að verðleikum óviðjafnanlega eiginleika Jehóva
1 Boðunarstarf okkar snýst um annað og meira en að kenna fólki grundvallarsannindi Biblíunnar. Við hjálpum því að kynnast Jehóva og meta að verðleikum óviðjafnanlega eiginleika hans. Sannleikurinn um Guð hefur djúpstæð áhrif á hjartahreina menn og fær þá til að gera breytingar á lífi sínu svo að þeir ‚hegði sér eins og Drottni er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt‘. — Kól. 1:9, 10; 3:9, 10.
2 Nýja námsbókin okkar: Strax í upphafi bókarinnar Hvað kennir Biblían? er athyglinni beint að eiginleikum Jehóva. Fyrsti kaflinn svarar til dæmis spurningunum: Er Guði annt um okkur mennina? Hvernig er Guð? Og er hægt að eignast náið samband við hann? Kaflinn leggur líka áherslu á að Jehóva sé heilagur (gr. 10), réttlátur og umhyggjusamur (gr. 11), kærleiksríkur (gr. 13), voldugur og máttugur (gr. 16), miskunnsamur, líknsamur, trúfastur, fús til að fyrirgefa, langlyndur og þolinmóður (gr. 19). Í efnisgrein 20 er þessu lýst í hnotskurn: „Því meira sem þú lærir um Jehóva, þeim mun raunverulegri verður hann þér, og þú ferð að elska hann og finna að hann er nærri þér.“
3 Hvernig getum við notað nýju bókina til að hjálpa biblíunemendum að eignast náið samband við Jehóva? Eftir að hafa farið yfir efnisgrein sem beinir athyglinni að einhverjum af eiginleikum Guðs gætum við spurt: „Hvað segir þetta þér um Jehóva?“ eða „Hvernig geturðu séð af þessu að Guð hefur persónulegan áhuga á þér?“ Með því að spyrja slíkra spurninga öðru hverju í námsstundinni kennum við nemendum okkar að hugleiða það sem þeir hafa lært og hjálpum þeim að meta óviðjafnanlega eiginleika Jehóva.
4 Notaðu upprifjunarrammann: Í lok hvers kafla skaltu biðja nemandann um að tjá sig með eigin orðum um hvert atriði í rammanum „Biblían kennir“. Beindu athyglinni að ritningarstöðunum sem vísað er í. Til að draga fram það sem býr í hjarta nemandans mætti stundum spyrja: „Hvað finnst þér um það sem Biblían kennir í tengslum við þetta atriði?“ Þannig leggurðu ekki aðeins áherslu á aðalatriði kaflans heldur kemstu líka að raun um hverju nemandinn trúir. Þetta hjálpar nemandanum að byggja upp náið samband við Jehóva.