Sérstakt dreifingarátak 6. október til 12. nóvember
1 „Endalok falstrúarbragða eru í nánd!“ Þetta er titill Guðsríkisfrétta nr. 37 sem byrjað verður að dreifa um allan heim í næsta mánuði. Fyrri hluta októbermánaðar munum við bjóða blöðin Varðturninn og Vaknið! En frá og með mánudeginum 16. október til sunnudagsins 12. nóvember tökum við þátt í því að dreifa Guðsríkisfréttum nr. 37. Meðan á átakinu stendur dreifum við nýjustu blöðunum með fréttaritinu um helgar.
2 Hverjir mega taka þátt? Allir virkir boðberar vilja eflaust taka ötulan þátt í þessu starfi. Sumir geta ef til vill gerst aðstoðarbrautryðjendur. Hafa börnin þín eða biblíunemendur tekið góðum framförum í trúnni? Þá væri tilvalið að hjálpa þeim að ná tali af öldungunum. Þeir geta síðan athugað hvort þau séu hæf til að gerast óskírðir boðberar. Öldungar ættu að eiga frumkvæði að því að tala við óvirka boðbera og hvetja þá til að vera með og fara kannski í starfið með reyndari boðberum.
3 Allir söfnuðir fá sendar birgðir af Guðsríkisfréttum nr. 37 og boðberar og brautryðjendur geta fengið að minnsta kosti 50 eintök. Áhugasamir, sem eru ekki enn orðnir boðberar, geta fengið fimm eintök til að gefa ættingjum og vinum. Allir ættu að fylgjast með því hvað þeir dreifa mörgum fréttaritum og skrifa það aftan á starfsskýrsluna sína í lok október og nóvember. Ritarinn tekur síðan saman heildartöluna fyrir söfnuðinn og sendir deildarskrifstofunni í lok hvors mánaðar. Þau eintök, sem verða eftir við lok herferðarinnar, má nota á öllum sviðum boðunarstarfsins.
4 Kynningarorð: Hafðu kynninguna stutta því að þá fá fleiri tækifæri til að heyra boðskapinn. Þú gætir sagt: „Ég tek þátt í alþjóðlegu átaki þar sem verið er að dreifa þessum mikilvæga boðskap til almennings. Hér er þitt eintak. Ég hvet þig til að lesa það.“ Það gæti verið betra að vera ekki með starfstösku. Gættu þess að skrá hjá þér þá sem sýna áhuga.
5 Hvernig á að fara yfir svæðið? Til að komast yfir sem mest svæði skaltu einbeita þér að því að dreifa fréttaritinu hús úr húsi og í fyrirtækjum frekar en á götum úti. Skráðu niður alla staðina þar sem enginn var heima og reyndu að koma aftur á öðrum tíma dags eða vikunnar. Frá og með mánudeginum 6. nóvember má skilja eftir eintök þar sem enginn er heima. Ef söfnuðurinn sér ekki fram á að komast yfir allt svæðið á meðan á herferðinni stendur gætu öldungarnir ákveðið að frá byrjun megi skilja ritið eftir þar sem enginn er heima.
6 Eyðing ‚Babýlonar hinnar miklu‘ nálgast óðum. Fólk þarf að flýja út úr henni áður en henni verður gereytt. (Opinb. 14:8; 18:8) Gerðu ráðstafanir núna til að taka ötulan þátt í þessari alþjóðlegu herferð til að láta alla vita að endalok falstrúarbragðanna séu í nánd!