Sýnum djörfung og verum friðsöm
1 Margir sem við hittum í boðunarstarfinu láta í ljós einlæga trú á eitthvað sem er í mótsögn við sannleikann í Biblíunni. Við þurfum að boða trúna með djörfung en viljum jafnframt hafa „frið við alla menn“ og móðga engan að óþörfu. (Rómv. 12:18; Post. 4:29) Hvernig getum við bæði sýnt djörfung og verið friðsöm þegar við boðum Guðsríki?
2 Finnum sameiginlegan grundvöll: Friðsamur maður forðast deilur. Húsráðandinn verður ekki móttækilegur fyrir boðskapnum ef við hrekjum að óþörfu einlægar trúarskoðanir hans. Ef hann heldur einhverju fram sem er ekki rétt getum við kannski kynnt nærgætnislega annað sjónarmið sem hann gæti verið okkur sammála um. Með því að leggja áherslu á það sem við erum sammála um getum við hugsanlega rutt úr vegi neikvæðum tilfinningum í okkar garð og náð að höfða til hjarta hans.
3 En erum við ekki að útvatna sannleikann eða gera málamiðlanir ef við lítum fram hjá röngu sjónarmiði húsráðandans? Nei, því að verkefni okkar sem kristinna boðbera er ekki fólgið í því að hrekja hverja ranghugmynd sem við rekumst á heldur að boða fagnaðarerindið um Guðsríki. (Matt. 24:14) Í stað þess að bregðast af hörku við röngum sjónarmiðum getum við hugsað sem svo að þau gefi okkur innsýn í hugsanagang viðmælanda okkar. — Orðskv. 16:23.
4 Sýndu húsráðanda virðingu: Stundum þurfum við að hrekja rangar kenningar af hugrekki og einurð. En þar sem við erum friðsamt fólk gerum við hvorki gys að þeim sem trúa og kenna ranghugmyndir né tölum niðrandi um þá. Hroki getur hrakið fólk frá okkur en auðmjúkt og vingjarnlegt viðmót opnar leið að huga þeirra sem elska sannleikann. Að sýna áheyrendum okkar og trú þeirra virðingu auðveldar þeim að halda reisn sinni og um leið að taka við boðskap okkar.
5 Páll postuli tók mið af trú þeirra sem hann prédikaði fyrir og leitaðist við að kynna fagnaðarboðskapinn á þann hátt að hann næði til hjartans. (Post. 17:22-31) Hann var fús til að vera „öllum allt“ til að geta „að minnsta kosti frelsað nokkra“. (1. Kor. 9:22) Við getum gert slíkt hið sama með því að vera friðsöm þegar við boðum fagnaðarboðskapinn af djörfung.