Haltu áfram að bera „mikinn ávöxt“
1 Jesús notaði líkingamál þegar hann líkti sjálfum sér við hinn sanna vínvið, föður sínum við vínyrkja og andasmurðum fylgjendum sínum við frjósamar greinar vínviðarins. Jesús lýsti starfi hins táknræna vínyrkja og lagði ríka áhersla á að greinarnar væru fastar við vínviðinn. (Jóh. 15:1-4) Þetta kennir okkur að allir þeir sem vilja eiga vináttusamband við Jehóva verða að vera eins og frjósamar greinar á ‚hinum sanna vínviði‘, Jesú Kristi. Við verðum að halda áfram að bera mikinn ávöxt, bæði ‚ávöxt andans‘ og ávöxt Guðsríkis. — Gal. 5:22, 23; Matt. 24:14; 28:19, 20.
2 Ávöxtur andans: Trúarþroska okkar má að miklu leyti meta út frá því hversu vel okkur tekst að sýna ávöxt andans. Leggur þú þig fram um að þroska með þér ávöxt anda Guðs með því að lesa reglulega í orði hans og hugleiða það sem þú lærir? (Fil. 1:9-11) Þú skalt ekki hika við að biðja um heilagan anda. Hann getur vakið með þér góða eiginleika sem eru Jehóva til dýrðar og hjálpa þér að taka stöðugum framförum í trúnni. — Lúk. 11:13; Jóh. 13:35.
3 Annað sem gerist þegar við þroskum með okkur ávöxt andans er að við verðum kappsamari boðberar en áður. Kærleikur og trú knýr okkur til að taka frá tíma í öllu annríkinu til að fara reglulega í boðunarstarfið. Eiginleikar eins og friður, langlyndi, gæska, hógværð og sjálfsstjórn hjálpa okkur að bregðast rétt við þegar fólk er okkur andsnúið. Gleði gerir okkur kleift að hafa ánægju af boðunarstarfinu, jafnvel þegar fólk sýnir engan áhuga.
4 Ávöxtur Guðsríkis: Við viljum líka bera ávöxt Guðsríkis. Það felur í sér að „bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans“. (Hebr. 13:15) Við gerum þetta með því að halda stöðugt áfram að boða fagnaðarerindið kostgæfilega. Leitast þú við að bera mikinn ávöxt Guðsríkis með því að taka framförum í boðunarstarfinu?
5 Jesús benti á að trúfastir fylgjendur sínir myndu bera mismikinn ávöxt. (Matt. 13:23) Við ættum því ekki að bera okkur saman við aðra heldur gefa Jehóva okkar besta. (Gal. 6:4) Heiðarleg sjálfsrannsókn með hjálp Biblíunnar gerir okkur kleift að halda áfram að veg-
sama Jehóva með því að bera „mikinn ávöxt“. — Jóh. 15:8.