Spurningakassinn
◼ Hvernig ættum við að vera til fara þegar við heimsækjum ríkissali, mótshallir, Betelheimili og deildarskrifstofur?
Um allan heim eru ákveðnir staðir helgaðir þjónustunni við Jehóva, meðal annars ríkissalir, mótshallir, Betelheimili og deildarskrifstofur. Þessir staðir eru yfirlætislausir, þrifalegir og snyrtilegir en það gefur þeim virðulegt yfirbragð. Þetta er mjög frábrugðið því sem er algengt í heimskerfi Satans. Það ætti að vera augljóst að þeir sem heimsækja þessa staði eru þjónar Jehóva og gera vilja hans.
Vottar Jehóva sýna á allan hátt að þeir eru „þjónar Guðs“, meðal annars með viðeigandi klæðaburði sínum og snyrtilegu útliti. (2. Kor. 6:3, 4) Hegðun okkar skiptir líka máli. Klæðnaður okkar og útlit ætti alltaf að endurspegla þá sæmd og virðingu sem hæfir þjónum Jehóva Guðs. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar við heimsækjum höfuðstöðvarnar í New York og deildarskrifstofur í öðrum löndum.
Í bókinni Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva er rætt um viðeigandi klæðnað og útlit. Fyrst er talað um að við þurfum að vera hrein, smekklega klædd og snyrtilega til fara þegar við förum í boðunarstarfið og sækjum safnaðarsamkomur. Síðan segir í grein 3 á bls. 138: „Höfum hugfast að nafnið Betel merkir ‚hús Guðs‘. Við ættum þess vegna að hugsa jafn vel um klæðnað, útlit og hegðun þegar við komum á Betel og við gerum þegar við sækjum samkomur í ríkissalnum.“ Bæði boðberar, sem búa nálægt Betel, og þeir sem koma langt að ættu að hafa þetta að leiðarljósi þegar þeir heimsækja Betel. Það ber vott um þakklæti og tilhlýðilega virðingu. — Sálm. 29:2.
Klæðnaður okkar ætti að auðkenna okkur sem einstaklinga „er Guð vilja dýrka“. (1. Tím. 2:10) Viðeigandi klæðnaður og útlit hefur jákvæð áhrif á það hvernig aðrir líta á tilbeiðsluna á Jehóva. Það kemur þó fyrir að einstaka bræður eða systur eru hirðuleysislega til fara, drusluleg eða í of þröngum eða flegnum fötum. Það er alltaf óviðeigandi fyrir kristið fólk að vera þannig til fara. Á þessu sviði sem öðrum fylgjum við háleitum mælikvarða sem skilur á milli fólks Guðs og heimsins. Við viljum gera allt Guði til dýrðar. — Rómv. 12:2; 1. Kor. 10:31.
Hvort sem þú ert búinn að skipuleggja heimsóknina fyrir fram eða ert á ferðalagi og ákveður að líta við á höfuðstöðvunum í New York eða deildarskrifstofu annars staðar, ættirðu að spyrja þig: Endurspeglar klæðnaður minn og útlit látleysi, hreinleika og virðuleika staðarins sem ég heimsæki? Er ég Jehóva Guði til sóma? Gæti ég misboðið einhverjum með útliti mínu? Við skulum ávallt vera viðeigandi til fara og ‚prýða kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum.‘ — Tít. 2:10.