Tökum framförum í boðunarstarfinu
1 Himneskur faðir okkar er ánægður þegar þjónar hans taka framförum í sannleikanum en í því felst að verða þroskaður og dugmikill boðberi fagnaðarerindisins. Páll hvatti umsjónarmanninn Tímóteus til að leggja sig allan fram til þess að ‚framför hans yrði öllum augljós‘. (1. Tím. 4:13-15) Við ættum öll að reyna að verða færari í boðunarstarfinu jafnvel þótt við séum reyndir boðberar.
2 Setjum okkur persónuleg markmið: Við þurfum að setja okkur markmið ef við viljum taka framförum. Hvaða markmið gætum við sett okkur? Við gætum reynt að verða leiknari í að nota sverð andans, Biblíuna. (Ef. 6:17) Verið gæti að við þyrftum að bæta okkur í boðunarstarfinu á einhverju sviði, til dæmis í götustarfi, símastarfi eða í starfi á viðskiptasvæðum. Við gætum kannski unnið að því að gera endurheimsóknirnar árangursríkari. Annað frábært markmið væri að verða færari í að hefja og halda biblíunámskeið.
3 Hjálp sem við fáum: Safnaðarsamkomurnar, sérstaklega Boðunarskólinn og þjónustusamkoman, eru skipulagðar með það í huga að hjálpa okkur að verða að betri boðberum. Því betur sem við undirbúum okkur fyrir þessar samkomur, leggjum okkur fram um mæta á þær og fara eftir ábendingunum sem við fáum, því meira gagn hljótum við að hafa af þeim. — 2. Kor. 9:6.
4 Við þurfum einnig að hjálpa hvert öðru að taka framförum. (Orðskv. 27:17) Okkur getur farið mikið fram með því að hlusta vel á kynningu þeirra sem við störfum með. Bóknámsumsjónarmaðurinn getur auk þess komið því í kring að við fáum einkaaðstoð. Það er mikil blessun að eiga að reyndan brautryðjanda eða boðbera sem hjálpar okkur til að verða virkari og ánægðari í boðunarstarfinu. Er einhver nýorðinn boðberi í bóknámshópnum okkar? Kannski getum við átt frumkvæðið og boðið honum samstarf.
5 Boðunarstarfið er mikilvægasta starfið sem unnið er nú á tímum. Þegar við færum Jehóva „lofgjörðarfórn“ langar okkur til að gefa honum það besta sem við eigum. (Hebr. 13:15) Ef við reynum að taka framförum í boðunarstarfinu verðum við verkamenn sem ‚ekki þurfa að skammast sín og fara rétt með orð sannleikans‘. — 2. Tím. 2:15.