Fetum í fótspor hans
1. Hvernig getum við orðið dugmiklir boðberar?
1 Jesús hlaut ekki menntun í skólum rabbína en hann var engu að síður mesti boðberi sögunnar. Við getum verið þakklát fyrir að við höfum aðgang að ritaðri heimild um þjónustu hans. Við þurfum að „feta í fótspor hans“ til að boðunarstarf okkar verði árangursríkt. — 1. Pét. 2:21.
2. Hvað getur hjálpað okkur að þroska með okkur kristilegan kærleika til fólks?
2 Sýnum fólki kærleika: Kærleiksrík umhyggja Jesú fyrir öðrum hvatti hann áfram í starfi. (Mark. 6:30-34) Margir á svæðum okkar þjást og þarfnast sannleikans. (Rómv. 8:22) Þegar við hugsum um erfiðar aðstæður þeirra og kærleikann sem Jehóva sýnir þeim hvetur það okkur til að halda áfram að boða fagnaðarerindið. (2. Pét. 3:9) Fólk mun auk þess bregðast betur við boðskap okkar ef það finnur að við höfum einlægan áhuga á því.
3. Hvenær boðaði Jesús fólki fagnaðarerindið?
3 Notum hvert tækifæri: Jesús notaði hvert tækifæri sem gafst til að segja öðrum frá fagnaðarerindinu. (Matt. 4:23; 9:9; Jóh. 4:7-10) Við viljum líka vera tilbúin til að tala um sannleikann þegar við sinnum daglegum störfum. Sumir hafa Biblíuna og rit við höndina svo að þeir geti vitnað í vinnunni, í skólanum, á ferðalögum, við innkaup og svo framvegis.
4. Hvernig getum við gert Guðsríki að aðalstefinu í boðunarstarfi okkar?
4 Leggjum aðaláhersluna á Guðsríki: Fagnaðarerindið um ríkið var aðalstefið í boðunarstarfi Jesú. (Lúk. 4:43) Þótt við nefnum Guðsríki ekki beint í kynningarorðum okkar reynum við að benda húsráðandanum á nauðsyn þess að Guðsríki komi. Og þó að við minnumst á slæmt ástand í heiminum, sem bendi til þess að við lifum á síðustu dögum, erum við fyrst og fremst að „boða fagnaðarerindið um hið góða“. — Rómv. 10:15.
5. Hvernig ættum við að nota Biblíuna til að ná árangri í boðunarstarfinu?
5 Reiðum okkur á orð Guðs: Jesús byggði kennslu sína alltaf á Ritningunni. Hann kenndi ekkert af sjálfum sér. (Jóh. 7:16, 18) Hann nærði sig á orði Guðs og notaði það til að verjast árásum Satans. (Matt. 4:1-4) Við verðum að lesa í Biblíunni á hverjum degi og taka til okkar það sem við lesum. Það hjálpar okkur að kenna öðrum á árangursríkan hátt. (Rómv. 2:21) Þegar við svörum spurningum í starfinu ættum við að vitna í Biblíuna til að styðja það sem við segjum og lesa beint upp úr henni þegar það er mögulegt. Við viljum að húsráðandinn sjái að við erum ekki að tjá eigin skoðanir heldur byggjum kennslu okkar á hugsunum Guðs.
6. Hvað gerði Jesús til að ná til hjartna áheyrenda sinna?
6 Náum til hjartans: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ (Jóh. 7:46) Þetta sögðu varðmennirnir um Jesú þegar æðstu prestarnir og farísearnir spurðu af hverju þeir hefðu ekki handtekið hann. Jesús lét sér ekki nægja að fara með staðreyndir. Hann kenndi þannig að það náði til hjartna þeirra sem hlýddu á hann. (Lúk. 24:32) Hann notaði líkingar úr daglega lífinu til að blása lífi í orð sín. (Matt. 13:34) Hann kaffærði áheyrendum sínum ekki með of miklum upplýsingum. (Jóh. 16:12) Hann beindi athyglinni að Jehóva en ekki að sjálfum sér. Við getum, líkt og Jesús, orðið góðir kennarar ef við ‚höfum gát á fræðslu okkar‘. — 1. Tím. 4:16.
7. Af hverju hélt Jesús ótrauður áfram í boðunarstarfinu?
7 Höldum áfram þrátt fyrir sinnuleysi og andstöðu: Þótt Jesús hafi unnið mörg kraftaverk hlustuðu ekki allir á hann. (Lúk. 10:13) Nokkrir úr fjölskyldu hans héldu jafnvel að „hann væri frá sér“. (Mark. 3:21) En Jesús hélt samt ótrauður áfram. Hann var jákvæður vegna þess að hann var sannfærður um að hann hefði sannleikann sem gæti veitt mönnum frelsi. (Jóh. 8:32) Með hjálp Jehóva erum við líka staðráðin í að gefast ekki upp. — 2. Kor. 4:1.
8, 9. Hvernig getum við líkt eftir Jesú með því að færa fórnir í þágu fagnaðarerindisins?
8 Færum fórnir til að þjóna Jehóva af heilum hug: Jesús fórnaði efnislegum þægindum fyrir þjónustuna við Guð. (Matt. 8:20) Hann var óþreytandi við að boða sannleikann, stundum langt fram eftir degi. (Mark. 6:35, 36) Jesús vissi að hann hafði takmarkaðan tíma til að ljúka verkinu. Þar sem „tíminn er orðinn naumur“ þurfum við að líkja eftir Jesú með því að vera fús til að fórna tíma okkar, kröftum og eigum. — 1. Kor. 7:29-31.
9 Kristnir menn á fyrstu öld voru dugmiklir boðberar vegna þess að þeir lærðu af Jesú. (Post. 4:13) Við getum líka fullnað þjónustu okkar ef við líkjum eftir mesta boðbera sögunnar. — 2. Tím. 4:5.