Ný samkomudagskrá
1, 2. Hvaða breytingar verða á samkomunum frá og með janúar 2009?
1 Í vikunni 21.-27. apríl 2008 heyrði bræðrafélagið um allan heim spennandi tilkynningu: „Frá 1. janúar 2009 verður safnaðarbóknámið haldið á sama tíma og Boðunarskólinn og þjónustusamkoman. Nafninu verður breytt úr safnaðarbóknámi í safnaðarbiblíunám.“
2 Vikuleg dagskrá samkomunnar: Í allt tekur þessi samkoma 1 klukkustund og 45 mínútur með söngvum og bænum. Samkoman hefst með söng og bæn (5 mín.) og í kjölfarið verður safnaðarbiblíunám (25 mín.) og Boðunarskóli (30 mín.). Síðan verður sunginn söngur (5 mín.) og þá hefst þjónustusamkoman (35 mín.). Dagskránni lýkur svo með söng og bæn (5 mín.). Til að auðvelda undirbúning fyrir þessar samkomur verður dagskráin fyrir safnaðarbiblíunámið, Boðunarskólann og þjónustusamkomuna birt í hverjum mánuði í Ríkisþjónustunni.
3. Hvernig verður safnaðarbiblíunáminu stjórnað?
3 Safnaðarbiblíunám: Þessi samkoma verður með sama sniði og Varðturnsnámið. Inngangsorðin ættu að vera stutt og ekki er þörf á að rifja upp efni síðustu viku í upphafi samkomunnar. Þannig gefst nægur tími fyrir alla viðstadda til að gefa stutt svör. Umsjónarmaður í forsæti sér til þess að öldungar safnaðarins skiptist á vikulega að stjórna náminu.
4. Hvernig breytist þjónustusamkoman?
4 Þjónustusamkoma: Þjónustusamkoman verður með sama sniði og áður, en dagskrárliðirnir verða styttri. Tilkynningar verða venjulega fimm mínútur. Þetta ætti að vera nægur tími fyrir nauðsynlegar tilkynningar og lestur á vissum bréfum frá deildarskrifstofunni. Tilkynningar varðandi samansafnanir, þrif og þess háttar þarf ekki að lesa af sviðinu heldur verða þær settar á tilkynningartöfluna þar sem allir geta lesið þær. Hið sama er að segja um bókhaldsskýrslur og stöðluð bréf frá deildarskrifstofunni. Þeir sem eru með verkefni á samkomunni ættu að undirbúa sig vel og fylgja nákvæmlega tímaáætlun og þeim leiðbeiningum sem gefnar eru.
5. Hvernig verður dagskrá farandhirðisvikunnar?
5 Heimsókn farandhirðis: Dagskrá farandhirðisvikunnar helst óbreytt. Boðunarskólinn og þjónustusamkoman eru haldin á þriðjudegi og síðan er sunginn söngur. Eftir það flytur farandhirðirinn 30 mínútna ræðu. Síðar í vikunni er svo safnaðarbiblíunám eins og verið hefur. Í kjölfar þess er sunginn söngur og farandhirðirinn flytur þjónusturæðuna. Samkomunni lýkur svo með söng og bæn.
6. Hvaða hlutverk hafa umsjónarmenn starfshópa?
6 Samansafnanir: Myndaðir verða starfshópar og öldungaráðið felur umsjónarmönnum að annast þessa hópa og fara í hirðisheimsóknir til þeirra sem tilheyra hópnum. Þegar safnaðarþjónn fer með þetta hlutverk kallast hann umsjónarþjónn starfshóps.
7. Hvers má vænta af nýju samkomudagskránni?
7 Eins og fram hefur komið eigum við í vændum fræðandi og uppbyggjandi dagskrá á þessari kvöldsamkomu. Hún mun búa okkur undir að prédika og kenna á áhrifaríkan hátt þannig að við getum borið ávöxt í starfi okkar. — Ef. 4:13, 14; 2. Tím. 3:17.
8. Hvernig er það sjálfum okkur og öðrum til góðs að við undirbúum okkur fyrir samkomuna?
8 Þegar við undirbúum okkur fyrir þessar samkomur hjálpar það okkur að einbeita okkur að aðalatriðunum sem fjallað verður um. Auk þess gefur það okkur tækifæri til að svara og uppörva aðra. (Rómv. 1:11, 12; Hebr. 10:24) Markmið okkar ætti að vera að fara „rétt með orð sannleikans“ þannig að ‚framför okkar verði öllum augljós‘. — 2. Tím. 2:15; 1. Tím. 4:15.
9. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera og hvers vegna?
9 Við fögnum þessari mikilvægu breytingu á safnaðarsamkomum. Verum ávallt staðráðin í að fylgja þeirri leiðsögn sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ veitir og höldum okkur nálægt hinum mikla hirði er hann býr okkur undir ‚þrenginguna miklu‘ sem nú er skammt undan. — Matt. 24:21, 45; Hebr. 13:20, 21; Opinb. 7:14.