Við eigum dýrmætan fjársjóð að gefa öðrum
1 Í orði Guðs er mikið af andlegum verðmætum sem við kunnum vel að meta. (Sálm. 12:7; 119:11, 14) Einu sinni notaði Jesús líkingar til að lýsa Guðsríki frá mismunandi hliðum og spurði síðan lærisveinana: „Hafið þið skilið allt þetta?“ Þeir svöruðu játandi og þá sagði hann við þá: „Þannig er sérhver fræðimaður sem orðinn er lærisveinn himnaríkis líkur húsföður sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu.“ — Matt. 13:1-52.
2 Það sem við lærðum þegar við hófum biblíunám okkar mætti kalla gömul verðmæti í forðabúri okkar. Með áframhaldandi námi og dýpri skilningi á Biblíunni finnum við margt sem við lítum á sem ný verðmæti í forðabúrið. (1. Kor. 2:7) Við höfum þar að auki fengið skilning á nýjum atriðum með hjálp ‚trúa og hyggna þjónsins‘. — Matt. 24:45.
3 Við metum afar mikils þessi andlegu verðmæti, bæði gömul og ný. Þar af leiðandi höfum við mikinn áhuga á að fá þjálfun og öðlast reynslu í að kenna orð Guðs og tökum góðan þátt í að deila með öðrum þessum dýrmætu sannindum sem við höfum sjálf lært.
4 Lærum af fordæmi Jesú: Jesús lagði mikið á sig til að deila andlegum verðmætum með öðrum og það sýnir hve mikils hann mat þau sjálfur. Hann hætti ekki einu sinni að gefa úr „forðabúri“ sínu þegar hann var þreyttur. — Jóh. 4:6-14.
5 Jesús var knúinn af kærleika til þeirra sem skorti réttan skilning á Guði og fyrirætlunum hans. Hann færði þeim sannleika Guðs sem veitir líf. (Sálm. 72:13) Hann kenndi í brjósti um þá sem hungraði eftir þekkingu á Guði og vilja hans og „hann kenndi þeim margt“. — Mark. 6:34.
6 Líkjum eftir Jesú: Ef við metum að verðleikum þann fjársjóð sem við eigum erum við óðfús, líkt og Jesús, að sýna fólki andlegar gersemar beint frá Biblíunni. (Orðskv. 2:1-5) Við erum þá alltaf áköf að tala um sannleika Biblíunnar þó að við séum stundum þreytt. (Mark. 6:34) Innilegt þakklæti fyrir fjársjóðinn, sem við eigum, fær okkur til að gera okkar besta í þjónustunni og reyna sífellt að gera betur.