Þú getur kennt öðrum sannleikann
1. Hvaða sérstaka tækifæri fá allir boðberar Guðsríkis?
1 Fátt veitir okkur meiri ánægju en að kenna öðrum sannleikann. Það er einstakt að mega fylgjast með einstaklingi taka við boðskapnum um Guðsríki og hjálpa honum að nálægja sig alvöldum Drottni alheims. (Jak. 4:8) Það ætti að vera markmið allra boðbera Guðsríkis að kenna þeim sem hungrar í sannleikann og fylgjast með þegar þeir gera breytingar á persónuleika sínum, viðhorfum og hegðun. — Matt. 28:19, 20.
2. Af hverju hika sumir við að halda biblíunámskeið og hvað getur hjálpað þeim að sigrast á vandanum?
2 Treystu á Jehóva: Fyrr á tímum drógu sumir trúfastir þjónar Guðs í efa að þeir gætu sinnt verkefnum sínum. Móse, Jeremía, Amos og aðrir óbreyttir alþýðumenn treystu á hjálp Jehóva til að vinna bug á efasemdum sínum og óöryggi svo að þeir gætu tekið að sér mikilvæg verkefni frá Guði. (2. Mós. 4:10-12; Jer. 1:6, 7; Am. 7:14, 15) Páll postuli segir að ‚Guð hafi gefið sér djörfung‘ til að gera þjónustu sinni skil. (1. Þess. 2:2) Við getum öll treyst á Jehóva því að hann veitir okkur þá hjálp, þá visku og þann styrk sem við þurfum til að geta haldið árangursrík biblíunámskeið. — Jes. 41:10; 1. Kor. 1:26, 27; 1. Pét. 4:11.
3, 4. Hvaða fræðsla er í boði til að hjálpa okkur að kenna orð Guðs?
3 Þiggðu kennslu og þjálfun: Jehóva Guð, hinn mikli fræðari, sér okkur fyrir biblíulegri kennslu á reglulegum grundvelli svo að við getum orðið hæfir kennarar. (Jes. 54:13; 2. Tím. 3:16, 17) Taktu við þessari kennslu með því að nýta þér til fulls hvert tækifæri sem gefst til að auka þekkingu þína og skilning á Biblíunni og bæta kennslutæknina. Það er aðalmarkmið Boðunarskólans og þjónustusamkomunnar en að sjálfsögðu fáum við þjálfun á öllum samkomunum í að kenna öðrum sannleika Biblíunnar.
4 Reyndu að læra hvernig þú getur kennt jafnvel djúp andleg sannindi á einfaldan hátt. Í Boðunarskólabókinni á bls. 227 segir: „Þú þarft að vera vel heima í efninu sjálfur til að geta gert það skiljanlegt fyrir aðra.“ Ef þú svarar á samkomum manstu betur aðalatriðin og átt auðveldara með að nota þau seinna. Undirbúðu þig vel, þá finnurðu hvernig þú færð meira öryggi til að kenna.
5. Hvaða þjálfun getum við fengið í söfnuðinum sem hjálpar okkur að verða betri kennarar?
5 Þjónar orðsins á fyrstu öldinni hafa eflaust lært hver af öðrum þegar þeir gerðu menn að lærisveinum. (Lúk. 10:1) Ef það er mögulegt ættirðu að fá að fara í biblíunámsstarfið með reyndum boðberum eins og brautryðjendum, öldungum og farandumsjónarmönnum. Taktu eftir hvernig þeir nota einfaldar líkingar, myndir og annað úr biblíunámsritunum til að útskýra sannindi Biblíunnar. Spyrðu þá hvernig þú getir orðið betri kennari. (Orðskv. 1:5; 27:17) Við skulum meta mikils slíka kennslu frá trúsystkinum því að hún er í raun frá Guði komin. — 2. Kor. 3:5.
6. Hvað er sérstaklega mikilvægt til að verða kennari í orði Guðs?
6 Treystu á Jehóva og nýttu þér menntunina sem hann veitir. Biddu hann að hjálpa þér að taka framförum. (Sálm. 25:4, 5) Þú getur notið þeirrar gleði að hjálpa öðrum að verða eins og þú — kennari í orði Guðs.