„Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
1. Hvert er markmiðið með útgáfu bókarinnar „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“?
1 Hlökkum við ekki til að fara yfir bókina „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“? Við byrjum á því í safnaðarbiblíunáminu í vikunni sem hefst 23. febrúar. Bréfinu frá hinu stjórnandi ráði til allra þeirra sem elska Jehóva lýkur með þessum orðum: „Það er einlæg von okkar að þessi bók hjálpi þér að halda áfram að lifa í samræmi við sannleikann og láta ‚kærleika Guðs varðveita þig og veita þér eilíft líf‘. — Júdasarbréfið 21.“
2. Hvernig mun nýja bókin hjálpa okkur?
2 Við hverju getum við búist? Hvernig eiga meginreglur Biblíunnar við um félagsskap, afþreyingu, virðingu fyrir yfirvöldum, persónulegar venjur, hjónaband, málfar og algengar siðvenjur? Háir réttlætisstaðlar Guðs, sem finna má í orði hans, móta samvisku okkar. (Sálm. 19:8, 9) Bættur skilningur á því hvernig Jehóva hugsar eykur löngun okkar til að þóknast honum á öllum sviðum lífsins. — Orðskv. 27:11; 1. Jóh. 5:3.
3. Hvers vegna ættum við að leggja okkur fram um að taka þátt i vikulegu biblíunámi safnaðarins?
3 Verum staðráðin í að taka þátt í náminu: Hafðu hugfast við undirbúning fyrir biblíunámið að markmið okkar er að heiðra Jehóva með fólki hans. (Hebr. 13:15) Allur söfnuðurinn mun fara yfir þetta nýja efni saman. Þar sem farið verður yfir minna efni en gert var í bóknáminu getum við undirbúið okkur vel og verið ófeimin að miðla öðrum því sem við höfum lært. Vel undirbúin og hnitmiðuð svör hvetja aðra til kærleika og góðra verka og eru kveikjan að áhugaverðum og líflegum umræðum. (Hebr. 10:24) Það veitir okkur ánægju að fá tækifæri til að tjá trú okkar.
4. Hvers vegna er mikilvægt að fara eftir boðorðum Jehóva?
4 Síðasta kvöldið, sem Jesús var maður á jörð, útskýrði hann hvers vegna það er mikilvægt að fara eftir boðorðum Jehóva og varðveita okkur þannig í kærleika hans. (Jóh. 15:10) Bókin „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“ á eftir að hjálpa okkur að lifa samkvæmt meginreglum Biblíunnar öllum stundum og ‚varðveita okkur í kærleika Guðs‘. — Júd. 21.