Kennum þeim sem hafa litla lestrarkunnáttu
1. Hvaða áskorun gætum við staðið frammi fyrir í boðunarstarfinu?
1 Þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu stöndum við einstaka sinnum frammi fyrir þeirri áskorun að kenna fólki sannleikann sem á erfitt með lestur. Hvernig getum við borið okkur að?
2. Hvernig sýnum við þeim virðingu sem hafa litla lestrarkunnáttu og hvers vegna er það mikilvægt?
2 Sýndu virðingu: Það er hjartalag viðkomandi en ekki menntun sem skiptir máli í augum Jehóva. (1. Sam. 16:7; Orðskv. 21:2) Við lítum þess vegna ekki niður á þá sem hafa takmarkaða lestrarkunnáttu. Það er mun líklegra að þeir þiggi hjálp okkar ef við sýnum þeim virðingu og þolinmæði. (1. Pét. 3:15, 16) Það gæti falið í sér að við leggjum ekki hart að viðkomandi að lesa efnisgreinar eða annan texta. Eftir því sem hann lærir meira um dýrmæt biblíuleg sannindi gæti löngunin kviknað til að taka framförum í lestri með það fyrir augum að upplifa gleðina af því að lesa og ‚hugleiða orð Guðs dag og nótt‘. — Sálm. 1:2, 3.
3. Hvaða kennsluaðferðir er hægt að nota til að kenna þeim sem hafa takmarkaða lestrarkunnáttu?
3 Kennsluaðferðir: Myndir eru áhrifaríkt kennslutæki og hjálpa fólki að muna. Þú gætir spurt nemandann hvað hann sjái eða hugsi þegar hann skoðar mynd í ritinu sem þið eruð að lesa í. Spyrðu síðan spurninga sem hjálpa honum að skilja hverju myndin á að koma til skila. Notaðu ritningarstaði sem tengjast myndinni og þú vilt leggja áherslu á. Það getur líka verið ágætt að nota myndirnar þegar efnið er rifjað upp í lokin. Reyndu ekki að fara yfir of mikið efni í einu. Leggðu áherslu á kjarnann og aðalatriðin og forðastu að fara út fyrir efnið. Lestu ritningarstaðina beint úr Biblíunni og notaðu spurningar til þess að vera fullviss um að nemandinn skilji það sem lesið er. Það gæti styrkt löngun hans til þess að bæta lestrarkunnáttuna með það að markmiði að rannsaka Biblíuna sjálfur.
4. Hvernig getum við hjálpað biblíunemanda að bæta lestrarkunnáttuna?
4 Hjálp til að taka framförum í lestri: Fólk sem á erfitt með lestur eða hefur ekki haft tækifæri til að læra að lesa reiprennandi, getur samt sem áður skilið og munað upplýsingar mjög vel. Þú gætir hvatt biblíunemanda til að hlusta vel á góða lesara og fylgjast með í ritinu sem lesið er. Hann gæti jafnvel endurtekið orðin lágum rómi. Það getur hjálpað honum að bæta lestrarkunnáttuna. Sums staðar í heiminum skipuleggja öldungar einnig lestrarnámskeið í söfnuðunum. Við getum haft þessar gagnlegu aðferðir til hliðsjónar þegar við hjálpum fólki með litla lestrarkunnáttu að skilja „heilagar ritningar“ sem veita speki til sáluhjálpar. — 2. Tím. 3:15.