Hvað fær okkur til að boða trúna?
1. Hvernig tengist kærleikurinn boðunarstarfinu?
1 Að boða gleðifréttir um Guðsríki er besta starf sem við getum sinnt núna. Með því að taka þátt í því getum við sýnt að við fylgjum trúfastlega tveimur æðstu boðorðunum, að elska Jehóva og náungann. (Mark. 12:29-31) Kærleikurinn er sterkt afl sem getur fengið okkur til að verða duglegir boðberar. – 1. Jóh. 5:3.
2. Hvers vegna er þátttaka í boðunarstarfinu merki um að við elskum Jehóva?
2 Kærleikur til Jehóva: Kærleikur til Jehóva, besta vinar okkar, fær okkur til að taka upp málstað hans. Satan hefur nú í um 6.000 ár kastað rýrð á nafn hans. (2. Kor. 4:3, 4) Þess vegna heldur fólk að Guð kvelji syndara í brennandi helvíti, að hann sé hluti af óskiljanlegri þrenningu eða að hann hafi ekki áhuga á mönnunum. Margir hafa meira að segja komist að þeirri niðurstöðu að Guð sé ekki til. Við viljum svo gjarnan að allir fái að kynnast sannleikanum um himneskan föður okkar. Það veitir Jehóva mikla ánægju þegar við gerum okkar allra besta sem vottar hans, en á sama tíma ergir það Satan. – Orðskv. 27:11; Hebr. 13:15, 16.
3. Hvernig sýnum við kærleika til náungans með því að taka þátt í boðunarstarfinu?
3 Kærleikur til náungans: Í hvert sinn sem við segjum öðrum frá Jehóva sýnum við náungakærleika. Fólk þarf sárlega á fagnaðarerindinu að halda á þessum slæmu tímum. Margir eru eins og Nínívebúar á dögum Jónasar og „þekkja vart hægri höndina frá þeirri vinstri“. (Jónas 4:11) Þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu erum við að kenna fólki hvernig það getur eignast ánægjulegt og innihaldsríkt líf. (Jes. 48:17-19) Boðskapurinn, sem við flytjum fólki, veitir því von. (Rómv. 15:4) Ef það hlustar og fer eftir því sem það lærir verður það hólpið. – Rómv. 10:13, 14.
4. Hverju gleymir Jehóva aldrei?
4 Börn sýna foreldrum sínum ekki bara væntumþykju á ákveðnum tíma vikunnar eða mánaðarins heldur reyna að gera það öllum stundum. Eins getur sterkur kærleikur til Guðs og til náungans fengið okkur til að vera opin fyrir tækifærum til að boða öðrum trúna hvenær sem er, ekki bara þegar við erum í starfinu. Við tökum okkur aldrei frí frá því að boða trúna. (Post. 5:42) Jehóva gleymir aldrei slíkum kærleika. – Hebr. 6:10.