Notaðu þau tækifæri sem þú hefur til að dreifa boðskapnum um Guðsríki
1. Hvað lærum við af fordæmi Davíðs?
1 Davíð konungi féllust ekki hendur þó að aðstæður væru honum í óhag. Hann langaði til dæmis að byggja hús fyrir Jehóva. Þegar það gekk ekki upp var hann sveigjanlegur og aðlagaði markmið sín þannig að Salómon gæti reist musterið. (1.Kon. 8:17-19; 1.Kron. 29:3-9) Davíð kaus að horfa á það sem hann gat gert í stað þess sem hann gat ekki gert. Hvernig getum við líkt eftir fordæmi hans þegar við leitum leiða til að dreifa boðskapnum um Guðsríki.
2. Hvaða sjálfsrannsókn er gott að gera?
2 Gerðu það sem þú getur: Margir hafa einfaldað líf sitt til að gerast aðstoðarbrautryðjendur eða brautryðjendur. (Matt. 6:22) Gætir þú slegist í hóp þeirra? Ef þú skoðar aðstæður þínar í bænarhug gætir þú komið auga á að „víðar dyr að miklu verki“ standa þér opnar. – 1.Kor. 16:8, 9.
3. Hvaða tækifæri til að boða trúna getum við nýtt okkur þótt við getum ekki verið brautryðjendur?
3 En hvað ef aðstæður þínar koma í veg fyrir að þú gerist brautryðjandi? Ekki missa sjónar á tækifærunum sem þú hefur. Ef þú hefur samskipti við fólk í vinnunni, sem er ekki vottar, væri upplagt að nota viðeigandi tækifæri til að boða trúna. Eða ef þú glímir við heilsubrest gætir þú nýtt þau tækifæri sem gefast til að segja heilbrigðisstarfsmönnum frá fagnaðarerindinu. Mundu að þeir sem hafa mjög takmarkaða möguleika til að boða fagnaðarerindið, vegna aldurs eða slæmrar heilsu, geta talið tímann í stundarfjórðungum á starfsskýrslu sinni. Þegar þú skrifar mánaðarlega starfsskýrslu skaltu muna að skrá þann tíma sem þú hefur notað til að boða trúna óformlega og þau rit sem þú hefur dreift, þar á meðal smárit og boðsmiða á minningarhátíð og mót. Þú verður kannski hissa hvað margt smátt gerir eitt stórt.
4. Hvað hefur þú hugsað þér að gera?
4 Hverjar sem persónulegar aðstæður okkar eru skulum við nota hvert tækifæri til að dreifa boðskapnum um Guðsríki. Þá njótum við þeirrar gleði að vita að við gerum okkar besta fyrir Guðsríki. – Mark. 14:8; Lúk. 21:2-4.