Spurningakassinn
◼ Ættu boðberar að nota Netið í miklum mæli til að boða fagnaðarerindið eða kenna ókunnugum sem búa í öðru landi?
Sumir boðberar hafa notað Netið til að halda biblíunámskeið í löndum þar sem hömlur eru á boðunarstarfi okkar eða boðberar fáir. Stundum hefur það reynst árangursríkt. Hins vegar geta leynst hættur þegar boðberar skiptast á tölvupósti við ókunnuga eða tala við þá á spjallrásum. (Sjá Ríkisþjónustu okkar í júlí 2007, bls. 3.) Þó að tilgangurinn sé að ná til einlægra einstaklinga með boðskap Guðsríkis gætu slíkar umræður orðið til að bróðir eða systir lendi í vondum félagsskap, til dæmis félagskap fráhvarfsmanna. (1. Kor. 1:19-25; Kól. 2:8) Í löndum þar sem hömlur hafa verið settar á boðunarstarf okkar eða það bannað, gætu yfirvöld verið að fylgjast með tölvusamskiptum. Trúsystkinum okkar gæti stafað hætta af slíkum samskiptum. Þess vegna eiga boðberar ekki að leita að fólki í öðrum löndum á Netinu til að boða því fagnaðarerindið.
Ef við tölum óformlega um fagnaðarerindið við einhvern gestkomandi frá öðru landi, ættum við ekki að reyna að glæða áhuga viðkomandi eftir að hann snýr heim, nema leiðbeiningar frá deildarskrifstofu okkar kveði á um annað. Þess í stað ættum við að sýna honum hvernig hann geti notað jw.org til að fá frekari upplýsingar eða komast í samband við viðeigandi deildarskrifstofu. Við getum líka hvatt hann til að fara í ríkissal nálægt heimili sínu. Að vísu eru engir ríkissalir í sumum löndum. Ef viðkomandi óskar eftir að fá votta í heimsókn í sínu landi getum við hjálpað honum að fara inn á jw.org til að fylla út beiðni um heimsókn eða biblíunámskeið. Deildarskrifstofan, sem hefur umsjón með starfinu í landinu sem hinn áhugasami býr í, þekkir allar kringumstæður og er í bestri aðstöðu til að veita aðstoð.
Við ættum að fylgja ofangreindum leiðbeiningum ef við erum að heimsækja áhugasaman einstakling sem flytur til annars lands, eða ef við höfum biblíunemanda í öðru landi sem við höfum kynnst í gegnum Netið. Við getum hins vegar haldið áfram að glæða áhugann þangað til boðberar sem búa á svæðinu komast í samband við hann. Við ættum samt að gæta ýtrustu varúðar þegar biblíuleg málefni eru rædd bréfleiðis, í síma eða á rafrænu formi ef hinn áhugasami býr í landi þar sem starf okkar er takmarkað eða bannað. – Matt. 10:16.