Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w20 maí bls. 20-25
  • Ertu þakklátur fyrir gjafir Guðs?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ertu þakklátur fyrir gjafir Guðs?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • JÖRÐIN – EINSTÖK PLÁNETA
  • HEILINN – EINSTÖK HÖNNUN
  • BIBLÍAN – EINSTÖK GJÖF
  • Maðurinn – hið mikla kraftaverk
    Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?
  • Maðurinn er alveg einstakur!
    Er til skapari sem er annt um okkur?
  • Einstök reikistjarna ber vitni
    Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?
  • Sköpunarverkið opinberar hinn lifandi Guð
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
w20 maí bls. 20-25

NÁMSGREIN 21

Ertu þakklátur fyrir gjafir Guðs?

„Drottinn, Guð minn, mörg eru máttarverk þín og áform þín oss til handa.“ – SÁLM. 40:6.

SÖNGUR 5 Undursamleg verk Guðs

YFIRLITa

1, 2. Með hliðsjón af Sálmi 40:6, hvaða gjafir hefur Jehóva gefið okkur og hvers vegna ætlum við að ræða um þær?

JEHÓVA er örlátur Guð. Leiddu hugann að sumum af þeim gjöfum sem hann hefur gefið okkur: jörðinni, okkar fallega og einstaka heimili, hinum snilldarlega hannaða heila og orði Guðs, Biblíunni. Þar sem Jehóva hefur í kærleika sínum gefið okkur þessar gjafir eigum við stað til að búa á, við getum hugsað og átt samskipti við aðra og við höfum svör við mikilvægustu spurningum lífsins. – Lestu Sálm 40:6.

2 Í þessari grein er rætt stuttlega um þessar þrjár gjafir. Því meir sem við hugsum um þær því betur kunnum við að meta þær og löngunin til að gleðja Jehóva Guð, skapara okkar, verður sterkari. (Opinb. 4:11) Við verðum líka betur í stakk búin til að ná til hjartna þeirra sem hefur ranglega verið talin trú um að þróunarkenningin sé sönn.

JÖRÐIN – EINSTÖK PLÁNETA

3. Að hvaða leyti er jörðin einstök?

3 Þegar við lítum á hvernig jörðin er úr garði gerð er auðséð að Guð býr yfir mikilli visku. (Rómv. 1:20; Hebr. 3:4) Jörðin er ekki eina plánetan á sporbaug sólarinnar en það sem gerir hana einstaka er að á henni eru fullkomin lífsskilyrði.

4. Hvernig ber jörðin vitni um visku Guðs? Lýstu með dæmi.

4 Hægt er að líkja jörðinni að einhverju leyti við skip úti á miðju hafi með farþegum um borð. En sumt er þó mjög ólíkt. Það mætti til dæmis velta því fyrir sér hversu lengi farþegar skipsins gætu lifað ef þeir þyrftu sjálfir að framleiða súrefni, mat og vatn og ef bannað væri að kasta úrgangi fyrir borð. Þeir myndu auðvitað ekki halda lífinu lengi. Jörðin getur hins vegar viðhaldið lífi milljarða lífvera. Hún framleiðir allt súrefni, fæðu og vatn sem við þurfum og það gengur aldrei til þurrðar. Jörðin losar sig ekki við úrgangsefni út í geiminn en samt er hún falleg og byggileg. Hvernig stendur á því? Jehóva gerði jörðina þannig að hún gæti endurunnið úrgangsefni sín. Við skulum nú skoða stuttlega tvö af þessum endurvinnsluferlum – hringrás súrefnis og hringrás vatns.

5. Hvernig virkar hringrás súrefnis og hvað sannar það?

5 Súrefni er lífsnauðsynleg gastegund sem sumar lífverur nýta, þar á meðal við mennirnir. Áætlað hefur verið að lifandi verur andi að sér hundrað milljörðum tonna af súrefni á hverju ári. Þær anda síðan frá sér úrgangsefni sem kallast koldíoxíð. En andrúmsloftið verður aldrei snautt af súrefni og mettað koldíoxíði. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva skapaði plöntur – allt frá stórum trjám niður í örsmáa þörunga – sem taka til sín koldíoxíð og breyta því í súrefni. Guð gefur þannig „öllum líf og andardrátt“ með mjög bókstaflegum hætti eins og fram kemur í Postulasögunni 17:24, 25.

6. Hvernig er hringrás vatns háttað og hvað sannar það? (Sjá einnig rammann „Hringrás vatnsins – gjöf frá Jehóva“.)

6 Vatn er í fljótandi formi á jörðinni vegna þess að hún er staðsett í nákvæmlega réttri fjarlægð frá sólu. Ef hún væri örlítið nær myndi allt vatn gufa upp og hún verða skraufþurr og steikjandi heit og ekkert líf gæti þrifist á henni. Ef jörðin væri örlítið fjær sólu myndi allt vatn frjósa og hún verða að risastórum ísklumpi. Hringrás vatns viðheldur lífinu á jörðinni vegna þess að Jehóva staðsetti jörðina á besta stað. Sólin sér til þess að vatn gufar upp úr sjó, ám og vötnum. Vatnsgufan verður síðan að skýjum. Á hverju ári gufa upp nálega 500.000 rúmkílómetrar af vatni vegna áhrifa sólarinnar. Eftir að vatnið gufar upp helst það í loftinu í um það bil tíu daga og fellur síðan til jarðar sem regn eða snjór. Vatnið rennur síðan aftur til sjávar eða sameinast ám og vötnum og hringrásin endurtekur sig. Þessi stöðuga og lífsnauðsynlega hringrás sannar að Jehóva er bæði vitur og máttugur. – Job. 36:27, 28; Préd. 1:7.

Hringrás vatnsins – gjöf frá Jehóva

Klippimynd: Hringrás vatnsins. 1. Hiti frá sólinni lætur vatn gufa upp úr sjónum og vatnið verður að skýi. 2. Regn fellur til jarðar úr skýinu. 3. Vatnið rennur aftur til sjávar.
  • Bóndi horfir til himins í rigningu.

    ÁVEXTIR, GRÆNMETI OG BLÓM

    Regn lætur plöntur vaxa svo að við getum neytt ávaxtar þeirra. Flestar plöntur hafa líka blóm sem okkur þykja falleg.

  • Ljósmyndari tekur myndir af fossum og fjöllum.

    FEGURÐ OG ÁNÆGJA

    Ár, vötn og fossar fegra jörðina og veita okkur ánægju.

  • Maður þurrkar upp sjó til að vinna salt úr honum.

    AÐRIR KOSTIR

    Hringrás vatns hefur fleiri kosti í för með sér. Við uppgufun sjávar myndast til dæmis salt.

  • Kona drekkur vatn úr glasi.

    DAGLEG NOTKUN

    Við drekkum vatn og notum það til að búa til drykki eins og límonaði, kaffi og te. Við notum líka vatn þegar við eldum, þrífum og böðum okkur.

7. Hvernig getum við sýnt að við erum þakklát fyrir gjöfina sem nefnd er í Sálmi 115:16?

7 Hvernig getum við orðið enn þakklátari fyrir hina undraverðu plánetu okkar og náttúruauðlindir hennar? (Lestu Sálm 115:16.) Við getum til dæmis hugleitt það sem Jehóva hefur skapað. Það knýr okkur til að þakka Jehóva daglega fyrir allt hið góða sem hann gefur okkur. Við sýnum líka þakklæti okkar með því að leggja okkar af mörkum til að halda umhverfi okkar hreinu.

HEILINN – EINSTÖK HÖNNUN

8. Hvers vegna er hægt að segja að heilinn sé margslunginn?

8 Mannsheilinn er margslunginn. Þegar þú varst í móðurkviði þroskaðist heili þinn eftir ákveðnu ferli og þúsundir heilafrumna mynduðust á hverri mínútu. Vísindamenn áætla að heili fullvaxta einstaklings samanstandi af 100 milljörðum taugafrumna sem saman mynda efnismassa sem vegur um 1,5 kíló. Skoðum nú nokkur dæmi um magnaða eiginleika heilans.

9. Hvað sannfærir þig um að talgáfan sé gjöf frá Guði?

9 Talgáfan er hreint kraftaverk. Hvað gerist þegar við tölum? Heilinn þarf að samhæfa hreyfingar allt að 100 vöðva –í tungu, hálsi, vörum, kjálka og bringu. Vöðvarnir þurfa allir að hreyfast í vissri röð ef orðin eiga að skiljast. Í könnun sem var birt árið 2019 og fjallaði um hæfileikann til að læra tungumál kom fram að nýfædd börn geti greint stök orð. Þessi uppgötvun styður það sem margir rannsóknarmenn halda fram – að við séum fædd með hæfileikann til að geta skilið og lært tungumál. Talgáfan er sannarlega gjöf frá Guði. – 2. Mós. 4:11.

10. Hvernig getum við sýnt þakklæti okkar fyrir talgáfuna?

10 Ein leið til að sýna að við kunnum að meta talgáfuna er að ræða við aðra um trú okkar á Guð og útskýra hvers vegna við trúum ekki þróunarkenningunni. (Sálm. 9:2; 1. Pét. 3:15) Þeir sem halda þessari kenningu á lofti vilja meina að jörðin og allt líf á henni hafi orðið til fyrir tilviljun. Ef við notum Biblíuna og einhver rök í þessari grein getum við varið málstað föður okkar á himnum og útskýrt fyrir þeim sem vilja hlusta hvers vegna við erum sannfærð um að Jehóva sé skapari himins og jarðar. – Sálm. 102:26; Jes. 40:25, 26.

11. Hvað er eitt af því sem gerir mannsheilann svona einstakan?

11 Minnisgáfan er hreint ótrúleg. Vísindamaður nokkur áætlaði eitt sinn að mannsheilinn gæti geymt upplýsingar sem fylltu 20 milljónir bóka. Nú er hins vegar talið að minni mannsheilans sé miklu meira en það. Hvað getum við gert þar sem við búum yfir þessum einstaka hæfileika?

12. Hvernig greinir siðferðisvitundin okkur frá dýrunum?

12 Mennirnir eru einu lífverur jarðar sem búa yfir siðferðisvitund. Við getum rifjað upp hvað hefur drifið á daga okkar og dregið lærdóm af því. Þannig getum við tileinkað okkur betri siðferðisgildi og breytt hugsunarhætti okkar og líferni. (1. Kor. 6:9–11; Kól. 3:9, 10) Við getum þjálfað samviskuna til að greina rétt frá röngu. (Hebr. 5:14) Við getum lært að elska, sýna samúð og miskunn. Og við getum líkt eftir réttlæti Jehóva.

13. Hvaða hvatningu fáum við í Sálmi 77:12, 13 varðandi notkun minnisgáfunnar?

13 Við getum sýnt að við kunnum að meta minnisgáfuna með því að reyna að muna eftir öllum þeim skiptum sem Jehóva hefur hjálpað okkur og hughreyst. Það styrkir líka traust okkar á að hann haldi áfram að hjálpa okkur. (Lestu Sálm 77:12, 13; 78:4, 7) Önnur leið er að muna eftir því góða sem aðrir gera fyrir okkur og vera þakklát fyrir það, en samkvæmt niðurstöðu rannsóknar er þakklátt fólk líklegra til að vera hamingjusamt. Það er okkur líka til góðs að láta sumt falla í gleymsku eins og Jehóva gerir. Hann hefur vissulega fullkomið minni en hann ákveður að fyrirgefa og gleyma mistökum okkar ef við sjáum eftir þeim. (Sálm. 25:7; 130:3, 4) Hann vill að við gerum slíkt hið sama þegar aðrir særa okkur og sjá eftir því. – Matt. 6:14; Lúk. 17:3, 4.

Myndir: 1. Systir notar minnismiða og bók við að læra hindí. 2. Systirin notar bæklinginn „Gleðifréttir frá Guði“ við að boða trúna fyrir indverskri konu á markaði.

Við sýnum að við erum þakklát fyrir heilann með því að nota hann til að heiðra Jehóva. (Sjá 14. grein.)b

14. Hvernig sýnum við að við metum að verðleikum hina mögnuðu gjöf sem heilinn er?

14 Við getum sýnt að við metum að verðleikum hina mögnuðu gjöf sem heilinn er með því að nota hann til að heiðra þann sem gaf okkur hann. Sumir ákveða að nota heilann í eigingjörnum tilgangi og ákveða sjálfir hvað sé rétt og rangt. En þar sem Jehóva skapaði okkur, er þá ekki eðlilegt að ætla að siðferðisreglur hans séu betri en þær siðferðisreglur sem menn kunna að setja? (Rómv. 12:1, 2) Það stuðlar að hamingju okkar og innri friði þegar við lifum í samræmi við meginreglur hans. (Jes. 48:17, 18) Þá skiljum við líka betur hver tilgangur lífsins er – að heiðra skapara okkar og föður og gleðja hann. – Orðskv. 27:11.

BIBLÍAN – EINSTÖK GJÖF

15. Hvernig endurspeglar Biblían kærleika Jehóva til mannkynsins?

15 Biblían er kærleiksrík gjöf frá Guði, himneskum föður okkar. Hann elskar mannkynið og innblés því mönnum að skrifa hana. Í Biblíunni gefur hann okkur svör við mikilvægustu spurningunum sem nokkur gæti spurt sig, spurningum eins og: Hvaðan komum við? Hver er tilgangur lífsins? Og hvað ber framtíðin í skauti sér? Jehóva vill að öll jarðnesk börn sín fái svör við þessum spurningum og hefur því í aldanna rás séð til þess að menn finni sig knúna til að þýða Biblíuna á fjöldann allan af tungumálum. Nú er hægt að lesa Biblíuna í heild eða að hluta á ríflega 3.000 tungumálum. Biblían er útbreiddasta og mest þýdda bók veraldar. Flestir hafa tækifæri til að kynnast boðskap hennar á móðurmáli sínu, óháð því hvar þeir búa eða hvaða tungumál þeir tala. – Sjá rammann „Biblían þýdd á afrísk tungumál“.

Biblían þýdd á afrísk tungumál

Um árið 1800 voru til prentuð eintök af Biblíunni í heild eða að hluta á 70 tungumálum. Mjög fá þeirra voru hins vegar töluð í Afríku. Á þeim tíma höfðu afrísku bantúmálin ekkert ritmál. Það breyttist þegar menn eins og Englendingurinn William Boyce fóru til Afríku og bjuggu meðal fólks sem talaði þessi mál. Boyce hjálpaði til við að mynda ritmál á xhósa og þýddi ásamt fleirum Lúkasarguðspjallið á það tungumál. Guðspjallið, sem kom út árið 1833, hafði að geyma nafn Guðs á öllum sömu stöðunum og það kemur fyrir í Nýheimsþýðingu Biblíunnar. Boyce náði líka tökum á flóknum málfræðireglum xhósa sem gilda líka um öll önnur bantúmál. Það gerði þýðendum kleift að gefa út Biblíuna á mörgum öðrum afrískum tungumálum. Nú er Biblían til í heild eða að hluta á yfir 1.000 afrískum málum. Jehóva vill augljóslega að fólk af hverri þjóð eignist þessa gjöf! – Post. 10:35.

Systur og bróðir halda á „Nýheimsþýðingunni“ nýútgefinni á xhósa.

Árið 2019 var Nýheimsþýðing Biblíunnar gefin út á xhósa – einu af þeim 180 tungumálum sem hún er nú fáanleg á í heild eða að hluta.

16. Hvernig getum við sýnt að við erum þakklát fyrir Biblíuna, samanber Matteus 28:19, 20?

16 Við sýnum að við kunnum að meta Biblíuna með því að lesa daglega í henni, hugleiða efni hennar og gera okkar besta til að fara eftir því sem við lærum. Auk þess sýnum við Guði að við erum þakklát fyrir þessa gjöf þegar við segjum eins mörgum og við getum frá boðskap Biblíunnar. – Sálm. 1:1–3; Matt. 24:14; lestu Matteus 28:19, 20.

17. Hvers konar gjafir höfum við rætt í þessari grein og hvað er til umfjöllunar í þeirri næstu?

17 Í þessari grein höfum við rætt um nokkrar gjafir Guðs: heimili okkar, jörðina, hinn snilldarlega hannaða heila og innblásið orð Guðs, Biblíuna. En til eru fleiri gjafir sem Jehóva hefur gefið okkur, gjafir sem við sjáum ekki með berum augum. Þær eru til umfjöllunar í næstu grein.

HVERNIG GETUM VIÐ SÝNT ÞAKKLÆTI OKKAR FYRIR ...

  • jörðina?

  • heilann?

  • Biblíuna?

SÖNGUR 12 Jehóva, hinn mikli Guð

a Þessi grein mun hjálpa okkur að vera Jehóva þakklát fyrir þrennt sem hann hefur gefið okkur. Hún mun líka auðvelda okkur að rökræða við fólk sem efast um að Guð sé til.

b MYND: Systir lærir erlent tungumál til að geta kennt innflytjendum sannleikann í orði Guðs.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila