ÆVISAGA
„Nú elska ég boðunina“
ÉG ÓLST upp í Balclutha, litlum bæ á Suðurey á Nýja-Sjálandi. Þegar ég var barn fannst mér ég náin Jehóva og elskaði sannleikann. Mér fannst ánægjulegt að sækja samkomur, var glöð og fann til öryggis í söfnuðinum. Þótt ég væri feimin fannst mér gaman í boðuninni í hverri viku. Ég var ekki hrædd við að tala um trú mína við skólafélagana og aðra. Ég var stolt af því að vera vottur Jehóva og þegar ég var 11 ára vígði ég Jehóva líf mitt.
ÉG MISSI GLEÐINA
Þegar ég komst á unglingsárin fór sambandið við Jehóva því miður að skipta mig minna máli. Skólafélagarnir virtust hafa næstum því takmarkalaust frelsi og mér fannst ég vera að missa af einhverju. Mér fannst reglur foreldra minna og meginreglur Biblíunnar íþyngjandi og allt of mikil vinna að þjóna Jehóva. Ég dró aldrei í efa að Jehóva væri til en ég var ekki lengur náin honum.
Ég hætti ekki alveg í boðuninni en gerði eins lítið og ég þurfti. Ég bjó mig aldrei undir boðunina þannig að ég átti erfitt með að hefja samræður og halda þeim áfram. Fyrir vikið var boðunin árangurslítil og gaf mér enga gleði. Og það jók aðeins á neikvæðni mína. Ég spurði sjálfa mig: Hvernig er hægt að gera þetta viku eftir viku, mánuð eftir mánuð?
Þegar ég var orðin 17 ára var löngun mín í sjálfstæði orðin gríðarlega mikil. Ég pakkaði niður og flutti til Ástralíu. Það var erfitt fyrir foreldra mína. Þeir höfðu áhyggjur en gerðu samt ráð fyrir því að ég myndi halda áfram að þjóna Jehóva.
Ég gerði jafnvel minna í þjónustunni eftir að ég kom til Ástralíu. Ég fór að missa úr samkomur og umgangast ungt fólk sem fannst eins og mér allt í lagi að sækja samkomur eitt kvöld og drekka og dansa á næturklúbbum það næsta. Þegar ég lít til baka sé ég að ég var með annan fótinn í sannleikanum en hinn í heiminum. En ég vissi ekki í hvorn fótinn ég átti að stíga.
ÓVÆNT EN DÝRMÆT UPPGÖTVUN
Um tveimur árum síðar hitti ég systur sem fékk mig til að hugsa um hvert líf mitt stefndi, án þess að hún vissi af því. Við bjuggum saman fimm einhleypar systur og við buðum farandhirðinum og Tamöru eiginkonu hans að gista hjá okkur í viku. Meðan hann sinnti safnaðarmálum notaði Tamara tíma með okkur stelpunum og við hlógum mikið saman. Það fannst mér gaman. Hún var svo eðlileg og það var svo auðvelt að tala við hana. Mér fannst svo frábært að einhver sem væri svo andlega sinnaður gæti verið svona skemmtilegur líka.
Tamara var uppfull af eldmóði. Kærleikur hennar til sannleikans og boðunarinnar var smitandi. Hún var mjög ánægð með að gefa Jehóva sitt besta. Ég gerði hins vegar eins lítið og ég komst upp með en var óánægð. Jákvætt viðhorf hennar og ósvikin gleði hafði sterk áhrif á mig. Fordæmi hennar vakti athygli mína á grundvallarsannindum í Biblíunni: Jehóva vill að við þjónum sér „með gleði“ og „með fagnaðarsöng“. – Sálm. 100:2.
ÉG ENDURVEK KÆRLEIKANN TIL BOÐUNARINNAR
Ég vildi vera glöð eins og Tamara. En til að verða það þurfti ég að breyta miklu. Smám saman fór ég að gera breytingar. Ég fór að undirbúa mig fyrir boðunina og var aðstoðarbrautryðjandi við og við. Það gaf mér meira sjálfstraust og ég var ekki eins taugaóstyrk. Eftir því sem ég notaði Biblíuna meira í boðuninni hafði ég meiri ánægju af að boða trúna. Fyrr en varði var ég aðstoðarbrautryðjandi í hverjum mánuði.
Ég eignaðist vini á ýmsum aldri sem stóðu sig vel í sannleikanum og nutu þess að þjóna Jehóva. Gott fordæmi þeirra hjálpaði mér að forgangsraða upp á nýtt og hafa góða andlega dagskrá. Ég naut þess sífellt betur að vera í boðuninni og með tímanum varð ég brautryðjandi. Í fyrsta skipti í langan tíma var ég ánægð og mér leið vel í söfnuðinum.
ÉG FINN VARANLEGAN BRAUTRYÐJANDAFÉLAGA
Ári síðar hitti ég Alex, elskulegan og vingjarnlegan mann sem elskaði Jehóva og boðunina. Hann var safnaðarþjónn og hafði verið brautryðjandi í sex ár. Alex hafði líka starfað um tíma í Malaví þar sem var meiri þörf á boðberum. Þar kynntist hann trúboðum sem höfðu varanleg áhrif á hann og hvöttu hann til að halda áfram að hafa hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti.
Árið 2003 giftumst við Alex og höfum haldið áfram í fullu starfi síðan þá. Við höfum lært svo margt gott og Jehóva hefur blessað okkur á óteljandi vegu.
ENN MEIRI BLESSUN
Í boðuninni í Gleno á Timor-Leste.
Árið 2009 var okkur boðið að fara sem trúboðar til Tímor-Leste en það er lítið ríki í indónesíska eyjaklasanum. Við vorum allt í senn, undrandi, hrædd og spennt. Fimm mánuðum síðar komum við til höfuðborgarinnar Dili.
Lífið í nýjum heimkynnum var mjög ólíkt því sem við vorum vön. Við þurftum að aðlagast nýrri menningu, tungumáli, mat og lífsskilyrðum. Í boðuninni urðum við oft vör við áhrif fátæktar, lítillar menntunar og kúgunar. Og við sáum marga sem báru líkamleg og tilfinningaleg ör eftir stríð og ofbeldi.a
Boðunin var ótrúleg! Einu sinni hitti ég til dæmis niðurdregna 13 ára stelpu sem heitir Maria.b Hún hafði misst mömmu sína nokkrum árum áður og hitti pabba sinn sjaldan. Eins og mörg börn á hennar aldri hafði Maria enga stefnu í lífinu. Mér er minnisstætt eitt sinn þegar hún grét og sagði mér frá tilfinningum sínum. Ég skildi hins vegar ekki hvað hún var að segja vegna þess að ég var ekki orðin nógu góð í tungumálinu. Ég bað Jehóva að hjálpa mér að uppörva hana og las svo nokkur hughreystandi biblíuvers fyrir hana. Á fáeinum árum sá ég síðan hvernig sannleikurinn umbreytti viðhorfi hennar, útliti og öllu lífi. Hún skírðist og er núna sjálf með nokkra biblíunemendur. Maria á núna stóra andlega fjölskyldu þar sem hún finnur að hún er elskuð.
Jehóva blessar boðunina á Timor-Leste. Þótt meirihluti boðbera hafi látið skírast síðastliðin tíu ár þjóna margir þeirra sem brautryðjendur, safnaðarþjónar eða öldungar. Aðrir vinna á þýðingastofunni og aðstoða við að undirbúa andlega fæðu á tungumálum sem eru töluð á svæðinu. Það gladdi mig mjög að hlusta á þá syngja á samkomum, sjá brosið á andlitum þeirra og fylgjast með þeim byggja upp samband við Jehóva.
Við Alex á leiðinni á óúthlutað svæði til að dreifa boðsmiðum á minningarhátíðina.
ÉG GÆTI EKKI ÍMYNDAÐ MÉR ÁNÆGJULEGRA LÍF
Líf okkar á Timor-Leste var mjög ólíkt lífinu í Ástralíu en ég hefði ekki getað hugsað mér betra líf. Stundum ferðuðumst við í yfirfullri rútu af fólki, þurrkuðum fiski og stöflum af grænmeti af markaðinum. Suma daga héldum við biblíunámskeið á heimili þar sem var heitt og rakt og hænur hlupu eftir moldargólfinu. En þrátt fyrir þessar aðstæður hugsaði ég oft: „Þetta er alveg frábært!“
Á leiðinni á starfssvæðið.
Þegar ég lít til baka er ég þakklát foreldrum mínum fyrir að gera sitt besta til að fræða mig um vegi Jehóva og styðja mig, líka á erfiðum unglingsárunum. Orðskviðirnir 22:6 eiga vel við í mínu tilviki. Mamma og pabbi eru stolt af okkur Alex. Þau eru svo ánægð að sjá okkur þjóna Jehóva. Frá árinu 2016 höfum við verið í farandstarfinu á svæði deildarskrifstofunnar í Ástralasíu.
Að sýna ánægðum börnum á Tímor-Leste myndband um Kalla og Soffíu.
Það er ótrúlegt að mér hafi einhvern tíma þótt leiðinlegt í boðuninni. Nú elska ég að boða trúna. Ég sé að sönn gleði kemur aðeins af því að þjóna Guði heilshugar, á hverju sem gengur í lífinu. Síðastliðin 18 ár í þjónustu Jehóva með Alex hafa sannarlega verið þau ánægjulegustu í lífi mínu. Ég skil núna að það er rétt sem sálmaritarinn Davíð sagði við Jehóva: „Allir, sem leita hælis hjá þér, munu gleðjast, þeir fagna um aldur ... og þeir sem elska nafn þitt fagna yfir þér.“ – Sálm. 5:12.
Hvílík ánægja að leiðbeina svona auðmjúku fólki við biblíunám!
a Íbúar Tímor-Leste þurftu að búa við styrjaldarástand í tvo áratugi frá árinu 1975 í baráttunni fyrir sjálfstæði.
b Nafninu hefur verið breytt.