Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w23 júní bls. 2-7
  • Öldungar, lærið af Gídeon

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Öldungar, lærið af Gídeon
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ÞEGAR REYNIR Á AUÐMÝKT OG HÓGVÆRÐ
  • ÞEGAR REYNIR Á HLÝÐNI EÐA HUGREKKI
  • ÞEGAR REYNIR Á ÞOLGÆÐI
  • Gídeon og menn hans 300
    Biblíusögubókin mín
  • Gídeon sigraði Midíanítana
    Lærum af sögum Biblíunnar
  • „Hjá lítillátum er viska“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
  • Jehóva – besti vinur okkar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
w23 júní bls. 2-7

NÁMSGREIN 25

Öldungar, lærið af Gídeon

„Ég hefði ekki nægan tíma ef ég færi að segja frá Gídeon.“ – HEBR. 11:32.

SÖNGUR 124 Sýnum tryggð

YFIRLITa

1. Hvaða mikilvæga hlutverki gegna öldungar samkvæmt 1. Pétursbréfi 5:2?

JEHÓVA hefur falið öldungum umsjón með dýrmætum sauðum sínum. Þessir trúföstu menn eru þakklátir fyrir traustið sem Jehóva sýnir þeim og leggja mikið á sig til að „gæta þeirra vel“. (Jer. 23:4; lestu 1. Pétursbréf 5:2.) Við erum innilega þakklát fyrir að hafa slíka menn í söfnuðum okkar.

2. Hverju gætu sumir öldungar staðið frammi fyrir?

2 Það getur ýmislegt reynt á öldunga þegar þeir annast verkefni sín. Það er mikil vinna að hugsa um söfnuð. Tony er öldungur í Bandaríkjunum. Hann þurfti að temja sér meiri hógværð í tengslum við að taka að sér verkefni. Hann segir: „Í upphafi COVID-19 faraldursins tók ég að mér sífellt meiri vinnu við að skipuleggja samkomur og boðunina. En sama hvað ég gerði mikið var alltaf meira sem ég þurfti að gera. Það fór að koma niður á biblíulestri mínum, sjálfsnámi og bænum.“ Ilir, sem er öldungur í Kósovó, mætti annars konar áskorun. Þegar hann var á stríðssvæði fannst honum erfitt að hlýða leiðbeiningum frá söfnuðinum. Hann segir: „Það reyndi á hugrekkið þegar deildarskrifstofan bauð mér verkefni sem fól í sér að hjálpa bræðrum og systrum á hættulegu svæði. Ég var hræddur og leiðbeiningarnar virtust ekki raunhæfar.“ Tim er trúboði í Asíu. Honum fannst erfitt að komast yfir allt sem hann þurfti að gera á hverjum degi. Hann segir: „Stundum fannst mér ég alveg búinn á því.“ Hvað getur hjálpað öldungum í svipuðum aðstæðum?

3. Hvernig getum við öll haft gagn af því að hugleiða fordæmi Gídeons dómara?

3 Öldungar geta lært af Gídeon dómara. (Hebr. 6:12; 11:32) Hann var hirðir þjóðar Guðs og átti að vernda hana. (Dóm. 2:16; 1. Kron. 17:6) Öldungar hafa verið útnefndir til að annast þjóna Guðs á erfiðum tímum, rétt eins og Gídeon. (Post. 20:28; 2. Tím. 3:1) Við getum lært af hógværð, auðmýkt og hlýðni Gídeons. Það reyndi á þolgæði hans þegar hann annaðist verkefni sín. Hvort sem við erum öldungar eða ekki getum við aukið þakklæti okkar fyrir öldungana. Við getum stutt þessa duglegu menn sem annast okkur. – Hebr. 13:17.

ÞEGAR REYNIR Á AUÐMÝKT OG HÓGVÆRÐ

4. Hvernig sýndi Gídeon hógværð og auðmýkt?

4 Gídeon var hógvær og auðmjúkur.b Þegar engill Jehóva sagði honum að hann hefði verið valinn til að frelsa Ísrael frá hinum öflugu Midíanítum sagði þessi hógværi maður: „Ætt mín er ómerkilegasta ættin í Manasse og ég er lítilmótlegastur í fjölskyldu föður míns.“ (Dóm. 6:15) Honum fannst hann óhæfur í þetta verkefni en Jehóva vissi betur. Með hjálp Jehóva leysti Gídeon verkefnið vel af hendi.

5. Hvernig getur reynt á hógværð og auðmýkt öldungs?

5 Öldungar gera sitt besta til að sýna hógværð og auðmýkt í öllu. (Míka 6:8; Post. 20:18, 19) Þeir gorta hvorki af hæfileikum sínum né því sem þeir áorka. Þeir rífa sig ekki heldur niður vegna galla sinna eða mistaka. En það getur stundum reynt á hógværð og auðmýkt öldungs. Hann tekur kannski að sér mörg verkefni en á síðan erfitt með að sinna þeim. Eða þá að hann er gagnrýndur fyrir það hvernig hann sinnti verkefni eða hrósað fyrir það hvernig hann leysti verkefni. Hvað geta öldungar lært af Gídeon sem hjálpar þeim í slíkum aðstæðum?

Öldungur sýnir bróður hvar spjöld og annað sem tilheyrir trillustarfi er geymt.

Hógvær öldungur líkir eftir Gídeon og er fús til að biðja um hjálp eins og til dæmis þegar hann skipuleggur boðunina með ritatrillunum. (Sjá 6. grein.)

6. Hvað geta öldungar lært af Gídeon um hógværð? (Sjá einnig mynd.)

6 Biddu um hjálp. Hógvær maður er meðvitaður um takmörk sín. Gídeon sýndi hógværð með því að biðja aðra um hjálp. (Dóm. 6:27, 35; 7:24) Það er viturlegt af öldungum að gera það líka. Tony, sem vitnað er í áður, segir: „Vegna þess hvernig ég var alinn upp átti ég það til að taka að mér meira en ég gat sinnt. Ég ákvað því að taka fyrir hógværð í fjölskyldunáminu og fá konuna mína að tjá hug sinn. Ég horfði líka á myndband á jw.org sem nefnist Kenndu öðrum, treystu og veittu þeim kraft eins og Jesús gerði.“ Tony byrjaði að biðja aðra um hjálp. Hver var árangurinn? Tony segir: „Verkefnum safnaðarins var vel sinnt og ég hafði meiri tíma til að styrkja samband mitt við Jehóva.“

7. Hvernig geta öldungar líkt eftir Gídeon þegar þeir eru gagnrýndir? (Jakobsbréfið 3:13)

7 Bregstu mildilega við þegar þú ert gagnrýndur. Það reynir líka á öldunga þegar þeir eru gagnrýndir. Aftur geta þeir lært af Gídeon. Hann var örugglega meðvitaður um eigin ófullkomleika og brást mildilega við þegar Efraímítar gagnrýndu hann. (Dóm. 8:1–3) Hann brást ekki reiður við heldur sýndi auðmýkt þegar hann hlustaði á kvartanir þeirra og dró þannig úr spennu við þessar aðstæður. Það er skynsamlegt af öldungum að líkja eftir Gídeon með því að hlusta vandlega og bregðast mildilega við þegar þeir eru gagnrýndir. (Lestu Jakobsbréfið 3:13.) Þannig stuðla þeir að friði í söfnuðinum.

8. Hvernig ættu öldungar að bregðast við þegar þeim er hrósað? Nefndu dæmi.

8 Beindu lofinu að Jehóva. Þegar Gídeon hlaut lof eftir sigurinn yfir Midíanítum beindi hann athyglinni að Jehóva. (Dóm. 8:22, 23) Hvernig geta útnefndir menn líkt eftir Gídeon? Þeir geta gefið Jehóva heiðurinn fyrir það sem þeir áorka. (1. Kor. 4:6, 7) Öldungur sem fær til dæmis hrós fyrir kennsluhæfileika sína getur beint athyglinni að uppsprettu leiðbeininganna, orði Guðs, eða að þjálfuninni sem við fáum í söfnuðinum. Öldungar gætu stundum hugleitt hvort þeir dragi of mikla athygli að sjálfum sér. Skoðum reynslu öldungs að nafni Timothy. Hann naut þess að flytja opinbera fyrirlestra þegar hann var nýútnefndur öldungur. Hann segir: „Ég var með löng og flókin inngangsorð og líkingar. Mér var oft hrósað fyrir það. Því miður beindist athyglin gjarnan að mér en ekki Biblíunni eða Jehóva.“ Með tímanum áttaði Timothy sig á því að hann þyrfti að breyta um ræðustíl til að forðast að draga óviðeigandi athygli að sjálfum sér. (Orðskv. 27:21) Hver var árangurinn? Hann segir: „Bræður og systur segja mér nú hvernig ræður mínar hafi hjálpað sér að glíma við vandamál, halda út í prófraun eða styrkja samband sitt við Jehóva. Þetta veitir mér meiri gleði en hrósið sem ég fékk á árum áður.“

ÞEGAR REYNIR Á HLÝÐNI EÐA HUGREKKI

Gídeon fylgist með Ísraelsmönnum fá sér að drekka úr vatni. Einn þeirra notar lófann til að ná í vatn og lyfta honum að munninum en hinir beygja andlitið niður að vatninu til að drekka.

Gídeon hlýddi og fækkaði hermönnum sínum með því að velja 300 menn sem sýndu að þeir voru í viðbragðsstöðu. (Sjá 9. grein.)

9. Hvernig reyndi á hlýðni og hugrekki Gídeons? (Sjá forsíðumynd.)

9 Eftir að Gídeon var útnefndur dómari reyndi á hlýðni hans og hugrekki. Hann fékk það erfiða verkefni að eyðileggja altari föður síns sem var tileinkað Baal. (Dóm. 6:25, 26) Síðar, eftir að hann hafði safnað saman her, var honum tvisvar sagt að fækka hermönnum. (Dóm. 7:2–7) Að lokum var honum sagt að ráðast á herbúðir óvinanna um miðja nótt. – Dóm. 7:9–11.

10. Hvernig gæti reynt á hlýðni öldungs?

10 Öldungar ættu að vera ‚fúsir til að hlýða‘. (Jak. 3:17) Hlýðinn öldungur fer fúslega eftir því sem Biblían segir og leiðbeiningum frá söfnuði Guðs. Hann er öðrum fordæmi til eftirbreytni. En það getur reynt á hlýðni hans. Honum gæti til dæmis þótt erfitt að halda í við nýjar leiðbeiningar. Hann gæti stundum velt því fyrir sér hvort ákveðnar leiðbeiningar séu raunhæfar eða skynsamlegar. Eða hann gæti verið beðinn um að taka að sér verkefni sem gæti stefnt frelsi hans í hættu. Hvernig geta öldungar líkt eftir hlýðni Gídeons í slíkum aðstæðum?

11. Hvað getur hjálpað öldungunum að sýna hlýðni?

11 Hlustaðu vandlega á leiðbeiningar og fylgdu þeim. Jehóva sagði Gídeon hvernig hann ætti að eyðileggja altari föður hans, hvar hann ætti að byggja nýtt altari fyrir sanna tilbeiðslu og hvaða dýri hann ætti að fórna. Gídeon véfengdi ekki leiðbeiningarnar, hann fylgdi þeim einfaldlega. Nú á dögum fá öldungar leiðbeiningar frá söfnuði Jehóva í formi bréfa, tilkynninga og á annan hátt sem hjálpa okkur að vera örugg og varðveita sambandið við Jehóva. Okkur þykir innilega vænt um öldungana fyrir að fylgja leiðbeiningum Guðs trúfastlega. Allur söfnuðurinn nýtur góðs af því. – Sálm. 119:112.

12. Hvernig geta öldungar farið eftir Hebreabréfinu 13:17 þegar þeir fá leiðbeiningar sem fela í sér breytingar?

12 Vertu fús til að aðlagast breytingum. Gleymum ekki að Gídeon fækkaði hermönnum um meira en 99 prósent eins og Jehóva bað hann um. (Dóm. 7:8) Hann gæti hafa hugsað: „Er þetta nauðsynlegt? Á þetta eftir að virka?“ En Gídeon hlýddi. Öldungar nú á dögum líkja eftir Gídeon með því að fara eftir leiðbeiningum safnaðarins sem fela í sér að gera breytingar. (Lestu Hebreabréfið 13:17.) Árið 2014 breytti hið stjórnandi ráð til dæmis stefnu varðandi fjármögnun byggingar mótshalla og ríkissala. (2. Kor. 8:12–14) Söfnuðirnir myndu ekki lengur borga af lánum. Þess í stað myndu söfnuðir um heim allan leggja í sameiginlegan sjóð sem yrði notaður hvar sem þörf væri, óháð fjárráðum safnaðanna á hverjum stað. Þegar José heyrði af þessum breytingum efaðist hann um að þetta myndi ganga og hugsaði: „Það verður ekki byggður einn einasti ríkissalur. Það er ekki þannig sem þetta virkar í þessum heimshluta.“ Hvað hjálpaði José að styðja þessa ákvörðun? Hann segir: „Það sem segir í Orðskviðunum 3:5, 6 minnti mig á að treysta á Jehóva. Árangurinn hefur verið frábær! Við byggjum fleiri ríkissali og höfum lært að leggja eitthvað af mörkum á mismunandi vegu, en það stuðlar að jöfnuði.“

Hversdagsklæddur bróðir boðar manni trúna á strætóstoppistöð. Lögreglumaður sést í bakgrunninum.

Við getum boðað trúna á áhrifaríkan hátt, jafnvel þegar starf okkar er bannað. (Sjá 13. grein.)

13. (a) Hvað var Gídeon sannfærður um? (b) Hvernig geta öldungar líkt eftir Gídeon? (Sjá einnig mynd.)

13 Gerðu hugrakkur vilja Jehóva. Gídeon hlýddi Jehóva þótt hann væri hræddur og verkefnið hættulegt. (Dóm. 9:17) Jehóva hafði fullvissað hann um stuðning sinn. Eftir það var Gídeon algerlega sannfærður um að Jehóva myndi hjálpa sér að vernda fólk hans. Öldungar á svæðum þar sem starf okkar er bannað líkja eftir Gídeon. Þeir taka hugrakkir forystuna á samkomum og í boðuninni þrátt fyrir hættuna á handtöku, yfirheyrslu, atvinnumissi eða ofbeldi.c Í þrengingunni miklu þurfa öldungar að vera hugrakkir til að fara eftir leiðbeiningum sem þeir fá þótt það geti verið hættulegt. Leiðbeiningarnar gætu verið um að flytja harðan boðskap og hvað þurfi að gera til að lifa af árás Gógs í Magóg. – Esek. 38:18; Opinb. 16:21.

ÞEGAR REYNIR Á ÞOLGÆÐI

14. Hvernig reyndi á þolgæði Gídeons?

14 Verkefni Gídeons sem dómara gátu verið líkamlega erfið. Þegar Midíanítar flúðu um nóttina í bardaganum elti Gídeon þá frá Jesreelsléttu alla leið að Jórdanánni, en þetta svæði var hugsanlega kjarri vaxið. (Dóm. 7:22) Stoppaði Gídeon við Jórdan? Nei. Þótt hann og 300 menn hans væru þreyttir fóru þeir yfir ána og héldu eftirförinni áfram. Að lokum náðu þeir Midíanítum og sigruðu þá. – Dóm. 8:4–12.

15. Hvenær getur reynt á þolgæði öldungs?

15 Öldungur getur stundum verið líkamlega og tilfinningalega úrvinda af að annast söfnuðinn og fjölskyldu sína. Hvernig geta öldungar í slíkum aðstæðum líkt eftir Gídeon?

Öldungur notar Biblíuna til að hughreysta hjón. Ung kona liggur í sjúkrarúmi við hlið þeirra.

Kærleiksríkir öldungar hafa getað styrkt marga sem þurfa á stuðningi að halda. (Sjá 16. og 17. grein.)

16, 17. Hvað hjálpaði Gídeon að halda út og hverju geta öldungar treyst? (Jesaja 40:28–31) (Sjá einnig mynd.)

16 Treystu að Jehóva styrki þig. Gídeon treysti að Jehóva myndi gefa honum styrk og hann varð ekki fyrir vonbrigðum. (Dóm. 6:14, 34) Við eitt tækifæri voru Gídeon og menn hans fótgangandi þegar þeir eltu tvo Midíanítakonunga sem ef til vill riðu úlföldum. (Dóm. 8:12, 21) En Guð hjálpaði þeim og Ísraelsmenn unnu orrustuna. Öldungar geta líka treyst á Jehóva, þann sem „þreytist aldrei né örmagnast“. Hann gefur þeim styrk þegar þeir þurfa á því að halda. – Lestu Jesaja 40:28–31.

17 Skoðum reynslu Matthew, en hann er öldungur í spítalasamskiptanefnd. Hvað hjálpar honum að vera þolgóður? Matthew segir: „Ég hef upplifað sannleiksgildi þess sem segir í Filippíbréfinu 4:13. Oft þegar ég hef verið þreyttur og ekki fundist ég geta meir hef ég beðið innilega til Guðs um líkamlegan og andlegan styrk sem ég þarf til að styðja trúsystkini mín. Þá hef ég fundið hvernig andi Jehóva gefur mér kraft og hjálpar mér að halda út.“ Líkt og Gídeon leggja öldungar okkar hart að sér við að annast þjóna Jehóva, jafnvel þótt það sé ekki alltaf auðvelt. Þeir þurfa auðvitað að virða líkamleg og tilfinningaleg takmörk sín. En þeir geta samt treyst því að Jehóva heyri beiðni þeirra um hjálp og að hann styrki þá til að halda út. – Sálm. 116:1; Fil. 2:13.

18. Hvernig geta öldungar líkt eftir Gídeon?

18 Öldungar geta lært margt af Gídeon. Þeir ættu að sýna hógværð og auðmýkt, bæði varðandi hversu mikla vinnu þeir taka að sér og hvernig þeir bregðast við gagnrýni og hrósi. Þeir þurfa að sýna hlýðni og hugrekki, sérstaklega þegar endir þessa heims nálgast. Og þeir þurfa að treysta því að sama hvaða hindrunum þeir mæta getur Guð gefið þeim styrk. Við erum sannarlega þakklát fyrir þessa duglegu hirða og ‚metum menn eins og þá mikils‘. – Fil. 2:29.

HVERNIG GETA ÖLDUNGAR LÍKT EFTIR GÍDEON Í AÐ SÝNA …

  • hógværð og auðmýkt?

  • hlýðni og hugrekki?

  • þolgæði?

SÖNGUR 120 Líkjum eftir hógværð Krists

a Jehóva valdi Gídeon til að vera hirðir þjóðar Guðs og vernda hana á mjög erfiðum tíma í sögu hennar. Gídeon sinnti trúfastur verkefninu í um 40 ár. En hann þurfti að glíma við margs konar erfiðleika. Skoðum hvernig fordæmi Gídeons getur hjálpað öldungum nú á dögum þegar reynir á þá.

b Hógværð og auðmýkt eru skyldir eiginleikar. Eins og þessi hugtök eru notuð í þessari námsgrein felur hógværð í sér að sjá sjálfan sig í réttu ljósi og virða takmörk sín. Auðmjúkur maður virðir aðra og lítur á þá sem sér meiri. (Fil. 2:3) Hógvær manneskja er venjulega líka auðmjúk.

c Sjá greinina „Höldum áfram að tilbiðja Jehóva þó að starfsemi okkar verði bönnuð“ í Varðturninum júlí 2019, bls. 10, 11, gr. 10–13.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila