ÆVISAGA
Ég fann öryggi í að treysta Jehóva
ÞEGAR ég er spurður um líf mitt segi ég oft: „Ég er farangur í höndum Jehóva.“ Það sem ég á við er að rétt eins og ég tek farangur með mér þangað sem ég kýs vil ég að Jehóva og söfnuður hans geri það sama við mig – sendi mig þangað sem ég á að fara, hvenær sem hann vill. Ég hef fengið verkefni sem krefjast fórna og þau hafa stundum verið hættuleg. En ég hef komist að því að ég get verið öruggur ef ég treysti Jehóva.
ÉG KYNNIST JEHÓVA OG FER AÐ TREYSTA HONUM
Ég fæddist árið 1948 í litlu þorpi í suðvestanverðri Nígeríu. Yngri bróðir föður míns, Moustapha, og síðan Wahabi, elsti bróðir minn, skírðust sem vottar Jehóva. Faðir minn dó þegar ég var níu ára. Ég var niðurbrotinn. Wahabi sagði að við gætum hitt föður okkar aftur í upprisunni. Þessi vitneskja huggaði mig og knúði mig til að rannsaka Biblíuna. Ég lét skírast árið 1963. Þrír aðrir bræður mínir létu líka skírast.
Árið 1965 fór ég til Wilsons, eldri bróður míns, í Lagos og naut þess að vera með brautryðjendunum í Igbobi-söfnuðinum. Gleði þeirra og kappsemi hafði hvetjandi áhrif á mig og í janúar 1968 slóst ég í hóp brautryðjenda.
Albert Olugbebi, bróðir á Betel, skipulagði sérstakan fund með okkur unga fólkinu til að tala við okkur um þörfina á sérbrautryðjendum í norðurhluta Nígeríu. Ég man enn hvað bróðir Olugbebi var spenntur þegar hann sagði fullur eldmóðs: „Þið eruð ung og getið gefið Jehóva tíma ykkar og krafta. Það er mikið verk fyrir höndum!“ Ég sótti um að starfa sem sérbrautryðjandi, ákafur að líkja eftir Jesaja spámanni. – Jes. 6:8.
Í maí 1968 var ég útnefndur sérbrautryðjandi í borginni Kano í norðurhluta Nígeríu. Á þessum tíma var borgarastyrjöld á svæðinu (1967–1970). Átökin ollu miklum þjáningum og dauða þar en síðan færðust þau yfir í austurhluta landsins. Bróðir sem meinti vel reyndi að fá mig ofan af því að fara. En ég sagði við hann: „Þakka þér fyrir umhyggjuna. En ef Jehóva vill að ég taki þetta verkefni að mér er ég ekki í vafa um að hann verður með mér.“
ÉG TREYSTI JEHÓVA Á STRÍÐSHRJÁÐU SVÆÐI
Ástandið í Kano var mjög dapurlegt. Borgarastyrjöldin hafði mikla eyðileggingu í för með sér í þessari stóru borg. Í boðuninni gengum við stundum fram á lík þeirra sem höfðu verið drepnir í átökunum. Margir söfnuðir höfðu áður verið í Kano en nú voru flest trúsystkinanna flúin. Tæplega 15 boðberar voru eftir og þeir voru hræddir og niðurdregnir. Þessi trúsystkini voru himinlifandi þegar við komum, sex sérbrautryðjendur. Boðberarnir voru þakklátir fyrir uppörvunina. Við hjálpuðum þeim að skipuleggja aftur samkomur og boðun trúarinnar og að byrja að senda aftur starfsskýrslur og ritapantanir til deildarskrifstofunnar.
Við sérbrautryðjendurnir byrjuðum að læra tungumálið hausa. Margir hlustuðu á boðskapinn um Guðsríki þegar þeir heyrðu hann á sínu máli. En þeir sem tilheyrðu ríkjandi trúarstefnu á svæðinu voru ekki ánægðir með boðun okkar og við þurftum því að vera gæta vel að okkur. Eitt sinn elti maður með hníf okkur samstarfsfélagana. Við komumst sem betur fer undan honum á hlaupum. Þrátt fyrir hættur lét Jehóva okkur „búa við öryggi“ og boðberum tók að fjölga. (Sálm. 4:8) Í Kano eru nú meira en 500 boðberar í 11 söfnuðum.
OFSÓKNIR Í NÍGER
Sem sérbrautryðjandi í Niamey í Níger.
Í ágúst 1968, eftir að hafa verið í Kano í fáeina mánuði, var ég sendur til Niamey, höfuðborgar Lýðveldisins Níger, ásamt tveim öðrum sérbrautryðjendum. Við komumst fljótlega að því að Níger í Vestur-Afríku er eitt heitasta land á jörðinni. Auk þess að læra að takast á við hitann urðum við að læra opinbera tungumálið, frönsku. Þrátt fyrir þessar áskoranir settum við traust okkar á Jehóva og byrjuðum að boða trúna í höfuðborginni ásamt fáeinum boðberum sem bjuggu þar. Áður en langt um leið höfðu næstum allir sem voru læsir fengið eintak af biblíunámsbókinni Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. Fólk leitaði okkur jafnvel uppi til að fá eintak.
Við áttuðum okkur fljótlega að því að yfirvöld voru ekki hrifin af vottum Jehóva. Í júlí 1969 söfnuðumst við saman á allra fyrsta umdæmismóti landsins en um 20 manns sóttu mótið. Við hlökkuðum til skírnar tveggja nýrra boðbera. En á fyrsta degi mótsins kom lögreglan og stöðvaði dagskrána. Hún fór með okkur sérbrautryðjendurna og farandhirðinn á lögreglustöðina. Eftir að hafa yfirheyrt okkur skipuðu þeir okkur að koma aftur næsta dag. Við áttuðum okkur á að það voru blikur á lofti og ákváðum því að skírnarræðan yrði flutt á einkaheimili og skírnþegarnir síðan skírðir með leynd í á nokkurri.
Fáeinum vikum síðar ráku yfirvöld mig ásamt fimm öðrum sérbrautryðjendum úr landinu. Við fengum 48 klukkustundir til að yfirgefa landið og þurftum að sjá um það sjálfir. Við hlýddum og fórum beint á deildarskrifstofuna í Nígeríu þar sem við fengum ný verkefni.
Ég var sendur til Orisunbare, þorps í Nígeríu þar sem var nóg að gera í boðuninni með litlum hóp boðbera sem bjó þar. En eftir sex mánuði bauð deildarskrifstofan mér að fara aftur til Níger einn míns liðs. Í fyrstu var ég hissa og órólegur en svo hlakkaði ég til að hitta bræðurna í Níger aftur.
Ég sneri aftur til Niamey. Daginn eftir að ég kom þangað áttaði nígerískur viðskiptamaður sig á því að ég væri vottur og tók að spyrja mig spurninga um Biblíuna. Ég leiðbeindi honum við biblíunám og þegar hann hafði hætt að reykja og drekka ótæpilega lét hann skírast. Ég naut þess að fá að taka þátt í hægum en stöðugum vexti víða í Níger. Þegar ég kom fyrst var 31 vottur í landinu en þegar ég fór þaðan voru þeir orðnir 69.
„VIÐ VITUM LÍTIÐ UM BOÐUN GUÐSRÍKIS Í GÍNEU“
Síðla árs 1977 sneri ég aftur til Nígeríu til að fá þjálfun. Eftir þriggja vikna námskeið bað umsjónarmaður deildarnefndarinnar, Malcolm Vigo, mig um að lesa bréf frá deildarskrifstofunni í Síerra Leóne. Bræðurnir voru að leita að hraustum, einhleypum brautryðjandabróður sem talaði bæði ensku og frönsku til að þjóna sem farandhirðir í Gíneu. Bróðir Vigo upplýsti mig um að ég hefði fengið þjálfun fyrir verkefnið. Hann undirstrikaði að þetta væri ekki auðvelt verkefni. „Hugsaðu þetta vel áður en þú ákveður þig,“ ráðlagði hann mér. Ég svaraði um hæl: „Fyrst Jehóva sendir mig, þá fer ég.“
Ég flaug til Síerra Leóne og hitti bræðurna á deildarskrifstofunni. Bróðir í deildarnefndinni sagði: „Við vitum lítið um boðun Guðsríkis í Gíneu.“ Deildarskrifstofan hafði umsjón með boðuninni í landinu en samskipti við boðberana voru ekki möguleg vegna óstöðugs stjórnmálaástands þar. Reynt var ítrekað að senda bróður til að heimsækja trúsystkini í Gíneu en það tókst ekki. Ég var því beðinn um að fara til Conakry höfuðborgar Gíneu til að reyna að fá dvalarleyfi.
„Fyrst Jehóva sendir mig, þá fer ég.“
Þegar ég kom í Conakry fór ég í nígeríska sendiráðið og hitti sendiherrann. Ég sagði honum frá löngun minni til að boða trúna í Gíneu. Hann hvatti mig til að yfirgefa landið því að annars ætti ég á hættu að verða handtekinn eða að eitthvað þaðan af verra myndi henda mig. „Farðu aftur til Nígeríu og boðaðu trúna þar,“ sagði hann en ég svaraði: „Ég er ákveðinn í að vera.“ Hann skrifaði því bréf til innanríkisráðherra Gíneu um að hann aðstoðaði mig og það varð úr.
Stuttu síðar sneri ég aftur til deildarskrifstofunnar í Síerra Leóne og lét bræðurna vita af ákvörðun ráðherrans. Bræðurnir hrópuðu af gleði þegar þeir heyrðu hvernig Jehóva hafði blessað ferð mína. Ég var kominn með dvalarleyfi í Gíneu!
Í farandstarfi í Síerra Leóne.
Á árunum 1978 til 1989 starfaði ég sem farandhirðir í Gíneu og Síerra Leóne og var staðgengill farandhirðis í Líberíu. Í fyrstu veiktist ég alloft. Það gerðist stundum þegar ég var á einangruðum svæðum. En bræðurnir gerðu sitt besta til að koma mér undir læknishendi.
Eitt skiptið varð ég alvarlega veikur af malaríu og ormum í görnunum. Þegar ég náði mér að lokum komst ég að því að bræðurnir höfðu rætt hvar þeir myndu grafa mig! Þrátt fyrir þessar lífshættulegu aðstæður hvarflaði ekki að mér að hætta í verkefni mínu. Og ég er enn sannfærður um að varanlegt öryggi kemur frá Guði sem getur reist okkur upp frá dauðum.
VIÐ HJÓNIN TREYSTUM JEHÓVA
Á brúðkaupsdaginn árið 1988.
Árið 1988 hitti ég Dorcas, mjög auðmjúka og andlega sinnaða brautryðjandasystur. Við giftum okkur og þjónuðum saman í farandstarfinu. Dorcas hefur reynst ástrík og fórnfús eiginkona. Við höfum gengið saman með farangurinn okkar allt að 25 kílómetra frá einum söfnuði til annars. Fyrir þá söfnuði sem voru lengra í burtu nýttum við okkur hverjar þær samgöngur sem buðust til að ferðast eftir holóttum moldarvegum.
Dorcas er mjög hugrökk. Til dæmis þurftum við stundum að komast yfir ár og vötn sem voru full af krókódílum. Eitt sinn vorum við á ferðalagi í fimm daga og þurftum að ferðast á kanó yfir á þar sem trébrýrnar yfir hana voru ónýtar. Þegar Dorcas steig úr bátnum féll hún í djúpt vatnið. Hvorugt okkar er synt og það var krökkt af krókódílum í þessari á. Sem betur fer voru þarna ungir menn sem stungu sér í ána og björguðu henni. Við fengum bæði martraðir um þetta atvik í þó nokkurn tíma á eftir en við héldum samt farandstarfinu áfram á þessum slóðum.
Börnin okkar, þau Jahgift og Eric, hafa reynst gjafir frá Jehóva.
Snemma árs 1992 fengum við þær óvæntu fréttir að Dorcas væri ólétt. Við þurftum að taka ákvörðun um framhaldið, hvort við myndum hætta sem sérbrautryðjendur. Við hugsuðum með okkur: „Jehóva hefur gefið okkur gjöf!“ Þess vegna nefndum við dóttur okkar Jahgift. Fjórum árum eftir að Jahgift kom í heiminn eignuðumst við soninn Eric. Bæði börnin okkar hafa reynst gjafir frá Jehóva. Jahgift þjónaði um tíma á þýðingarskrifstofunni í Conakry og Eric er safnaðarþjónn.
Þar að kom að Dorcas þurfti að hætta sem sérbrautryðjandi en hún hélt þó áfram að starfa sem brautryðjandi jafnhliða því sem hún sinnti barnauppeldinu. Með hjálp Jehóva gat ég haldið áfram sem sérbrautryðjandi. Eftir að börnin okkar uxu úr grasi gat Dorcas tekið upp þráðinn á ný sem sérbrautryðjandi. Núna störfum við bæði sem trúboðar í Conakry.
UPPSPRETTA RAUNVERULEGS ÖRYGGIS
Ég hef alltaf leyft Jehóva að senda mig hvert sem hann vill. Við hjónin höfum margoft fundið fyrir vernd hans og blessun. Með því að leggja traust okkar á Jehóva hefur hann hlíft okkur við mörgum af erfiðleikunum sem plaga þá sem treysta á efnislega hluti. Við höfum lært af eigin reynslu að uppspretta raunverulegs öryggis er Jehóva, „Guð okkar og frelsari“. (1. Kron. 16:35) Ég er fullviss um að líf þeirra sem treysta á hann ‚verður öruggt í höndum hjá Jehóva Guði okkar í pyngju lífsins‘. – 1. Sam. 25:29.