Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w24 júlí bls. 26-29
  • Hvað getur auðveldað þér að skipta um söfnuð?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvað getur auðveldað þér að skipta um söfnuð?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • FJÖGUR RÁÐ TIL AÐ HJÁLPA ÞÉR
  • ‚TAKIÐ VEL Á MÓTI HVERT ÖÐRU‘
  • TÆKIFÆRI TIL AÐ VAXA
  • Ertu að flytja
    Ríkisþjónusta okkar – 1999
  • Hvernig geturðu aðlagast nýja söfnuðinum?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
  • Söfnuðurinn byggist upp
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Þú hefur hlutverki að gegna í söfnuði Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
w24 júlí bls. 26-29

Hvað getur auðveldað þér að skipta um söfnuð?

HEFUR þú einhvern tíma skipt um söfnuð? Ef svo er ertu trúlega sammála Jean-Charles sem segir: „Það er áskorun að skipta um söfnuð og gæta þess jafnframt að allir í fjölskyldunni hafi sterkt samband við Jehóva.“ Þegar maður flytur getur maður þurft að finna nýja vinnu, íbúð, annan skóla fyrir börnin og venjast nýju veðurfari, menningu og starfssvæði.

Nicolas og Céline stóðu frammi fyrir annarri áskorun. Þau fengu það verkefni frá frönsku deildarskrifstofunni að flytja í annan söfnuð. Þau segja: „Við vorum mjög spennt til að byrja með en svo fórum við að sakna vina okkar. Við höfðum ekki enn þá eignast nána vini í nýja söfnuðinum.“a Hvað getur stuðlað að því að flutningur í nýjan söfnuð gangi vel? Hvað geta aðrir gert til að hjálpa til? Og á hvaða vegu geturðu bæði uppörvað aðra og fengið sjálfur uppörvun í nýja söfnuðinum?

FJÖGUR RÁÐ TIL AÐ HJÁLPA ÞÉR

Systir tekur sér hlé frá því að taka upp úr kössum og les í Biblíunni.

Treystu á Jehóva.

1. Treystu á Jehóva. (Sálm. 37:5) Kazumi, sem býr í Japan, flutti úr söfnuðinum sem hún hafði tilheyrt í tvo áratugi þegar eiginmaður hennar þurfti að flytja vegna vinnu sinnar. Hvernig ‚lagði hún líf sitt í hendur Jehóva‘? Hún segir: „Ég úthellti hjarta mínu fyrir Jehóva og sagði honum frá einmanaleikanum og kvíðanum sem ég upplifði. Í hvert sinn sem ég gerði þetta gaf hann mér þann styrk sem ég þurfti.“

Hvernig geturðu reitt þig enn betur á Jehóva? Trú okkar þarfnast næringar til að vaxa rétt eins og planta þarf vatn og næringu úr jarðveginum til að vaxa. Nicolas, sem áður er minnst á, hugleiddi frásögur af Abraham, Jesú og Páli, mönnum sem færðu margar fórnir til að gera vilja Guðs. Hann fann að þetta styrkti traust hans á að Jehóva myndi hjálpa honum. Þegar þú rannsakar Biblíuna reglulega hjálpar það þér að takast á við breytingar í lífinu og um leið eignastu andlegan fjársjóð sem þú getur leyft öðrum í söfnuðinum að njóta með þér.

Öldungur hlustar á tvo unga bræður útskýra hvernig þeir leysa tæknileg mál í hljóðdeildinni í ríkissalnum.

Forðastu samanburð.

2. Forðastu samanburð. (Préd. 7:10) Jules þurfti að aðlagast mjög ólíkri menningu þegar hann flutti frá Benín til Bandaríkjanna. „Mér fannst ég þurfa að segja öllum sem ég hitti allt um sjálfan mig,“ segir hann. Hann var óvanur þessu og fór að einangra sig frá söfnuðinum. En viðhorf hans breyttist þegar hann kynntist bræðrum og systrum betur. Hann segir: „Ég uppgötvaði að fólk er eins hvar sem það býr á jörðinni. Það tjáir sig bara á mismunandi hátt. Það er mikilvægt að taka fólki eins og það er.“ Forðastu að bera nýja söfnuðinn saman við þann sem þú varst í. Brautryðjandasystir sem heitir Anne-Lise segir: „Ég flutti ekki til að uppgötva hvað ég hafði yfirgefið heldur til að uppgötva eitthvað nýtt.“

Öldungar þurfa líka að forðast að bera nýja söfnuðinn saman við þann sem þeir voru í áður. Aðrar aðferðir en maður er vanur eru ekki endilega rangar. Það er skynsamlegt að kynna sér aðstæður á staðnum áður en maður kemur með tillögur. (Préd. 3:1, 7b) Það er betra að kenna með góðu fordæmi en að ætlast bara til að fá sínu fram. – 2. Kor. 1:24.

Tveir bræður þrífa rúðu í ríkissalnum.

Vertu virkur í nýja söfnuðinum.

3. Vertu virkur í nýja söfnuðinum. (Fil. 1:27) Það krefst mikils tíma og orku að flytja en það er mikilvægt að sækja samkomur í ríkissalnum alveg frá byrjun ef þess er kostur. Hvernig geta bræður og systur í nýja söfnuðinum stutt þig ef þau sjá þig sjaldan eða aldrei? Lucinda flutti með tvær dætur sínar til stórrar borgar í Suður-Afríku. Hún segir: „Ég var hvött til að einbeita mér að því að kynnast bræðrum og systrum í söfnuðinum vel, vinna með þeim í boðuninni og taka þátt í samkomunum. Við buðum líka fram heimili okkar til að hafa samansafnanir fyrir boðunina.“

Góð leið til að styrkja ‚trúna á fagnaðarboðskapinn‘ er að ‚berjast hlið við hlið‘ í þjónustu Jehóva með bræðrum og systrum í nýja söfnuðinum. Anne-Lise, sem áður er minnst á, fékk hvatningu frá öldungunum til að reyna að fara með öllum í nýja söfnuðinum í boðunina. Hver var árangurinn? „Ég áttaði mig fljótt á því að það er frábært til að tengjast söfnuðinum,“ segir hún. Að bjóða þig fram við þrif og viðhald í ríkissalnum gefur líka til kynna að þú lítir á söfnuðinn sem þinn söfnuð. Því meira sem þú tekur þátt því fyrr verðurðu hluti af nýrri andlegri fjölskyldu.

Tvenn hjón sitja saman og borða.

Eignastu nýja vini.

4. Eignastu nýja vini. (2. Kor. 6:11–13) Besta leiðin til að eignast vini er að sýna persónulegan áhuga. Taktu þér því nægan tíma fyrir og eftir samkomur til að kynnast öðrum. Gerðu þér far um að læra nöfn þeirra. Við löðum aðra að okkur og eignumst fyrir vikið dýrmæta vini þegar við munum eftir nöfnum þeirra og erum hlýleg í framkomu.

Vertu afslappaður í samskiptum við bræður og systur í staðinn fyrir að hafa áhyggjur af því hvort öðrum líki við þig. Gerðu eins og Lucinda segir: „Við eigum nána vini vegna þess að við tókum frumkvæðið og buðum öðrum heim til okkar.“

‚TAKIÐ VEL Á MÓTI HVERT ÖÐRU‘

Það getur verið stressandi fyrir suma að koma inn í ríkissal fullan af ókunnugu fólki. Hvernig geturðu gert þeim sem flytja í söfnuðinn þinn auðveldara fyrir? ‚Takið vel á móti hvert öðru,‘ sagði Páll postuli, „eins og Kristur tók á móti ykkur“. (Rómv. 15:7) Öldungar geta hjálpað nýjum að finnast þeir velkomnir með því að líkja eftir Kristi. (Sjá rammann „Hvað stuðlar að því að flutningurinn gangi vel?“) Það geta samt allir í söfnuðinum, þar á meðal börnin, átt þátt í að nýir aðlagist hópnum.

Hvað stuðlar að því að flutningurinn gangi vel?

Hvað ættirðu að gera? Talaðu við öldungana í báðum söfnuðum með góðum fyrirvara til að láta þá vita hvenær þú ætlar að flytja og hvert nýja heimilisfangið og símanúmerið verður. Gakktu úr skugga um hvar ríkissalurinn er á nýja staðnum og hvenær samkomur eru haldnar. Kynntu þig fyrir öldungunum og öðrum á fyrstu samkomunni.

Hvað ættu öldungarnir að gera? Safnaðarritarinn í söfnuðinum sem boðberinn er að kveðja ætti að senda kynningarbréf og boðberakort hans til nýja safnaðarins hið fyrsta. Starfsnefnd safnaðarins sem boðberinn flytur í ætti strax að finna starfshóp fyrir hann. Það væri einnig uppörvandi fyrir boðberann ef umsjónarmaður starfshópsins myndi heimsækja hann til að bjóða hann velkominn.

Að bjóða aðra velkomna felur meðal annars í sér að vera gestrisinn, en líka að bjóða fram hjálp. Ein systir bauðst til dæmist til að sýna nýfluttri systur bæinn og kenna henni á almenningssamgöngur þar. Hún var mjög þakklát og þetta hjálpaði henni að aðlagast.

TÆKIFÆRI TIL AÐ VAXA

Þegar engispretta þroskast skiptir hún nokkrum sinnum um ham áður en hún getur flogið. Þegar þú flytur í annan söfnuð þarftu á líkan hátt að losa þig við allar áhyggjur sem hindra þig í að „taka flugið“ í þjónustu Jehóva. „Það er góð æfing að flytja,“ segja Nicolas og Céline. „Að aðlagast nýju fólki hvatti okkur til að þroska nýja eiginleika.“ Jean-Charles, sem er minnst á í upphafi, segir hvernig flutningar hafa haft jákvæð áhrif á fjölskylduna hans: „Breytingarnar hafa orðið til þess að börnin okkar blómstra í nýja söfnuðinum. Eftir aðeins fáeina mánuði tók dóttir okkar að sér verkefni á samkomunni í miðri viku og sonur okkar varð óskírður boðberi.“

Hvað ef aðstæður þínar gera þér ekki kleift að flytja, eins og til dæmis þangað sem er meiri þörf á boðberum? Hvers vegna ekki að nota tillögurnar í greininni til að setja þér markmið í söfnuðinum sem þú tilheyrir? Með því að reiða þig á Jehóva geturðu lagt þig allan fram við að vinna með öðrum í boðuninni og eignast þannig nýja vini og styrkja vináttuna við þá sem þú átt þegar. Gætirðu rétt þeim hjálparhönd sem þurfa á því að halda? Þar sem kærleikur einkennir sanna fylgjendur Krists stuðlar slíkt án efa að því að þú styrkir sambandið við Jehóva. (Jóh. 13:35) Þú getur verið viss um að „Guð er ánægður með slíkar fórnir“. – Hebr. 13:16.

Hjá mörgum þjónum Jehóva hefur flutningur í nýjan söfnuð tekist með ágætum þrátt fyrir áskoranir. Það getur líka átt við um þig. „Að skipta um söfnuð hjálpaði mér að gera rúmgott hjá mér,“ segir Anne-Lise. Kazumi er nú sannfærð um að með því að flytja hafi hún fundið stuðning Jehóva með alveg nýjum hætti. Og hvað með Jules? Hann segir: „Vinirnir sem ég hef eignast gera það að verkum að mér líður ekki lengur eins og ég sé utangátta. Hér er ég eins og heima hjá mér og mér fyndist erfitt að flytja úr söfnuðinum.“

a Sjá ráð við heimþrá í greininni „Coping With Homesickness in God’s Service“ í Varðturninum á ensku 15. maí 1994.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila