NÁMSGREIN 26
SÖNGUR 123 Verum hlýðin skipan Guðs
Viðurkennum auðmjúk að við vitum ekki allt
„Okkur er ofviða að skilja Hinn almáttuga.“ – JOB. 37:23.
Í HNOTSKURN
Þótt við vitum ekki allt sem á eftir að gerast getum við haldið út í erfiðleikum þegar við einbeitum okkar að því sem við vitum og setjum traust okkar á Jehóva.
1. Hvaða hæfileika gaf Jehóva okkur og hvers vegna?
JEHÓVA GUÐ skapaði okkur þannig að við getum hugsað og aflað okkur þekkingar og skilnings til að breyta viturlega. Af hverju gerði hann okkur þannig úr garði? Hann vill að við kynnumst sér og veitum sér þjónustu byggða á skynsemi. – Orðskv. 2:1–5; Rómv. 12:1.
2. (a) Hvaða takmörk eru okkur sett? (Jobsbók 37:23, 24) (Sjá einnig mynd.) (b) Hvaða gagn höfum við af því að sætta okkur auðmjúk við að vita ekki allt?
2 Jehóva skapaði okkur með hæfileikann til að læra en það er margt sem við vitum ekki. (Lestu Jobsbók 37:23, 24.) Tökum Job sem dæmi. Jehóva spurði hann margra spurninga sem hjálpuðu honum að átta sig á hvað hann vissi lítið. Þessi reynsla gerði hann auðmjúkan og hjálpaði honum að leiðrétta hugsunarhátt sinn. (Job. 42:3–6) Við höfum líka gagn af því að gera okkur grein fyrir að það er margt sem við vitum ekki. Ef við sýnum þessa auðmýkt treystum við að Jehóva muni láta okkur vita það sem við þurfum að vita til að taka skynsamlegar ákvarðanir. – Orðskv. 2:6.
Eins og fyrir Job getur verið gott fyrir okkur að viðurkenna að við vitum ekki allt. (Sjá 2. grein.)
3. Um hvað er rætt í þessari námsgrein?
3 Í þessari námsgrein ræðum við um sumt sem við vitum ekki og hvers vegna það getur stundum gert okkur lífið leitt. Við skoðum líka hvers vegna það er stundum gott fyrir okkur að vita ekki allt. Að ræða þetta styrkir traust okkar á að Jehóva, „sem býr yfir fullkominni þekkingu“, láti okkur vita allt sem við þurfum að vita. – Job. 37:16.
VIÐ VITUM EKKI HVENÆR ENDIRINN KEMUR
4. Hvað vitum við ekki samkvæmt Matteusi 24:36?
4 Lestu Matteus 24:36. Við vitum ekki hvenær þessi heimsskipan tekur enda. Þegar Jesús var hér á jörðinni vissi hann ekki einu sinni „þann dag og stund“.a Hann sagði postulunum síðar að Jehóva, hinn mikli tímavörður, ákveði hvenær ákveðnir atburðir eigi sér stað. (Post. 1:6, 7) Jehóva hefur ákveðið hvenær endirinn kemur en við erum ekki í aðstöðu til að reikna nákvæmlega út hvenær það verður.
5. Hvaða áhrif getur það haft á okkur að vita ekki hvenær endirinn kemur?
5 Við vitum ekki hversu lengi við þurfum að bíða eftir endinum. Þess vegna gætum við orðið óþolinmóð eða niðurdregin, sérstaklega ef við höfum beðið lengi eftir degi Jehóva. Okkur gæti líka fundist erfitt að þola háð frá fjölskyldunni eða öðrum. (2. Pét. 3:3, 4) Við gætum farið að hugsa sem svo að við ættum auðveldara með að vera þolinmóð og þola háð annarra ef við vissum nákvæmlega hvenær dagurinn kemur.
6. Hvers vegna er gott að við vitum ekki hvenær endirinn kemur?
6 Með því að segja okkur ekki hvaða dag endirinn kemur gefur Jehóva okkur tækifæri til að sýna að við þjónum honum af því að við elskum hann og treystum honum. Við viljum þjóna Jehóva að eilífu, ekki aðeins þangað til endirinn kemur. Og í stað þess að einblína á það hvenær „dagur Jehóva“ kemur ættum við frekar að einbeita okkur að því hvað hann þýðir fyrir okkur. Þannig styrkjum við sambandið við Jehóva, lærum að treysta honum betur og gerum allt sem við getum til að gleðja hann. – 2. Pét. 3:11, 12.
7. Hvað vitum við?
7 Við ættum að einbeita okkur að því sem við vitum. Við vitum að síðustu dagar hófust árið 1914. Jehóva hefur gefið okkur spádóma í Biblíunni sem benda á það ár. Hann hefur líka lýst ástandinu síðan þá í smáatriðum. Þar sem þessir spádómar hafa ræst erum við sannfærð um að ‚hinn mikli dagur Jehóva sé nálægur‘. (Sef. 1:14) Við vitum líka hvað við eigum að gera. Jehóva vill að við segjum eins mörgum og við getum frá ‚fagnaðarboðskapnum um ríkið‘. (Matt. 24:14) Við flytjum þennan boðskap í um 240 löndum og á meira en 1.000 tungumálum. Við þurfum ekki að vita daginn og stundina til þess að vera kappsöm í boðuninni.
VIÐ VITUM EKKI ALLTAF HVAÐ JEHÓVA MUN GERA
8. Hver eru „verk hins sanna Guðs“? (Prédikarinn 11:5)
8 Við skiljum ekki alltaf „verk hins sanna Guðs“. (Lestu Prédikarann 11:5.) Með verkum Guðs er átt við það sem hann lætur verða eða leyfir að verði til að hrinda vilja sínum í framkvæmd. Við getum ekki vitað nákvæmlega af hverju Jehóva leyfir einhverju að gerast eða hvernig hann mun hjálpa okkur. (Sálm. 37:5) Það er eins ómögulegt fyrir okkur að vita það og að skilja hvernig fóstur vex og þroskast í móðurkviði. Vísindamenn skilja það ekki enn til fulls.
9. Hvaða áhrif getur það haft á okkur að vita ekki alltaf hvað Jehóva mun gera?
9 Af því að við vitum ekki nákvæmlega hvernig Jehóva mun hjálpa okkur getur okkur fundist erfitt að taka ákvarðanir. Við gætum hikað við að færa fórnir til að gera meira í þjónustunni, eins og að einfalda lífið eða flytjast þangað sem þörf er á fleiri boðberum. Við gætum efast um að Jehóva sé ánægður með okkur þegar við reynum að gera meira í þjónustunni en náum ekki markmiðum okkar, sjáum lítinn árangur af erfiði okkar í þjónustunni eða lendum í erfiðleikum meðan við erum að sinna verkefnum fyrir söfnuðinn.
10. Hvaða nauðsynlega eiginleika getum við þroskað með því að vita ekki nákvæmlega hvernig Jehóva mun hjálpa okkur?
10 Það að vita ekki nákvæmlega hvernig Jehóva mun hjálpa okkur auðveldar okkur að þroska eiginleika eins og auðmýkt og hógværð. Við áttum okkur á að hugsanir Jehóva og vegir eru æðri okkar. (Jes. 55:8, 9) Við lærum líka að treysta því að Jehóva sjái vel fyrir öllu. Þegar okkur gengur vel í boðuninni eða öðrum verkefnum í söfnuðinum gefum við Jehóva heiðurinn eins og er rétt að gera. (Sálm. 127:1; 1. Kor. 3:7) Og ef hlutirnir fara ekki eins og við reiknuðum með megum við ekki gleyma því að Jehóva er enn með fulla stjórn. (Jes. 26:12) Við gerum það sem við getum og treystum að Jehóva sjái um sitt. Við erum viss um að hann sjái okkur fyrir þeirri leiðsögn sem við þurfum þótt það sé ekki á jafn einstakan hátt og hann gerði stundum áður fyrr. – Post. 16:6–10.
11. Hvað vitum við sem getur verið hjálplegt?
11 Við vitum að Jehóva er alltaf kærleiksríkur, réttlátur og vitur. Við vitum að hann metur að verðleikum það sem við gerum fyrir hann og fyrir trúsystkini okkar. Og við vitum að Jehóva umbunar alltaf þeim sem eru honum trúir. – Hebr. 11:6.
VIÐ VITUM EKKI HVAÐ GERIST Á MORGUN
12. Hvað segir Jakobsbréfið 4:13, 14 að við vitum ekki?
12 Lestu Jakobsbréfið 4:13, 14. Við vitum í rauninni ekki hvernig líf okkar verður á morgun. Í þessum heimi mætir „tími og tilviljun“ okkur öllum. (Préd. 9:11) Þess vegna vitum við ekki hvort áform okkar heppnist eða hvort við verðum yfir höfuð á lífi til að hrinda þeim í framkvæmd.
13. Hvernig getur óvissa lífsins haft áhrif á okkur?
13 Óvissa lífsins getur verið áskorun. Það getur rænt okkur gleðinni að hafa áhyggjur af því sem getur gerst. Áföll geta sett líf okkar á hvolf og valdið okkur vonbrigðum og sorg. Og þegar vonir okkar bregðast getum við orðið vonsvikin og niðurdregin. – Orðskv. 13:12.
14. Hverju er varanleg hamingja okkar háð? (Sjá einnig myndir.)
14 Þegar við lendum í erfiðleikum höfum við tækifæri til að sýna af hverju við þjónum Jehóva. Við þjónum honum ekki í eiginhagsmunaskyni heldur af því að við elskum hann. Frásögur í Biblíunni sýna að við ættum ekki að búast við því að Jehóva skýli okkur fyrir öllum erfiðleikum og að hann hefur ekki ákveðið fyrir fram hvernig líf okkar verður. Hann veit að hamingja okkar er ekki háð því að við vitum nákvæmlega hvernig framtíð okkar verður. Hún er öllu heldur háð því að við leitum leiðsagnar hans og hlýðum honum. (Jer. 10:23) Þegar við tökum ákvarðanir með hjálp hans erum við í rauninni að segja: „Ef Jehóva vill lifum við og gerum þetta eða hitt.“ – Jak. 4:15.
Það er okkur til verndar að leita leiðsagnar Jehóva og hlýða honum. (Sjá 14. og 15. grein.)b
15. Hvað vitum við um framtíðina?
15 Við vitum ekki hvað hver nýr dagur ber í skauti sér. En við vitum að Jehóva hefur lofað okkur eilífu lífi – annaðhvort á himni eða jörð. Við vitum að hann getur ekki logið og að ekkert getur komið í veg fyrir að hann uppfylli loforð sín. (Tít. 1:2) Hann er sá eini sem hefur getað boðað „endalokin frá upphafi og endur fyrir löngu það sem hefur enn ekki gerst“. Allt sem hann spáði að myndi gerast á biblíutímanum hefur ræst og allt sem hann hefur spáð um framtíðina mun líka rætast. (Jes. 46:10) Við vitum að hann elskar okkur og að ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika hans. (Rómv. 8:35–39) Hann gefur okkur þá visku, huggun og kraft sem við þurfum til að takast á við hvað sem kann að henda okkur. Við getum stólað á hjálp Jehóva og blessun. – Jer. 17:7, 8.
JEHÓVA ÞEKKIR OKKUR BETUR EN VIÐ FÁUM SKILIÐ
16. Hversu vel þekkir Jehóva okkur samkvæmt Sálmi 139:1–6?
16 Lestu Sálm 139:1–6. Skapari okkar veit hvernig við erum úr garði gerð og hvað hefur mótað líkama okkar, tilfinningar og huga. Hann hefur einlægan áhuga á okkur. Hann veit hvað við segjum og hvað býr í hjarta okkar, hvað við gerum og af hverju við gerum það. Eins og Davíð konungur benti á er Jehóva alltaf tilbúinn til að hjálpa okkur og hjálp hans nær alltaf til okkar. Er ekki ótrúlegt að alvaldur Drottin alheimsins, skapari himins og jarðar, skuli hafa slíkan áhuga á okkur! Davíð sagði: „Sú þekking er stórkostlegri en ég fæ skilið, það er ofvaxið skilningi mínum.“ – Sálm. 139:6, neðanmáls.
17. Af hverju getur okkur reynst erfitt að trúa því að Jehóva þekki okkur svo vel?
17 Margt getur gert okkur erfitt fyrir að líta á Jehóva sem kærleiksríkan föður sem hefur áhuga á okkur. Það getur verið umhverfið sem við ólumst upp í, menning okkar eða það sem við trúðum áður en við kynntumst sannleikanum. Eða okkur gæti fundist fyrri mistök okkar svo slæm að við eigum erfitt með að trúa því að Jehóva vilji þekkja okkur og við ímyndum okkur að hann sé langt frá okkur. Jafnvel Davíð leið stundum þannig. (Sálm. 38:18, 21) Og manneskja sem reynir eftir fremsta megni að breyta lífsstíl sínum í samræmi við réttlátar meginreglur Guðs gæti velt fyrir sér: Ef Guð skilur mig í raun og veru hvers vegna ætlast hann þá til þess að ég hafni lífsstíl sem er mér svo eðlilegur?
18. Hvaða gagn höfum við af því að skilja að Jehóva þekkir okkur betur en við þekkjum okkur sjálf? (Sjá einnig myndir.)
18 Jehóva þekkir okkur betur en við þekkjum okkur sjálf og hann getur séð það góða í fari okkar sem við sjáum ekki. Hann sér galla okkar og mistök en hann veit hvernig manneskjur við viljum vera og hann elskar okkur. (Rómv. 7:15) Þegar við áttum okkur á því að Jehóva þekkir okkur betur en við sjálf og að hann sér hvernig manneskjur við getum orðið gefur það okkur þann styrk sem við þurfum til að þjóna honum trúfastlega og með gleði.
Jehóva hjálpar okkur að takast á við óvissu lífsins með því að styrkja trú okkar á þann gleðilega tíma sem bíður okkar í nýja heiminum. (Sjá 18. og 19. grein.)c
19. Hvað vitum við með vissu um Jehóva?
19 Við vitum að Jehóva er kærleikur. Það leikur enginn vafi á því. (1. Jóh. 4:8) Við vitum að réttlátar meginreglur hans sýna að hann elskar okkur og að hann vill okkur alltaf það besta. Við vitum að Jehóva vill að við lifum að eilífu. Hann sá fyrir lausnargjaldinu til að gera okkur það mögulegt. Sú gjöf sannfærir okkur um að við getum þjónað Jehóva á þann hátt sem hann vill þrátt fyrir ófullkomleika okkar. (Rómv. 7:24, 25) Við vitum líka að „Guð er meiri en hjarta okkar og veit allt“. (1. Jóh. 3:19, 20) Jehóva veit allt um okkur og hann hefur fulla trú á að við getum gert vilja hans.
20. Hvað hjálpar okkur að forðast óþarfa áhyggjur?
20 Jehóva neitar okkur ekki um neinar upplýsingar sem við þurfum á að halda. Við þurfum því ekki að hafa áhyggjur af því sem við vitum ekki heldur þurfum við að einbeita okkur að því sem skiptir máli. Þannig sýnum við auðmýkt og að við treystum Jehóva algerlega, honum sem „býr yfir fullkominni þekkingu“. (Job. 36:4) Við höfum takmarkaðan skilning núna en við vitum að Jehóva heldur áfram að kenna okkur að eilífu og við hlökkum til að kynnast hinum mikla Guði okkar betur og betur um alla framtíð. – Préd. 3:11.
SÖNGUR 104 Heilagur andi er gjöf Guðs
a Jesús mun fara með forystuna í stríðinu við illan heim Satans. Það er því rökrétt að álykta að hann viti núna hvaða dag Harmagedón hefst. Og hann mun „vinna fullnaðarsigur“. – Opinb. 6:2; 19:11–16.
b MYND: Feðgar setja hluti í neyðarpoka til að fjölskyldan sé tilbúin þegar hættuástand skapast.
c MYND: Bróðir sem glímir við erfiðleika horfir fram til þeirrar gleði sem bíður hans í nýja heiminum.