NÁMSGREIN 27
SÖNGUR 79 Kennum þeim að vera staðfastir
Hjálpum biblíunemendum að taka afstöðu með sannleikanum
„Standið stöðug í trúnni … og eflist.“ – 1. KOR. 16:13.
Í HNOTSKURN
Við skoðum hvernig við getum hjálpað biblíunemendum að rækta með sér trú og efla hugrekki til að taka afstöðu með sannleikanum.
1, 2. (a) Hvers vegna hika sumir biblíunemendur við að taka afstöðu með sannleikanum? (b) Hvað skoðum við í þessari námsgrein?
HIKAÐIR þú við að verða vottur Jehóva? Þú varst kannski hræddur um að vinnufélagar, vinir eða ættingjar myndu snúast gegn þér. Eða fannst þér að þú gætir aldrei lifað í samræmi við mælikvarða Guðs? Þá skilurðu biblíunemendur sem virðast hika við að taka afstöðu með sannleikanum.
2 Jesús vissi að ótti gæti hindrað fólk í að þroskast í trúnni. (Matt. 13:20–22) En hann gafst ekki upp á þeim sem hikuðu við að fylgja honum. Hann sýndi lærisveinum sínum hvernig væri hægt að hjálpa þeim að (1) koma auga á hindranirnar, (2) dýpka kærleikann til Jehóva, (3) endurskoða forgangsröðun sína og (4) yfirstíga hindranirnar. Hvernig getum við líkt eftir Jesú með því að nota bókina Von um bjarta framtíð til að hjálpa biblíunemenda að taka afstöðu með sannleikanum?
HJÁLPAÐU BIBLÍUNEMANDANUM AÐ KOMA AUGA Á HINDRANIR
3. Hvað gæti hafa hindrað Nikódemus í að verða lærisveinn Jesú?
3 Nikódemus, áberandi leiðtogi meðal Gyðinga, stóð frammi fyrir hindrun sem gerði honum erfitt fyrir að verða lærisveinn Jesú. Aðeins um sex mánuðum eftir að Jesús hóf þjónustu sína áttaði Nikódemus sig á að hann væri sendur frá Guði. (Jóh. 3:1, 2) En Nikódemus ákvað að hitta Jesú á laun „af ótta við Gyðinga“. (Jóh. 7:13; 12:42) Hann óttaðist kannski að hann myndi missa of mikið ef hann yrði lærisveinn Jesú.a
4. Hvernig hjálpaði Jesús Nikódemusi að skilja hvers Guð vænti af honum?
4 Nikódemus bjó yfir þekkingu á lögmálinu en hann þurfti hjálp til að skilja hvers Jehóva vænti af honum. Hvernig hjálpaði Jesús honum? Hann var fús að gefa honum af tíma sínum og tala við hann, jafnvel að næturlagi. Og Jesús sagði honum skýrt hvað hann þyrfti að gera til að verða lærisveinn hans: iðrast synda sinna, láta skírast í vatni og trúa á son Guðs. – Jóh. 3:5, 14–21.
5. Hvernig getum við hjálpað biblíunemanda að skilja hvað hindrar hann í að taka framförum?
5 Þótt biblíunemandi sé kominn með ágæta þekkingu á Biblíunni getur hann þurft hjálp til að koma auga á hvað hindrar hann í að taka framförum. Atvinna eða andstaða frá fjölskyldunni gæti hindrað hann í að ná andlegum markmiðum sínum. Taktu þér tíma til að hjálpa nemanda þínum, rétt eins og Jesús gerði. Þú gætir boðið honum í kaffi eða göngutúr. Hann á kannski auðveldara með að opna sig við óformlegar aðstæður og segja þér hvað hindrar hann. Hvettu hann til að gera nauðsynlegar breytingar, ekki til að þóknast þér heldur til að sýna Jehóva að hann elski hann.
6. Hvernig geturðu hjálpað biblíunemanda að öðlast hugrekki til að taka afstöðu með sannleikanum? (1. Korintubréf 16:13)
6 Biblíunemandi fær hugrekki til að fara eftir því sem hann lærir þegar hann er sannfærður um að Jehóva muni hjálpa honum að lifa í samræmi við mælikvarða Biblíunnar. (Lestu 1. Korintubréf 16:13.) Þú ert að sumu leyti eins og kennari í skóla. Við hvaða kennara líkaði þér best þegar þú varst í skóla? Trúlega þann sem sýndi þolinmæði og hjálpaði þér að hafa trú á hæfileikum þínum. Góður biblíukennari kennir ekki bara hvað það er sem Jehóva vill að við gerum heldur fullvissar nemandann um að með hjálp Jehóva geti hann gert nauðsynlegar breytingar á lífi sínu. Hvernig ferðu að?
HJÁLPAÐU BIBLÍUNEMANDANUM AÐ DÝPKA KÆRLEIKANN TIL JEHÓVA
7. Hvernig hjálpaði Jesús áheyrendum sínum að rækta kærleikann til Jehóva?
7 Jesús vissi að kærleikur til Guðs myndi knýja lærisveina sína til að fara eftir því sem þeir lærðu. Hann kenndi þeim ýmislegt sem örvaði þá til að elska föður sinn á himni meira. Hann líkti Jehóva til dæmis við mann sem gefur börnum sínum góðar gjafir. (Matt. 7:9–11) Sumir af áheyrendum Jesú höfðu ef til vill ekki átt kærleiksríkan föður. Ímyndaðu þér hvernig þeim hefur liðið þegar Jesús sagði dæmisöguna um miskunnsama föðurinn sem tók vel á móti syni sínum sem hafði villst af leið. Þeir áttuðu sig á hversu mikið Jehóva elskar jarðnesk börn sín. – Lúk. 15:20–24.
8. Hvernig geturðu hjálpað biblíunemandanum að dýpka kærleikann til Jehóva?
8 Þú getur líka hjálpað biblíunemanda að dýpka kærleika sinn til Jehóva með því að leggja áherslu á eiginleika Guðs þegar þú kennir honum. Hjálpaðu honum í hverri námsstund að átta sig á hvernig það sem hann er að læra endurspeglar kærleika Jehóva. Þegar þið ræðið um lausnargjaldið skaltu leggja áherslu á hvernig það snertir nemandann sjálfan. (Rómv. 5:8; 1. Jóh. 4:10) Þegar nemandi skilur hversu mikið Jehóva elskar hann getur það dýpkað kærleikann sem hann ber til Jehóva. – Gal. 2:20.
9. Hvað hjálpaði Michael að breyta um lífsstefnu?
9 Tökum sem dæmi Michael frá Indónesíu. Hann var alinn upp í sannleikanum en lét ekki skírast. Þegar hann var 18 ára flutti hann til annars lands til að vinna sem vörubílstjóri. Hann kvæntist síðar í Indónesíu en vann samt áfram í öðru landi langt í burtu frá fjölskyldunni. Í millitíðinni fóru eiginkona hans og dóttir að kynna sér Biblíuna og fara eftir því sem þær lærðu. Michael ákvað að snúa heim til að annast föður sinn eftir að móðir hans dó og ákvað þá að kynna sér Biblíuna. Það snerti hann djúpt þegar hann hugleiddi liðinn „Kafaðu dýpra“ í 27. kafla bókarinnar Von um bjarta framtíð. Michael tárfelldi þegar hann hugleiddi hversu mikið Jehóva þjáðist þegar hann horfði á son sinn kveljast. Hann skildi hversu innilega Jehóva og Jesús elskuðu hann og þakklæti hans fékk hann til að breyta lífi sínu og láta skírast.
HJÁLPAÐU BIBLÍUNEMANDANUM AÐ HAFA RÉTTA FORGANGSRÖÐUN
10. Hvað gerði Jesús til að hjálpa lærisveinunum að forgangsraða rétt? (Lúkas 5:5–11) (Sjá einnig mynd.)
10 Fyrstu lærisveinar Jesú voru fljótir að átta sig á að hann væri hinn fyrirheitni Messías en þeir þurftu að setja þjónustuna í forgang. Pétur og Andrés höfðu verið lærisveinar Jesú um tíma þegar hann bauð þeim að vera það í fullu starfi. (Matt. 4:18, 19) Þeir voru fiskimenn og ráku blómlegt fyrirtæki með Jakobi og Jóhannesi. (Mark. 1:16–20) Þegar Pétur og Andrés „yfirgáfu netin“ til að fylgja Jesú gerðu þeir líklega ráðstafanir til að sjá fyrir fjölskyldum sínum. Hvað knúði þá til að láta boðunina hafa forgang? Frásagan í Lúkasarguðspjalli sýnir að Jesús gerði kraftaverk sem fullvissaði þá um að Jehóva gæti séð fyrir þörfum þeirra. – Lestu Lúkas 5:5–11.
Hvað lærum við af því hvernig Jesús hjálpaði lærisveinum sínum að hafa rétta forgangsröðun? (Sjá 10. grein.)b
11. Hvernig getum við notað eigin reynslu til að styrkja trú nemandans?
11 Við gerum ekki kraftaverk eins og Jesús en við getum sagt frá reynslu okkar af því hvernig Jehóva styður þá sem setja hann í fyrsta sæti í lífi sínu. Manstu eftir því hvernig Jehóva hjálpaði þér þegar þú byrjaðir að sækja samkomur? Þú þurftir kannski að tala við vinnuveitanda þinn og útskýra að til að geta sótt samkomur gætir þú ekki lengur unnið yfirvinnu. Segðu nemandanum hvernig trú þín styrktist þegar þú fannst hvernig Jehóva studdi ákvörðun þína til að setja tilbeiðsluna í fyrsta sæti.
12. (a) Hvers vegna ættum við að bjóða mismunandi boðberum með á biblíunámskeið? (b) Hvernig geturðu notað myndbönd til að kenna á áhrifaríkan hátt? Nefndu dæmi.
12 Nemandi þinn hefur líka gagn af því að heyra hvernig aðrir þjónar Guðs hafa gert breytingar til að hafa Jehóva í fyrsta sæti í lífinu. Bjóddu bræðrum og systrum með mismunandi bakgrunn að vera með í námsstundinni. Biddu þau að segja frá því hvernig þau kynntust trúnni og hvað þau gerðu til að láta þjónustuna við Jehóva hafa forgang í lífinu. Taktu þér líka tíma til að horfa á myndbönd með nemandanum undir liðnum „Kafaðu dýpra“ eða „Kannaðu“ í bókinni Von um bjarta framtíð. Þegar þið farið yfir 37. kafla gætuð þið til dæmis horft á myndbandið Jehóva sér okkur fyrir því sem við þurfum og rætt hvað gæti hjálpað nemandanum að setja Jehóva í fyrsta sæti í lífi sínu.
HJÁLPAÐU NEMANDANUM AÐ YFIRSTÍGA HINDRANIR
13. Hvernig bjó Jesús lærisveina sína undir andstöðu?
13 Jesús sagði fylgjendum sínum aftur og aftur að þeir yrðu fyrir andstöðu annarra, jafnvel ættingja. (Matt. 5:11; 10:22, 36) Undir lok þjónustu sinnar sagði hann lærisveinum sínum að það gæti kostað þá lífið að tilbiðja Jehóva. (Matt. 24:9; Jóh. 15:20; 16:2) Hann hvatti þá til að vera á varðbergi í þjónustunni. Hann ráðlagði þeim að rífast ekki við þá sem stóðu gegn þeim og vera varkárir svo að þeir gætu haldið áfram að boða trúna.
14. Hvernig getum við búið nemanda undir andstöðu? (2. Tímóteusarbréf 3:12)
14 Við getum búið biblíunemanda undir andstöðu með því að útskýra hvað hann gætu átt von á að heyra frá vinnufélögum, vinum og ættingjum. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:12.) Sumir vinnufélagar gætu gert grín að nemandanum þegar hann reynir að lifa í samræmi við það sem Biblían kennir. Aðrir, jafnvel nánir ættingjar, kunna að gagnrýna hann fyrir trú hans sem byggist á Biblíunni. Því fyrr sem við búum nemendurna undir að takast á við andstöðu því betur eru þeir í stakk búnir til að mæta henni.
15. Hvað gæti hjálpað biblíunemanda að takast á við andstöðu fjölskyldunnar?
15 Ef nemandi þinn verður fyrir andstöðu fjölskyldu sinnar skaltu hvetja hann til að hugleiða hvers vegna sumir ættingjar eru í uppnámi. Þeir halda ef til vill að hann hafi verið blekktur eða hafa kannski fordóma gagnvart vottum Jehóva. Jafnvel sumir ættingjar Jesú voru óhressir með það sem hann var að gera. (Mark. 3:21; Jóh. 7:5) Brýndu fyrir nemanda þínum að vera þolinmóður og háttvís við ættingja og aðra.
16. Hvernig getum við hvatt biblíunemanda til að segja öðrum frá trú sinni af háttvísi?
16 Jafnvel þegar ættingjar sýna áhuga er skynsamlegt að útskýra ekki of margt í einu. Annars gæti þeim fundist það yfirþyrmandi og misst áhugann á að ræða málið aftur. Hvettu því nemandann til að segja þannig frá trú sinni að það sé hægt að ræða saman seinna. (Kól. 4:6) Hann gæti kannski hvatt ættingjann að skoða jw.org. Þannig gæti hann kynnt sér trú Votta Jehóva á eigin forsendum.
17. Hvernig geturðu þjálfað nemandann í að svara spurningum sem aðrir kunna að hafa um votta Jehóva? (Sjá einnig mynd.)
17 Þú gætir notað greinaröðina „Spurningar og svör“ á jw.org til að aðstoða nemandann við að undirbúa einföld svör við spurningum ættingja eða vinnufélaga. (2. Tím. 2:24, 25) Ekki gleyma að ræða um liðinn „Sumir segja“ í lok hvers kafla í bókinni Von um bjarta framtíð. Hvettu nemandann til að æfa sig í að útskýra trú sína fyrir öðrum. Hikaðu ekki við að segja hvað hann gæti gert betur. Þegar þú tekur tíma fyrir þannig æfingar á hann auðveldara með að útskýra trú sína fyrir öðrum.
Notaðu tíma í námsstund til að þjálfa biblíunemanda þinn í að boða trúna. (Sjá 17. grein.)c
18. Hvernig geturðu hvatt nemanda til að gerast óskírður boðberi? (Matteus 10:27)
18 Jesús hvatti lærisveina sína til að boða fagnaðarboðskapinn opinberlega. (Lestu Matteus 10:27.) Því fyrr sem nemandi byrjar að segja frá trú sinni því fyrr lærir hann að treysta á Jehóva. Hvernig geturðu hvatt nemanda til að setja sér þetta markmið? Þegar tilkynnt er um átak í boðuninni geturðu hvatt hann til að hugsa um hvað hann þarf að gera til að uppfylla kröfurnar til að verða boðberi. Útskýrðu hvers vegna mörgum hefur fundist auðveldara að byrja að boða trúna þegar slíkt átak er í gangi. Hann gæti líka byrjað að fá verkefni á samkomu í miðri viku til að fá þjálfun í að boða trúna. Þannig lærir hann að útskýra trú sína af sannfæringu.
SÝNDU NEMANDANUM TRAUST
19. Hvernig sýndi Jesús lærisveinum sínum traust og hvernig getum við líkt eftir honum?
19 Áður en Jesús dó og fór til himna sagði hann lærisveinum sínum að þeir myndu dag einn verða sameinaðir honum. Þeir skildu ekki að hann var að tala um að þeir færu til himna. En þótt þeir skildu ekki allt var Jesús sannfærður um hollustu þeirra. (Jóh. 14:1–5, 8) Hann vissi að þeir þyrftu tíma til að skilja sumt, eins og að þeir fengju líf á himni. (Jóh. 16:12) Við getum líka sýnt nemendum okkar að við höfum trú á því að þeir vilji þóknast Jehóva.
Því fyrr sem nemandi byrjar að segja öðrum frá trú sinni því fyrr lærir hann að treysta á Jehóva.
20. Hvernig sýndi systir í Malaví að hún hafði trú á nemanda sínum?
20 Við trúum að nemandi okkar vilji gera það sem er rétt. Tökum sem dæmi systur okkar Chifundo í Malaví. Hún hóf biblíunámskeið í bókinni Von um bjarta framtíð með ungri kaþólskri konu sem heitir Alinafe. Þegar kom að lokum 14. kafla spurði Chifundo hana hvað henni fyndist um að nota líkneski í tilbeiðslunni. Alinafe komst í uppnám og svaraði: „Það er val hvers og eins!“ Chifundo velti því fyrir sér hvort hún myndi fljótlega hætta að kynna sér Biblíuna. En hún hélt þolinmóð áfram að kenna Alinafe í þeirri von að hún myndi að lokum skilja að það væri rangt að nota líkneski í tilbeiðslunni. Fáeinum mánuðum síðar spurði Chifundo hana spurningar í 34. kafla: „Hvaða gagn hefurðu haft af því hingað til að kynnast Biblíunni og Jehóva, hinum sanna Guði?“ Chifundo segir: „Hún nefndi svo margt gott og eitt af því var að vottarnir gera ekki neitt sem Biblían segir að sé rangt.“ Fljótlega eftir þetta hætti Alinafe að nota líkneski og gat látið skírast.
21. Hvernig getum við glætt með nemandanum löngun til að taka afstöðu með sannleikanum?
21 Þótt Jehóva sé sá sem „gefur vöxtinn“ getum við átt þátt í að biblíunemandi taki framförum. (1. Kor. 3:7) Við gerum meira en að kenna honum það sem Guð vill að hann geri. Við hjálpum honum að dýpka kærleikann til Jehóva. Og við hvetjum hann til að sýna kærleika sinn með því að setja Jehóva í fyrsta sætið í lífi sínu. Við kennum honum líka að treysta á Jehóva þegar hann verður fyrir andstöðu. Með því að sýna nemandanum að við höfum trú á honum hjálpum við honum að skilja að hann geti lifað í samræmi við mælikvarða Jehóva og tekið afstöðu með sannleikanum.
SÖNGUR 55 Óttastu ekki
a Nikódemus var enn í Æðstaráði Gyðinga tveim og hálfu ári eftir að hann talaði við Jesú. (Jóh. 7:45–52) Sumir sagnfræðingar ætla að Nikódemus hafi gerst lærisveinn Jesú eftir dauða hans. – Jóh. 19:38–40.
b MYND: Pétur og aðrir fiskimenn yfirgefa atvinnu sína og fylgja Jesú.
c MYND: Systir þjálfar biblíunemanda sinn í að boða trúna.