ÆVISAGA
Hinn mikli kennari hefur kennt okkur margt um ævina
VOPNAÐAR eftirlitsstöðvar, brennandi vegatálmar, fellibyljir, borgarastyrjaldir og brottflutningar. Þetta eru sumar af þeim hættulegu aðstæðum sem við hjónin höfum upplifað í brautryðjanda- og trúboðsstarfinu. Við myndum samt ekki vilja skipta á því og neinu öðru! Í öllu þessu hefur Jehóva stutt okkur og blessað. Hann hefur líka veitt okkur dýrmæta kennslu sem hinn „mikli kennari“. – Jobsbók 36:22; Jesaja 30:20.
FORDÆMI FORELDRA MINNA
Síðla á sjötta áratug síðustu aldar fluttust foreldrar mínir frá Ítalíu til Kindersley í Saskatchewan í Kanada. Stuttu síðar kynntust þau sannleikanum og hann varð það mikilvægasta í lífi okkar. Ég man að ég sem barn var langa daga í boðuninni með fjölskyldunni og grínast stundum með það að ég hafi verið aðstoðarbrautryðjandi átta ára gamall.
Með fjölskyldunni í kringum 1966.
Foreldrar mínir voru fátækir en voru góðar fyrirmyndir þegar kom að því að færa Jehóva fórnir. Þau seldu til dæmis margt af því sem þau áttu til að komast á alþjóðamót árið 1963 í Pasadena í Kaliforníu. Árið 1972 fluttumst við til Trail í Bresku-Kólumbíu í Kanada, um 1.000 kílómetra frá þeim stað sem við bjuggum, til að hjálpa ítölskumælandi fólki á því svæði. Faðir minn vann sem húsvörður. Hann afþakkaði stöðuhækkun svo að hann gæti einbeitt sér að þjónustunni við Jehóva.
Ég er þakklátur foreldrum mínum fyrir að setja okkur systkinunum fjórum gott fordæmi. Þetta hefur reynst mér gott veganesti í þjónustu Jehóva allt mitt líf. Þau kenndu mér nokkuð sem ég gleymi aldrei: Þegar ég leita fyrst Guðsríkis annast Jehóva mig. – Matt. 6:33.
Í FULLU STARFI
Árið 1980 kvæntist ég Debbie, fallegri systur með skýr andleg markmið. Okkur langaði að hefja þjónustu í fullu starfi þannig að Debbie byrjaði sem brautryðjandi þrem mánuðum eftir brúðkaupið. Ári síðar fluttumst við í lítinn söfnuð sem þurfti aðstoð í boðuninni og ég gerðist brautryðjandi líka.
Á brúðkaupsdaginn árið 1980.
Með tímanum urðum við niðurdregin og ákváðum að flytjast burt en töluðum þó fyrst við farandhirðinn. Hann sagði okkur hreinskilnislega: „Vandamálið er að hluta til hjá ykkur sjálfum. Þið horfið of mikið á það neikvæða í stöðunni. Ef þið reynið að sjá það jákvæða mun ykkur ganga betur.“ Þetta var einmitt það sem við þurftum að heyra. (Sálm. 141:5) Við fórum strax eftir ráðum hans og áttuðum okkur fljótlega á því að það var margt jákvætt í stöðunni. Margir í söfnuðinum vildu gera meira fyrir Jehóva, þar á meðal krakkarnir og nokkrar systur sem áttu eiginmenn sem voru ekki í trúnni. Það var mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á þessu. Við lærðum að leita að því góða og bíða eftir að Jehóva leysti erfið mál. (Míka 7:7) Við endurheimtum gleðina og okkur leið betur.
Kennararnir í fyrsta brautryðjandaskólanum sem við sóttum höfðu sinnt verkefnum í öðrum löndum. Þeir sýndu okkur myndir og töluðu um áskoranirnar og blessunina í þjónustunni þar. Þetta vakti með okkur löngun að gerast trúboðar og við settum okkur það sem markmið.
Við ríkissal í Bresku-Kólumbíu árið 1983.
Til að vinna að markmiðinu fluttumst við árið 1984 til Quebec þar sem er töluð franska og er um 4.000 kílómetra frá Bresku-Kólumbíu. Við þurftum að læra nýtt tungumál, kynnast nýrri menningu og höfðum úr litlu að spila. Um tíma höfðum við bara kartöflur að borða sem bóndi leyfði okkur að taka eftir að hann hafði tekið sína uppskeru. Debbie var mjög útsjónarsöm að matreiða kartöflur á mismunandi vegu. Þrátt fyrir erfiðleikana gerðum við okkar besta til að halda út með gleði. Við sáum skýr merki um að Jehóva annaðist okkur. – Sálm. 64:10.
Dag einn fengum við óvænta upphringingu. Okkur var boðið að starfa á Betel í Kanada. Við höfðum sótt um að komast í Gíleaðskólann þannig að við höfðum blendnar tilfinningar til Betelþjónustu. En við þáðum boðið. Þegar við komum á Betel spurðum við bróður Kenneth Little sem var í deildarnefndinni hvað yrði um umsóknina í Gíleaðskólann. „Við skoðum það þegar að því kemur,“ sagði hann.
Viku síðar kom að því. Þá var okkur boðið að sækja Gíleaðskólann. Við þurftum að ákveða okkur. Bróðir Little sagði: „Það er alveg sama hvort þið veljið, stundum eigið þið eftir að óska þess að hafa valið hinn kostinn. Hvorugur kosturinn er betri, Jehóva getur blessað þá báða.“ Við ákváðum að fara í Gíleaðskólann og í gegnum árin höfum við séð sannleiksgildi þess sem bróðir Little sagði. Við höfum oft vitnað í hann þegar aðrir hafa þurft að velja milli verkefna.
LÍF OKKAR SEM TRÚBOÐAR
(Til vinstri) Ulysses Glass.
(Til hægri) Jack Redford.
Það var einstaklega ánægjulegt að vera í hópi 24 nemenda í 83. bekk Gíleaðskólans sem var haldinn í Brooklyn í New York og hófst í apríl 1987. Aðalkennararnir voru Ulysses Glass og Jack Redford. Fimm mánuðir í skólanum voru fljótir að líða og við útskrifuðumst 6. september 1987. Við vorum send til Haítí ásamt John og Marie Goode.
Á Haítí árið 1988.
Trúboðar sem útskrifuðust úr Gíleaðskólanum höfðu ekki verið sendir til Haítí síðan 1962 þegar trúboðar þar þurftu að yfirgefa landið. Þrem vikum eftir útskriftina tókum við til starfa á Haítí í litlum söfnuði 35 boðbera á afskekktu svæði í fjöllunum. Við vorum ung og óreynd og bjuggum ein á trúboðsheimilinu. Fólkið á svæðinu var mjög fátækt og flestir ólæsir. Við urðum vitni að þjóðfélagsólgu og valdaránum, sáum brennandi vegatálma og upplifðum fellibylji.
Við gátum lært margt af bræðrum og systrum á Haítí sem sýndu þrautseigju og varðveittu gleðina. Líf margra þeirra var mjög erfitt en þau elskuðu Jehóva og boðunina. Ein eldri systir var ólæs en kunni samt um 150 biblíuvers utanbókar. Vandamálin á svæðinu hvöttu okkur til að leggja enn harðar að okkur við að segja öðrum að Guðsríki sé eina lausnin á vandamálum mannkynsins. Okkur hlýnar um hjartarætur að sjá suma af fyrstu biblíunemendum okkar þjóna sem brautryðjendur, sérbrautryðjendur og öldungar.
Á Haítí kynntist ég Trevor, ungum mormónatrúboða. Við töluðum nokkrum sinnum saman. Nokkrum árum síðar fékk ég óvænt bréf frá honum. Hann sagði: „Ég ætla að láta skírast á næsta móti! Mig langar að koma aftur til Haítí og þjóna þar sem sérbrautryðjandi á sama svæði og ég var mormónatrúboði.“ Og það var einmitt það sem hann gerði í mörg ár ásamt eiginkonu sinni.
EVRÓPA OG SÍÐAN AFRÍKA
Að störfum í Slóveníu árið 1994.
Við vorum send á svæði í Evrópu þar sem hömlum á boðunni hafði verið létt. Við komum til Ljubljana í Slóveníu árið 1992, ekki langt frá þeim stað sem foreldrar mínir bjuggu áður en þeir fluttu til Ítalíu. Á þessum tíma geisuðu enn stríð á svæðum fyrrum Júgóslavíu. Deildarskrifstofan í Vín í Austurríki og skrifstofurnar í Zagreb í Króatíu og Belgrad í Serbíu höfðu haft umsjón með boðuninni á þessu svæði. Nú átti hvert lýðræðisríki að vera með eigið Betelheimili.
Það þýddi að við þurftum aftur að læra nýtt tungumál og kynnast nýrri menningu. Heimamenn sögðu „Jezik je težek“ sem þýðir: „Tungumálið er erfitt.“ Og það var hverju orði sannara! Við dáðumst að trúfesti bræðra og systra sem löguðu sig fúslega að öllum breytingum sem voru gerðar í söfnuðinum og við sáum hvernig Jehóva blessaði þau. Enn og aftur urðum við vitni að því hvernig Jehóva leiðréttir alltaf málin af kærleika og á réttum tíma. Það sem við höfðum lært áður nýttist okkur til að takast á við áskoranir í Slóveníu og þar lærðum við líka margt nýtt.
En líf okkar tók aftur breytingum. Árið 2000 vorum við send til Fílabeinsstrandarinnar í Vestur-Afríku. En þegar skall á borgarastyrjöld vorum við færð til Síerra Leóne þar sem ellefu ára borgarastyrjöld var nýlokið. Þetta var í nóvember 2002. Það var erfitt að yfirgefa Fílabeinsströndina svo skyndilega. En reynsla okkar hjálpaði okkur að halda gleðinni.
Við einbeittum okkur að öllu því sannleiksleitandi fólki sem var á svæðinu og kærum bræðrum og systrum, sem höfðu haldið út í mörg ár í stríðshrjáðu landi. Þau voru fátæk af efnislegum gæðum en fús að deila því sem þau áttu. Ein systir vildi gefa Debbie föt. Þegar Debbie hikaði við að þiggja þau sagði systirin ákveðin: „Meðan stríðið geisaði fengum við stuðning frá bræðrum og systrum í öðrum löndum. Nú er komið að okkur að hjálpa.“ Við settum okkur það markmið að líkja eftir þeim.
Við snerum um síðir aftur til Fílabeinsstrandarinnar en pólitísk ólga magnaðist og óeirðir brutust út. Við þurftum að hverfa á braut aftur í nóvember 2004 með þyrlu og gátum aðeins tekið tvær tíu kílóa ferðatöskur með okkur. Við sváfum á gólfinu í franskri herstöð um nóttina og flugum síðan til Sviss næsta dag. Þegar við komum á deildarskrifstofuna þar um miðnætti tók deildarnefndin og kennarar í Þjónustuþjálfunarskólanum ásamt eiginkonum þeirra hlýlega á móti okkur. Við fengum mörg faðmlög, heitan mat og fullt af svissnesku súkkulaði. Þetta hlýjaði okkur um hjartaræturnar.
Að flytja ræðu fyrir flóttamenn á Fílabeinsströndinni árið 2005.
Við vorum send til að vera um tíma í Gana og fórum síðan aftur til Fílabeinsstrandarinnar eftir að ástandið þar hafði róast. Góðvild trúsystkina hjálpaði okkur að komast í gegnum þetta streituvaldandi óvissutímabil. Við Debbie erum sammála um að taka bróðurkærleikann aldrei sem sjálfsagðan hlut þótt hann sé ríkjandi í söfnuði Jehóva. Í raun og veru lærðum við margt á þessum ólgutímum.
TIL MIÐ-AUSTURLANDA
Í Mið-Austurlöndum árið 2007.
Árið 2006 barst okkur bréf frá aðalstöðvunum þar sem okkur var sagt að við fengjum nýtt verkefni í Mið-Austurlöndum. Enn og aftur upplifðum við ný ævintýri og áskoranir og kynntumst nýrri menningu og fólki sem talaði önnur tungumál. Við þurftum að læra margt á svæði þar sem voru hræringar á sviði stjórnmála og trúarbragða. Við höfðum yndi af fjölbreytileikanum í söfnuðunum og sáum eininguna sem fæst af því að fylgja leiðsögn Jehóva. Við dáðumst að trúsystkinum vegna þess að flest þeirra héldu hugrökk út þrátt fyrir andstöðu ættingja, skólafélaga, vinnufélaga og nágranna.
Við sóttum sérmótið árið 2012 í Tel Avív í Ísrael. Þetta var í fyrsta skipti sem svona margir þjónar Jehóva á þessu svæði söfnuðust saman síðan á hvítasunnu árið 33. Hvílík upplifun!
Á þessum árum vorum við send til að heimsækja land þar sem voru hömlur á starfi okkar. Við tókum með okkur rit, tókum þátt í boðuninni og hittumst í litlum hópum á mótum. Vopnaðir hermenn og eftirlitsstöðvar voru um allt en við fundum til öryggis því að við létum lítið fyrir okkur fara á ferðum okkar, aðeins fáein saman í hóp.
AFTUR TIL AFRÍKU
Að undirbúa ræðu í Kongó árið 2014.
Árið 2013 var okkur úthlutað alveg nýju verkefni – að starfa við deildarskrifstofuna í Kinshasa í Kongó. Kongó er stórt land með mikla náttúrufegurð en þar ríkir mikil fátækt og oft eru vopnuð átök í landinu. Við hugsuðum: „Við þekkjum Afríku, við erum tilbúin.“ En við áttum margt ólært, sérstaklega þegar kom að því að ferðast þar sem samgöngur voru mjög frumstæðar. Við sáum margt jákvætt eins og þrautseigju og gleði trúsystkina þó að þau glímdu við fjárhagsörðugleika. Það var líka uppörvandi að sjá ást þeirra á boðuninni og það sem þau lögðu á sig til að sækja samkomur og mót. Við sáum með eigin augum að það var Jehóva að þakka að boðunin bar árangur. Árin í fullu starfi í Kongó höfðu djúpstæð áhrif á okkur og við eignuðumst vini sem eru eins og fjölskylda okkar.
Boðunin í Suður-Afríku árið 2023.
Í árslok 2017 fengum við nýtt verkefni – að þjóna við deildarskrifstofuna í Suður-Afríku. Hún er stærsta deildarskrifstofan sem við höfum starfað við og verkefnin sem við fengum á Betel voru ný fyrir okkur. Við þurftum að læra margt en það sem við höfðum lært áður nýttist okkur líka. Við elskum alla þá mörgu bræður og systur sem hafa þjónað Jehóva af trúfesti svo áratugum skiptir. Og það er stórkostlegt að sjá eininguna í Betelfjölskyldunni þótt bræður og systur þar séu af ólíkum bakgrunni og kynþáttum. Það er augljóst að Jehóva blessar þjóna sína með friði þegar þeir íklæðast hinum nýja manni og fylgja meginreglum Biblíunnar.
Við Debbie höfum í gegnum árin fengið spennandi verkefni, aðlagast mismunandi menningu og lært ný tungumál. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt en við höfum alltaf fundið tryggan kærleika Jehóva í söfnuði hans og bræðrafélaginu. (Sálm. 144:2) Þjálfunin sem við höfum fengið í fullu starfi hefur án efa gert okkur að betri þjónum Jehóva.
Ég er innilega þakklátur fyrir það sem foreldrar mínir kenndu mér, fyrir stuðninginn frá Debbie og framúrskarandi fordæmi bræðra og systra um allan heim. Við hjónin erum ákveðin í að halda áfram að tileinka okkur það sem hinn mikli kennari lætur okkur í té.