NÁMSGREIN 34
SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust
Þiggjum fyrirgefningu Jehóva
„Þú fyrirgafst mér sekt mína og synd.“ – SÁLM. 32:5.
Í HNOTSKURN
Við þurfum að þiggja fyrirgefningu Jehóva. Við skoðum biblíuvers sem hjálpa okkur að sjá að hann fyrirgefur okkur þegar við höfum iðrast synda okkar.
1, 2. Hvaða tilfinningu vekur það þegar við skiljum að Jehóva hefur fyrirgefið okkur syndir okkar? (Sjá einnig mynd.)
DAVÍÐ konungur vissi hvernig er að hafa sektarkennd eftir að hafa syndgað. (Sálm. 40:12; 51:3, yfirskrift) Hann gerði nokkur alvarleg mistök. En hann sýndi einlæga iðrun og Jehóva fyrirgaf honum. (2. Sam. 12:13) Og Davíð fann til léttis þegar hann skildi að Jehóva hafði fyrirgefið honum. – Sálm. 32:1.
2 Við getum líka fundið fyrir þeim létti sem fylgir því að Jehóva sýni okkur miskunn. Hvílík huggun að vita að Jehóva er fús að fyrirgefa syndir okkar – jafnvel alvarlegar syndir – ef við iðrumst einlæglega, játum þær og gerum allt sem við getum til að forðast að gera sömu mistök aftur. (Orðskv. 28:13; Post. 26:20; 1. Jóh. 1:9) Og það er líka hughreystandi til þess að vita að hann fyrirgefur svo algerlega að það er eins og syndin hafi aldrei verið drýgð. – Esek. 33:16.
Davíð konungur orti marga sálma sem lýsa fyrirgefningu Jehóva. (Sjá 1. og 2. grein.)
3, 4. Hvernig leið Jennifer eftir skírn sína og hvað fjöllum við um í þessari námsgrein?
3 En stundum gæti okkur fundist erfitt að trúa því að Jehóva hafi fyrirgefið okkur. Skoðum hvað henti Jennifer sem ólst upp í sannleikanum. Þegar hún var unglingur leiddist hún út í ranga breytni og lifði tvöföldu lífi. Síðar meir sneri hún aftur til Jehóva og gerði breytingar á lífi sínu og lét skírast. Hún segir: „Líf mitt einkenndist af efnishyggju, siðleysi, ofdrykkju og mikilli reiði. Ég vissi að lausnarfórn Krists hafði hreinsað mig af syndum mínum eftir að ég grátbað um fyrirgefningu og iðraðist. En ég gat samt ekki sannfært hjarta mitt um að ég hefði fengið fyrirgefningu.“
4 Finnst þér stundum erfitt að fullvissa sjálfan þig um að Jehóva sé búinn að fyrirgefa þér fyrri mistök? Hann vill að við séum jafn viss um miskunn sína og Davíð var. Í þessari námsgrein skoðum við hvers vegna við þurfum að þiggja fyrirgefningu Jehóva og hvað getur hjálpað okkur til þess.
HVERS VEGNA ÞURFUM VIÐ AÐ ÞIGGJA FYRIRGEFNINGU JEHÓVA?
5. Hverju vill Satan að við trúum? Nefndu dæmi.
5 Þegar við þiggjum fyrirgefningu Jehóva getum við forðast eina af gildrum Satans. Gleymum ekki að Satan gerir hvað sem er til að fá okkur til að hætta að þjóna Jehóva. Til að ná því takmarki reynir hann ef til vill að fá okkur til að trúa því að syndir okkar séu ófyrirgefanlegar. Hugleiddu reynslu mannsins í Korintu sem var vísað úr söfnuðinum fyrir kynferðislegt siðleysi. (1. Kor. 5:1, 5, 13) Þegar hann iðraðist vildi Satan að bræður og systur fyrirgæfu honum ekki – væru svo ströng að honum fyndist hann ekki velkominn til baka. Satan vildi líka að þessum iðrandi manni fyndist synd sín ófyrirgefanleg – að hann yrði svo ‚bugaður af hryggð‘ að hann myndi hætta að þjóna Jehóva. Satan hefur hvorki breytt um markmið né aðferðir og við ‚vitum hvaða brögðum hann beitir‘. – 2. Kor. 2:5–11.
6. Hvernig getum við varpað af okkur byrði sektarkenndar?
6 Þegar við þiggjum fyrirgefningu Jehóva getum við létt af okkur byrði sektarkenndar. Þegar við syndgum er eðlilegt að finna til sektarkenndar. (Sálm. 51:17) Það er í raun jákvætt. Samviskan getur knúið okkur til að stíga nauðsynleg skref til að leiðrétta stefnuna. (2. Kor. 7:10, 11) En ef við sleppum ekki takinu á sektarkenndinni löngu eftir að við höfum iðrast gætum við hreinlega bugast og gefist upp. Ef við hins vegar þiggjum fyrirgefningu Jehóva getum við varpað sektarkenndinni aftur fyrir okkur – þar sem hún á heima. Þá getum við þjónað Jehóva eins og hann vill – með hreinni samvisku og innilegri gleði. (Kól. 1:10, 11; 2. Tím. 1:3) En hvernig getum við sannfært hjarta okkar um að þiggja fyrirgefningu Guðs?
HVAÐ GETUR HJÁLPAÐ OKKUR AÐ ÞIGGJA FYRIRGEFNINGU JEHÓVA?
7, 8. Hvernig lýsti Jehóva sjálfum sér fyrir Móse og hvað getum við verið viss um? (2. Mósebók 34:6, 7)
7 Íhugum hvernig Jehóva lýsti sjálfum sér. Taktu eftir hvað Jehóva sagði Móse á Sínaífjalli.a (Lestu 2. Mósebók 34:6, 7.) Jehóva hefði getað nefnt ótalmarga eiginleika sína og hvernig hann lætur þá í ljós en hann kaus að byrja á því að lýsa sér sem ‚miskunnsömum og samúðarfullum‘. Myndi slíkur Guð neita tilbiðjendum sínum um fyrirgefningu þegar þeir iðruðust synda sinna innilega? Aldrei! Það myndi sýna miskunnarleysi og grimmd – eiginleika sem hann getur ekki sýnt.
8 Við getum verið viss um að Jehóva gæfi aldrei ranga mynd af sjálfum sér því að hann er „Guð sannleikans“. (Sálm. 31:5) Við getum tekið hann á orðinu. Ef þér finnst erfitt að sleppa takinu á sektarkennd vegna fyrri synda skaltu spyrja þig: Trúi ég því að Jehóva sé virkilega miskunnsamur og samúðarfullur og myndi aldrei neita neinum iðrandi syndara um fyrirgefningu? Ætti ég þá að efast um að hann sé búinn að fyrirgefa mér?
9. Hvað merkir það að fá syndir okkar fyrirgefnar? (Sálmur 32:5)
9 Íhugum hvað Jehóva innblés biblíuriturum að segja um fyrirgefningu sína. Hugleiddu til dæmis hvernig biblíuritarinn Davíð lýsti fyrirgefningu Jehóva. (Lestu Sálm 32:5.) Hann sagði: „Þú fyrirgafst mér sekt mína og synd.“ Hebreska orðið sem er þýtt „fyrirgefa“ getur merkt „lyfta upp“, „taka burt“ eða „bera“. Þegar Jehóva fyrirgaf Davíð lyfti hann í vissum skilningi syndum hans upp og bar þær í burtu. Þegar Davíð létti af sér byrði syndar leið honum betur. (Sálm. 32:2–4) Við getum líka fundið fyrir slíkum létti. Þegar við iðrumst einlæglega synda okkar þurfum við ekki að burðast áfram með sektarkennd því að Jehóva hefur lyft þeim af okkur og borið þær í burtu.
10, 11. Hvað segja orðin „fús til að fyrirgefa“ okkur um Jehóva? (Sálmur 86:5)
10 Lestu Sálm 86:5. Hér segir Davíð að Jehóva sé „fús til að fyrirgefa“. Biblíuskýringarit segir um þetta orðalag að Jehóva sé „fyrirgefandi í eðli sínu“. Hvers vegna er það í eðli hans að fyrirgefa? Seinni hluti versins útskýrir það: „Þú sýnir tryggan kærleika öllum sem ákalla þig.“ Eins og við lærðum í námsgreininni á undan knýr tryggur kærleikur Jehóva til að mynda sterk og varanleg tengsl við trúfasta tilbiðjendur sína. Tryggur kærleikur hans knýr hann til að ‚fyrirgefa fúslega‘ öllum sem iðrast synda sinna. (Jes. 55:7) Ef þér finnst erfitt að þiggja fyrirgefningu Guðs gætirðu spurt þig: Trúi ég að Jehóva fyrirgefi fúslega öllum sem iðrast og ákalla hann um miskunn? Ætti ég þá ekki að viðurkenna fyrir sjálfum mér að hann fyrirgaf mér þegar ég hrópaði til hans og bað um miskunn?
11 Það er hughreystandi að vita að Jehóva skilur til fullnustu syndugt eðli okkar. (Sálm. 139:1, 2) Þetta er augljóst af öðrum sálmi sem Davíð orti og getur líka auðveldað okkur að þiggja fyrirgefningu Jehóva.
GLEYMUM EKKI ÞVÍ SEM JEHÓVA MAN
12, 13. Hverju gleymir Jehóva ekki og hvaða áhrif hefur það á framkomu hans við okkur samkvæmt Sálmi 103:14?
12 Lestu Sálm 103:14. Davíð segir um Jehóva að hann „minnist þess að við erum mold“. Davíð útskýrir þannig hvers vegna Jehóva er tilbúinn að fyrirgefa iðrunarfullum tilbiðjendum: Hann er stöðugt minnugur þess að við höfum syndugar tilhneigingar. Skoðum það sem Davíð orti nánar til að fá gleggri skilning á þessu.
13 Davíð segir að Jehóva ‚viti vel hvernig við erum sköpuð‘. Hann mótaði Adam „af mold jarðar“ og veit mætavel að fullkomnum manneskjum eru takmörk sett. Þær þurfa meðal annars að borða, sofa og anda. (1. Mós. 2:7) En þegar Adam og Eva syndguðu fékk það nýja merkingu að vera af mold jarðar. Sem afkomendur þeirra erfðum við syndugt eðli og hneigjumst til að gera það sem er rangt. Jehóva er ekki einungis meðvitaður um syndugar tilhneigingar okkar, Davíð bendir á að hann „minnist þess“. Hebreska orðið sem er notað hér getur gefið til kynna að gera eitthvað jákvætt. Við getum dregið saman það sem Davíð sagði þannig: Jehóva skilur að við gerum stundum mistök. Þegar það gerist og við iðrumst innilega fær það hann til að sýna okkur miskunn og fyrirgefa okkur. – Sálm. 78:38, 39.
14. (a) Hversu langt nær fyrirgefning Jehóva samkvæmt því sem Davíð segir? (Sálmur 103:12) (b) Hvernig útskýrir Davíð að fyrirgefning Jehóva er alger? (Sjá einnig rammagreinina „Jehóva fyrirgefur og gleymir“.)
14 Hvað fleira getur fullvissað okkur um að Jehóva hafi fyrirgefið okkur? (Lestu Sálm 103:12.) Davíð segir að þegar Jehóva fyrirgefur fjarlægi hann syndir okkar „eins langt og sólarupprásin [í austri] er frá sólsetrinu [í vestri].“ Í vissum skilningi er austrið alltaf lengst frá vestrinu. Þessir tveir punktar mætast aldrei. Hvað segir þetta okkur um þær syndir sem Jehóva fyrirgefur? Uppsláttarrit orðar þetta þannig: „Ef synd er fjarlægð svo langa leið getum við verið viss um að hún sé algerlega horfin, að það finnist ekki einu sinni snefill af ‚lyktinni‘ af henni. Minningin um hana er á bak og burt.“ Lykt getur vakið upp minningu. En þegar Jehóva fyrirgefur er ekkert sem fær hann til að hugsa um syndir okkar aftur, minna okkur á þær eða refsa okkur fyrir þær. – Esek. 18:21, 22; Post. 3:19.
15. Hvað er til ráða ef við burðumst með þráláta sektarkennd yfir fyrri mistökum?
15 Hvernig getur það sem Davíð orti í Sálmi 103 auðveldað okkur að þiggja fyrirgefningu Jehóva? Ef við burðumst með þráláta sektarkennd vegna fyrri synda getum við spurt okkur: Gleymi ég því sem Jehóva man eftir, að hann minnist þess að ég hef syndugt eðli og vill fyrirgefa iðrunarfullum syndara eins og mér? Og man ég eftir því sem Jehóva kýs að gleyma, syndunum sem hann hefur fyrirgefið og myndi aldrei nota gegn mér? Jehóva horfir ekki á syndirnar sem við drýgðum áður fyrr. Við ættum ekki að gera það heldur. (Sálm. 130:3) Við getum fyrirgefið okkur fyrri mistök og horft fram á við þegar við þiggjum fyrirgefningu Jehóva.
16. Lýstu með dæmi hvers vegna það er hættulegt að sleppa ekki takinu af fyrri syndum. (Sjá einnig mynd.)
16 Tökum dæmi. Það má líkja því að sleppa ekki takinu af fyrri syndum við að reyna að keyra bíl á meðan maður horfir stöðugt í baksýnisspegilinn. Það er gott að líta öðru hvoru í spegilinn til að bregðast við hættum fyrir aftan bílinn. En til að komast öruggur áfram verður maður að beina athyglinni að veginum fram undan. Eins getur verið gagnlegt að líta öðru hvoru til baka til að læra af mistökum okkar og forðast að gera þau aftur. En ef við hugsum stöðugt um fyrri mistök getur sektarkenndin takmarkað það sem við gerum núna í þjónustu Jehóva. Hugsum frekar um veginn fram undan. Við erum á veginum sem liggur til lífs í nýjum heimi Guðs þar sem vondar minningar koma ekki lengur upp í hugann. – Jes. 65:17; Orðskv. 4:25.
Rétt eins og ökumaður þarf að horfa meira á veginn fram undan en í baksýnisspegilinn þurfum við að horfa meira á blessunina sem bíður okkar en á fyrri mistök. (Sjá 16. grein.)
HALTU ÁFRAM AÐ SANNFÆRA HJARTAÐ
17. Hvers vegna þurfum við að halda áfram að sannfæra hjarta okkar um kærleika Jehóva og fyrirgefningu?
17 Við þurfum að halda áfram að sannfæra hjarta okkar um kærleika Jehóva og fyrirgefningu. (1. Jóh. 3:19, neðanmáls) Hvers vegna? Vegna þess að Satan gefst ekki upp að reyna að sannfæra okkur um að við höfum drýgt ófyrirgefanlega synd eða að við verðskuldum ekki ást Jehóva. Hvort heldur er, markmiðið er það sama – að fá okkur til að hætta að þjóna Jehóva. Við getum átt von á að Satan herði róðurinn enn meir vegna þess að hann veit að tíminn er að renna út. (Opinb. 12:12) Við megum ekki láta hann vinna!
18. Hvað geturðu gert til að sannfæra hjarta þitt um kærleika Jehóva og fyrirgefningu?
18 Námsgreinin á undan benti á hvað þú þarft að gera til að vera vissari um að Jehóva elski þig. Þessi námsgrein sýnir hvernig þú getur verið viss um að Jehóva hefur fyrirgefið þér. Þú getur rifjað upp hvað Jehóva segir um sjálfan sig. Hugleiddu það sem hann lét ritara Biblíunnar segja um fyrirgefningu sína. Gleymdu ekki að honum er kunnugt um syndugt eðli þitt og sýnir þér miskunn. Og mundu að þegar hann fyrirgefur gerir hann það algerlega. Þannig geturðu treyst á miskunn Jehóva eins og Davíð og sagt: Takk, Jehóva, fyrir að fyrirgefa mér sekt mína og synd. – Sálm. 32:5.
SÖNGUR 1 Eiginleikar Jehóva
a Sjá greinina „Jehóva fyrirgefur ríkulega“ í Varðturninum 22. júní 2022, gr. 4–7.