Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 september bls. 8-13
  • Besta leiðin til að bregðast við óréttlæti

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Besta leiðin til að bregðast við óréttlæti
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • JEHÓVA OG JESÚS HATA ÓRÉTTLÆTI
  • VIÐBRÖGÐ JESÚ VIÐ RANGLÆTI
  • LÍKJUM EFTIR JESÚ ÞEGAR VIÐ MÆTUM ÓRÉTTLÆTI
  • HVERNIG GETUM VIÐ BRUGÐIST VIÐ RANGLÆTI NÚNA?
  • Hvernig er best að bregðast við óréttlæti?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Verður ákalli eftir réttlæti svarað?
    Fleiri viðfangsefni
  • Biblíuspurningar og svör
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
  • „Er Guð óréttlátur?“
    Nálgastu Jehóva
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 september bls. 8-13

NÁMSGREIN 37

SÖNGUR 114 Verum þolinmóð

Besta leiðin til að bregðast við óréttlæti

„Hann vonaðist eftir réttlæti en þar var tómt ranglæti.“ – JES. 5:7.

Í HNOTSKURN

Við skoðum hvernig Jesús brást við þegar hann sá fólk beitt órétti og lærum af fordæmi hans.

1, 2. Hvernig bregðast margir við óréttlæti og hverju veltum við kannski fyrir okkur?

VIÐ lifum í ranglátum heimi. Fólk er beitt órétti af mörgum ástæðum, eins og vegna efnahags, kynferðis, uppruna eða kynþáttar. Fólk þjáist vegna umhverfisvanda sem gráðugir kaupsýslumenn og spilltir stjórnmálamenn valda. Ofan á þetta bætist ranglæti sem við verðum öll fyrir beint eða óbeint.

2 Það er ekki að undra að margir skuli vera reiðir vegna óréttlætisins sem þeir horfa upp á nú á dögum. Við þráum öll að lifa í heimi þar sem við erum örugg og njótum sanngirni. Sumir hafa farið út í að berjast fyrir þjóðfélagsumbótum. Þeir vonast til að undirskriftasafnanir, mótmælagöngur og stuðningur við stjórnmálaleiðtoga sem lofa að leiðrétta óréttlæti, nái að laga málin. En okkur, þjónum Jehóva, er kennt að „tilheyra ekki heiminum“ og bíða eftir að Guðsríki útrými öllu óréttlæti. (Jóh. 17:16) Við getum hins vegar ekki að því gert að okkur bregður við – reiðumst jafnvel – þegar við sjáum einhvern beittan órétti. Við gætum velt fyrir okkur: Hvað er hægt að gera? Er eitthvað sem ég get gert í málinu núna? Til að fá svör við þessum spurningum skulum við byrja á því að skoða hvaða áhrif óréttlæti hefur á Jehóva og Jesú.

JEHÓVA OG JESÚS HATA ÓRÉTTLÆTI

3. Hvers vegna er skiljanlegt að við getum orðið reið vegna óréttlætis? (Jesaja 5:7)

3 Biblían sýnir hvers vegna ranglæti fer fyrir brjóstið á okkur. Hún útskýrir að Jehóva skapaði okkur í sinni mynd og að hann „elskar réttlæti og réttvísi“. (Sálm. 33:5; 1. Mós. 1:26) Hann er aldrei ranglátur og vill ekki að neinn hagi sér þannig. (5. Mós. 32:3, 4; Míka 6:8; Sak. 7:9) Á tíma Jesaja spámanns heyrði Jehóva „örvæntingaróp“ margra Ísraelsmanna sem sættu illri meðferð af hendi samlanda sinna. (Lestu Jesaja 5:7.) Jehóva refsaði þeim sem hunsuðu lög hans ítrekað og beittu aðra órétti. – Jes. 5:5, 13.

4. Hvernig leiðir frásaga í guðspjöllunum í ljós hvernig Jesús leit á ranglæti? (Sjá einnig mynd.)

4 Jesús elskar réttlæti og hatar ranglæti alveg eins og Jehóva. Meðan á þjónustu Jesú á jörð stóð sá hann fatlaðan mann með visna hönd. Hann langaði að hjálpa honum en trúarleiðtogarnir voru harðbrjósta og litu öðruvísi á málið. Þeim var meira í mun að krefjast hlýðni við túlkun sína á hvíldardagslögunum en að koma lamaða manninum til hjálpar. Hvað fannst Jesú um viðbrögð þeirra? Hann var „miður sín yfir kaldlyndi þeirra“. – Mark. 3:1–6.

Jesús talar við trúarleiðtoga Gyðinga í samkunduhúsi um manninn með visnu höndina sem hann er í þann mund að lækna. Trúarleiðtogarnir horfa með fyrirlitningu á Jesú.

Trúarleiðtogar Gyðinga höfðu ekki samúð með bágstöddum, en Jesús hafði það. (Sjá 4. grein.)


5. Hverju megum við ekki gleyma varðandi reiði þegar við horfum upp á ranglæti?

5 Þar sem bæði Jehóva og Jesús reiðast yfir óréttlæti eru slíkar tilfinningar ekki rangar og því ekki óeðlilegt að við finnum fyrir þeim. (Ef. 4:26 og skýring við „be wrathful“ í námsbiblíunni á tungumáli sem þú skilur.) En við megum samt ekki gleyma að reiði sem við finnum fyrir – jafnvel þótt hún sé réttmæt – getur ekki leiðrétt ranglæti. Áframhaldandi eða stjórnlaus reiði getur skaðað okkur tilfinningalega og líkamlega. (Sálm. 37:1, 8; Jak. 1:20) Hvað ættum við að gera þegar við verðum fyrir ranglæti eða horfum upp á það? Við getum lært af Jesú í þessu sambandi.

VIÐBRÖGÐ JESÚ VIÐ RANGLÆTI

6. Hvers konar ranglæti var algengt þegar Jesús var á jörðinni? (Sjá einnig mynd.)

6 Jesús horfði upp á mikið ranglæti þegar hann var á jörðinni. Hann sá hvernig trúarleiðtogarnir kúguðu almenning. (Matt. 23:2–4) Hann var meðvitaður um hversu harðneskjulega rómversk yfirvöld komu fram við fólk. Margir Gyðingar þráðu sjálfstæði frá Róm. Sumir þeirra, eins og sílótar, voru tilbúnir til að berjast fyrir því. En Jesús stofnaði hvorki né studdi hreyfingar til að berjast fyrir þjóðfélagsumbótum. Hann yfirgaf svæðið þegar fólk reyndi að gera hann að konungi. – Jóh. 6:15.

Jesús gengur einn eftir göngustíg upp á fjall. Mikill mannfjöldi er við rætur fjallsins.

Jesús gekk í burt frá fólkinu þegar það vildi að hann tæki þátt í stjórnmálum. (Sjá 6. grein.)


7, 8. Hvers vegna reyndi Jesús ekki að uppræta ranglæti þegar hann var á jörðinni? (Jóhannes 18:36)

7 Jesús reyndi ekki að vinna með stjórnmálaöflum til að uppræta ranglæti. Hvers vegna ekki? Hann vissi að mennirnir hafa hvorki réttinn né hæfnina til að stjórna sér sjálfir. (Sálm. 146:3; Jer. 10:23) Þeir eru líka ófærir um að ráðast að rótum vandans, því sem veldur ranglætinu. Stjórnandi heimsins er Satan Djöfullinn, morðóð andavera, sem notar vald sitt til að ýta undir ranglæti. (Jóh. 8:44; Ef. 2:2) Og vegna ófullkomleikans er jafnvel besta fólki ómögulegt að vera alltaf sanngjarnt. – Préd. 7:20.

8 Jesús vissi að aðeins Guðsríki myndi geta upprætt orsök ranglætis algerlega. Fyrir vikið notaði hann tíma sinn og krafta til að ‚boða fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs‘. (Lúk. 8:1) Hann fullvissaði þá „sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti“ um að spilling og ranglæti tækju enda. (Matt. 5:6 og skýring í námsbiblíunni á tungumáli sem þú skilur; Lúk. 18:7, 8) En það verður ekki gert með þjóðfélagsumbótum heldur fyrir tilstilli himnesks ríkis sem „tilheyrir ekki þessum heimi“. – Lestu Jóhannes 18:36.

LÍKJUM EFTIR JESÚ ÞEGAR VIÐ MÆTUM ÓRÉTTLÆTI

9. Hvað sannfærir þig um að aðeins Guðsríki geti upprætt allt ranglæti?

9 Nú á dögum sjáum við jafnvel enn meira ranglæti heldur en Jesús sá þegar hann var á jörðinni. En orsök ranglætisins á þessum „síðustu dögum“ er eftir sem áður Satan og ófullkomið fólk undir áhrifum hans. (2. Tím. 3:1–5, 13; Opinb. 12:12) Rétt eins og Jesús vitum við að það er bara Guðsríki sem getur upprætt orsakir ranglætisins. Sem talsmenn Guðsríkis getum við ekki tekið þátt í mótmælagöngum og aðgerðum til að berjast gegn ranglæti. Skoðum reynslu Stacy systur okkar.a Áður en hún kynntist sannleikanum tók hún oft þátt í mótmælum til að berjast fyrir þjóðfélagsumbótum. En með tímanum fór hún að efast um að það væri rétt. Hún segir: „Þegar ég tók þátt í mótmælum velti ég því fyrir mér hvort ég væri réttum megin. Núna styð ég Guðsríki og veit að ég er réttum megin. Ég veit að Jehóva mun berjast fyrir hverju einasta fórnarlambi kúgunar og gera það langtum betur en ég gæti nokkurn tíma gert.“ – Sálm. 72:1, 4.

10. Á hvaða hátt eru umbótahreyfingar í andstöðu við ráð Jesú í Matteusi 5:43–48? (Sjá einnig mynd.)

10 Umbótahreyfingar einkennast oft af sjálfstæðisanda og beiskju sem er í andstöðu við fordæmi Jesú og kenningar. (Ef. 4:31) Bróðir sem heitir Jeffrey hefur þetta að segja: „Í tiltölulega friðsömum mótmælum getur ofbeldi blossað upp á augabragði og fólk jafnvel farið að ræna og rupla.“ En Jesús kenndi að við ættum að koma vel fram við alla og af kærleika, jafnvel þá sem eru okkur ósammála eða ofsækja okkur. (Lestu Matteus 5:43–48.) Kristnir menn forðast allt sem stangast á við það fordæmi sem Jesús setti.

Systir horfir beint af augum þegar hún gengur fram hjá hópi mótmælenda á fjölfarinni götu, róleg í fasi.

Það krefst staðfestu að vera hlutlaus gagnvart stjórnmálalegum og félagslegum málefnum okkar tíma. (Sjá 10. grein.)


11. Hvað getur reynt á staðfestu okkar að taka ekki þátt í starfsemi umbótahreyfinga?

11 Þótt við vitum að Guðsríki eigi eftir að uppræta ranglæti gæti okkur þótt erfitt að líkja eftir Jesú þegar óréttlætið snýr að okkur sjálfum. Skoðum reynslu Janiyu sem varð fyrir mismunun. Hún viðurkennir: „Ég varð bálreið. Ég var særð og vildi að þeim sem voru ábyrgir yrði refsað. Þá velti ég því fyrir mér að styðja hreyfingu sem barðist gegn kynþáttafordómum og mismunun. Mér fannst þetta örugg leið til að tjá reiði mína.“ En með tímanum áttaði Janiya sig á því að hún þyrfti að gera breytingar. „Ég lét aðra hafa áhrif á mig í þá átt að treysta mönnum í staðinn fyrir Jehóva,“ segir hún. „Ég ákvað að slíta sambandinu við fólk í hreyfingunni.“ Við þurfum að vara okkur á því að leyfa réttlátri reiði að verða til þess að við hvikum frá hlutleysi okkar varðandi stjórnmál heimsins og þjóðfélagsmál. – Jóh. 15:19.

12. Hvers vegna er skynsamlegt að vera vandfýsin á það hvaða upplýsingar við skoðum og hlustum á?

12 Hvað getur hjálpað okkur að hafa stjórn á reiði þegar við sjáum ranglæti? Mörgum hefur fundist hjálplegt að vera vandfýsnir á það sem þeir lesa, hlusta á og horfa á. Margt sem er sagt á netinu og samfélagsmiðlum er í æsifréttastíl til að hvetja fólk til að styðja ákveðnar umbótahreyfingar. Oft mótast fréttir af skoðunum fréttamiðla. Erum við eitthvað bættari ef við veltum endalaust fyrir okkur fréttum af ranglæti? Ef við notum mikinn tíma í að skoða og hlusta á slíkar upplýsingar getum við orðið óþarflega kvíðin eða niðurdregin. (Orðskv. 24:10) Og það sem verra er, við gætum misst sjónar á einu lausninni á öllu ranglæti – Guðsríki.

13. Hvernig getur góð biblíulestraráætlun hjálpað okkur að hafa rétt viðhorf til ranglætis?

13 Góð biblíulestraráætlun og að hugleiða það sem við lesum getur hjálpað okkur að bregðast rétt við ranglæti. Það hafði djúpstæð áhrif á systur okkar Aliu þegar hún sá hversu illa var komið fram við fólk í hennar samfélagi. Það leit út fyrir að þeir sem báru ábyrgð á því kæmust upp með það. Hún segir: „Ég þurfti hreinlega að setjast niður og spyrja sjálfa mig: ‚Trúi ég því í raun og veru að Jehóva muni leysa þessi vandamál?‘ Á þessum tímapunkti las ég Jobsbók 34:22–29. Þessi vers minntu mig á að það er ekki hægt að fela neitt fyrir Jehóva. Hann einn hefur fullkomna réttlætiskennd og hann einn getur leiðrétt málin að fullu.“ En hvað getum við gert á meðan við bíðum eftir að Guðsríki komi á fullkomnu réttlæti?

HVERNIG GETUM VIÐ BRUGÐIST VIÐ RANGLÆTI NÚNA?

14. Hvað getum við gert til að forðast að stuðla að ranglæti heimsins? (Kólossubréfið 3:10, 11)

14 Það er ef til vill ekki á okkar færi að stjórna því hvernig fólk kemur fram hvert við annað en við getum haft stjórn á okkar eigin gerðum. Eins og þegar hefur verið rætt líkjum við eftir Jesú með því að sýna kærleika. Slíkur kærleikur knýr okkur til að sýna öðrum virðingu – jafnvel þeim sem beita aðra misrétti. (Matt. 7:12; Rómv. 12:17) Það gleður Jehóva þegar við komum fram við alla af góðvild og sanngirni. – Lestu Kólossubréfið 3:10, 11.

15. Hvaða áhrif hefur það á ranglætið að segja öðrum frá sannleika Biblíunnar?

15 Besta leiðin til að bregðast við ranglæti er að segja öðrum frá sannleika Biblíunnar. ‚Þekkingin á Jehóva‘ getur breytt fólki sem áður var árásarhneigt og ofbeldisfullt í vingjarnlega einstaklinga sem elska frið. (Jes. 11:6, 7, 9) Áður en maður að nafni Jemal kynntist sannleikanum gekk hann í lið uppreisnarmanna sem börðust gegn stjórnvöldum sem hann áleit beita ofríki. Hann segir: „Það er ekki hægt að þvinga fólk til að breyta sér. Ég var ekki þvingaður til að breyta mér, það voru biblíusannindi sem ég lærði sem breyttu mér.“ Það sem Jemal lærði hvatti hann til að hætta að berjast. Því fleiri sem leyfa Biblíunni að breyta sér því færri eru það sem auka á ranglætið.

16. Hvað örvar þig til að segja öðrum frá von Biblíunnar um Guðsríki?

16 Við erum, líkt og Jesús, áköf að segja fólki að aðeins Guðsríki geti séð fyrir varanlegri lausn á ranglæti. Þessi von getur uppörvað þá sem hafa verið beittir misrétti. (Jer. 29:11) Stacy, sem áður er minnst á, segir: „Þegar ég kynntist sannleikanum gat ég tekist á við óréttlætið sem ég hef orðið fyrir og séð í kringum mig. Jehóva notar boðskap Biblíunnar til að hugga fólk.“ Við þurfum að vera vel undirbúin til að segja öðrum frá huggandi boðskap Biblíunnar um lausnina á ranglætinu. Því sannfærðari sem þú ert um sannleiksgildi Biblíunnar, eins og fjallað er um í þessari námsgrein, því betur ertu í stakk búinn til að ræða þetta málefni af háttvísi ef það ber á góma í skólanum eða vinnunni.b

17. Hvernig hjálpar Jehóva okkur að takast á við ranglætið sem við horfum upp á?

17 Við vitum að við munum mæta ranglæti eins lengi og Satan er ‚stjórnandi þessa heims‘. En við erum ekki skilin eftir án hjálpar eða vonar á meðan við bíðum eftir að honum verði „kastað út“. (Jóh. 12:31). Út í gegnum alla Biblíuna upplýsir Jehóva okkur bæði um það hvers vegna það er svona mikið ranglæti og hvað honum finnst um þjáningarnar sem það veldur okkur. (Sálm. 34:17–19) Hann kennir okkur fyrir milligöngu sonar síns hvernig við ættum að bregðast við ranglætinu núna og hvernig ríki hans mun brátt uppræta óréttlæti í eitt skipti fyrir öll. (2. Pét. 3:13) Gerum allt sem við getum til að boða fagnaðarboðskapinn um ríkið meðan við hlökkum til þess tíma þegar jörðin verður full af „réttvísi og réttlæti“. – Jes. 9:7.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvers vegna þjakar ranglætið okkur svona mikið?

  • Hvers vegna treystum við því ekki að menn geti barist gegn ranglæti?

  • Hvað getum við gert þegar við eða aðrir verða fyrir ranglæti?

SÖNGUR 158 Senn kemur dagurinn

a Sumum nöfnum hefur verið breytt.

b Sjá einnig viðauka A, liði 24–27 í bæklingnum Elskum fólk og gerum það að lærisveinum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila