NÁMSGREIN 38
SÖNGUR 120 Líkjum eftir hógværð Krists
Sýnum öðrum virðingu
„Að njóta virðingar er betra en silfur og gull.“ – ORÐSKV. 22:1.
Í HNOTSKURN
Við lærum hvers vegna við eigum að sýna öðrum virðingu og hvernig við getum gert það við erfiðar aðstæður.
1. Hvers vegna kunnum við að meta það þegar aðrir sýna okkur virðingu? (Orðskviðirnir 22:1)
KANNTU að meta það þegar aðrir sýna þér virðingu? Vafalaust gerirðu það. Okkur líður vel þegar aðrir sýna okkur virðingu. Það er ein af grunnþörfum okkar. Engin furða að Biblían segi að það „að njóta virðingar [sé] betra en silfur og gull“. – Lestu Orðskviðina 22:1.
2, 3. Hvers vegna er ekki alltaf auðvelt að sýna öðrum virðingu og hvað lærum við í þessari námsgrein?
2 Það er ekki alltaf auðvelt að sýna öðrum virðingu. Við eigum oft auðvelt með að koma auga á galla annarra. Nú á dögum sýnir fólk öðrum gjarnan óvirðingu. En við verðum að haga okkur öðruvísi. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva vill að við virðum „alls konar menn“. – 1. Pét. 2:17.
3 Í þessari námsgrein lærum við hvað það merkir að sýna öðrum virðingu og hvernig við getum sýnt virðingu í samskiptum við (1) fjölskylduna, (2) trúsystkini og (3) þá sem eru ekki í söfnuðinum. Við beinum athyglinni sérstaklega að því hvernig við getum sýnt öðrum virðingu við erfiðar aðstæður.
HVAÐ MERKIR ÞAÐ AÐ BERA VIRÐINGU FYRIR ÖÐRUM?
4. Hvað merkir það að virða aðra?
4 Orðið virðing felur í sér viðhorf okkar til annarra og hvernig við komum fram við þá. Okkur finnst kannski aðrir eiga skilið virðingu okkar vegna góðra eiginleika þeirra, þess sem þeir hafa áorkað eða stöðu þeirra. En virðing verður að sjálfsögðu að koma frá hjartanu til að hún sé einlæg. – Matt. 15:8.
5. Hvað getur auðveldað okkur að sýna öðrum virðingu?
5 Jehóva vill að við sýnum öðrum virðingu. Hann fer til dæmis fram á að við sýnum „yfirvöldum“ virðingu. (Rómv. 13:1, 7) En sumir gætu sagt: „Ég er tilbúinn að sýna öðrum virðingu svo framarlega sem þeir hafa áunnið sér hana.“ En er rétt að hugsa þannig? Sem vottar Jehóva höfum við lært að virðing fyrir öðrum er ekki eingöngu byggð á verkum þeirra heldur einhverju mikilvægara – kærleika okkar til Jehóva og löngun til að gleðja hann. – Jós. 4:14; 1. Pét. 3:15.
6. Getum við sýnt þeim virðingu sem sýnir okkur óvirðingu? Rökstyddu. (Sjá einnigmynd.)
6 Sumir gætu velt fyrir sér hvort það sé mögulegt að sýna þeim sem kemur illa fram við mann virðingu. Skoðum nokkur dæmi. Sál konungur niðurlægði Jónatan son sinn fyrir framan aðra. (1. Sam. 20:30–34) En Jónatan sýndi föður sínum samt virðingu og barðist með honum allt til dauðadags. (2. Mós. 20:12; 2. Sam. 1:23) Elí æðstiprestur sakaði Hönnu um að vera drukkin. (1. Sam. 1:12–14) En Hanna talaði af virðingu við hann jafnvel þótt allir í Ísrael vissu að hann hefði brugðist sem faðir og æðstiprestur. (1. Sam. 1:15–18; 2:22–24) Og Aþeningar sýndu Páli postula óvirðingu og kölluðu hann ‚kjaftask‘. (Post. 17:18) En þrátt fyrir það talaði Páll við þá af virðingu. (Post. 17:22) Þessi dæmi sýna að djúpur kærleikur til Jehóva og ótti við að vera honum ekki þóknanleg getur auðveldað okkur að sýna öðrum virðingu, ekki aðeins þegar það er auðvelt heldur líka þegar á reynir. Skoðum núna hverjir verðskulda virðingu okkar og hvers vegna.
Jónatan hélt áfram að verja og styðja föður sinn sem konung þótt hann hefði niðurlægt hann. (Sjá 6. grein.)
SÝNDU VIRÐINGU Í FJÖLSKYLDUNNI
7. Af hverju er stundum erfitt fyrir okkur að sýna öðrum í fjölskyldunni virðingu?
7 Áskorunin. Við verjum miklum tíma með okkar nánustu. Fyrir vikið þekkjum við bæði styrkleika þeirra og veikleika. Sumir eiga kannski við veikindi að stríða sem gerir okkur erfitt fyrir að annast þá. Eða þeir eru að berjast við mikinn kvíða. Aðrir segja kannski eða gera eitthvað sem særir okkur. Á sumum heimilum er andrúmsloftið spennuþrungið vegna þess að fólk sýnir hvert öðru ekki virðingu og þar af leiðandi verður fjölskyldan ekki samhent. Rétt eins og liðagigt gerir útlimum erfitt fyrir að vinna auðveldlega saman spillir óvirðing í fjölskyldunni einingu hennar. En ólíkt liðagigt sem við getum ekki læknað að fullu getum við komið í veg fyrir að óvirðing skemmi samskipti innan fjölskyldunnar.
8. Hvers vegna er mikilvægt að sýna öðrum í fjölskyldunni virðingu? (1. Tímóteusarbréf 5:4, 8)
8 Hvers vegna ættum við að sýna virðingu? (Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:4, 8.) Í fyrra bréfi sínu til Tímóteusar ræðir Páll um það hvernig allir í fjölskyldunni geti stuðlað að vellíðan hennar. Hann útskýrir að við ættum að sýna öðrum í fjölskyldunni virðingu, ekki einungis af skyldurækni heldur líka guðrækni. Það merkir að við gerum þetta af því að við elskum Jehóva og lítum á það sem hluta af tilbeiðslunni. Hann stofnaði fjölskylduna. (Ef. 3:14, 15) Við erum í rauninni að sýna Jehóva, höfundi fjölskyldunnar, virðingu þegar við sýnum öðrum í fjölskyldu okkar virðingu. (Sjá skýringu við 1. Tímóteusarbréf 5:4 í námsbiblíu á tungumáli sem þú skilur.) Við höfum því ríka ástæðu til að sýna öðrum í fjölskyldunni virðingu.
9. Hvernig geta hjón sýnt hvort öðru virðingu? (Sjá einnig myndir.)
9 Hvernig sýnum við virðingu? Eiginmaður sem virðir konuna sína sýnir að hún er honum kær, bæði þegar þau eru ein og innan um aðra. (Orðskv. 31:28; 1. Pét. 3:7) Hann slær aldrei til hennar, niðurlægir hana eða lætur henni finnast hún einskis virði. Ariela sem býr í Argentínu segir: „Konan mín á við veikindi að stríða og segir stundum eitthvað særandi við mig. Þegar það gerist reyni ég að minna mig á að hún meinar ekki það sem hún segir. Á erfiðum augnablikum rifja ég upp 1. Korintubréf 13:5 sem hvetur mig til að tala við hana með virðingu frekar en að gera lítið úr henni.“ (Orðskv. 19:11) Kona sem virðir mann sinn talar vel um hann við aðra. (Ef. 5:33) Hún forðast að gagnrýna hann harkalega, hæðast að honum eða uppnefna hann. Hún gerir sér grein fyrir að slík hegðun er eins og ryð sem eyðileggur hjónabandið. (Orðskv. 14:1) Skoðum hvað systir nokkur á Ítalíu segir en eiginmaður hennar glímir við kvíða. „Stundum finnst mér maðurinn minn gera sér óþarfa áhyggjur. Orð mín og svipbrigði áður fyrr sýndu augljóslega að mig skorti virðingu fyrir honum. En því meir sem ég umgengst fólk sem talar um aðra af virðingu því meiri hvatningu fæ ég til að sýna eiginmanni mínum virðingu.“
Með því að sýna virðingu í fjölskyldunni heiðrum við höfuð fjölskyldunnar, Jehóva Guð. (Sjá 9. grein.)
10. Hvernig getur ungt fólk sýnt að það virðir foreldra sína?
10 Þið unga fólkið, fylgið reglunum sem foreldrar ykkar setja ykkur. (Ef. 6:1–3) Talið af virðingu við foreldra ykkar. (2. Mós. 21:17) Þegar þeir eldast gætu þeir þurft meira á aðstoð ykkar að halda. Gerið ykkar besta til að annast þá. María, sem er vottur Jehóva, á pabba sem er ekki í trúnni. Hann veiktist og það var erfitt fyrir hana að annast hann þar sem hann kom ekki vel fram við hana. Hún segir: „Ég bað til Jehóva um hjálp til að bera virðingu fyrir föður mínum en ég bað hann líka að hjálpa mér að sýna hana í verki. Ég hugsaði með mér að fyrst Jehóva segir mér að heiðra foreldra mína getur hann líka gefið mér styrk til þess og ég áttaði mig á að þótt pabbi héldi áfram að vera erfiður við mig þyrfti ég samt að sýna honum virðingu.“ Þegar við sýnum okkar nánustu virðingu þrátt fyrir bresti þeirra endurspeglar það virðingu okkar fyrir fyrirkomulagi Jehóva.
SÝNUM TRÚSYSTKINUM VIRÐINGU
11. Hvers vegna getur verið erfitt að koma fram við trúsystkini okkar af virðingu?
11 Áskorunin. Trúsystkini okkar hafa meginreglur Biblíunnar að leiðarljósi. En þau geta samt stundum dregið rangar ályktanir um okkur, verið óvingjarnleg eða farið í taugarnar á okkur. Við getum átt erfitt með að sýna bræðrum og systrum virðingu þegar þau gefa okkur „ástæðu til að kvarta“. (Kól. 3:13) Hvað getur hjálpað okkur að sýna trúsystkini okkar áfram virðingu?
12. Hvers vegna er mikilvægt að sýna trúsystkinum okkar virðingu? (2. Pétursbréf 2:9–12)
12 Hvers vegna ættum við að sýna virðingu? (Lestu 2. Pétursbréf 2:9–12.) Í síðara innblásna bréfi sínu talar Pétur um að sumir í kristna söfnuðinum á þeim tíma hafi talað af óvirðingu um „hina dýrlegu“, það er að segja öldunga safnaðarins. Hvernig brugðust trúfastir englar við sem fylgdust með? Af „virðingu fyrir Jehóva“ sögðu þeir ekki eitt styggðaryrði um þetta fólk. Þessir fullkomnu englar vildu ekki segja neitt neikvætt um þessa hrokafullu menn. Þeir létu það í hendur Jehóva að dæma þá og ávíta. (Rómv. 14:10–12; samanber Júdasarbréfið 9.) Hvað lærum við af þessum englum? Við eigum ekki að sýna andstæðingum óvirðingu og því síður trúsystkinum okkar. Við ættum þvert á móti að ‚eiga frumkvæðið að því að sýna öðrum virðingu‘. (Rómv. 12:10) Þannig sýnum við Jehóva virðingu.
13, 14. Hvernig getum við sýnt öðrum í söfnuðinum virðingu? Nefndu dæmi. (Sjá einnig myndir.)
13 Hvernig sýnum við virðingu? Öldungar, hafið alltaf kærleikann að leiðarljósi þegar þið leiðbeinið öðrum. (Fílem. 8, 9) Ef þið þurfið að gefa einhverjum ráð gerið það þá vingjarnlega en ekki þegar þið eruð pirraðir. Systur, þið stuðlið að virðingu og góðu andrúmslofti í söfnuðinum þegar þið takið ekki þátt í neikvæðu tali um aðra eða berið út rógburð. (Tít. 2:3–5) Við getum öll sýnt að við berum virðingu fyrir safnaðaröldungunum með því að vera samvinnuþýð og tjá þeim þakklæti fyrir allt sem þeir leggja á sig fyrir söfnuðinn. Þeir skipuleggja meðal annars samkomur og boðunina og hjálpa þeim sem hafa ‚farið út af sporinu‘. – Gal. 6:1; 1. Tím. 5:17.
14 Systur að nafni Rocío fannst erfitt að virða öldung sem gaf henni ráð. „Mér fannst hann strangur við mig,“ segir hún. „Ég talaði neikvætt um hann á heimilinu. Ég reyndi að láta ekki á því bera en innst inni efaðist ég um hvatir hans og hunsaði ráð hans.“ Hvað gerði Rocío í málinu? Hún segir: „Í biblíulestri mínum rakst ég á nokkuð sem snerti mig í 1. Þessaloníkubréfi 5:12, 13. Ég fékk samviskubit þegar ég áttaði mig á að ég sýndi þessum bróður ekki virðingu. Ég bað til Jehóva og leitaði fanga í ritum okkar til að fá hjálp til að breyta viðhorfi mínu. Það opnaði augu mín fyrir því að vandamálið var ekki bróðirinn heldur mitt eigið stolt. Ég sé núna að það eru tengsl milli þess að vera auðmjúkur og sýna öðrum virðingu. Ég á enn langt í land en ég finn að Jehóva er ánægður með viðleitni mína.“
Við getum öll sýnt að við virðum safnaðaröldungana með því að vera samvinnuþýð og tjá þeim þakklæti fyrir allt sem þeir leggja á sig fyrir söfnuðinn. (Sjá 13. og 14. grein.)
SÝNUM ÖÐRUM VIRÐINGU
15. Hvers vegna gæti okkur þótt erfitt að sýna fólki utan safnaðarins virðingu?
15 Áskorunin. Oft hittum við fólk í boðuninni sem virðist ekki bera neina virðingu fyrir Guði eða Biblíunni. (Ef. 4:18) Sumir vilja ekki vita neitt um boðskapinn vegna þess sem þeim hefur verið kennt á unga aldri. Vinnufélagar eða skólafélagar eru kannski óvingjarnlegir við okkur. Og við gætum verið með kennara eða yfirmann sem er erfitt að gera til geðs. Við gætum með tímanum misst virðinguna fyrir þeim og hætt að koma fram við þá eins og við myndum vilja að komið sé fram við okkur.
16. Hvers vegna er mikilvægt að sýna þeim sem eru ekki enn þjónar Jehóva virðingu? (1. Pétursbréf 2:12; 3:15)
16 Hvers vegna ættum við að sýna virðingu? Gleymum ekki að Jehóva tekur eftir hvernig við komum fram við þá sem eru ekki í söfnuðinum. Pétur postuli minnti kristna menn á að aðrir myndu ef til vill ‚lofa Guð‘ þegar þeir sæju góð verk þeirra. Þess vegna lagði hann ríka áherslu á að þeir ættu að verja trú sína „með hógværð og djúpri virðingu“. (Lestu 1. Pétursbréf 2:12; 3:15.) Hvort sem þeir þyrftu að verja trú sína fyrir dómstólum eða í samtali við nágranna áttu kristnir menn alltaf að gera það af virðingu eins og þeir væru frammi fyrir Guði. Jehóva sér og heyrir hvað við segjum og hvernig við segjum það. Er þetta ekki góð ástæða til að koma fram við þá sem eru ekki í söfnuðinum af virðingu?
17. Hvernig getum við sýnt þeim sem eru ekki í söfnuðinum virðingu?
17 Hvernig sýnum við virðingu? Í boðuninni viljum við ekki láta aðra fá þá tilfinningu að við lítum niður á þá sem hafa litla eða enga biblíuþekkingu. Við viljum líta á aðra sem gersemar í augum Guðs og okkur meiri. (Hag. 2:7; Fil. 2:3) Ef einhver gerir lítið úr þér vegna trúarskoðana þinna skaltu ekki svara í sömu mynt. Þú ættir til dæmis ekki að segja neitt sem upphefur þig en gerir lítið úr viðmælanda þínum. (1. Pét. 2:23) Ef þú segir eitthvað sem þú sérð eftir skaltu biðjast afsökunar strax. Hvernig geturðu sýnt virðingu fyrir vinnufélögum þínum? Vertu samviskusamur starfskraftur og reyndu að vera jákvæður í garð vinnufélaga þinna og vinnuveitanda. (Tít. 2:9, 10) Þú getur verið viss um að Jehóva er ánægður ef þú ert heiðarlegur og duglegur starfsmaður hvort sem aðrir taka eftir því eða ekki. – Kól. 3:22, 23.
18. Hvers vegna er mikilvægt að vinna að því að sýna öðrum virðingu?
18 Við höfum sannarlega góðar ástæður til að vinna að því að sýna öðrum virðingu. Við höfum lært að með því að sýna virðingu í fjölskyldunni heiðrum við höfuð fjölskyldunnar, Jehóva Guð. Þegar við sýnum bræðrum og systrum í söfnuðinum virðingu heiðrum við sömuleiðis föður okkar á himnum. Og þegar við sýnum þeim virðingu sem eru ekki í söfnuðinum gæti það orðið til þess að þeir fari að lofa okkar mikla Guð. Það er alltaf mikilvægt að sýna öðrum virðingu, jafnvel þótt okkur sé ekki sýnd virðing á móti. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva mun blessa okkur. Hann lofar: „Ég heiðra þá sem heiðra mig.“ – 1. Sam. 2:30.
SÖNGUR 129 Reynumst þolgóð
a Sumum nöfnum hefur verið breytt.