Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 október bls. 2-5
  • 1925 – fyrir hundrað árum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • 1925 – fyrir hundrað árum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ÓUPPFYLLTAR VÆNTINGAR
  • ÚTVARPSSTÖÐVAR BYGGÐAR
  • MIKILVÆG SANNINDI
  • VOTTAR JEHÓVA
  • ÁHUGASAMIR HEIMSÓTTIR AFTUR
  • HORFT TIL FRAMTÍÐAR
  • 1924 – fyrir hundrað árum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • 1922 – fyrir hundrað árum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • Boðunaraðferðir – allar leiðir notaðar til að ná til fólks
    Ríki Guðs stjórnar
  • Nútíma-uppfinningar notaðar til að útbreiða fagnaðarerindið
    Vaknið! – 1985
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 október bls. 2-5
Stærðarinnar hópur bræðra og systra stillir sér upp fyrir myndatöku á mótinu árið 1925 í Indianapolis í Indiana.

Mót í Indianapolis í Indiana árið 1925.

1925 – fyrir hundrað árum

„ÞJÓNAR GUÐS hafa horft til þessa árs með mikilli eftirvæntingu,“ segir í Varðturninum 1. janúar 1925. En áfram segir: „Kristnir menn ættu samt ekki að vera svo uppteknir af því sem kann að gerast á árinu að það dragi athyglina frá því að vinna það verk sem Drottinn vill að þeir sinni.“ Hverju áttu Biblíunemendurnir von á árið 1925? Og hvernig voru þeir önnum kafnir í boðuninni þótt að þeir yrðu fyrir vonbrigðum?

ÓUPPFYLLTAR VÆNTINGAR

Árið 1925 væntu margir biblíunemendur þess að paradís yrði endurreist á jörðinni. Hvers vegna? Bróðir Albert Schroeder, sem síðar var í stjórnandi ráði, sagði: „Við trúðum að árið 1925 myndu hinir andasmurðu fara til himna og trúfastir menn eins og Abraham og Davíð fá upprisu og taka forystuna á jörðinni sem höfðingjar undir stjórn Guðsríkis.“ Þegar leið á árið og væntingar þeirra urðu ekki að veruleika urðu sumir skiljanlega vonsviknir. – Orðskv. 13:12.

Flestir biblíunemendanna voru uppteknir í boðuninni þrátt fyrir þessi vonbrigði. Þeir áttuðu sig á því að mikilvægast fyrir þá væri að tala við aðra um Jehóva. Skoðum hvernig þeir notuðu útvarpið til að boða fólki vítt og breitt trúna.

ÚTVARPSSTÖÐVAR BYGGÐAR

Það gekk vel með útvarpsstöðina WBBR árið áður og margir hlustuðu á útsendingarnar. Því var ákveðið að reisa aðra útvarpsstöð og að þessu sinni nálægt Chicago í Illinois. Hún var kölluð ORÐIÐ. „Á köldum vetrarkvöldum hlustaði fólk vítt og breitt á ORÐIÐ,“ segir Ralph Leffler, sem vann við byggingu útvarpsstöðvarinnar. Ein fjölskylda, sem bjó í meira en 5000 kílómetra fjarlægð í Pilot Station í Alaska, hlustaði til dæmis á fyrstu útsendinguna. Eftir hana skrifaði fjölskyldan bréf til þeirra sem unnu á útvarpsstöðinni og þakkaði þeim fyrir þáttinn sem gerði þeim kleift að læra meira um Guð og Biblíuna.

Til vinstri: Möstur útvarpsstöðvarinnar ORÐIÐ í Batavia í Illinois.

Til hægri: Ralph Leffler við vinnu á útvarpsstöðinni.

Varðturninn 1. desember 1925 útskýrði hvers vegna svo margir gátu heyrt útsendingarnar: „ORÐIÐ er ein af öflugustu útvarpsstöðvum Bandaríkjanna, með 5000 vatta útvarpssendi. Fólk getur hlustað allt frá austurströnd Bandaríkjanna að vesturströndinni og frá Kúbu til nyrsta hluta Alaska. Margir sem hafa aldrei heyrt um sannleikann hafa fengið áhuga með því að hlusta á þessa útvarpsrás.“

George Naish.

Á sama tíma áformuðu Biblíunemendurnir líka að nota útvarpið til að boða fagnaðarboðskapinn í Kanada. Árið 1924 var útvarpsstöðin CHUC byggð í Saskatoon í Saskatchewan. Þetta var ein af fyrstu trúarlegu útvarpsstöðvunum í Kanada. Árið 1925 reyndist þörf á að finna henni nýjan stað. Varðturnsfélagið keypti því gamalt leikhús í Saskatoon sem var gert upp og þangað voru hljóðverin flutt.

Það var þessari útvarpsstöð að þakka að margt fólk sem bjó í litlum bæjum og sveitum Saskatchewan heyrði fagnaðarboðskapinn í fyrsta sinn. Kona að nafni Graham sem bjó í afskekktum bæ skrifaði til dæmis bréf eftir að hafa hlustað á útsendingu og bað um biblíutengd rit. Bróðir George Naish rifjar upp: „Ákall hennar um fræðslu hljómaði svo áríðandi að við sendum henni öll bindin af Studies in the Scriptures.“ Fljótlega var þessi áhugasama kona farin að bera út boðskapinn langt frá heimili sínu.

MIKILVÆG SANNINDI

Tímamótagrein birtist í Varðturninum 1. mars 1925 með yfirskriftinni „Fæðing þjóðar“. Hvers vegna var greinin svona þýðingarmikil? Um tíma höfðu Biblíunemendurnir vitað að Satan réði yfir illum öndum, fölskum trúarbrögðum, ríkjum heimsins og viðskiptakerfinu. En í þessari grein útskýrði „hinn trúi og skynsami þjónn“ að Jehóva eigi sér alheimssöfnuð sem er algerlega aðgreindur frá heimi Satans og í andstöðu við hann. (Matt. 24:45) Auk þess útskýrði þjónninn að Guðsríki hefði verið stofnsett á himni árið 1914. Þá hefði ‚stríð brotist út á himni‘ og Satan og illum öndum hans verið kastað niður af himni og yfirráðasvæði þeirra væri nú bundið við jörðina. – Opinb. 12:7–9.

Sumir biblíunemendur voru ekki sammála þessum nýja skilningi. Greinin sagði því: „Ef einhverjir lesendur Varðturnsins eru ekki sammála því sem hér segir hvetjum við þá til að vera þolinmóðir og treysta Jehóva og þjóna honum trúfastir áfram.“

Tom Eyre, farandbóksali (kallast brautryðjandi nú á dögum) frá Bretlandi, greindi hins vegar frá því hvernig flestir biblíunemendurnir brugðust við greininni: „Bræðurnir voru yfir sig hrifnir með þessa útskýringu á Opinberunarbókinni 12. kafla. Þegar við skildum að ríkið hafði verið stofnsett á himnum vorum við ákafir í að deila þessum góðu fréttum með öðrum. Þetta fékk okkur til að boða trúna af enn meira kappi og leiddi okkur fyrir sjónir að Jehóva ætlaði að gera stórkostlega hluti í framtíðinni.“

VOTTAR JEHÓVA

Nú á dögum eru vottar Jehóva vel kunnir því sem segir í Jesaja 43:10: „‚Þið eruð vottar mínir,‘ segir Jehóva, ‚já, þjónn minn sem ég hef valið‘.“ Fyrir 1925 hafði ekki oft verið minnst á þetta biblíuvers í ritum okkar. En það átti eftir að breytast. Árið 1925 var fjallað um Jesaja 43:10 og 12 í 11 tölublöðum Varðturnsins.

Í lok ágúst 1925 söfnuðust biblíunemendurnir saman á móti í Indianapolis í Indiana. Í prentaðri dagskrá voru skilaboð frá bróður Rutherford til mótsgesta þar sem hann bauð alla velkomna. Þar sagði: „Við erum komin á þetta mót til að öðlast … styrk frá Drottni til að fara aftur út á akurinn með nýjum krafti til að vitna um hann.“ Alla átta dagana sem mótið stóð voru gestir hvattir til að tala um Jehóva við hvert tækifæri.

Laugardaginn 29. ágúst flutti bróðir Rutherford ræðu með stefinu „Hvött til verka“. Í ræðunni lagði hann áherslu á mikilvægi boðunarinnar og sagði: „Jehóva segir fólki sínu … ‚þið eruð vottar mínir … og ég er Guð.‘ Síðan koma skýr og afdráttarlaus fyrirmæli: ‚Reisið merkisstöng fyrir þjóðirnar.‘ Enginn á jörð reisir merkisstöng, eða fána, fyrir þjóðirnar nema [þjónar hans], þeir sem hafa anda Drottins og eru því vottar hans.“ – Jes. 43:12; 62:10.

Ritið með ályktuninni „Vonarboðskapur“.

Ritið Vonarboðskapur.

Eftir ræðuna las bróðir Rutherford upp ályktunina „Vonarboðskapur“ sem áheyrendur samþykktu einróma. Í henni sagði að Guðsríki væri eina raunverulega vonin til að „friður, velmegun, góð heilsa, gott líf, frelsi og eilíf hamingja“ gæti orðið að veruleika. Þessi ályktun var síðar þýdd yfir á mörg tungumál og gefin út í riti. Um 40 milljón eintökum var dreift.

Biblíunemendurnir tóku ekki upp nafnið Vottar Jehóva fyrr en nokkrum árum síðar. Þeir voru samt stöðugt meðvitaðri um ábyrgð sína að vera vottar hans.

ÁHUGASAMIR HEIMSÓTTIR AFTUR

Eftir því sem biblíunemendum fjölgaði um allan heim fengu þeir meiri hvatningu til að heimsækja þá aftur sem höfðu sýnt fagnaðarboðskapnum áhuga. Eftir átakið með ritið Vonarboðskapur komu leiðbeiningar í Bulletin.a Þar sagði: „Farið aftur og heimsækið fólk sem fékk ritið.“

Í Bulletin í janúar 1925 var að finna eftirfarandi frásögn biblíunemanda í Plano í Texas: „Við erum undrandi á því að við fáum betri viðbrögð á svæðum sem við höfum oft farið yfir en þeim sem við förum yfir í fyrsta skipti. Farið hefur verið fimm sinnum í lítinn bæ á svæði okkar síðustu tíu árin … Nýlega fóru systir Hendrix og móðir mín aftur þangað til að boða trúna og dreifðu fleiri bókum en [nokkru sinni] áður.“

Og farandsali í Panama skrifaði: „Margir sem vildu ekki hlusta í fyrsta skipti sem ég heimsótti þá hafa skipt um skoðun þegar ég kem í annað eða þriðja skipti. Síðastliðið ár hef ég að mestu leyti notað tímann í að heimsækja þá sem ég hef hitt áður í boðuninni og hef átt góðar samræður við suma þeirra.“

HORFT TIL FRAMTÍÐAR

Í árlegu bréfi sínu til allra farandsala lýsti bróðir Rutherford því sem hafði áunnist í boðuninni þetta ár og hvað væri fram undan. Hann sagði: „Á síðastliðnu ári hafið þið huggað marga niðurdregna. Þetta starf hefur glatt hjarta ykkar … Á komandi ári fáið þið mörg tækifæri til að segja frá Guði og ríki hans og til að sýna hverjir eru í raun tilbiðjendur hans … Höldum áfram að hefja upp raust okkar og lofa Guð okkar og konung.“

Í lok ársins 1925 áformuðu bræðurnir að stækka Betel í Brooklyn. Árið 1926 myndi marka upphaf stærstu byggingaframkvæmda sem söfnuðurinn hafði ráðist í.

Bræður við byggingarframkvæmdir sem eru á frumstigi.

Framkvæmdir við Adams Street í Brooklyn í New York árið 1926.

a Núna vinnubókin Líf okkar og boðun.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila