‚Varðveitum einingu andans‘
PÁLL postuli hvatti kristið fólk í Efesus til að ‚umbera hvert annað í kærleika og gera sitt ýtrasta til að varðveita einingu andans í bandi friðarins‘. – Ef. 4:2, 3.
Einingin sem við njótum er vegna andans. Það merkir að starfskraftur Guðs gerir hana mögulega. En eins og Páll bendir á þarf að varðveita eininguna. Hver sér til þess? Hver og einn kristinn einstaklingur þarf að gera sitt til að „varðveita einingu andans“.
Tökum dæmi. Segjum að einhver gefi þér nýjan bíl. Hver bæri ábyrgð á að hafa hann í góðu lagi? Það gefur augaleið. Þú getur ekki kennt þeim sem gaf þér bílinn um það ef hann bilar ef þú hefur vanrækt að hugsa um hann.
Eins má segja að hvert og eitt okkar beri ábyrgð á að varðveita eininguna sem við njótum þótt hún sé gjöf frá Guði. Ef við eigum ekki gott samband við bróður eða systur þurfum við að spyrja okkur: Geri ég mitt besta til að varðveita einingu andans og leysa ágreininginn?
„GERIÐ YKKAR ÝTRASTA“ TIL AÐ VARÐVEITA EININGUNA
Eins og Páll benti á gætum við stundum þurft að hafa fyrir því að varðveita einingu andans. Það á sérstaklega við ef bróðir eða systir hefur móðgað okkur. Er alltaf nauðsynlegt að tala um vandamálið við viðkomandi? Ekki endilega. Spyrðu þig: Hvort stuðlar það að einingu eða veldur meiri deilum ef ég geri mál úr þessu? Stundum er viturlegast að leiða málið hjá sér eða fyrirgefa. – Orðskv. 19:11; Mark. 11:25.
Spyrðu þig: Hvort stuðlar það að einingu eða veldur meiri deilum ef ég geri mál úr þessu?
Páll postuli hvetur okkur til að ‚umbera hvert annað í kærleika‘. (Ef. 4:2) Samkvæmt uppsláttarriti getur þetta orðalag þýtt ‚að taka þeim eins og þau eru‘. Þetta merkir að við sættum okkur við að trúsystkini okkar eru syndug eins og við. Við reynum að sjálfsögðu að íklæðast „hinum nýja manni“. (Ef. 4:23, 24) Enginn okkar getur það samt fullkomlega. (Rómv. 3:23) Þegar við viðurkennum þá staðreynd er auðveldara að umbera hvert annað og fyrirgefa, og þar með „varðveita einingu andans“.
Ef gert er á hlut okkar en við fyrirgefum og gleymum höldum við áfram að njóta ‚einingar í bandi friðarins‘. Gríska orðið sem er þýtt ‚band‘ í Efesusbréfinu 4:3 er þýtt ‚liðbönd‘ í Kólossubréfinu 2:19. Liðbönd eru sterkir bandvefir sem tengja bein saman. Á líkan hátt hjálpar friður og kærleikur til trúsystkina okkur að hafa náið samband við þau þótt okkur líki stundum ekki við það sem þau gera.
Þegar trúsystkini móðgar þig, kemur þér í uppnám eða pirrar þig skaltu reyna að vera skilningsríkur frekar en gagnrýninn. (Kól. 3:12) Þar sem við erum öll ófullkomin hefur þú trúlega einhvern tíma móðgað aðra. Ef þú hefur það í huga hjálpar það þér að gera þitt til að „varðveita einingu andans“.