23.–29. MARS 2026
SÖNGUR 18 Þakkir fyrir lausnargjaldið
Hvernig sýnir þú þakklæti fyrir lausnargjaldið?
„Kærleikur Krists knýr okkur.“ – 2. KOR. 5:14.
Í HNOTSKURN
Í þessari námsgrein skoðum við hvernig hvert og eitt okkar getur sýnt þakklæti fyrir lausnargjaldið.
1, 2. Hvað ætti lausnarfórn Jesú að knýja okkur til að gera og hvers vegna? (2. Korintubréf 5:14, 15) (Sjá einnig mynd.)
SEGJUM að þér væri bjargað undan rústum hruninnar byggingar. Fyndist þér þú ekki standa í þakkarskuld við þann sem bjargaði lífi þínu? Þótt öðrum væri bjargað líka myndirðu líklega vilja þakka fyrir þig persónulega til að sýna að þú lítir ekki á það sem var gert fyrir þig sem sjálfsagðan hlut.
2 Eins og rætt var í námsgreininni á undan þurfum við á utanaðkomandi hjálp að halda til að komast undan áhrifum erfðasyndarinnar. Lausnarfórn Jesú getur bjargað okkur með því að veita okkur (1) fyrirgefningu synda okkar, (2) von um að losna alveg við syndugt eðli okkar og (3) sátt við Guð. Fyrir vikið höfum við von um að lifa að eilífu í nýjum heimi Jehóva. Lausnargjaldið endurspeglar sannarlega kærleika Jesú til mannanna – en hann elskaði þá löngu áður en hann kom til jarðarinnar. (Orðskv. 8:30, 31) Páll postuli skrifaði: „Kærleikur Krists knýr okkur.“ (Lestu 2. Korintubréf 5:14, 15.) Þetta þýðir að kærleikur Jesú ætti að hreyfa við okkur og fá okkur til að sýna að við tökum lausnarfórn hans ekki sem sjálfsögðum hlut.
Hvort sem okkur er bjargað undan rústum byggingar eða undan erfðasyndinni stöndum við í þakkarskuld við þann sem bjargar okkur. (Sjá 1. og 2. grein.)
3. Af hverju sýna ekki allir þakklæti sitt fyrir lausnargjaldið á sama hátt?
3 Hvernig vilt þú sýna þakklæti þitt fyrir lausnargjaldið? Við svörum þessari spurningu ekki öll eins. Lýsum því með dæmi. Þrír einstaklingar eru á leiðinni til sama áfangastaðar en byrja frá mismunandi stöðum. Þeir fara því ólíkar leiðir. Eins er markmið okkar allra að sýna þakklæti fyrir lausnargjaldið en við gerum það á mismunandi hátt og það fer eftir því hvernig samband okkar við Jehóva er þá stundina. Í þessari námsgrein skoðum við hvernig við getum sýnt þakklæti okkar ef við erum (1) biblíunemendur, (2) skírðir vottar eða (3) sauðir sem hafa villst frá hjörðinni.
BIBLÍUNEMENDUR
4. Hvernig lítur Jehóva á biblíunemendur?
4 Hugleiddu þetta ef þú ert að kynna þér Biblíuna: Þig langar til að kynnast Jehóva og sannindum Biblíunnar og það er merki um að Jehóva sé að draga þig til sín. (Jóh. 6:44; Post. 13:48) „Jehóva kannar hjörtun,“ en það þýðir að hann tekur eftir því sem þú leggur á þig til að kynnast honum og það gleður hann þegar þú gerir breytingar í lífi þínu í samræmi við vilja hans. (Orðskv. 17:3; 27:11) Lausnargjaldið gerir þér mögulegt að eiga náið vináttusamband við Jehóva. (Rómv. 5:10, 11) Líttu aldrei á það sem sjálfsagaðan hlut.
5. Hvernig geta biblíunemendur fylgt ráðunum í Filippíbréfinu 3:16?
5 Hvernig geturðu sýnt þakklæti fyrir lausnargjaldið ef þú ert biblíunemandi? Ein leið til þess er að fylgja ráðum Páls postula til Filippímanna: „Við [skulum] halda áfram á þeirri braut sem við erum á, óháð því hvaða framförum við höfum tekið.“ (Fil. 3:16) Láttu ekkert koma í veg fyrir að þú haldir áfram að ganga á veginum til lífsins. – Matt. 7:14; Lúk. 9:62.
6. Hvað geta biblíunemendur gert ef þeim finnst erfitt að gera ákveðnar breytingar? (5. Mósebók 30:11–14) (Sjá einnig mynd.)
6 Hvað geturðu gert ef þér finnst erfitt að trúa einhverju sem þú ert nýbúinn að læra í biblíunámi þínu? Rannsakaðu málið og biddu Jehóva að hjálpa þér að skilja það betur. (Sálm. 86:11) Ef það vefst enn fyrir þér skaltu láta málið bíða – en haltu samt áfram biblíunámi þínu. Hvað ef þér finnst erfitt að hætta að gera eitthvað sem Biblían fordæmir? Mundu að Jehóva veit að við erum ófullkomin og biður okkur aldrei um að gera neitt sem er ómögulegt fyrir okkur. Þú getur fylgt mælikvarða hans á rétt og rangt. (Lestu 5. Mósebók 30:11–14.) Og hann lofar að hjálpa þér. (Jes. 41:10, 13; 1. Kor. 10:13) Gefstu ekki upp. Ekki hugsa of mikið um það sem er erfitt fyrir þig. Einbeittu þér frekar að því að vera þakklátur fyrir allt sem Jehóva hefur gefið þér – þar á meðal lausnargjaldið. Þegar kærleikur þinn til Jehóva vex kemstu að því að „boðorð hans eru ekki þung“. – 1. Jóh. 5:3.a
Jehóva biður okkur aldrei um að gera neitt sem er ómögulegt fyrir okkur. Hann hjálpar okkur að fylgja mælikvarða sínum á rétt og rangt. (Sjá 6. grein.)
7. Hvað getur unga fólkið sem elst upp í sannleikanum hugsað um?
7 Hvað um ykkur sem eruð ung og alin upp í sannleikanum? Þið eruð líka biblíunemendur. Þið eruð reyndar mikilvægustu biblíunemendur foreldra ykkar. Í Biblíunni segir: „Nálgist Guð og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jak. 4:8; 1. Kron. 28:9) Þegar þú átt frumkvæðið að því að nálgast Jehóva nálgast hann þig líka. Jehóva veitir þér ekki bara athygli af því að þú ólst upp í vottafjölskyldu heldur af því að hann vill vera náinn vinur þinn. Hvað gerir þér kleift að eiga persónulegt samband við Jehóva? Það er lausnargjaldið og þú ættir aldrei að líta á það sem sjálfsagðan hlut. (Rómv. 5:1, 2) Fyrir minningarhátíðina í ár skaltu því hugleiða hvað dauði Jesú þýðir fyrir þig. Láttu það knýja þig til að vinna að andlegum markmiðum þínum, hver sem þau eru, og sýna þannig að þú sért þakklátur fyrir lausnargjaldið sem Jehóva gaf.b
SKÍRÐIR VOTTAR
8. Hvernig hafa skírðir vottar sýnt að þeir trúa á lausnargjaldið?
8 Ef þú ert skírður vottur hefurðu sýnt með ýmsum hætti að þú trúir á lausnargjaldið. Þú hefur til dæmis gert breytingar á lífi þínu til að fylgja mælikvarða Jehóva og nálgast hann. Þú hlýddir fyrirmælum Jesú um að gera fólk að lærisveinum með því að segja öðrum frá trú þinni. Þú vígðir Jehóva líf þitt og lést skírast. Hefurðu orðið fyrir andstöðu vegna þess að þú styður sanna tilbeiðslu? (2. Tím. 3:12) Þolgæði þitt og trúfesti sýnir að þú elskar Jehóva og ert þakklátur fyrir lausnargjaldið. – Hebr. 12:2, 3.
9. Hvaða hættu ættu skírðir vottar að vera vakandi fyrir?
9 Við sem erum skírð þurfum að vera vakandi fyrir ákveðinni hættu. Með tímanum gæti þakklæti okkar fyrir lausnargjaldið dvínað. Hvernig gæti það gerst? Tökum sem dæmi kristna söfnuðinn í Efesus á fyrstu öld. Jesús hrósaði honum fyrir að sýna þolgæði. En hann sagði síðan: „Ég hef það samt á móti þér að þú hefur glatað kærleikanum sem þú hafðir í upphafi.“ (Opinb. 2:3, 4) Orð Jesú gefa til kynna að tilbeiðsla kristins manns getur hægt og bítandi orðið vélræn. Hann biður kannski til Jehóva, fer á samkomur og tekur þátt í boðuninni en gerir það bara af gömlum vana. Kærleikur er ekki lengur hvötin sem drífur hann áfram. Hvað geturðu gert ef þér finnst að kærleikur þinn til Jehóva hafi dvínað?
10. Hvernig getur þú fylgt ráðum Páls til Tímóteusar? (1. Tímóteusarbréf 4:13, 15)
10 Páll postuli hvatti Tímóteus til að vera vakandi fyrir því að sinna þjónustunni af öllu hjarta. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:13, 15.) Hafðu þessi ráð Páls í huga og reyndu að leita leiða til að gera þjónustu þína innihaldsríkari svo að þú getir verið „brennandi í andanum“. (Rómv. 12:11; sjá skýringu við „Be aglow with the spirit“ í námsbiblíunni á tungumáli sem þú skilur.) Þú gætir til dæmis notað meiri tíma til að undirbúa þig fyrir samkomurnar og þá áttu auðveldara með að einbeita þér í ríkissalnum. Þú gætir líka gert sjálfsnámið þitt meira gefandi með því að finna rólegan stað þar sem þú átt auðveldara með að hugleiða það sem þú ert að læra. Rétt eins og maður bætir viði á eld til að halda honum lifandi geta þessar tillögur hjálpað þér að glæða aftur þakklæti þitt fyrir allt sem Jehóva hefur gefið þér, þar á meðal lausnargjaldið. Og af hverju ekki að nota vikurnar fyrir minningarhátíðina til að hugleiða allt það góða sem við vottar Jehóva fáum að njóta? Það mun án efa gera þig enn þakklátari fyrir lausnargjaldið sem er grundvöllurinn að sambandi þínu við Jehóva.
11, 12. Er það merki um að þú hafir misst anda Guðs ef þú hefur ekki sama eldmóð og áður? Skýrðu svarið. (Sjá einnig mynd.)
11 Ef þú þjónar Jehóva ekki af sama eldmóði og áður skaltu ekki missa kjarkinn eða halda að þú hafir misst anda Guðs. Mundu hvað Páll postuli skrifaði til Korintumanna um þjónustuna sem hann vann: „Þótt ég gerði það gegn vilja mínum ynni ég samt það verk sem mér var falið.“ (1. Kor. 9:17) Hvað átti hann við?
12 Stundum langaði Páli ekki að boða trúna. En hann var ákveðinn í að halda því áfram sama hvernig honum leið þá stundina. Þú getur gert eins og hann. Vertu ákveðinn í að gera það sem er rétt jafnvel þótt þig langi ekki til þess. Biddu því Jehóva um „bæði löngun og kraft til að gera það sem gleður hann“. (Fil. 2:13) Haltu áfram að gera það sem styrkir samband þitt við Jehóva. Þú getur treyst því að með tímanum mun það sem þú gerir hafa áhrif á hvernig þér líður og glæða kærleikann sem þú berð til Jehóva.
Vertu virkur í þjónustunni þó að þig skorti löngunina um tíma. (Sjá 11. og 12. grein.)
13. Hvernig getum við rannsakað hvort við séum í trúnni?
13 Það er gagnlegt að fylgja ráðunum í 2. Korintubréfi 13:5 og gera sjálfsrannsókn af og til. Þar segir: „Rannsakið stöðugt hvort þið séuð í trúnni og prófið hvaða mann þið hafið að geyma.“ Við gætum til dæmis spurt okkur: Set ég hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti í lífinu? (Matt. 6:33) Sýnir val mitt á afþreyingu að ég hata það sem er illt? (Sálm. 97:10) Stuðla ég að friði og einingu í söfnuðinum? (Ef. 4:2, 3) Í kringum minningarhátíðina hugsum við sérstaklega mikið um lausnargjaldið sem Jehóva gaf okkur. Það gefur okkur kjörið tækifæri til að rannsaka sjálf okkur og ganga úr skugga um að við séum að lifa fyrir Krist en ekki okkur sjálf.c
SAUÐIR SEM HAFA VILLST FRÁ HJÖRÐINNI
14. Af hverju villast sumir bræður og systur frá hjörðinni?
14 Sumir bræður okkar og systur hafa hætt að mæta á samkomur, jafnvel eftir að hafa þjónað Jehóva trúfastlega árum saman. Hvers vegna? Sumir eru að drukkna í „áhyggjum lífsins“. (Lúk. 21:34) Aðrir hafa móðgast yfir einhverju sem trúsystkini sagði eða gerði. (Jak. 3:2) Enn aðrir hafa drýgt alvarlega synd og vantar kjark til að biðja um hjálp. Hvað geturðu gert ef þú hefur villst frá hjörðinni, hver svo sem ástæðan kann að vera? Hvað getur lausnargjaldið og kærleikur Jehóva og Jesú til þín knúið þig til að gera?
15. Hvernig sýnir Jehóva að honum er annt um villuráfandi sauði? (Esekíel 34:11, 12, 16)
15 Hugleiddu hvernig Jehóva lítur á þá sem hafa villst frá hjörðinni. Hann hafnar þeim ekki. Hann leitar að týndum sauðum, nærir þá og hjálpar þeim að snúa aftur til sín. (Lestu Esekíel 34:11, 12, 16.) Gæti verið að Jehóva sé að gera þetta fyrir þig? Já! Það að þú sért að lesa þessa grein sýnir að þú vilt enn þjóna honum. Jehóva sá hjartalag þitt þegar hann dró þig til sannleikans. Gæti ekki verið að hann sé núna að draga þig til baka?
16. Hvað getur hjálpað týndum sauðum að snúa aftur til Jehóva? (Sjá einnig mynd.)
16 Í bæklingnum Snúðu aftur til Jehóva er þessi uppörvandi orð að finna: „Þú mátt treysta að Jehóva styður við bakið á þér þegar þú snýrð aftur til hans. Hann hjálpar þér að takast á við áhyggjur, vinna úr særðum tilfinningum og öðlast þann innri frið sem fylgir hreinni samvisku. Þá vaknar eflaust með þér löngun til að þjóna Jehóva aftur með trúsystkinum þínum.“ Og ekki gleyma að öldungarnir eru líka fúsir til að hjálpa þér. Þeir geta reynst þér „eins og skjól fyrir vindi og skýli í slagviðri“. (Jes. 32:2) Þú getur sýnt þakklæti fyrir lausnargjaldið með því að hugleiða hvernig þú getur ‚greitt úr málum‘ þínum gagnvart Jehóva. (Jes. 1:18; 1. Pét. 2:25) Geturðu til dæmis farið á samkomu í ríkissalnum? Geturðu talað við einhvern öldunganna og sagt honum að þú viljir hjálp til að snúa aftur til Jehóva? Hann gæti beðið einhvern um að aðstoða þig við biblíunám um tíma. Þú mátt vera viss um að Jehóva blessar viðleitni þína til að snúa aftur til hans og sýna þakklæti fyrir lausnargjald sonar hans.
Hugleiddu hvað þú getur gert núna til að ‚greiða úr málum‘ þínum gagnvart Jehóva. (Sjá 16. grein.)
HVAÐ ÆTLAR ÞÚ AÐ GERA?
17, 18. Hvernig getum við notað tímann fyrir minningarhátíðina í ár viturlega?
17 Jesús sagði að lausnargjaldið hefði verið greitt „til þess að þeir sem trúa á hann farist ekki heldur hljóti eilíft líf“. (Jóh. 3:16) Lausnargjaldið er leið Jehóva til að frelsa okkur undan synd og dauða. Enginn okkar ætti að líta á það sem sjálfsagðan hlut. (Rómv. 3:23, 24; 2. Kor. 6:1) Dagana fyrir minningarhátíðina er tilvalið að hugleiða þann kærleika sem Jehóva og Jesús sýndu. Kærleikur þeirra ætti að knýja okkur til að sýna þakklæti okkar.
18 Hvernig ætlar þú að sýna að þú sért þakklátur? Það svara ekki allir þessari spurningu eins. En þú mátt vera viss um að Jehóva blessi viðleitni þína og milljóna annarra þjóna Guðs um allan heim sem ‚lifa ekki lengur fyrir sjálfa sig heldur fyrir hann sem dó fyrir þá‘. – 2. Kor. 5:15.
SÖNGUR 14 Lofum nýjan konung jarðar
a Notaðu rammann „Markmið“ í lok hvers kafla í bókinni Von um bjarta framtíð til að hjálpa þér að fara eftir því sem þú lærir í biblíunámi þínu.
b Þú getur fundið tillögur að markmiðum, sem þú getur sett þér, í greininni „Unglingar – ‚vinnið að björgun ykkar‘“ í Varðturninum desember 2017.
c Lestu greinina „Hvað fær þig til að þjóna Guði?“ í Varðturninum 1. nóvember 1995 til að fá ráð um hvernig þú getur varðveitt þakklæti þitt.