TERRY REYNOLDS | ÆVISAGA
Jehóva hjálpaði mér að gefa sér mitt besta
Ég var 14 ára þegar andlegur bróðir, að nafni Cecil, gaf mér biblíuna sína. Þetta var snjáð biblía sem hann hafði notað við nám sitt og skrifað glósur á spássíuna. „Enn frábær gjöf,“ hugsaði ég.
Cecil var auðmjúkur og honum þótti vænt um aðra. Fordæmi hans og móður minnar sem og annarra trúfastra bræðra og systra í söfnuðinum vöktu hjá mér „löngun til að … gera“, eða gefa Jehóva mitt besta. (Filippíbréfið 2:13) Mig langar að segja þér sögu mína.
Snortinn af eldmóði móður minnar
Ég fæddist árið 1943. Foreldar mínir bjuggu á býli nálægt strandbænum Bundaberg í sykurræktarhéraði í Queensland í Ástralíu. Fólkið í kringum okkur var vant að fara í bæinn á laugardagskvöldum til að sýna sig og sjá aðra. Við eitt slíkt tækifæri árið 1939 hittu foreldrar mínir tvo brautryðjendur (votta Jehóva í fullu starfi) sem töluðu við þá um Biblíuna. Það sem þau heyrðu snerti hjörtu þeirra og er fram liðu stundir urðu þau vottar Jehóva. Þannig atvikaðist það að Jean systir mín og ég ólumst upp á kristnu heimili. Þegar ég var sjö ára gamall gerðist sá sorglegi atburður að faðir minn lést af slysförum á heimili okkar. Dauði hans var mér mikið áfall. Ég minnist þess enn að hann var vinnusamur maður og hafði gott skopskyn. Ég hlakka óendanlega til að sjá hann í upprisunni og kynnast honum vel. – Postulasagan 24:15.
Mamma var hlýleg og sanngjörn. Hún leyfði okkur systkinunum að tjá okkur um það sem okkur líkaði og mislíkaði. En þegar meginreglur Biblíunnar og tilbeiðslan á Jehóva áttu í hlut var hún föst fyrir. Við sóttum kristnar samkomur reglulega og hún hvatti okkur Jean til að verja ekki of miklum tíma með krökkum sem voru ekki vottar utan skólatíma. (1. Korintubréf 15:33) Þegar ég lít til baka er ég þakklátur fyrir að hún stóð á sínu.
Þegar ég var um það bil 14 ára gamall.
Mamma var líka kappsamur boðberi ríkisins og þjónaði oft sem frítímabrautryðjandi (nú kallað aðstoðarbrautryðjandi). Ég minnist þess að hún fór reglulega með Varðturninn og Vaknið! á meira en 50 heimili. Umhyggja hennar fyrir þeim sem sýndu boðskapnum áhuga dvínaði ekki þegar hún var orðin gömul og veikburða. Við elskuðum hana vegna kærleika hennar til annarra, sér í lagi til barna sinna, og við reyndum að líkja eftir henni. Árið 1958, þegar ég var 14 ára gamall, vígði ég Jehóva líf mitt og lét skírast.
Góður félagsskapur uppörvaði mig
Skömmu síðar lét Rudolf líka skírast, en hann var um tvítugt og tilheyrði okkar söfnuði. Hann hafði flutt frá Þýskalandi. Á laugardagsmorgnum vorum við Rudolf vanir að vitna um trúna fyrir fólki sem sat í bílum sínum og beið eftir að aðrir í fjölskyldunni kæmu til baka úr verslunum.
Rudolf var kappsamur bróðir og hann bauð mér að vera frítímabrautryðjandi með sér í skólafríum. Við eitt slíkt tækifæri vorum við í sex vikur í borginni Gladstone sem er um 190 km norðan við Bundaberg. Bróðurleg umhyggja hans fyrir mér og gleðin sem við nutum í boðuninni kveikti áhuga minn á að verða brautryðjandi. Ég náði markmiði mínu þegar ég var 16 ára og var staðráðinn í að gera þjónustuna við Jehóva að ævistarfi mínu.
Fyrsta svæðið sem mér var úthlutað var Mackay, strandbær norður af Bundaberg ekki fjarri Kóralrifinu mikla. Um það bil ári seinna, þegar ég var 17 ára, var ég útnefndur sérbrautryðjandia í afskekktum byggðum Ástralíu. Brautryðjendafélagi minn sem hét Bennet Brickell, kallaður Ben, var andasmurður og meira en 30 árum eldri en ég.b Hvílíkur heiður að starfa með þessum þaulreynda bróður sem margir álitu einstakan meðal brautryðjendanna.
Ég ber vitni fyrir frumbyggja í strjálbyggðum sveitum Ástralíu, 1963.
Svæði okkar í norðvestanverðu Queensland var við Carpentaria-flóa. Á þessum tíma vorum við Ben einu vottarnir á þessu strjálbyggða svæði. Stundum tók það okkur fleiri klukkustundir að keyra á milli bóndabýlanna. Á þessum löngu akstursleiðum eftir rykugum vegum sagði Ben mér oft frá reynslu sinni í þjónustunni fyrr á árum. Hann hafði boðað trúna með hátalarabílumc meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð og starf votta Jehóva var bannað í Ástralíu.
Biblíunámskeið ásamt bróður uppi í sveit (ég er í miðið).
Eftir góðan dag í boðuninni tjölduðum við á þægilegum stað í námunda við þjóðveginn.d Við söfnuðum eldiviði og kveiktum varðeld til að elda kvöldmatinn okkar. Rúmið mitt var vatnsheld ábreiða, lök og koddi. Ég minnist enn þá lotningarinnar fyrir Jehóva þegar ég horfði á stjörnumprýddan himininn þar sem engin ljósmengun spillti fyrir.
Það getur verið mjög afdrifaríkt þegar bíllinn bilar á svona afskekktu svæði. Einu sinni brotnaði öxull bílsins. Það var heitt í veðri og við áttum ekki mikið vatn eftir. Ben húkkaði far til Cloncurry til að útvega annan öxul. Ég varð eftir hjá bílnum hluta úr þrem dögum. Fáeinir bílar óku fram hjá á hverjum degi og bílstjórarnir voru svo vænir að gefa mér svolítið af vatni. Einn þeirra gaf mér lúna bók. „Lestu þetta félagi,“ sagði hann. „Það gæti hjálpað þér.“ Mér til undrunar fjallaði bókin, sem ekki var gefin út af Vottum Jehóva, um reynslu votta í fangabúðum Nasista.
Við Ben höfðum starfað saman í næstum ár. „Haltu áfram baráttunni, bróðir,“ sagði hann við mig að skilnaði. Fordæmi Bens í guðrækni og eldmóði gerði mig enn staðráðnari í að halda áfram að þjóna í fullu starfi.
Gíleaðskólinn og síðan Taívan
Eftir nokkurra ára þjónustu á afskekktum svæðum var mér boðið að vera farandhirðir, sem þýddi að dveljast í um það bil eina viku með hverjum söfnuði eða einangruðum hópi innan ákveðins svæðis. Á þessum árum var ég útnefndur til að þjóna á fjórum mismunandi svæðum. Þeirra á meðal voru söfnuðir í Queensland og Nýju-Suður-Wales. Síðan gerðist það árið 1971 að mér veittist sú óvænta ánægja að sækja 51. bekk Gíleaðskólans, sem er trúboðsskóli Votta Jehóva í New York. Fimm mánaða stíft biblíunám ásamt uppbyggjandi félagsskap við nemendur og kennara undirbjó mig fyrir næsta verkefni mitt – trúboðsstarf í Taívan.
Gíleað-bekkurinn minn.
Við vorum níu bekkjarfélagar sem vorum sendir til Taívan. Þeirra á meðal var Ian Brown frá Nýja Sjálandi. Hann varð trúboðsfélagi minn. Við vissum nánast ekkert um Taívan. Við vorum ekki einu sinni vissir um hvar það var á hnettinum fyrr en við höfðum skoðað landabréfabók.
Ég get ekki ímyndað mér ólíkari landsvæði en sveitirnar í Queensland og Taívan. Fyrsta stóra áskorunin var tungumálið – kínverska. Það tók mig talsverðan tíma að skilja hvað fram fór á samkomum, en þar fáum við andlega uppörvun. Og ég átti erfitt með tjáskipti við trúsystkini mín. Þessar kringumstæður undirstrikuðu fyrir okkur Ian hversu mikilvæg þjálfunin í Gíleað var og líka andlegi varaforðinn sem námið hafði veitt okkur. Þetta ásamt reglulegu biblíunámi og innilegum bænum hjálpaði okkur að halda dampi. Og jafnvel þótt tjáskiptin við trúsystkini væru erfið fengum við mikla uppörvun af kærleika þeirra til okkar og Jehóva.
Að læra kínversku
Eftir komuna til Taívan fóru allir trúboðarnir í stutt en mjög stíft námskeið í kínversku. Kennarinn okkar var Kathleen Logane frá Ástralíu, sem hafði útskrifast frá 25. bekk Gíleaðskólans. Við sökktum okkur niður í tungumálið. Og við fórum eftir leiðbeiningunum um að nota strax það sem við lærðum. Við Ian lærðum kynninguna okkar utan að og notuðum hana fyrsta daginn í boðuninni. Á leiðinni ræddum við um það hvor okkar myndi byrja. Þar sem ég var eldri notfærði ég mér „stöðu mína“ og bað hann að byrja. Húsráðandinn var virðulegur Kínverji. Hann hlustaði þolinmóður á blöndu Ians af kínversku og ensku. En okkur til mikillar furðu spurði hann okkur á fullkominni ensku hvert væri erindið. Við töluðum saman um stund og í lok samræðnanna hvatti hann okkur til að gefast ekki upp. Hlýleg orð hans gáfu okkur sjálfstraust til að „halda baráttunni áfram“ eins og Ben hefði sagt.
Svæði okkar var stór hluti höfuðborgarinnar Taípei. Þetta var svo að segja ósnortið svæði vegna þess að mjög fáir vottar bjuggu þar um þær mundir. Við létum það ekki draga úr okkur kjarkinn og helltum okkur í verkefnið sem beið okkar. Á þessum árum var ekki óalgengt að dreifa hundruðum blaða á mánuði. En að öllum líkindum tóku sumir blöðin einungis til að komast að því hverjir við værum og hvað við vorum að reyna að segja. Engu að síður gerðum við okkar besta til að dreifa frækornum um sannindi Guðsríkis fullvissir um að sum þeirra myndu festa rætur í móttækilegum hjörtum.
Hjálp frá lífsförunauti mínum
Wen-hwa og ég í boðuninni, 1974.
Í boðuninni vingaðist ég við taívanska systur á svæðinu sem heitir Wen-hwa. Hún elskaði sannleikann og langaði að hjálpa fólkinu á svæði okkar til að notfæra sér boðskap Biblíunnar eins og hún hafði gert. Það var ástæðan fyrir því að hún hjálpaði mörgum trúboðum, þar á meðal mér, að bæta tungumálkunnáttu sína. Ég fór að elska þessa duglegu systur og við giftum okkur árið 1974.
Wen-hwa hjálpaði trúboðunum að ná meiri árangri í boðuninni. Auk þess að kenna okkur tungumálið gaf hún okkur innsýn í siði og hugsunarhátt Taívanbúa. Hún hjálpaði okkur að aðlaga kynningarorð okkar að fólkinu á svæðinu sem að stærstum hluta voru búddistar og taóistar. Forfeðradýrkun var mjög útbreidd og fæstir höfðu nokkru sinni lesið í Biblíunni eða jafnveð séð hana. Við beindum því athyglinni að skaparanum – að hann héti Jehóva og líka hvernig við gætum verið viss um að hann væri til. Þegar bændur eða sjómenn notuðu orðatiltækið „Við treystum því að himinninn sjái okkur fyrir fæðu“, svöruðum við: „Hver er sá sem sér öllum fyrir fæðu? Ætli það sé ekki sá Guð sem er almáttugur, sá sem skapaði allt og verðskuldar tilbeiðslu okkar?“
Ásamt Wen-hwa, 1975.
Er fram liðu stundir bar viðleitni okkar árangur. Sáðkorn Guðsríkis rötuðu í góða jörð, það er að segja móttækileg hjörtu. Sumir þessara biblíunemenda lögðu hart að sér til að yfirstíga rótgrónar trúarkenningar og óbiblíulega siði. En með hjálp trúboðanna og boðberanna á staðnum tókst þeim þetta og það bætti líf þeirra til muna. (Jóhannes 8:32) Margir bræður voru útnefndir í ábyrgðarstörf í söfnuðum sínum og mörg trúsystkini hófu þjónustu í fullu starfi, þar með talið störf á Betel, eða á deildarskrifstofunni.
Árið 1976 var mér boðið að þjóna í deildarnefndinni í Taívan og halda jafnframt áfram trúboðsstarfi mínu. Árið 1981 var okkur Wen-hwa boðið að hefja störf á Betel, þar sem ég þjónaði í deildarnefndinni í mörg ár. Það eru orðin meira en 60 ár síðan ég hóf þjónustu í fullu starfi. Þar af hef ég verið í meira en 50 ár á Taívan og næstum því 50 ár ásamt elskulegri eiginkonu minni. Gamli brautryðjendafélagi minn og vinur, Ian Brown, starfaði hér í fullu starfi þar til hann lést árið 2013.
Við störf á skrifstofunni minni í Taívan, 1997.
Við Wen-hwa reynum að vera kappsöm hér á Betel, í kínverskumælandi söfnuði okkar og líka úti á akrinum. Við erum Jehóva þakklát fyrir þennan heiður. Hann gaf mér löngunina og kraftinn til að þjóna sér þegar ég var drengur og hann hefur haldið áfram að gefa okkur Wen-hwa þessa löngun nú á efri árum.
a Sérbrautryðjandi er þjónn í fullu starfi sem býður sig fram til að vera sendur þangað sem deildarskrifstofa Votta Jehóva álítur vera þörf fyrir biblíukennslu.
b Ævisaga Bennetts Brickells birtist í Varðturninum á ensku 1. september 1972.
c Hátölurum var komið fyrir á svonefndum hátalarabílum sem gerði okkur kleift að varpa boðskapnum langar leiðir.
d Hægt er að sjá trúsystkini okkar boða trúna í norðvesturhluta Queensland með því að horfa á myndbandið Boðun fagnaðarerindisins á einangruðu svæði – í Ástralíu.
e Ævisaga Harveys og Kathleen Logan birtist í Varðturninum í janúar 2021.