WARREN REYNOLDS | ÆVISAGA
Þakklátur að hafa valið rétt ævistarf
Ég sit við snarkandi varðeld ásamt nokkrum bræðrum og systrum lengst inni í skógi á afskekktu svæði í Norðvestur-Ástralíu. Við erum að rifja upp hvernig Jehóva hefur blessað okkur. Ég hef mörgum sinnum setið við varðeld en oft í öðrum löndum með fólki sem talar önnur tungumál. Í gegnum logana sé ég konuna sem ég elska brosandi og ánægða. Saman höfum við upplifað dásamleg ævintýri í þjónustu Jehóva á stöðum sem mér hefði sem ungum manni aldrei dreymt um að koma á. Ég hefði getað valið mjög ólíka lífsstefnu þegar ég var ungur. Ég skal segja ykkur frá því.
Ég ólst upp í sveit í Ástralíu. Foreldrar mínir og afar og ömmur höfðu kynnst sannleikanum á sjötta áratug síðustu aldar. Ég byrjaði í boðuninni þegar ég var 6 ára og lét skírast þegar ég var 13. Ég var oft aðstoðarbrautryðjandi í skólafríum. Ég elskaði Jehóva og langaði að þjóna honum að eilífu.
Með foreldrum mínum og fjórum bræðrum.
Þegar ég var 15 ára tóku íþróttaþjálfarar í skólanum eftir að ég skaraði fram úr í íþróttum. Mér var boðinn námsstyrkur af atvinnumannaliði í ruðningi. Möguleikinn að verða ruðningshetja höfðaði til mín en ég hafði vígt líf mitt Jehóva. Faðir minn lagði til að ég hugleiddi vígsluheit mitt áður en ég ákvæði hvort ég myndi stefna á frama í íþróttum. Ég fór að ráðum hans og áttaði mig á að ég gæti ekki náð árangri á báðum sviðum þannig að ég hafnaði boðinu. Nokkrum mánuðum seinna bauð Australian Institute of Sport í Canberra mér styrk til að æfa maraþon sem opnaði möguleika fyrir mig á að keppa fyrir hönd Ástralíu á Samveldisleikunum eða á Ólympíuleikunum. Ég afþakkaði líka þetta boð vegna þess að mig langaði innilega að standa við vígsluheit mitt.
Stuttu síðar kláraði ég í skólanámið og byrjaði sem brautryðjandi. Ég hafði haft það að markmiði um tíma. En fjölskylda mín glímdi við fjárhagserfiðleika þannig að ég hætti sem brautryðjandi og fór í fulla vinnu við að keyra landbúnaðarvélar. Ég var að nálgast tvítugt og bjó einn. Fljótlega var þjónusta mín við Jehóva orðin eins og hvert annað vanaverk. Ég var niðurdreginn og sambandið við Jehóva var ekki sterkt. Ég var svo óskynsamur að ég valdi mér vini sem drukku of mikið og voru siðlausir og mér fannst freistandi að gera eins. Ég hafði vanrækt sambandið við Jehóva fyrir stundargaman.
Ég þurfti að forgangsraða upp á nýtt þannig að ég flutti í annan bæ langt frá þessum félagsskap. Ég eignaðist nánara samband við Jehóva og fór að vinna að því að verða brautryðjandi aftur. Þá kynntist ég Leann McSharry, feiminni sveitastelpu sem var brautryðjandi, og við urðum vinir. Við töluðum opinskátt um markmið okkar, þar á meðal trúboðsstarf. Við giftum okkur árið 1993. Við vildum bæði láta Jehóva leiðbeina okkur í lífinu.
Við keppum eftir að ná markmiðum okkar
Sama ár gerðist ég líka brautryðjandi eins og Leann. Við vorum ákveðin í lifa einföldu lífi og vera skuldlaus og keyptum okkur því gamlan húsbíl til að búa í. Næstu sex árin fluttum við hvert sem söfnuður Jehóva mælti með og sinntum mismunandi störfum til að hafa í okkur og á. Við boðuðum trúna með litlum söfnuðum á afskekktum þurrum sléttum í Queensland. Oft héldum við til á einangruðum stöðum og héldum samkomur í skógarrjóðrum eða félagsheimilum. Við nutum lífsins. En við veltum því samt fyrir okkur hvort við gætum gert meira fyrir Jehóva. Við fengum fljótlega svar við því.
Samkoma haldin í skógi í boðunarferð á afskekktu svæði í Ástralíu.
Okkur var boðið að gerast trúboðar í öðru landi! En okkur fannst tilhugsunin yfirþyrmandi og efuðumst um að við værum fær um að vera trúboðar án þess að fá þjálfun í Gíleaðskólanum. Við elskuðum boðunina en vegna þess að við höfðum ekki stýrt mörgum biblíunámskeiðum á afskekktu svæðunum sem við störfuðum á fannst okkur við ekki vera nógu góðir kennarar.
Við sögðum Max Lloyd, bróður í deildarnefndinni, frá áhyggjum okkar.a Hann fullvissaði okkur um að ef við byðum okkur fram myndi Jehóva gera okkur kleift að sinna hvaða verkefni sem hann fæli okkur, þótt okkur fyndist við ekki hæf. Þessi föðurlega hvatning hjálpaði okkur að þiggja verkefnið á Srí Lanka með glöðu geði.
Krefjandi verkefni
Árið 1999 komum við til Kólombó, höfuðborgar Srí Lanka. Lífið þar var gerólíkt friðsælu sveitalífinu í Ástralíu. Það voru borgarastríð, fátækt, gríðarlegur fólksfjöldi, betlarar og flókin tungumál. En það voru líka fjársjóðir þar – yndislegu trúsystkini okkar og ótal auðmjúkir einstaklingar sem þekktu Jehóva ekki enn þá.
Við vorum send til Kandy, en borgarstæði hennar er háslétta umlukin teplantekrum og regnskógum. Borgin er þekkt fyrir mörg búddhahof. Fáir heimamanna vissu nokkuð um ástríkan skapara sinn. Í söfnuðinum okkar voru bæði bræður og systur sem töluðu singalísku og tamíl. Samkomurnar voru haldnar á báðum málunum. Það var erfitt að læra singalísku en söfnuðurinn og biblíunemendur okkar kunnu að meta að við reyndum, jafnvel þó að við gerðum mörg mistök sem komu þeim til að hlæja.
Ég flyt ræðu á Srí Lanka með hjálp síngalísku- og tamílmælandi túlka.
En tungumálið var samt ekki stærsta áskorunin. Við upplifðum grimmilega andstöðu gegn sannleikanum í fyrsta sinn á ævinni. Einu sinni umkringdi æstur skríll okkur. Sumir brenndu ritin okkar á meðan aðrir spörkuðu í mig og annan bróður og börðu okkur. Á meðan á þessu stóð báðum við Jehóva að hjálpa okkur að halda rónni og muna eftir okkur ef við dæjum. Okkur til mikils léttis fór skríllinn. Við yfirgáfum þorpið skjálfandi og þökkuðum Jehóva fyrir að vernda okkur.
Með tímanum fórum við að líta á Srí Lanka sem heimili okkar. Þrátt fyrir stríðið sem sundraði þjóðinni fannst okkur yndislegt að sjá hvernig Jehóva dró inn í sameinaða fjölskyldu sína fólk sem hungraði í sannleikann. Við eigum margar góðar minningar frá þessari fallegu eyju. En við vorum samt ekki búin að vera lengur en tvö ár í landinu þegar yfirvöld létu undan þrýstingi trúarleiðtoga og flestir trúboðar þurftu að fara úr landi.
Næstu vikur á eftir vorum við í lausu lofti og óvissan var óþægileg. Hvar myndum við lenda? Stjórnandi ráð sendi okkur til Papúa Nýju-Gíneu. Við komum til höfuðborgarinnar, Port Moresby, í september 2001.
Papúa Nýja-Gínea – land fjölbreytileikans
Þó svo að Papúa Nýja-Gínea sé í næsta nágrenni við Ástralíu eru lífshættir og menning mjög ólík. Við þurftum enn og aftur að aðlagast nýjum aðstæðum. Við lærðum tok pisin, málið sem flestir tala af þeim 800 tungumálum sem eru töluð í landinu.
Eftir þrjú ár í borginni Popondetta vorum við send í farandstarf. Okkur hefði aldrei dottið í hug að Jehóva myndi fela okkur það verkefni! Ég hafði alltaf dáðst að leiðsögn, þroska og kennslu farandhirða og mér fannst ég ekki hæfur til að þjóna söfnuðunum í því starfi. Markmið mitt hafði alltaf verið að vera trúboði. Mér hafði aldrei dottið í hug að ég gæti orðið farandhirðir. Ég er enn undrandi yfir því að Jehóva skuli hafa falið mér svo sérstakt verkefni.
Í heimsókn hjá einangruðum hópi í West Sepik-héraði í Papúa Nýju-Gíneu.
Ég skrifa skýrslur til að senda til deildarskrifstofunnar eftir heimsókn hjá einangruðum hópi í Papúa Nýju-Gíneu.
Í bæjunum höfðum við yfirleitt aðgang að vatni, rafmagni og herbergi með rúmi. En í dreifbýlinu voru þau þægindi ekkert alltaf í boði. Við sváfum í litlum kofum, elduðum utandyra á opnum eldi og böðuðum okkur í ám og lækjum. En ef það voru krókódílar í ánni sóttum við vatn í fötu og þvoðum okkur heima í kofanum.
Við þurftum meira líkamlegt þol í þetta verkefni en nokkru sinni fyrr. Við vorum sannfærð um að ef við ‚beittum þeim styrk sem við bjuggum yfir‘ myndi Jehóva láta okkur ná árangri. (Dómarabókin 6:14) Það var erfitt að ná til margra safnaða og hópa sem við heimsóttum því að þeir voru dreifðir um þétta regnskóga, strandmýrar og klettótt fjöll. Til að komast til trúsystkina okkar notuðum við fjórhjóladrifin ökutæki, báta og flugvélar. En oft þurftum við bara að fara fótgangandi.b
Leann er alltaf tilbúin að takast á við áskoranir í boðuninni.
Við keyrðum meira en 350 kílómetra, mestmegnis á malarvegum, til að heimsækja söfnuð nálægt landamærum Indónesíu. Á þeirri leið þurftum við að fara yfir ár og læki meira en 200 sinnum og brýr voru af mjög skornum skammti. Í gegnum árin höfum við notað ótal klukkustundir í að ýta bílnum og moka hann upp úr djúpri forarleðju. En þegar við komum loksins á áfangastað tóku kærir bræður okkar og systur á móti okkur með breiðu brosi og tilbúinn mat.
Ferðalög á vegunum í Papúa Nýju-Gíneu voru alls ekki auðveld.
Þegar við ferðuðumst hátt upp í fjöllin á einshreyfils flugvélum þurfti flugmaðurinn oft að finna gat í skýjunum til að sjá hvar flugbrautin væri. Síðan þurfti hann að fljúga lágflug yfir flugbrautina til að athuga hvort það væru börn eða dýr á henni. Og svo bjuggum við okkur undir að lenda á forugri og ójafnri flugbrautinni í yfir 2.100 metra hæð uppi á fjalli. Stundum var ekki hægt að komast úr þessum afskekktu þorpum öðruvísi en á flugbraut sem endaði á bjargbrúninni.c
Stundum gengum við brattar fjallaslóðir eða yfir strandmýrar í hita og raka með bakpokana fulla af ritum og nauðsynjavörum. Með trúföstum bræðrum og systrum í för voru slík ferðalög verðmæt tækifæri til að eiga uppbyggilegar samræður og hlæja saman.
Á leiðinni í boðunina eftir Keram-ánni í Papúa Nýju-Gíneu.
Okkur leið eins og Páli postula, en hann segir í 1. Þessaloníkubréfi 2:8: „Okkur þótti svo innilega vænt um ykkur að við vorum … ákveðnir í að gefa ykkur … okkar eigið líf. Svo heitt elskuðum við ykkur.“ Og við kynntumst því að bræður okkar og systur voru líka tilbúin að gera það sama fyrir okkur. Þau voru jafnvel tilbúin að leggja lífið að veði til að verja okkur fyrir vopnuðum glæpaklíkum. Einu sinni hótaði maður Leann með sveðju á lofti. Ég var á öðrum stað í þorpinu svo að ég gat ekki komið henni til hjálpar. Einn bróðir var fljótur til og gekk á milli Leann og mannsins. Bróðir okkar slapp með skrámur vegna þess að fleiri þutu að til að stöðva þennan reiða mann. Jehóva sá um okkur frá degi til dags til að trúsystkini okkar gætu fengið andlega fæðu í þessu landi þar sem ofbeldi varð stöðugt algengara.
Það var takmörkuð heilbrigðisþjónusta í Papúa Nýju-Gíneu og því var erfitt að passa upp á heilsuna. Árið 2010 var Leann hætt komin vegna bakteríusýkingar. Við flugum þess vegna til Ástralíu til að hún fengi bráðameðferð. Jehóva gaf okkur styrk til að halda rónni. Að lokum fundu læknarnir sýklalyf sem virkaði. Einn þeirra sagði: „Þið hafið verið að vinna fyrir Guð. Núna er hann að vinna fyrir ykkur.“ Við snerum til baka til verkefnis okkar mörgum mánuðum síðar.
Nóg að gera á heimaslóðum
Við þurftum að fara endurtekið til Ástralíu næsta árið því að Leann þurfti áframhaldandi meðferð. Og að lokum, árið 2012, var okkur sagt að vera þar áfram og hugsa um heilsuna. Það erfiðasta eftir að hafa verið svo mörg ár í burtu var ekki að ná sér aftur líkamlega, heldur að aðlagast tilfinningalega og hugarfarslega. Okkur fannst erfitt að yfirgefa verkefni okkar og andlega fjölskyldu sem okkur þótti svo vænt um. Okkur leið eins og við hefðum brugðist á einhvern hátt og að Jehóva hefði ekki jafn mikið gagn af okkur og áður. Og eftir langan tíma í burtu var erfitt að finnast við eiga heima í Ástralíu. Við þurftum virkilega á hjálp trúsystkina okkar að halda á þessum tíma.
Þegar Leann var búin að ná sér fórum við að þjóna sem sérbrautryðjendur í Wollongong, sunnan við Sydney í Nýju-Suður-Wales. Um ári síðar vorum við ákaflega ánægð að fá boð í Biblíuskólann fyrir hjón (núna Skólinn fyrir boðbera Guðsríkis). Deildarskrfistofan í Ástralasíu fól okkur síðan að vera í farandstarfi. Um árabil heimsóttum við söfnuði og hópa í iðandi borgum, einangruðum eyðimerkurbæjum og veiðiþorpum. Eins og er þjónum við á eyðimerkursvæði norðvestur Ástralíu og á Tímor-Leste.
Í boðuninni á Tímor-Leste.
Ég hef við hlið mér andlega sinnaða eiginkonu sem veitir mér mikinn stuðning. Hún er dýrmæt gjöf frá Jehóva. Leann hefur aldrei hafnað neinu verkefni, sama hversu erfitt það var eða aðstæður óþægilegar. Þegar einhver spyr hana hvernig hún fari að því að takast á við erfiðleika svarar hún: „Ég segi Jehóva allt.“ Og þegar hún les í Biblíunni leyfir hún Jehóva að leiðbeina sér varðandi hugsun, tilfinningar og breytni.
Ég hef aldrei séð eftir því að leyfa Jehóva að leiðbeina mér í lífinu frekar en að eiga feril í íþróttum. Ég hef séð að Jehóva getur þjálfað okkur til að vinna hvaða verk sem hann vill ef við þiggjum fúslega verkefnin sem hann felur okkur. Ég hef lært að leita til Jehóva í bæn andspænis erfiðleikum og áður en ég tek ákvarðanir. Ég bið hann daglega um að gefa mér visku og heilagan anda. Jehóva, kærleiksríkur faðir okkar, hefur veitt okkur tilgangsríkt líf og mikla blessun og við erum spennt að sjá hvernig hann á eftir að nota „leirker“ eins og okkur enn frekar. – 2. Korintubréf 4:7.
a Ævisaga Max Lloyds birtist í Varðturninum 15. júlí 2012, bls. 17–21.
b Sjá frásögu af einni farandhirðisheimsókn okkar, sem við fórum á báti, í árbók Votta Jehóva 2011, bls. 129–134.
c Sjá greinina „A Coral Reef in the Clouds“ í Varðturninum á ensku 1. mars 2010, bls. 16–17.