Önnur Mósebók
38 Hann gerði brennifórnaraltarið úr akasíuviði. Það var ferningslaga, fimm álnir* á lengd, fimm álnir á breidd og þrjár á hæð.+ 2 Hann gerði horn sem stóðu upp af fjórum hornum altarisins en þau voru úr sama planka og það. Síðan lagði hann altarið kopar.+ 3 Hann gerði öll áhöld altarisins, föturnar, skóflurnar, skálarnar, gafflana og eldpönnurnar. Öll áhöldin voru gerð úr kopar. 4 Hann gerði líka grind úr kopar fyrir altarið. Hún var eins og net fyrir neðan brúnina og náði niður í mitt altarið. 5 Hann steypti fjóra hringi og festi þá á hornin fjögur á móts við kopargrindina til að halda burðarstöngunum. 6 Síðan gerði hann stangirnar úr akasíuviði og lagði þær kopar. 7 Hann renndi stöngunum í hringina á hliðum altarisins til að hægt væri að bera það. Altarið var eins og kassi úr borðum, holt að innan.
8 Hann gerði kerið og undirstöðugrind þess úr kopar+ og notaði í það spegla* kvennanna sem þjónuðu með skipulegum hætti við inngang samfundatjaldsins.
9 Síðan gerði hann forgarðinn.+ Á suðurhlið hans voru tjöld úr fínu tvinnuðu líni, 100 álnir á lengd.+ 10 Þar voru 20 súlur með 20 undirstöðuplötum úr kopar, og krókarnir á súlunum og festingar* þeirra voru úr silfri. 11 Á norðurhliðinni voru einnig tjöld, 100 álnir á lengd, með 20 súlum og 20 undirstöðuplötum úr kopar. Krókarnir á súlunum og festingar* þeirra voru úr silfri. 12 Tjöldin vestan megin voru 50 álna löng með tíu súlum og tíu undirstöðuplötum, og krókarnir á súlunum og festingar* þeirra voru úr silfri. 13 Austurhliðin, móti sólarupprásinni, var einnig 50 álnir á breidd. 14 Öðrum megin voru tjöldin 15 álnir á lengd með þrem súlum og þrem undirstöðuplötum. 15 Og hinum megin við inngang forgarðsins voru tjöldin líka 15 álnir á lengd með þrem súlum og þrem undirstöðuplötum. 16 Öll tjöldin kringum forgarðinn voru úr fínu tvinnuðu líni. 17 Undirstöðuplötur súlnanna voru úr kopar, krókarnir og festingarnar* úr silfri og súlnahöfuðin voru silfurlögð. Allar súlur forgarðsins voru með festingum úr silfri.+
18 Forhengið fyrir inngangi forgarðsins var ofið úr bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni. Það var 20 álnir á breidd og 5 álnir á hæð, jafn hátt og tjöldin kringum forgarðinn.+ 19 Fyrir forhengið voru gerðar fjórar súlur og fjórar undirstöðuplötur úr kopar. Krókarnir og festingarnar* voru úr silfri og súlnahöfuðin voru silfurlögð. 20 Allir tjaldhælar tjaldbúðarinnar og forgarðsins voru úr kopar.+
21 Móse skipaði svo fyrir að telja skyldi saman hve mikið efni hefði farið í að gera tjaldbúðina, tjaldbúð vitnisburðarins.+ Levítarnir+ fengu það verkefni undir umsjón Ítamars,+ sonar Arons prests. 22 Besalel+ Úríson, sonar Húrs, af ættkvísl Júda, gerði allt sem Jehóva hafði fyrirskipað Móse. 23 Með honum var Oholíab+ Akísamaksson af ættkvísl Dans. Hann var handverksmaður, kunni að sauma út og óf úr bláa garninu, purpuralitu ullinni, skarlatsrauða garninu og fína líninu.
24 Allt gullið sem notað var í vinnuna við helgidóminn, gullið sem fært var að veififórn,+ vó 29 talentur* og 730 sikla* eftir stöðluðum sikli helgidómsins.* 25 Og silfur þeirra sem voru skráðir í söfnuðinum nam 100 talentum og 1.775 siklum eftir stöðluðum sikli helgidómsins.* 26 Allir sem voru skráðir, 20 ára og eldri, greiddu hálfan sikil eftir stöðluðum sikli helgidómsins.*+ Þeir voru samtals 603.550.+
27 Til að steypa undirstöðuplöturnar fyrir helgidóminn og undirstöðuplötur fortjaldsins þurfti 100 talentur. Í 100 undirstöðuplötur fóru 100 talentur, ein talenta í hverja plötu.+ 28 Úr siklunum 1.775 gerði hann króka fyrir súlurnar og silfurlagði súlnahöfuðin. Hann tengdi síðan súlurnar saman.
29 Koparinn sem gefinn var í framlög* var 70 talentur og 2.400 siklar. 30 Úr honum gerði hann undirstöðuplötur fyrir inngang samfundatjaldsins, koparaltarið og kopargrindina í það, öll áhöld altarisins, 31 undirstöðuplötur forgarðsins allt í kring, undirstöðuplötur fyrir inngang forgarðsins og alla tjaldhæla+ tjaldbúðarinnar og forgarðsins.