Fyrri Konungabók
12 Rehabeam fór til Síkem+ því að allur Ísrael var kominn þangað til að gera hann að konungi.+ 2 Jeróbóam Nebatsson frétti það. (Hann bjó enn í Egyptalandi eftir að hafa flúið þangað undan Salómon konungi.)+ 3 Nú var sent eftir Jeróbóam og hann og allur söfnuður Ísraels kom til Rehabeams og sagði: 4 „Faðir þinn lagði á okkur þungt ok.+ En ef þú léttir erfiðisvinnuna og hið þunga ok sem faðir þinn lagði á okkur munum við þjóna þér.“
5 Hann svaraði þeim: „Farið nú og komið aftur til mín eftir þrjá daga.“ Og fólkið fór.+ 6 Rehabeam konungur ráðfærði sig þá við gömlu mennina* sem höfðu þjónað Salómon föður hans meðan hann var á lífi og spurði: „Hverju mælið þið með að ég svari fólkinu?“ 7 Þeir svöruðu honum: „Ef þú gerist þjónn þessa fólks í dag, tekur vel í beiðni þess og verður við henni mun það alltaf þjóna þér.“
8 En hann hafnaði ráði gömlu mannanna* og ráðfærði sig við ungu mennina sem höfðu alist upp með honum og voru nú þjónar hans.+ 9 Hann spurði þá: „Hverju mælið þið með að ég svari fólkinu sem sagði við mig: ‚Léttu okið sem faðir þinn lagði á okkur‘?“ 10 Ungu mennirnir sem höfðu alist upp með honum svöruðu: „Þannig skaltu svara fólkinu sem sagði við þig: ‚Faðir þinn lagði á okkur þungt ok en þú skalt létta það.‘ Segðu við það: ‚Litlifingur minn verður sverari en mjaðmir föður míns. 11 Faðir minn lagði á ykkur þungt ok en ég mun gera það enn þyngra. Faðir minn refsaði ykkur með svipum en ég mun refsa ykkur með gaddasvipum.‘“
12 Jeróbóam kom ásamt öllu fólkinu til Rehabeams á þriðja degi eins og konungurinn hafði sagt: „Komið aftur til mín eftir þrjá daga.“+ 13 En konungurinn svaraði fólkinu með hörku og fór ekki að þeim ráðum sem gömlu mennirnir* höfðu gefið honum. 14 Hann fór að ráði ungu mannanna og sagði: „Faðir minn lagði á ykkur þungt ok en ég mun gera það enn þyngra. Faðir minn refsaði ykkur með svipum en ég mun refsa ykkur með gaddasvipum.“ 15 Konungur hlustaði ekki á fólkið því að Jehóva stýrði gangi mála+ til að það rættist sem Jehóva hafði sagt við Jeróbóam Nebatsson fyrir milligöngu Ahía frá Síló.+
16 Þegar allir Ísraelsmenn sáu að konungurinn vildi ekki hlusta á þá sögðu þeir við hann: „Hvað kemur Davíð okkur við?* Við eigum ekkert sameiginlegt með* syni Ísaí. Ísraelsmenn, snúið nú til guða ykkar. Þú getur gætt þíns eigin húss, Davíð.“ Síðan fóru Ísraelsmenn heim til sín.*+ 17 En Rehabeam ríkti áfram yfir þeim Ísraelsmönnum sem bjuggu í borgum Júda.+
18 Rehabeam konungur sendi nú Adóram,+ yfirmann þeirra sem unnu kvaðavinnu, til Ísraelsmanna en allur Ísrael grýtti hann til bana. Rehabeam konungi tókst að komast upp í vagn sinn og flýja til Jerúsalem.+ 19 Ísraelsmenn hafa staðið gegn+ ætt Davíðs allt fram á þennan dag.
20 Þegar Ísraelsmenn fréttu að Jeróbóam væri snúinn aftur boðuðu þeir hann til fundar við sig og gerðu hann að konungi yfir öllum Ísrael.+ Enginn hélt tryggð við ætt Davíðs nema ættkvísl Júda.+
21 Þegar Rehabeam kom til Jerúsalem kallaði hann strax saman alla Júdaætt og ættkvísl Benjamíns, 180.000 þjálfaða* hermenn. Þeir áttu að berjast við ætt Ísraels og ná konungdóminum aftur undir Rehabeam son Salómons.+ 22 Þá kom orð hins sanna Guðs til Semaja+ sem var maður hins sanna Guðs: 23 „Segðu við Rehabeam Salómonsson Júdakonung og alla ætt Júda og Benjamíns og allt fólkið: 24 ‚Jehóva segir: „Farið ekki upp eftir til að berjast við bræður ykkar, Ísraelsmenn. Farið allir heim til ykkar því að það er ég sem stend á bak við það sem hefur gerst.“‘“+ Þeir hlýddu Jehóva og fóru aftur heim, rétt eins og Jehóva hafði sagt þeim að gera.
25 Jeróbóam víggirti* Síkem+ í Efraímsfjöllum og settist þar að. Þaðan fór hann og víggirti* Penúel.+ 26 Jeróbóam hugsaði með sér: „Nú gæti konungdómurinn lent aftur undir ætt Davíðs.+ 27 Ef fólkið heldur áfram að fara upp til húss Jehóva í Jerúsalem til að færa sláturfórnir+ mun hjarta þess hverfa aftur til Rehabeams Júdakonungs, húsbónda þess. Fólkið mun drepa mig og snúa aftur til Rehabeams Júdakonungs.“ 28 Eftir að konungur hafði talað við ráðgjafa sína gerði hann tvo gullkálfa+ og sagði við fólkið: „Það er of mikið ómak fyrir ykkur að fara upp til Jerúsalem. Hér er Guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út úr Egyptalandi.“+ 29 Síðan kom hann öðrum kálfinum fyrir í Betel+ og hinum í Dan.+ 30 Þetta varð til þess að fólkið syndgaði.+ Það fór alla leið til Dan til að tilbiðja kálfinn sem var þar.
31 Jeróbóam reisti hof á fórnarhæðunum og skipaði presta úr hópi almennings sem voru ekki Levítar.+ 32 Hann stofnaði einnig til hátíðar 15. dag áttunda mánaðarins sem var eins og hátíðin í Júda.+ Á altarinu sem hann hafði reist í Betel+ færði hann kálfunum sem hann hafði gert sláturfórnir, og hann skipaði presta í Betel til að gegna þjónustu á fórnarhæðunum sem hann hafði reist. 33 Á 15. degi áttunda mánaðarins, mánaðarins sem hann hafði sjálfur valið, tók hann að færa fórnir á altarinu sem hann hafði reist í Betel og kom á fót hátíð fyrir Ísraelsmenn. Hann gekk upp að altarinu til að færa fórnir og láta fórnarreykinn stíga upp.