Jesaja
31 Illa fer fyrir þeim sem fara til Egyptalands að leita hjálpar,+
sem reiða sig á hesta,+
sem treysta á hervagna þar sem þeir eru margir
og á stríðshesta* þar sem þeir eru sterkir,
en horfa ekki til Hins heilaga Ísraels
og leita ekki til Jehóva.
2 Hann er líka vitur og veldur ógæfu
og hann tekur ekki orð sín aftur.
Hann rís gegn hópi illvirkjanna
og þeim sem hjálpa illmennum.+
Þegar Jehóva réttir út hönd sína
hrasar sá sem býður fram hjálp
og sá sem þiggur hana fellur.
Þeir farast samtímis, hvor með öðrum.
4 Þetta hefur Jehóva sagt við mig:
„Eins og ljónið, sterkt ungljón, urrar yfir bráð sinni
og hræðist ekki köllin
né skelfist lætin
þegar hópur fjárhirða safnast saman gegn því,
þannig stígur Jehóva hersveitanna niður til að heyja stríð
og verja Síonarfjall og Síonarhæð.
5 Jehóva hersveitanna ver Jerúsalem eins og fugl sem steypir sér niður.+
Hann ver hana og frelsar,
hann þyrmir henni og bjargar.“
6 „Snúið aftur, Ísraelsmenn, til hans sem þið risuð blygðunarlaust gegn.+ 7 Þann dag munuð þið hvert og eitt hafna gagnslausum guðum ykkar úr silfri og einskis nýtum guðum úr gulli sem þið gerðuð í synd ykkar með eigin höndum.
8 Assýringurinn fellur fyrir sverði en ekki sverði manns
og sverð mun bana honum, þó ekki sverð manns.+
Hann flýr undan sverðinu
og ungmenni hans verða hneppt í nauðungarvinnu.