Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Hvað er dómsdagur?
    Hvað kennir Biblían?
    • VIÐAUKI

      Hvað er dómsdagur?

      HVERNIG sérðu dómsdag fyrir þér? Margir ímynda sér hann þannig að milljarðar sálna séu leiddar hver af annarri fyrir hásæti Guðs og fái þar sinn dóm. Sumar hljóti himneska sælu að launum en aðrar verði dæmdar til eilífra kvala. Biblían dregur upp allt aðra mynd af þessu tímabili. Hún lýsir dómsdegi ekki sem tíma ógnar og skelfingar heldur tíma vonar og endurreisnar.

      Við getum lesið lýsingu Jóhannesar postula á dómsdegi í Opinberunarbókinni 20:11, 12. Þar stendur: „Ég sá mikið hvítt hásæti og þann, sem í því sat. Og fyrir ásjónu hans hvarf himinn og jörð og þeirra sá engan stað. Og ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu, og bókum var lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra.“ Hver er dómarinn sem situr þarna?

      Jehóva Guð er æðsti dómari mannkyns. Hann hefur hins vegar falið öðrum að fella sjálfa dómana. Páll postuli segir í Postulasögunni 17:31 að Guð hafi „sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi“. Þessi dómari er hinn upprisni Jesús Kristur. (Jóhannes 5:22) En hvenær hefst dómsdagur og hve langur er hann?

      Í Opinberunarbókinni kemur fram að dómsdagur hefjist eftir Harmagedónstríðið þegar kerfi Satans verður eytt.a (Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:19–20:3) Eftir Harmagedón verða Satan og illu andarnir fangelsaðir í undirdjúpi í þúsund ár. Þessi þúsund ár munu 144.000 samerfingjar Krists gegna hlutverki dómara og ríkja með honum. (Opinberunarbókin 14:1-3; 20:1-4; Rómverjabréfið 8:17) Dómsdagur er ekki bara einn sólarhringur þar sem allir eru dæmdir með hraði heldur er hann þúsund ára langur.

      Á þessum þúsund árum mun Jesús Kristur „dæma . . . lifendur og dauða“. (2. Tímóteusarbréf 4:1) „Lifendur“ eru „mikill múgur“ manna sem lifir af Harmagedónstríðið. (Opinberunarbókin 7:9-17) Jóhannes postuli sá einnig „þá dauðu . . . standa frammi fyrir hásætinu“ þar sem dómurinn fer fram. Eins og Jesús lofaði munu „þeir, sem í gröfunum eru . . . heyra raust hans og ganga fram“ þegar þeir verða reistir upp frá dauðum. (Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 24:15) En eftir hverju verða allir dæmdir?

      Í sýn Jóhannesar postula segir: „Bókum var lokið upp . . . og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra.“ Geyma þessar bækur upplýsingar um verk manna í fortíðinni? Nei, dómurinn verður ekki byggður á verkum manna fyrir dauðann. Hvernig vitum við það? Biblían segir: „Sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni.“ (Rómverjabréfið 6:7) Menn eru sem sagt með hreinan skjöld þegar þeir rísa upp frá dauðum. Bækurnar hljóta því að innihalda frekari upplýsingar um kröfur Guðs. Til að lifa að eilífu þurfa bæði hinir upprisnu og þeir sem lifa af Harmagedón að hlýða boðorðum Guðs, þar á meðal nýjum fyrirmælum sem hann kann að gefa á þessum þúsund árum. Fólk verður dæmt á grundvelli þess sem það gerir meðan dómsdagurinn stendur yfir.

      Á dómsdegi fá milljarðar manna tækifæri í fyrsta sinn til að kynnast vilja Guðs og laga sig að honum. Það hefur í för með sér umfangsmikið fræðslustarf og „þá læra byggjendur jarðríkis réttlæti“. (Jesaja 26:9) Ekki vilja þó allir laga sig að vilja Guðs. Í Jesaja 26:10 segir: „Sé hinum óguðlegu sýnd vægð, læra þeir eigi réttlæti. Þá fremja þeir órétt í því landi, þar sem réttlæti skal ríkja, og gefa ekki gætur að hátign Drottins.“ Óguðlegir menn verða líflátnir fyrir fullt og allt á dómsdegi. — Jesaja 65:20.

      Þegar dómsdegi lýkur eru eftirlifandi menn orðnir fullkomnir og eru því ‚lifnaðir‘ að fullu. (Opinberunarbókin 20:5) Á dómsdegi endurheimtir mannkynið með öðrum orðum fullkomleikann sem það hafði í upphafi. (1. Korintubréf 15:24-28) Þá fer fram lokapróf. Satan verður sleppt úr fangelsinu og hann fær þá að gera síðustu tilraun til að afvegaleiða mannkynið. (Opinberunarbókin 20:3, 7-10) Þeir sem standa gegn honum fá að sjá fyrirheit Biblíunnar í Sálmi 37:29 rætast að fullu: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ Já, dómsdagur verður til blessunar fyrir alla trúfasta menn.

      a Finna má upplýsingar um Harmagedón í Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 594-95, 1037-38 og bæklingnum Haltu vöku þinni, bls. 12-19. Bæði ritin eru gefin út af Vottum Jehóva.

  • 1914 — mikilvægt ár í spádómum Biblíunnar
    Hvað kennir Biblían?
    • VIÐAUKI

      1914 — mikilvægt ár í spádómum Biblíunnar

      BIBLÍUNEMENDUR höfðu boðað nokkrum áratugum áður að þýðingarmiklir atburðir myndu eiga sér stað árið 1914. Hvaða atburðir voru þetta og hvað bendir til þess að árið 1914 sé svona sérstakt?

      Jesús sagði í Lúkasi 21:24: „Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.“ Jerúsalem hafði verið höfuðborg Gyðinga, stjórnarsetur konunga af ætt Davíðs. (Sálmur 48:2, 3) Þessir konungar höfðu sérstöðu meðal þjóðhöfðingja heims því að þeir voru ‚konungar Drottins í hásæti‘, það er að segja fulltrúar Jehóva Guðs. (1. Kroníkubók 29:23) Jerúsalem var því tákn um stjórn Jehóva.

      Hvernig og hvenær bar það til að stjórn Guðs var „fótum troðin af heiðingjum“? Það gerðist árið 607 f.Kr. þegar Babýloníumenn unnu Jerúsalem. Nú sat enginn „konungur Drottins í hásæti“ lengur og hlé varð á stjórn konunga af ætt Davíðs. (2. Konungabók 25:1-26) Yrði „Jerúsalem . . . fótum troðin“ að eilífu? Nei, því að í spádómi Esekíels segir um Sedekía, síðasta konunginn í Jerúsalem: „Burt með höfuðdjásnið, niður með kórónuna! . . . Þetta ríki skal ekki heldur vera til, uns sá kemur, sem hefir réttinn, er ég hefi gefið honum.“ (Esekíel 21:26, 27) Jesús Kristur „hefir réttinn“ til hásætis Davíðs. (Lúkas 1:32, 33) Hætt yrði að ‚fótum troða Jerúsalem‘ þegar hann tæki við konungdómi.

      Hvenær átti þessi merkisatburður að eiga sér stað? Jesús benti á að heiðnum þjóðum væri skammtaður ákveðinn tími. Í 4. kafla Daníelsbókar er að finna upplýsingar sem gera okkur kleift að reikna út tímalengdina. Þar segir frá spádómlegum draumi sem Nebúkadnesar konung í Babýlon dreymdi. Í draumnum sá hann risastórt tré sem var höggvið niður og stofninn var bundinn fjötrum af járni og eiri svo að hann gat ekki vaxið að nýju. Engill lýsti yfir: „Sjö tíðir skulu yfir hann líða.“ — Daníel 4:10-16.

      Tré eru stundum notuð í Biblíunni til að tákna stjórnir. (Esekíel 17:22-24; 31:2-5) Með því að höggva hið táknræna tré var gefið til kynna að hlé yrði á stjórn Guðs sem konungarnir í Jerúsalem voru fulltrúar fyrir. Sýnin boðaði samt sem áður að ‚Jerúsalem yrði fótum troðin‘ aðeins um tíma eða í „sjö tíðir“. Hve langur tími er það?

      Af Opinberunarbókinni 12:6, 14 má sjá að þrjár og hálf tíð samsvara ‚eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu dögum‘. (Sjá Biblíuna 1912) „Sjö tíðir“ hljóta þá að vera helmingi lengri eða 2520 dagar. En heiðnar þjóðir hættu ekki að ‚fótum troða‘ stjórn Guðs 2520 dögum eftir fall Jerúsalem. Ljóst er því að spádómurinn nær til mun lengri tíma. Sé miðað við 4. Mósebók 14:34 og Esekíel 4:6, þar sem talað er um eitt ár fyrir hvern dag, eru hinar „sjö tíðir“ 2520 ár.

      Árin 2520 hófust í október árið 607 f.Kr. þegar Jerúsalem féll fyrir Babýloníumönnum og konunginum af ætt Davíðs var steypt af stóli. Þetta tímabil tók enda í október árið 1914. Þá lauk ‚tímum heiðingjanna‘ og Jesús Kristur settist að völdum sem himneskur konungur í umboði Guðs.a — Sálmur 2:1-6; Daníel 7:13, 14.

      Rétt eins og Jesús spáði hefur tíminn eftir komu hans sem konungur á himnum einkennst af afdrifaríkum atburðum í heimsmálum, svo sem styrjöldum, hungursneyðum, jarðskjálftum og drepsóttum. (Matteus 24:3-8; Lúkas 21:11) Þessir atburðir sýna svo ekki verður um villst að himneskt ríki Guðs hafi tekið til starfa árið 1914 og ‚síðustu dagar‘ þessa illa heimskerfis, sem nú er, hafi hafist það ár. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

      Chart: The seven times, or times of the Gentiles, calculated from Jerusalem’s fall until 2,520 years ended in October 1914

      a Frá október 607 f.Kr. til október árið 1 f.Kr. eru 606 ár. Ekki er til neitt núllár þannig að frá október árið 1 f.Kr. til október 1914 e.Kr. eru 1914 ár. Með því að leggja saman 606 og 1914 fáum við 2520 ár. Hægt er að lesa sér til um fall Jerúsalem árið 607 f.Kr. undir flettunni „Chronolgy“ (tímatal) í Insight on the Scriptures, gefin út af Vottum Jehóva.

  • Hver er Míkael höfuðengill?
    Hvað kennir Biblían?
    • VIÐAUKI

      Hver er Míkael höfuðengill?

      BIBLÍAN minnist ekki oft á andaveruna Míkael. Þegar hans er getið stendur hann hins vegar í stórræðum. Í Daníelsbók berst hann við illa engla, í Júdasarbréfinu deilir hann við Satan og í Opinberunarbókinni á hann í stríði við Satan og illu andana. Með því að verja stjórn Jehóva og berjast við óvini hans rís hann undir nafni en nafnið merkir „hver er Guði líkur?“ Hver er Míkael?

      Stundum eru persónur þekktar undir fleiri en einu nafni. Ættfaðirinn Jakob er líka þekktur undir nafninu Ísrael og Pétur postuli undir nafninu Símon, svo dæmi séu tekin. (1. Mósebók 49:1, 2; Matteus 10:2) Biblían gefur til kynna að Míkael sé annað nafn á Jesú Kristi, bæði fyrir og eftir veru hans á jörðinni. Lítum á biblíuleg rök fyrir þessari ályktun.

      Höfuðengill. Í orði Guðs er Míkael kallaður „höfuðengillinn“. (Júdasarbréfið 9) Við tökum eftir að titillinn er með ákveðnum greini sem bendir til þess að aðeins sé til einn höfuðengill. Reyndar stendur orðið aðeins í eintölu í Biblíunni. Jesús er einnig nefndur í tengslum við stöðu höfuðengils. Sagt er um hinn upprisna Drottin Jesú Krist í 1. Þessaloníkubréfi 4:16: „Sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust.“ Þarna er Jesús sagður tala með rödd höfuðengils. Af þessu versi má ráða að Jesús sé höfuðengillinn Míkael.

      Foringi hersveitar. Í Biblíunni kemur fram að „Míkael og englar hans“ hafi barist við ‚drekann og engla hans‘, þannig að Míkael er foringi hersveitar trúfastra engla. (Opinberunarbókin 12:7) Opinberunarbókin talar einnig um að Jesús fari fyrir hersveit trúfastra engla. (Opinberunarbókin 19:14-16) Og Páll postuli nefnir sérstaklega ‚Drottin Jesú‘ og ‚engla máttar hans‘. (2. Þessaloníkubréf 1:7) Biblían talar sem sagt bæði um Míkael og ‚engla hans‘ og um Jesú og ‚engla hans‘. (Matteus 13:41; 16:27; 24:31; 1. Pétursbréf 3:22) Hvergi kemur fram í Biblíunni að til séu tveir herir trúfastra engla á himnum, annar undir forystu Míkaels en hinn undir forystu Jesú. Það er því rökrétt að Míkael og Jesús Kristur í himnesku hlutverki hans séu ein og sama persónan.a

      a Nánari upplýsingar um að nafnið Míkael sé notað um son Guðs má finna í bókinni Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 393-94, gefin út af Vottum Jehóva.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • Íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila