Námskafli 32
Sannfæringarkraftur
SÁ SEM talar af sannfæringu sýnir öðrum þar með að hann trúir staðfastlega því sem hann segir. Páll postuli bjó yfir slíkum sannfæringarkrafti. Hann skrifaði fólki í Þessaloníku sem tekið hafði trú: „Fagnaðarerindi vort kom eigi til yðar í orðum einum, heldur einnig í krafti og . . . með fullkominni sannfæringu.“ (1. Þess. 1:5) Þessi sannfæring birtist bæði í mæli hans og líferni. Við ættum einnig að koma sannleika Biblíunnar á framfæri með sterkri sannfæringu.
Það má ekki rugla sannfæringarkrafti saman við kreddufestu eða skoðanahroka heldur er það einfaldlega merki um sterka trú að tala af sannfæringu um orð Guðs. — Hebr. 11:1.
Hvenær er sannfæringarkraftur viðeigandi? Sannfæringarkraftur er mikilvægur í boðunarstarfinu. Fólk tekur ekki síður eftir mæli þínu en boðskap. Það skynjar hvernig þú hugsar um það sem þú berð á borð. Sannfæringarkrafturinn getur sagt fólki sterkar en orðin ein að þú hafir eitthvað verulega verðmætt fram að færa.
Sannfæringarkraftur er einnig nauðsynlegur þegar þú ávarpar trúsystkini þín. Pétur postuli skrifaði fyrra innblásna bréfið „til þess að minna á og vitna hátíðlega, að þetta er hin sanna náð Guðs.“ Hann hvatti síðan bræðurna: „Standið stöðugir í henni.“ (1. Pét. 5:12) Í bréfi til safnaðarins í Róm lét Páll postuli í ljós sannfæringu sem var þeim til styrktar. Hann skrifaði: „Ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ (Rómv. 8:38, 39) Páll var einnig sannfærandi þegar hann ræddi um mikilvægi þess að prédika fyrir öðrum, og kostgæfni hans tók af öll tvímæli um að hann væri sjálfur sannfærður um nauðsyn þess. (Post. 20:18-21; Rómv. 10:9, 13-15) Safnaðaröldungar þurfa að sýna sömu sannfæringu þegar þeir kenna með vísun í orð Guðs.
Foreldrar þurfa að tala með sannfæringarkrafti þegar þeir ræða um andleg mál við börnin sín, bæði í formlegu biblíunámi og við önnur tækifæri. Til að geta gert það þurfa foreldrarnir að rækta með sér innilegan kærleika til Guðs og vega hans. Þá geta þeir talað við börnin af sterkri sannfæringu vegna þess að ‚af gnægð hjartans mælir munnurinn.‘ (Lúk. 6:45; 5. Mós. 6:5-7) Slík sannfæring er foreldrunum jafnframt hvöt til að vera börnunum fyrirmynd í ‚hræsnislausri trú.‘ — 2. Tím. 1:5.
Sannfæringarkraftur er sérstaklega mikilvægur þegar trú manns er véfengd. Segjum að skólafélagi, kennari eða vinnufélagi lýsi undrun sinni á því að þú skulir ekki taka þátt í vissum hátíðahöldum. Einbeitt, úthugsað svar getur auðveldað honum að virða biblíulega afstöðu þína. Eða segjum að einhver reyni að lokka þig út í eitthvað rangt — svo sem óheiðarleika, fíkniefnaneyslu eða kynferðislegt siðleysi. Þá er nauðsynlegt að segja skýrt og skorinort að þú takir ekki þátt í neinu slíku og að það sé þýðingarlaust að reyna að telja þér hughvarf. Til að gera þetta þarftu að hafna boðinu með sannfæringarkrafti. Jósef var einbeittur þegar hann hafnaði siðlausum umleitunum eiginkonu Pótífars. „Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ spurði hann. Þegar hún hélt uppteknum hætti forðaði hann sér út úr húsinu. — 1. Mós. 39:9, 12.
Hvernig sannfæring birtist. Með réttu orðavali geturðu farið langleiðina með að koma sannfæringu þinni til skila. Jesús sagði oft: „Sannlega, sannlega segi ég þér,“ á undan mikilvægri fullyrðingu. (Jóh. 3:3, 5, 11; 5:19, 24, 25) Sannfæring Páls birtist í orðum eins og: „Ég er þess fullviss,“ „ég veit það og er þess fullviss, af því að ég lifi í samfélagi við Drottin Jesú“ og „ég tala sannleika, lýg ekki.“ (Rómv. 8:38; 14:14; 1. Tím. 2:7) Stundum innblés Jehóva spámönnum að segja eitthvað þessu líkt til að leggja áherslu á að orð sín myndu rætast: „Hún [vitrunin] mun vissulega fram koma.“ (Hab. 2:3) Þú gætir notað svipað orðalag þegar þú vísar í þessa spádóma. Ef þú treystir á Jehóva en ekki sjálfan þig og talar með virðingu við aðra getur orðfæri af þessu tagi vitnað um að þú búir yfir sterkri trú.
Sannfæring getur einnig birst í þeirri einlægni, alvöru og afli sem þú leggur í orðin. Svipbrigði, tilburðir og líkamstjáning hefur sitt að segja þótt hún geti verið eitthvað breytileg frá manni til manns. Þó að þú sért feiminn eða þýðmæltur að eðlisfari verður sannfæring þín augljós ef þú ert alveg viss um að það sem þú segir sé sannleikur og að aðrir þurfi að heyra það.
Sannfæring okkar þarf auðvitað að vera einlæg. Ef fólk skynjar að við erum með uppgerð en tölum ekki frá hjartanu, þá hugsar það líklega sem svo að málstaður okkar sé veikur. Þú skalt því umfram allt vera þú sjálfur. Ef áheyrendur eru margir geturðu þurft að brýna raustina svolítið og leggja meiri kraft í orðin. En reyndu alltaf að vera einlægur og eðlilegur.
Leiðir til að sýna sannfæringu. Sannfæringarkraftur þinn er nátengdur því hvernig þú hugsar um efnið. Þess vegna þarftu að undirbúa þig vel. Það er ekki nóg að afrita texta upp úr einhverju riti og þylja hann síðan upp. Þú þarft að skilja efnið vel og geta komið því á framfæri með eigin orðum. Þú þarft að vera fullkomlega sannfærður um að það sem þú ert að segja sé rétt og gagnlegt fyrir áheyrendur. Það þýðir að þú þarft að taka tillit til aðstæðna þeirra þegar þú undirbýrð þig og jafnframt að taka mið af því sem þeir vita um efnið og hvernig þeir hugsa um það.
Sannfæring okkar kemur skýrar fram ef við flytjum efnið reiprennandi. Þess vegna er ekki nóg að vanda sig við að semja ræðuna heldur þarf einnig að æfa flutninginn vel. Hugaðu sérstaklega að þeim efnisköflum þar sem einlægni skiptir miklu máli þannig að þú getir flutt þá án þess að vera bundinn af minnisblöðunum. Og mundu líka eftir að biðja Jehóva að blessa viðleitni þína. Þá getur hann ‚gefið þér djörfung‘ og þú getur talað af þeim sannfæringarkrafti sem hæfir sannleiksgildi og þýðingu boðskaparins. — 1. Þess. 2:2.