Velkomin í Boðunarskólann
MILLJÓNIR manna afla sér menntunar í Boðunarskólanum í hverri viku. Sumir nemendanna eru nýbyrjaðir en aðrir hafa stundað nám við skólann í mörg ár. Hann er starfræktur á tugþúsundum staða í meira en 200 löndum og námsskráin er sú sama alls staðar. Fólk á öllum aldri, af alls konar þjóðerni og með mjög ólíka menntun nýtur góðs af hinni ókeypis fræðslu sem skólinn lætur í té.
Þegar skólinn tók til starfa í söfnuðum Votta Jehóva árið 1943 var markmiði hans lýst þannig: „Til að þjálfa alla ‚trúa menn‘ sem hafa heyrt orð Guðs og sannað trú sína á það, svo að þeir verði ‚færir um að kenna öðrum‘ . . . til að hver og einn verði . . . betur í stakk búinn til að kynna vonina sem í honum býr.“ (Course in Theocratic Ministry, bls. 4) Þetta er enn þá markmið skólans.
Hvernig getum við best notað málhæfileikann sem Guð gaf okkur? Biblían svarar: „Allt sem andardrátt hefir lofi Drottin!“ (Sálm. 150:6) Við gleðjum hjarta föður okkar á himnum með því að gera það og sýnum honum að við erum innilega þakklát fyrir kærleika hans og gæsku. Það er því eðlilegt að kristnir menn skuli vera hvattir til að bera stöðugt fram „lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ (Hebr. 13:15) Boðunarskólinn getur auðveldað þér að færa Jehóva Guði slíkar lofgerðarfórnir með því að þroska með þér þá hæfileika sem þú hefur fengið að gjöf frá honum. Við bjóðum þig því velkominn í skólann!
Í Boðunarskólanum er lögð mikil áhersla á upplestur, mælskulist og kennslutækni en það er þó hvergi nærri tæmandi lýsing á þeirri menntun sem hann veitir. Í skólanum færðu kennslu í lestri, hlustun, minnisþjálfun, námi og efnisleit. Þú lærir að brjóta efni til mergjar og raða því niður og að svara spurningum, ræða við fólk og setja hugsun þína á blað. Námsefnið er sótt í Biblíuna sjálfa og biblíutengd rit, og þar geturðu fundið svör við spurningum sem bornar eru upp í skólanum og efnivið í verkefni þín. Þegar þú fyllir hugann af þeim verðmætu sannindum, sem er að finna í orði Guðs, lærirðu að hugsa eins og hann vill að þú gerir. Og það hlýtur að vera gagnlegt á öllum sviðum lífsins. Bandaríski háskólakennarinn William Lyon Phelps (1865-1943) skrifaði: „Sá sem býr að staðgóðri þekkingu á Biblíunni getur kallast menntaður. . . . Ég álít að biblíuþekking án háskólamenntunar sé verðmætari en háskólamenntun án biblíuþekkingar.“
Nýttu þér skólann sem best
Til að hafa sem mest gagn af Boðunarskólanum þarft þú sem nemandi að leggja þig vel fram. Páll postuli hvatti félaga sinn, Tímóteus: „Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ (1. Tím. 4:15) Hvernig geturðu best lagt þig fram?
Sæktu Boðunarskólann í hverri viku, svo framarlega sem þú hefur nokkur tök á því. Notfærðu þér kennslubókina Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum sem best þú getur. Á titilsíðunni er lína þar sem þú skalt merkja þér bókina með skýrum prentstöfum. Hafðu hana alltaf meðferðis í skólann. Bókin er jafnframt vinnubók. Strikaðu undir mikilvæg atriði í henni sem þú telur geta komið þér að gagni. Bókin er með breiðum spássíum sem þú getur notað til að punkta hjá þér gagnlegar ábendingar sem fram koma í skólanum.
Námsskrá Boðunarskólans er gefin út á sérblaði. Þar er einnig að finna leiðbeiningar um tilhögun námsins. Þú gætir stungið námsskránni inn í bókina; þá er hún á vísum stað.
Þegar þú undirbýrð þig fyrir hina vikulegu skólasamkomu skaltu hafa hugfast að Biblían er aðalkennslubókin. Leggðu áherslu á að lesa þá biblíukafla sem settir eru fyrir í hverri viku. Það er líka mjög gagnlegt fyrir þig að lesa annað efni, sem dagskráin er byggð á, ef þú hefur tök á því.
Stundum er áheyrendum boðið að svara spurningum. Notfærðu þér það. Með þátttöku í almennum umræðum festirðu betur í minni það sem þú heyrir og getur notað það í einkalífinu.
Allir nemendur fá að sjálfsögðu tækifæri til að flytja ræður eða sviðsetja umræður í áheyrn safnaðarins. Nýttu þér þau sem best. Leggðu þig allan fram um að bæta ræðutækni þína á því sviði sem þér er úthlutað hverju sinni. Þér verða gefnar leiðbeiningar sem miða að markvissum framförum. Taktu leiðbeiningunum vel og punktaðu hjá þér í bókina hvað þú getir gert til að bæta þig. Það er erfitt að sjá sjálfan sig með augum annarra, þannig að kærleiksríkar ábendingar, sem eru sóttar í Biblíuna, geta átt drjúgan þátt í því að þú takir framförum. Einu gildir hvort þú ert nýbyrjaður í skólanum eða hefur verið skráður nemandi í mörg ár. — Orðskv. 1:5.
Með framtakssemi og frumkvæði geturðu hraðað framförum þínum. Þú getur til dæmis farið vel yfir það efni sem nemendaræður hverrar viku eru byggðar á. Þá gætirðu boðið þig fram ef óskað væri eftir sjálfboðaliða til að hlaupa í skarðið vegna forfalla, og þannig aflarðu þér meiri reynslu. Taktu vel eftir efnismeðferð annarra þegar þeir flytja ræður. Við lærum hvert af öðru.
Þú getur líka hraðað framförum þínum ef þú ferð vandlega yfir efni þessarar kennslubókar fyrir fram. Eftir að þú hefur tileinkað þér efni næstu 15 kafla skaltu snúa þér að bókarhlutanum „Markviss þjálfun í kennslu og ræðumennsku“ sem hefst á blaðsíðu 78. Farðu vandlega yfir hvern námskafla og gerðu æfingarnar sem fylgja honum. Notaðu síðan í boðunarstarfinu það sem þú lærir. Þannig geturðu þjálfað þig jafnt og þétt í ræðumennsku og því að kenna orðs Guðs.
Boðunarskólinn býr þig undir það sem mestu máli skiptir í lífinu. Það er vilja Guðs að þakka að við erum til, þannig að fátt getur gefið lífinu meira gildi en það að lofa hann. Jehóva Guð verðskuldar lofgerð í hæsta gæðaflokki. (Opinb. 4:11) Sú menntun, sem við fáum í skólanum, er leið til að lofa hann því að hún hjálpar okkur að hugsa skýrt, breyta viturlega og koma hinum unaðslega sannleika í innblásnu orði Guðs skilmerkilega á framfæri.