Námskafli 45
Áhrifaríkt myndmál og dæmi
MYNDMÁL og dæmi eru áhrifamikil kennslutæki. Þau geta gripið athygli fólks og haldið henni með undraverðum árangri. Þau örva hugsunina. Þau hreyfa við tilfinningum og geta því náð bæði til samviskunnar og hjartans. Stundum er hægt að nota myndmál til að sigrast á fordómum. Það er einnig áhrifarík minnishjálp. Notarðu myndmál og dæmi þegar þú kennir?
Líkingar geta verið stuttar og gagnorðar en þær geta engu að síður dregið upp ljóslifandi myndir í hugum fólks. Séu þær vel valdar er merkingin yfirleitt augljós. En kennari getur aukið áhrif þeirra með stuttri skýringu. Í Biblíunni eru ókjör af dæmum sem þú getur dregið lærdóm af.
Byrjaðu á samlíkingum og myndhvörfum. Samlíkingar eru einfaldasta myndmálið. Ef þú ert að læra að nota myndmál gæti verið gott fyrir þig að byrja á samlíkingunum. Þær hefjast yfirleitt á orðunum „sem,“ „líkur/líkt og“ og „eins og.“ Samlíking dregur fram eitthvað sem er sameiginlegt með tvennu ólíku. Biblían er auðug að myndmáli sem sótt er til sköpunarverksins — jurtanna, dýranna og himintunglanna — auk þess sem byggt er á mannlegri reynslu. Í Sálmi 1:3 er sagt að sá sem les reglulega í orði Guðs sé „sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum,“ það er að segja tré sem ber ávöxt og visnar ekki. Hinn óguðlegi er sagður vera „eins og ljón“ sem situr fyrir bráð. (Sálm. 10:9) Jehóva hét Abraham því að afkomendur hans yrðu margir ‚sem stjörnur á himni og sem sandur á sjávarströnd.‘ (1. Mós. 22:17) Til að lýsa því hve náið samband Ísraelsmenn gætu átt við sig sagði Jehóva að þeir myndu halda sig við hann „eins og beltið fellir sig að lendum manns.“ — Jer. 13:11.
Myndhvörf eru einnig notuð til að draga fram eitthvað sem er sameiginlegt með tvennu mjög ólíku. Myndhvörf eru sterkari en samlíkingar. Það eru myndhvörf þegar talað er eins og einn hlutur sé annar og eiginleiki annars er þannig yfirfærður á hinn. Jesús sagði lærisveinunum: „Þér eruð ljós heimsins.“ (Matt. 5:14) Lærisveinninn Jakob lýsti þeim skaða sem taumlaus tunga getur valdið og sagði: „Tungan er . . . eldur.“ (Jak. 3:6) „Þú ert bjarg mitt og vígi,“ söng Davíð og var þar að ávarpa Jehóva. (Sálm. 31:4) Séu myndhvörf vel valin þarf að jafnaði litla eða enga skýringu. Krafturinn er fólginn í fáum, hnitmiðuðum orðum. Myndhvörf eru góð minnishjálp því að þau geta fest hluti betur í minni en einföld staðhæfing.
Ofhvörf er sama og ýkjur og þeim þarf að beita af nokkurri varúð til að þau misskiljist ekki. Jesús greip til þessa myndmáls með ógleymanlegum hætti er hann spurði: „Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?“ (Matt. 7:3) Lærðu að nota samlíkingar og myndhvörf áður en þú spreytir þig á þessu myndmáli eða einhverju öðru.
Notaðu dæmi. Þú gætir notað annaðhvort tilbúna dæmisögu eða raunsanna frásögu sem kennslutæki í stað myndmáls. En mörgum hættir til að ofgera þegar þeir bregða upp slíkum dæmum, þannig að það þarf að nota þau skynsamlega. Dæmi ætti aðeins að nota til að styðja mikilvæg atriði, og það ætti að nota þau þannig að áheyrendur muni eftir kennslunni, ekki aðeins sögunni.
Þótt notuð séu tilbúin dæmi ættu þau að vera raunsæ og vitna um þekktar aðstæður eða sjónarmið. Til að kenna hvernig líta bæri á iðrandi syndara tók Jesús þannig dæmi um fögnuð manns sem fann týndan sauð. (Lúk. 15:1-7) Þegar maður nokkur skildi ekki almennilega hvað ákvæði lögmálsins um að elska náungann þýddi sagði Jesús sögu um Samverja sem hjálpaði særðum manni eftir að prestur og levíti höfðu gengið fram hjá honum. (Lúk. 10:30-37) Ef þú lærir að vera glöggur á viðhorf fólks og hátterni geturðu notað þessa kennslutækni með góðum árangri.
Spámaðurinn Natan brá upp ímynduðum aðstæðum til að ávíta Davíð konung. Sagan hreif af því að Natan nefndi ekkert sem hefði getað sett Davíð í varnarstöðu. Sagan fjallaði um ríkan mann sem átti margt fé og fátækan mann sem átti eina gimbur er hann ól af mikilli natni. Davíð var fyrrverandi fjárhirðir þannig að hann skildi mætavel hvernig manninum, sem átti gimbrina, var innanbrjósts. Hann fylltist réttlátri reiði í garð ríka mannsins sem hafði tekið hina hjartfólgnu gimbur frá fátæka manninum. Þá sagði Natan umbúðalaust við Davíð: „Þú ert maðurinn!“ Þetta snerti hjarta Davíðs og hann iðraðist einlæglega. (2. Sam. 12:1-14) Með æfingunni lærirðu að fjalla smekklega og hlýlega um viðkvæm mál.
Biblían inniheldur fjölda dæma og frásagna sem hægt er að nota til að kenna. Jesús vísaði í eitt slíkt dæmi er hann sagði stutt og laggott: „Minnist konu Lots.“ (Lúk. 17:32) Hann minntist á ‚daga Nóa‘ er hann lýsti nærverutákni sínu. (Matt. 24:37-39) Í 11. kafla Hebreabréfsins nafngreinir Páll postuli 16 karla og konur sem sýndu gott fordæmi um trú. Þegar þú ert orðinn vel kunnugur Biblíunni geturðu sótt áhrifamikil dæmi í þá atburði sem hún greinir frá og til fólksins sem hún fjallar um. — Rómv. 15:4; 1. Kor. 10:11.
Stundum getur verið gott að renna stoðum undir ákveðnar leiðbeiningar eða kennslu með raunsönnu nútímadæmi. En þegar þú gerir það þarftu að gæta þess að nota aðeins staðfestar frásagnir og forðast dæmi sem gætu gert einhvern í áheyrendahópnum vandræðalegan að þarflausu eða dregið fram umdeilt málefni sem er ekki til umræðu þessu sinni. Og mundu líka að frásagan á að þjóna ákveðnum tilgangi. Farðu ekki út í óþörf smáatriði sem draga einungis athyglina frá markmiði ræðunnar.
Skilst samlíkingin eða dæmið? Samlíking eða dæmi á alltaf að þjóna ákveðnu markmiði. Tekst það ef þú heimfærir það ekki upp á umræðuefnið?
Eftir að Jesús kallaði lærisveina sína „ljós heimsins“ nefndi hann stuttlega hvernig lampar eru notaðir og hvaða ábyrgð hvíldi á lærisveinunum með hliðsjón af því. (Matt. 5:15, 16) Hann fylgdi dæmisögunni um týnda sauðinn eftir með ábendingu um gleðina á himni yfir syndara sem iðrast. (Lúk. 15:7) Og eftir að hafa sagt dæmisöguna um miskunnsama Samverjann spurði hann áheyrandann hnitmiðaðrar spurningar og gaf svo ráð sem hittu beint í mark. (Lúk. 10:36, 37) Þegar Jesús sagði dæmisögurnar um mismunandi jarðveg og um illgresið á akrinum skýrði hann þær hins vegar ekki fyrir mannfjöldanum heldur aðeins fyrir þeim sem voru nógu auðmjúkir til að biðja um skýringu. (Matt. 13:1-30, 36-43) Þrem dögum fyrir dauða sinn sagði hann dæmisögu um vínyrkja sem myrtu sendimenn húsbóndans. Hann gaf enga nánari skýringu enda var það óþarft því að ‚æðstu prestarnir og farísearnir skildu að hann átti við þá.‘ (Matt. 21:33-45) Eðli myndmálsins, afstaða áheyrenda og markmið þitt hefur hvert um sig áhrif á það hvort þú þarft að skýra myndmálið eða ekki, og þá hve ítarlega.
Það tekur tíma að æfa sig í að nota myndmál og dæmi en það er ómaksins vert. Vel valið myndmál höfðar bæði til skynseminnar og hjartans þannig að boðskapurinn hefur sterkari áhrif en þú myndir ná með því að lýsa einungis staðreyndum.