-
Að semja uppkastAflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
-
-
Að semja uppkast
MARGIR skrifa ræður sínar vandvirknislega orð fyrir orð, allt frá inngangi til niðurlags. Áður en ræðan er fullgerð hafa mörg uppköst lent í ruslakörfunni og margar klukkustundir farið í verkið.
Semur þú ræður með þessum hætti? Langar þig til að læra auðveldari aðferð? Ef þú lærir að semja uppkast eða minnispunkta þarftu ekki að skrifa ræðuna orð fyrir orð, og þá geturðu líka gefið þér meiri tíma til að æfa sjálfan flutninginn. Bæði verður auðveldara fyrir þig að flytja ræðuna og hún verður líka áheyrilegri og meira hvetjandi.
Látið er í té prentað frumuppkast að opinberum fyrirlestrum safnaðarins, en í flestum öðrum tilfellum þarf ræðumaður sjálfur að semja uppkastið. Vera má að þér sé einungis úthlutað viðfangsefni eða ákveðnu stefi, eða þá falið að semja ræðu með hliðsjón af vissu efni sem birst hefur á prenti. Í sumum tilvikum er aðeins gefin stutt ræðulýsing. Í öllum þessum tilfellum þarf að semja uppkast eða minnispunkta að ræðunni.
Á blaðsíðu 41 er sýnishorn af stuttu uppkasti sem gefur góða hugmynd um hvernig niðurröðunin gæti verið. Eins og þú sérð er hvert aðalatriði skrifað með upphafsstöfum næst spássíunni vinstra megin. Undir hverju aðalatriði koma síðan punktar sem styðja það. Þar fyrir neðan koma fleiri punktar þar sem unnið er nánar úr aðalatriðunum, og þeir eru inndregnir um nokkur bil frá spássíunni. Skoðaðu þetta uppkast vandlega. Þú sérð að aðalatriðin tvö eru nátengd stefinu og stuðningspunktarnir eru meira en athyglisverð smáatriði því að hver um sig styður viðkomandi aðalatriði.
Uppkastið, sem þú semur, lítur sennilega ekki nákvæmlega eins út og þetta sýnishorn, en ef þú áttar þig á meginhugmyndinni áttu auðveldara með að setja efnið skipulega niður á blað og semja góða ræðu á hæfilega stuttum tíma. Hvernig áttu að bera þig að?
Að sundurliða, velja og raða niður
Í fyrsta lagi þarf ræðan að hafa stef, og stefið er ekki bara almennt viðfangsefni sem lýsa má með einu, merkingarvíðu orði. Stefið er sú meginhugmynd sem þú vilt koma á framfæri og lýsir því frá hvaða sjónarhorni þú ætlar að fjalla um efnið. Ef þér er úthlutað stefi skaltu brjóta hvert aðalorð til mergjar. Ef þú átt að vinna úr stefinu með hliðsjón af ákveðnu efni, sem birst hefur á prenti, skaltu lesa efnið vandlega með stefið í huga. Sé þér aðeins falið að fjalla um ákveðið viðfangsefni er það undir sjálfum þér komið að velja ræðunni stef. En áður en þú gerir það getur verið gott að gera ákveðna rannsóknar- og undirbúningsvinnu enda kvikna oft nýjar hugmyndir þegar maður er með hugann opinn.
Við þennan undirbúning er gott að spyrja sig hvers vegna þetta efni sé mikilvægt fyrir áheyrendur og hvaða markmiði ræðan eigi að þjóna. Markmiðið ætti ekki að vera það eitt að fara yfir efnið eða flytja líflega ræðu heldur að miðla áheyrendum einhverju gagnlegu. Skrifaðu markmiðið hjá þér þegar það skýrist og minntu þig síðan á það þegar þú undirbýrð þig.
Rannsóknir þínar og efnisleit verða markvissari þegar þú hefur glöggvað þig á markmiðinu og valið þér stef í samræmi við það (eða brotið til mergjar hvernig uppgefið stef samræmist markmiðinu). Vertu vakandi fyrir efni sem hefur sérstakt gildi fyrir áheyrendur. Þú ættir ekki að sætta þig við almennar upplýsingar heldur leita að ákveðnum atriðum sem eru bæði fræðandi og gagnleg. En stilltu rannsóknum og efnisleit í hóf. Í flestum tilfellum ertu fljótlega kominn með meira efni en þú getur notað, þannig að þú þarft að velja úr.
Komdu auga á aðalatriðin sem þú þarft að fjalla um til að vinna úr stefinu og ná markmiði þínu með ræðunni. Þá ertu kominn með rammann eða frumdrögin. Hve mörg eiga aðalatriðin að vera? Tvö ættu að nægja í stuttri ræðu og yfirleitt nægja fimm þó að ræðan sé klukkustundarlöng. Því færri sem þau eru, þeim mun líklegra er að áheyrendur muni eftir þeim.
Þegar stefið og aðalatriðin liggja fyrir geturðu komið reglu á það efni og þær heimildir sem þú hefur leitað uppi. Skoðaðu hvað tengist aðalatriðunum beinlínis og veldu svo efni sem gerir ræðuna ferska og hressandi. Við val á ritningarstöðum til að styðja aðalatriðin skaltu gefa gaum að hugmyndum sem bjóða upp á innihaldsrík rök og skýringar. Raðaðu efninu með þeim aðalatriðum þar sem það á heima. Ef eitthvað af efninu á ekki heima með neinu af aðalatriðunum skaltu leggja það til hliðar, jafnvel þótt það sé áhugavert, eða geyma það til síðari nota. Haltu aðeins því efni sem á best við. Ef þú reynir að fara yfir of mikið efni þarftu að tala of hratt og umfjöllunin verður yfirborðsleg. Það er betra að fjalla um fáein atriði sem hafa raunverulegt gildi fyrir áheyrendur og gera það vel. Farðu ekki fram yfir úthlutaðan tíma.
Ef þú ert ekki búinn að raða efninu í rökrétta röð er tímabært að gera það núna. Guðspjallamaðurinn Lúkas gerði það. Hann safnaði miklum upplýsingum og ritaði síðan „samfellda sögu.“ (Lúk. 1:3) Þú gætir raðað efninu í tímaröð eða efnisröð, hugsanlega frá orsök til afleiðingar eða öfugt eða frá vanda til lausnar, allt eftir því hvað best hentar til að ná markmiði ræðunnar. Hvergi ættu að vera snubbótt skil milli hugmynda heldur ætti að leiða áheyrendur þægilega frá einni hugmynd til annarrar. Það ættu hvergi að vera óbrúuð bil. Þær sannanir og þau rök, sem þú leggur fram, ættu að fá áheyrendur til að draga rökréttar ályktanir. Þegar þú ákveður efnisröðunina skaltu íhuga hvernig ræðan hljómi í eyrum annarra. Ætli þeir eigi auðvelt með að fylgja rökfærslunni? Skyldu þeir finna hvöt hjá sér til að fara eftir því sem þeir heyra, í samræmi við það markmið sem þú hefur sett þér?
Nú skaltu semja inngang sem vekur áhuga á efninu og sýnir áheyrendum fram á að þeir hafi gagn af því sem þú ætlar að fjalla um. Kannski ættirðu að skrifa fyrstu setningarnar orðrétt. Semdu síðan hvetjandi niðurlagsorð sem samræmast markmiði þínu.
Ef þú semur ræðuuppkastið nógu tímanlega hefurðu ráðrúm til að slípa það áður en þú flytur ræðuna. Kannski þarftu að bæta inn tölulegum upplýsingum, líkingu eða frásögu til að styðja ákveðnar hugmyndir í ræðunni. Atburðir líðandi stundar eða staðbundin mál geta auðveldað áheyrendum að koma auga á gildi efnisins. Þegar þú rennir yfir ræðuna kemurðu kannski auga á fleiri tækifæri til að laga efnið að áheyrendum. Þessi greining og slípun er nauðsynleg til að semja áhrifaríka ræðu úr góðu efni.
Misjafnt er hve ítarlegt uppkast ræðumenn þurfa að hafa. En ef þú raðar efninu niður eftir aðeins fáeinum aðalatriðum, kippir út öllu sem kemur þeim ekki beinlínis við og setur hugmyndir þínar fram í rökréttri röð kemstu að raun um að með svolítilli reynslu þarftu ekki að skrifa allt orðrétt niður. Það getur verið mikill tímasparnaður og ræðurnar verða betri fyrir vikið. Þá verður ljóst að þú nýtur góðs af þeirri menntun sem Boðunarskólinn veitir.
-
-
Að undirbúa nemendaverkefni fyrir skólannAflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
-
-
Að undirbúa nemendaverkefni fyrir skólann
ÞÚ HEFUR tækifæri til að taka framförum með hverju nýju verkefni í skólanum. Ef þú leggur þig samviskusamlega fram verður framförin smám saman augljós, bæði sjálfum þér og öðrum. (1. Tím. 4:15) Skólinn hjálpar þér að þroska hæfileika þína.
Verður þú taugaóstyrkur þegar þú hugsar til þess að tala til safnaðarins? Það er ofur eðlilegt, jafnvel hjá þeim sem hafa verið nemendur í skólanum um tíma. En það eru ýmis ráð til að draga úr kvíðanum. Vendu þig til dæmis á að lesa upphátt heima og gerðu það oft. Taktu reglulega þátt í boðunarstarfinu ef þú ert boðberi og svaraðu oft á safnaðarsamkomum. Þannig æfirðu þig í að tala til áheyrenda. Og undirbúðu þig tímanlega fyrir nemendaverkefnin og æfðu þig upphátt í að flytja þau. Mundu að áheyrendur eru vinsamlegir. Biddu til Jehóva áður en þú flytur ræðu. Hann er meira en fús til að miðla þjónum sínum, sem biðja hann, af anda sínum. — Lúk. 11:13; Fil. 4:6, 7.
Gerðu þér hóflegar væntingar. Það tekur sinn tíma að öðlast reynslu sem ræðumaður og verða góður kennari. (Míka 6:8) Ef þú ert nýlega byrjaður í skólanum skaltu ekki búast við að flytja fágaðar ræður þegar í stað. Leggðu þig fram við að ná tökum á einum þjálfunarlið í einu. Farðu fyrir fram yfir þann námskafla sem fjallar um hann. Helst ættirðu að gera æfingarnar sem stungið er upp á. Þannig færðu nokkra reynslu í því, sem ráðleggingar skólahirðisins fjalla um, áður en að því kemur að skila af sér verkefninu. Framfarirnar eiga sér stað smám saman.
Að búa sig undir upplestrarverkefni
Þegar þér er úthlutað upplestrarverkefni í söfnuðinum þarftu að geta lesið orðin í textanum rétt. En þú þarft líka að reyna að fá góða tilfinningu fyrir merkingu textans. Lestu yfir efnið með þetta í huga jafnskjótt og þú færð verkefnið. Reyndu að skilja merkinguna í hverri setningu og koma auga á hugsunina í hverri efnisgrein þannig að þú getir komið henni nákvæmlega til skila með réttri tilfinningu. Kannaðu framburð framandlegra orða hjá einhverjum sem þekkir málið vel. Settu þig vel inn í efnið. Foreldrar gætu þurft að aðstoða börn sín við þetta.
Hefurðu fengið það verkefni að lesa upp biblíukafla eða kannski greinarhluta í Varðturninum? Ef til vill gætirðu fengið einhvern góðan lesara til að lesa efnið upp fyrir þig og hlustað eftir framburði, hrynjandi, áherslum og raddbrigðum og reynt síðan að líkja eftir honum.
Þú skalt byrja þetta verkefni á því að fara vel yfir námskaflann um þann þátt ræðumennsku sem þú átt að æfa. Eftir að þú hefur æft þig nokkrum sinnum að lesa úthlutað efni upphátt ættirðu að renna yfir námskaflann að nýju. Fylgdu síðan tillögum námskaflans eins vel og þú getur.
Þessi þjálfun ætti að koma þér að góðum notum í boðunarstarfinu því að þar bjóðast þér mörg tækifæri til að lesa fyrir aðra. Orð Guðs býr yfir krafti til að breyta lífi fólks, svo að það er mikilvægt að lesa það vel. (Hebr. 4:12) Þú getur ekki búist við að eitt eða tvö upplestrarverkefni nægi til að ná tökum á öllum þáttum góðs upplestrar. Páll postuli skrifaði kristnum öldungi með áralanga reynslu að baki: „Ver þú . . . kostgæfinn að lesa úr Ritningunni.“ — 1. Tím. 4:13.
Viðfangsefni og sviðsetning
Hvernig áttu að bera þig að þegar þér er falið verkefni í skólanum ásamt sviðsetningu?
Huga þarf að þrennu: (1) úthlutuðu efni, (2) sviðsetningu og viðmælanda og (3) þjálfunarliðnum sem þér er falið að vinna að.
Þú þarft að taka saman efni til að gera verkefninu skil. En áður en þú leggur mikla vinnu í það skaltu hugsa alvarlega um sviðsetninguna og viðmælanda þinn því að það hefur áhrif á hvaða efni þú velur og hvernig þú kemur því á framfæri. Hver er sviðsetningin? Áttu að sýna hvernig þú kynnir fagnaðarerindið fyrir einhverjum sem þú þekkir? Eða áttu að sýna hvað getur gerst þegar þú hittir einhvern í fyrsta sinn? Er viðmælandinn eldri eða yngri en þú? Hvaða afstöðu gæti hann haft til þess efnis sem þú ætlar að fjalla um? Hve mikið máttu ætla að hann viti um efnið? Hvaða markmiði viltu ná með umræðunum? Svörin við þessum spurningum setja þér ákveðinn ramma.
Hvar finnurðu efnivið í ræðuna? Á blaðsíðu 33 til 38 í þessari bók er kafli um „Rannsóknir og efnisleit.“ Lestu hann og notaðu síðan þær handbækur og hjálpargögn sem þú hefur aðgang að. Í flestum tilfellum ertu fljótur að safna meira efni en þú getur notað. Lestu nægilega mikið til að átta þig á því hvaða möguleika þú hefur, en hafðu samt hugfast hvernig þú átt að sviðsetja samtalið og hver viðmælandinn er. Merktu við atriði sem henta.
Áður en þú ferð að raða niður efni og ákveður endanlega hvað þú notar skaltu gefa þér tíma til að lesa námskaflann um þann þjálfunarlið sem þú átt að vinna að í þetta skipti. Þessi þjálfunarliður er ein aðalástæðan fyrir því að þú hefur fengið verkefnið.
Ef þú vilt fá að ljúka ræðunni með þeim niðurlagsorðum, sem þú hafðir í huga, þarftu að komast yfir efnið innan úthlutaðra tímamarka vegna þess að gefið er merki þegar ræðutíminn er á enda. Tíminn skiptir þó ekki alltaf máli í boðunarstarfinu. Taktu mið af tímanum þegar þú undirbýrð þig en leggðu samt aðaláherslu á áhrifaríka kennslu.
Fáein orð um sviðsetningu. Skoðaðu tillögurnar á blaðsíðu 82 og veldu sviðsetningu sem hentar fyrir boðunarstarfið og gefur þér færi á að nota hið úthlutaða efni á raunhæfan hátt. Ef þú hefur verið nemandi í skólanum um skeið skaltu líta á þetta sem tækifæri til að tileinka þér nýja tækni í boðunarstarfinu.
Líttu á það sem spennandi verkefni ef umsjónarmaður Boðunarskólans úthlutar þér sviðsetningu. Flestar sviðsetningar tengjast boðunarstarfinu. Ef þú hefur aldrei vitnað við þær aðstæður, sem lýst er, geturðu fengið hugmyndir með því að tala við boðbera sem hafa reynslu af því. Reyndu síðan að ræða við einhvern um það efni, sem þér er úthlutað, við svipaðar aðstæður og þú átt að gera í skólanum. Þannig nærðu mikilvægu markmiði með þjálfun þinni.
Þegar þú átt að flytja ræðu
Karlmenn fá gjarna það verkefni að flytja stutta ræðu frammi fyrir söfnuðinum. Við undirbúning slíkrar ræðu þarf að hafa í huga sömu grundvallaratriði og nefnd hafa verið varðandi samtalsverkefni. Munurinn er aðallega fólginn í markhópnum og flutningsforminu.
Að jafnaði er æskilegt að færa efnið í þann búning að allir viðstaddir hafi gagn af því. Flestir þekkja undirstöðusannindi Biblíunnar. Ef til vill eru þeir vel heima í því efni sem þér er falið að fjalla um. Taktu mið af því sem þeir vita um efnið. Leggðu þig fram um að skila verkefninu þannig að þeir hafi gagn af. Spyrðu þig: ‚Hvernig get ég notað viðfangsefnið þannig að ég og áheyrendur fái meiri mætur á Jehóva sem persónu? Hvað í efninu hjálpar okkur að koma auga á vilja Guðs? Hvernig getur þetta efni auðveldað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir í heimi sem stjórnast af vilja holdsins?‘ (Ef. 2:3) Til að svara þessum spurningum á fullnægjandi hátt þarftu að rannsaka málið og viða að þér efni. Þegar þú notar Biblíuna í ræðunni skaltu rökræða með hliðsjón af ritningartextanum og sýna fram á hvernig draga megi ályktanir af honum. (Post. 17:2, 3) Láttu þér ekki nægja að lesa aðeins textann. Reyndu ekki að komast yfir of mikið efni heldur skaltu flytja efnið þannig að áheyrendur eigi auðvelt með að muna það.
Flutningur ræðunnar skiptir miklu máli þannig að þú þarft líka að undirbúa hann vel. Æfðu þig að flytja ræðuna upphátt. Þú hefur veruleg áhrif á framfarir þínar ef þú leggur þig fram við að tileinka þér hina ýmsu þætti góðrar ræðutækni sem um er fjallað í námsköflum þessarar bókar. Jafnt reyndir ræðumenn sem nýir ættu að undirbúa sig vel þannig að þeir geti talað af þeim sannfæringarkrafti og þeirri tilfinningu sem hæfir efninu. Og þegar þú skilar af þér verkefnum þínum í skólanum skaltu hafa hugfast það markmið að nota málið, sem Guð gaf þér, til að heiðra hann. — Sálm. 150:6.
-
-
Að semja ræður ætlaðar söfnuðinumAflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
-
-
Að semja ræður ætlaðar söfnuðinum
DAGSKRÁ Boðunarskólans er samin til gagns fyrir allan söfnuðinn. En fræðandi efni er einnig komið á framfæri á öðrum safnaðarsamkomum og á svæðis- og umdæmismótum. Það er mikil ábyrgð að fá verkefni á einhverri af þessum samkomum. Páll postuli hvatti Tímóteus, sem var kristinn umsjónarmaður, til að hafa gát á sjálfum sér og fræðslunni. (1. Tím. 4:16) Þeir sem sækja kristnar samkomur hafa tekið frá dýrmætan tíma — og sumir lagt mikið á sig — til að vera viðstaddir og fá fræðslu um mál sem varða samband þeirra við Guð. Það er einstakur heiður að fá að veita slíka fræðslu. Hvernig geturðu gert henni góð skil?
Höfuðþættir biblíulesefnisins
Þessi þáttur skólans er byggður á þeim biblíuköflum sem safnaðarmenn eru hvattir til að lesa í vikunni. Leggja skal áherslu á gildi efnisins fyrir nútímaþjóna Guðs. Eins og fram kemur í Nehemía 8:8 lásu Esra og félagar hans upp úr orði Guðs og „útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna.“ Þú hefur tækifæri til að gera slíkt hið sama þegar þér er falið að fara yfir höfuðþætti biblíulesefnisins.
Hvernig er best að undirbúa sig fyrir þetta verkefni? Ef þú getur skaltu lesa úthlutaða biblíukafla með minnst viku fyrirvara. Hugsaðu síðan um söfnuðinn þinn og þarfir hans. Leggðu málið fyrir Jehóva í bæn. Hvaða ráðleggingar, hvaða dæmi og hvaða meginreglur í lesköflunum eiga við þarfir safnaðarins?
Þú þarft að lesa þér til og leita fanga. Geisladiskurinn Watchtower Library og efnisskráin Watch Tower Publications Index koma að góðum notum ef þú getur notfært þér þau á erlendu máli, og eins gæti efnisskráin í desemberheftum Varðturnsins komið þér að gagni. Með því að kanna hvað hefur verið sagt um þau vers, sem þú hefur ákveðið að einbeita þér að, geturðu fundið ýmiss konar undirstöðufróðleik, skýringar á spádómum og uppfyllingu þeirra, ábendingar um það sem læra má um Jehóva af vissum textum eða umfjöllun um meginreglur. En reyndu ekki að fara yfir of mörg atriði. Það er betra að einbeita sér að fáeinum, völdum versum og ræða þau vel.
Þetta verkefni getur líka boðið upp á að áheyrendur tjái sig um það gagn sem þeir hafa haft af biblíulesefni vikunnar. Hvað rákust þeir á sem getur komið þeim að gagni í einkanámi, fjölskyldunámi, boðunarstarfi eða lífinu almennt? Hvaða eiginleikar Jehóva birtust í samskiptum hans við menn og þjóðir? Hvað lærðu áheyrendur sem jók trú þeirra og mætur á Jehóva? Gleymdu þér ekki við umfjöllun um flókin smáatriði heldur leggðu áherslu á merkingu og hagnýtt gildi þeirra atriða sem þú ákveður að ræða um.
Kennsluræða
Þessi ræða er byggð á efni sem birst hefur í Varðturninum eða Vaknið!, eða á kafla í einhverri bók. Yfirleitt er vísað á meira en nóg efni til að fjalla um á þeim tíma sem til umráða er. En ræðan á ekki að vera einföld efnisyfirferð heldur áhrifarík kennsla. Umsjónarmaður þarf að vera „góður fræðari.“ — 1. Tím. 3:2.
Gott er að hefja undirbúninginn með því að kynna sér heimildarefnið vel. Flettu upp á ritningarstöðum og hugleiddu þá. Reyndu að gera þetta með allgóðum fyrirvara. Mundu að bræðurnir eru hvattir til að lesa það efni, sem ræðan er byggð á, fyrir samkomuna. Hlutverk þitt er ekki aðeins að rifja það upp eða draga það saman heldur sýna fram á hvernig það eigi við eða hvernig eigi að fara eftir því. Notaðu viðeigandi kafla úr efninu á þann hátt að söfnuðurinn hafi gagn af.
Hver söfnuður hefur sín sérkenni líkt og hvert barn hefur sérstæðan persónuleika. Faðir, sem er góður kennari, þylur ekki einungis siðferðisreglur yfir barninu heldur rökræðir við það. Hann tekur mið af persónuleika þess og þeim vandamálum sem það á við að glíma. Kennarar í söfnuðinum leitast sömuleiðis við að átta sig á þörfum þess hóps, sem þeir ávarpa, og laga kennsluna að honum. En skynugur kennari gætir þess að nota ekki dæmi sem gætu gert einhvern í hópnum vandræðalegan. Hann bendir á hvernig allir njóta góðs af því að ganga á vegum Jehóva og dregur fram biblíuleg ráð til að auðvelda söfnuðinum að glíma við vandamál sín.
Góð kennsla nær til hjartans. Hún er ekki aðeins fólgin í því að greina frá staðreyndum heldur einnig að miðla skilningi á þýðingu þeirra. Til þess að gera það þarf kennarinn að bera umhyggju fyrir áheyrendum. Andlegir hirðar ættu að þekkja hjörðina, og ef þeir hafa vandamál hinna ýmsu safnaðarmanna í huga eru þeir uppörvandi, hvetjandi, skilningsríkir og umhyggjusamir.
Góður kennari veit að ræða þarf að hafa skýrt markmið. Hann þarf að koma efninu þannig á framfæri að aðalatriðin skeri sig úr og áheyrendur muni eftir þeim. Þeir ættu að muna eftir raunhæfum ábendingum sem hafa áhrif á líf þeirra.
Þjónustusamkoman
Ræða byggð á grein í Ríkisþjónustu okkar er svolítið annars eðlis. Nú áttu ef til vill að koma öllu til skila sem stendur í greininni í stað þess að velja úr það sem best á við. Þú þarft að hjálpa áheyrendum að draga ályktanir af ritningartextum sem eru undirstaða leiðbeininganna í greininni. (Tít. 1:9) Tíminn er takmarkaður og í fæstum tilfellum er ráðrúm til að auka við efnið.
Málið horfir öðruvísi við ef þér er falið að fjalla um efni sem er ekki byggt á grein í Ríkisþjónustu okkar. Kannski er vísað í grein í Varðturninum eða stutt verkefnislýsing gefin. Þá er það undir sjálfum þér komið að íhuga þarfir safnaðarins og fjalla um efnið í samræmi við þær. Þú gætir þurft að koma með stutta en hnitmiðaða líkingu eða segja viðeigandi frásögu. Mundu að verkefnið er ekki einungis fólgið í því að ræða um efnið heldur áttu að fjalla um það á þann hátt að það hjálpi söfnuðinum að vinna það verk, sem honum er falið í orði Guðs, og að njóta þess að gera það. — Post. 20:20, 21.
Veltu fyrir þér aðstæðum safnaðarmanna þegar þú semur ræðuna. Hrósaðu þeim fyrir það sem þeir gera og sýndu þeim fram á hvernig tillögurnar í greininni, sem þú sækir efnið í, geta hjálpað þeim að hafa ánægju af þjónustu sinni og skila henni betur af hendi.
Er sýnikennsla eða viðtal innifalið í verkefninu? Þá þarftu að undirbúa þig með góðum fyrirvara. Það er freistandi að biðja einhvern annan að sjá um sýnikennslu eða viðtal en árangurinn er ekki alltaf sem skyldi. Ef þess er nokkur kostur skaltu láta æfa sýnikennsluna eða viðtalið áður en samkomudagurinn rennur upp. Fullvissaðu þig um að þessi þáttur verkefnisins skili sér þannig að það styrki kennsluna.
Svæðis- og umdæmismót
Ef bræður þroska vel sinn andlega mann og ná góðum tökum á kennslu og ræðumennsku mega þeir búast við að fá verkefni á svæðis- og umdæmismótum þegar fram í sækir. Mótin eru sérstakur fræðsluvettvangur. Mótsverkefni getur verið upplestrarræða, uppkast, leiðbeiningar um biblíuleikrit með nútímaheimfærslu eða stutt verkefnislýsing. Ef þér er falið verkefni á svæðis- eða umdæmismóti skaltu setja þig vel inn í efnið sem þér er sent og gaumgæfa það uns þú áttar þig fyllilega á gildi þess.
Þeir sem fá það verkefni að flytja upplestrarræðu eiga að lesa hana orðrétt. Þeir eiga ekki að umorða neitt eða breyta efnisröðinni. Undirbúningur þeirra felst í því að koma auga á aðalatriðin og glöggva sig vel á úrvinnslu þeirra. Þeir æfa sig síðan í að lesa ræðuna upphátt uns þeir geta flutt hana með réttum merkingaráherslum, eldmóði, hlýju, tilfinningu, einlægni og sannfæringu, og auk þess með þeim raddstyrk og krafti sem tilheyrir á fjöldasamkomu.
Þegar bræður fá það verkefni að flytja ræðu eftir uppkasti ber þeim að vinna úr efninu í nákvæmu samræmi við uppkastið. Þeir eiga ekki að lesa upp sjálft uppkastið né semja handrit eftir því heldur flytja ræðuna innilega og frjálslega eftir minnispunktum. Mikilvægt er að halda sig innan þeirra tímamarka, sem tiltekin eru í uppkastinu, til að koma öllum aðalatriðum greinilega til skila. Ræðumaðurinn ætti að notfæra sér þær ábendingar og þá ritningarstaði sem tilteknir eru undir hverju aðalatriði. Hann ætti ekki að fella neitt niður úr uppkastinu til að geta bætt inn öðrum atriðum að eigin geðþótta. Orð Guðs er auðvitað undirstaða kennslunnar og það er ábyrgð kristinna öldunga að ‚prédika orðið.‘ (2. Tím. 4:1, 2) Ræðumaður ætti því að gefa sérstakan gaum að ritningarstöðunum, sem tilgreindir eru í uppkastinu, rökræða út af þeim, skýra þá og heimfæra.
Dragðu ekki að undirbúa þig
Þjónarðu í söfnuði þar sem þú færð mörg ræðutækifæri? Hvernig geturðu skilað þeim öllum vel af hendi? Meðal annars með því að draga það ekki fram á síðustu stundu að undirbúa þig.
Til að söfnuðurinn hafi verulegt gagn af ræðu, sem þú flytur, þarftu að úthugsa hana vel. Temdu þér því að lesa yfir efnið jafnskjótt og þér er úthlutað verkefninu. Þá hefurðu svigrúm til að bræða það með þér við önnur störf. Á þeim dögum og vikum, sem líða fram að ræðunni, heyrirðu kannski eitthvað sem kveikir hugmyndir að því hvernig best sé að heimfæra efnið. Ef til vill gerist eitthvað sem sýnir fram á að efnið sé tímabært. Það tekur tíma að lesa yfir efnið og hugleiða það strax eftir að þú færð það í hendur, en þeim tíma er vel varið. Hann skilar sér þegar þú sest að lokum niður og semur uppkastið. Ef þú undirbýrð þig með þessum hætti losnarðu við heilmikla streitu, og það auðveldar þér að heimfæra efnið á raunhæfan hátt og ná til hjartna safnaðarmanna.
Það er mikill heiður að fá að taka þátt í þeirri kennslu sem Jehóva lætur fólki sínu í té. Þú heiðrar Jehóva og gerir þeim gott sem elska hann í sama mæli og þú kannt að meta þessa gjöf. — Jes. 54:13; Rómv. 12:6-8.
-
-
Að semja ræður ætlaðar almenningiAflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
-
-
Að semja ræður ætlaðar almenningi
Í FLESTUM söfnuðum Votta Jehóva er fluttur opinber fyrirlestur í hverri viku um biblíulegt efni. Öldungum og safnaðarþjónum er gjarnan boðið að flytja slíkan fyrirlestur ef þeir reynast góðir ræðumenn og kennarar, og Boðunarskólinn hefur þjálfað tugþúsundir bræðra til þessa hlutverks. Á hverju áttu að byrja þegar þér er falið að flytja opinberan fyrirlestur?
Kynntu þér uppkastið
Áður en þú hefst handa við rannsóknir og efnisleit skaltu lesa uppkastið og velta því fyrir þér til að glöggva þig vel á því. Hugfestu stef ræðunnar, það er að segja titilinn. Hvað ætlarðu að kenna áheyrendum? Hvaða markmið hefurðu með ræðunni?
Millifyrirsagnir segja til um aðalatriði ræðunnar. Skoðaðu þær vel og brjóttu til mergjar. Hvernig tengjast þær stefinu, hver um sig? Undir hverri millifyrirsögn eru nokkrir stuðningspunktar og undir hverjum stuðningspunkti nokkrir skýringaliðir. Taktu eftir hvernig hver liður í ræðuuppkastinu byggist á þeim sem á undan er og leiðir af sér þann næsta, og sjáðu hvernig hann á þátt í því að ræðan nái markmiði sínu. Eftir að þú hefur glöggvað þig á stefi ræðunnar, markmiði hennar og því hvernig aðalatriðin ná fram markmiðinu geturðu farið að vinna úr efninu.
Í byrjun getur verið gott að líta á ræðuna sem fjórar eða fimm stuttar ræður, hverja með einu aðalatriði, og semja hverja fyrir sig.
Uppkastið, sem þér er látið í té, er ætlað til undirbúnings. Hugmyndin er ekki sú að þú notir það sem minnispunkta þegar þú flytur ræðuna. Uppkastið er eins og beinagrind ef svo má að orði komast, og þú þarft að klæða hana holdi og blása lífi í hana.
Að nota Biblíuna
Jesús Kristur og lærisveinar hans byggðu kennslu sína á Ritningunni. (Lúk. 4:16-21; 24:27; Post. 17:2, 3) Þú getur líka gert það. Biblían ætti að vera undirstaða ræðunnar. Í stað þess að útskýra hreinlega það sem sagt er í uppkastinu þarftu að glöggva þig á því hvernig það á sér stuðning í Biblíunni og nota hana síðan til að kenna.
Skoðaðu hvert vers sem vísað er til í uppkastinu þegar þú undirbýrð þig. Athugaðu samhengið. Sumar vísanir eru kannski hugsaðar sem gagnlegar grunnupplýsingar, og þú þarft ekki að lesa eða skýra alla ritningarstaðina þegar þú flytur ræðuna. Veldu úr þá sem eiga mest erindi til áheyrenda. Ef þú einbeitir þér að þeim ritningarstöðum, sem vísað er til í uppkastinu, þarftu sennilega ekki að auka við þá.
Hvernig þér tekst til með ræðuna veltur ekki á því hve marga ritningarstaði þú lest heldur því hve góð kennslan er. Þegar þú kynnir ritningarstaði skaltu sýna fram á hvers vegna þú gerir það, og gefðu þér svo tíma til að skýra þá og heimfæra. Eftir að þú hefur lesið ritningartexta skaltu hafa Biblíuna opna á meðan þú ræðir um hann. Þá gera áheyrendur það sennilega líka. Með útskýringum, líkingum og heimfærslu geturðu örvað áhuga þeirra og hjálpað þeim að hafa sem mest gagn af orði Guðs. — Nehem. 8:8, 12.
Útskýring. Þegar þú býrð þig undir að útskýra lykilritningarstað er gott að spyrja: ‚Hvað merkir hann? Hvers vegna nota ég hann í ræðunni? Hvaða spurninga ætli áheyrendur spyrji sig þegar versið er lesið?‘ Þú getur þurft að skoða samhengi orðanna, forsögu, umgjörð, kraft og ætlun hins innblásna ritara. Þetta kallar á rannsóknir og leit. Geysimikinn fróðleik er að finna í ritum hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matt. 24:45-47) Reyndu ekki að útskýra versið í þaula en varpaðu ljósi á það hvers vegna þú last það í samhengi við umræðuefnið.
Líking. Líking á að þjóna þeim tilgangi að dýpka skilning áheyrenda eða hjálpa þeim að muna atriði eða meginreglu sem þú fjallar um. Líkingar auðvelda fólki að skilja það sem þú hefur fram að færa og tengja það einhverju sem það þekkir. Jesús gerði þetta í hinni frægu fjallræðu. ‚Fuglar himinsins,‘ ‚liljur vallarins,‘ ‚þröngt hlið,‘ ‚hús á bjargi‘ og margt í þeim dúr gerði kennslu hans áhrifamikla, skýra og ógleymanlega. — Matt. 5.-7. kafli.
Heimfærsla. Skýringar og líkingar eru til þekkingarauka en það er heimfærsla þekkingarinnar sem skilar árangri. Það er að vísu á ábyrgð áheyrenda sjálfra að fara eftir boðskap Biblíunnar en þú getur leitt þeim fyrir sjónir hvað þeir þurfa að gera. Þegar þú ert viss um að áheyrendur skilji versið sem til umræðu er og átti sig á því hvernig það snertir efnið, þarftu að gefa þér nægan tíma til að sýna þeim fram á áhrif þess á trú þeirra og hegðun. Bentu á kosti þess að leggja af rangar hugmyndir eða hegðun sem stangast á við þau sannindi sem eru til umræðu.
Mundu að áheyrendur eiga sér margs konar bakgrunn og búa við mjög breytilegar aðstæður og taktu mið af því þegar þú hugleiðir hvernig þú heimfærir ritningarstaði. Vel má vera að í hópnum sé fólk sem hefur nýlega sýnt áhuga, unglingar, aldraðir og ýmsir sem eiga við alls konar persónuleg vandamál að glíma. Gerðu ræðuna raunhæfa og raunsæja og gefðu ekki leiðbeiningar sem hljóma eins og þær séu ætlaðar einhverjum fáeinum í hópnum.
Það sem ræðumaður þarf sjálfur að ákveða
Sumt er búið að ákveða fyrir þig varðandi ræðuna. Aðalatriðin koma skýrt fram og tiltekið er hve mikinn tíma þú átt að nota til að ræða um efnið undir hverri millifyrirsögn. En þú þarft sjálfur að ákveða ýmislegt annað. Kannski viltu fjalla misítarlega um stuðningspunktana. Þú þarft ekki endilega að fara jafnítarlega yfir hvern einasta stuðningspunkt. Ef þú gerir það gætirðu þurft að fara á harðaspretti yfir eitthvað af efninu og þá myndirðu drekkja áheyrendum. Hvernig geturðu ákveðið hvað skuli fjalla ítarlega um og hvað stuttlega eða lauslega? Spyrðu þig: ‚Hvaða atriði hjálpa mér að koma kjarnanum í ræðunni til skila? Hvað er líklegast til að koma áheyrendum að mestu gagni? Slitnar rökþráðurinn í ræðunni ef ég sleppi ákveðnum ritningarstað, sem vísað er til, og skýringunni við hann?‘
Gættu þess vandlega að skjóta ekki tilgátum eða persónulegum skoðunum inn í ræðuna. Sonur Guðs, Jesús Kristur, talaði ekki einu sinni ‚af sjálfum sér.‘ (Jóh. 14:10) Mundu að fólk kemur á samkomur Votta Jehóva til að heyra biblíulega umfjöllun. Ef þú ert álitinn góður ræðumaður má líklega rekja það til þess að þú hefur tamið þér að vekja athygli á orði Guðs en ekki sjálfum þér. Og fyrir vikið eru ræður þínar vel metnar. — Fil. 1:10, 11.
Þegar þú ert búinn að breyta einföldu uppkasti í kjarngóða biblíuskýringu þarftu að æfa þig í að flytja ræðuna, helst upphátt. Aðalatriðið er að þú sért örugglega vel heima í efninu. Þú þarft að geta flutt ræðuna með sannfæringu, gætt efnið lífi og flutt sannleikann með eldmóði. Áður en þú flytur ræðuna skaltu spyrja þig: ‚Hverju vonast ég til að áorka?‘ Spyrðu síðan: ‚Eru aðalatriðin skýr og skera þau sig úr? Hefur mér tekist að byggja ræðuna vel á Biblíunni? Mynda ég eðlilega brú frá einu aðalatriði yfir til þess næsta? Eflir ræðan virðingu fyrir Jehóva og ráðstöfunum hans? Eru niðurlagsorðin í samræmi við stefið? Benda þau áheyrendum á hvað þeir þurfi að gera og hvetja þá til þess?‘ Ef þú getur svarað öllum þessum spurningum játandi, þá ertu í aðstöðu til að miðla ‚þekkingu,‘ söfnuðinum til gagns og Jehóva til lofs. — Orðskv. 15:2.
-