-
Að undirbúa nemendaverkefni fyrir skólannAflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
-
-
Að undirbúa nemendaverkefni fyrir skólann
ÞÚ HEFUR tækifæri til að taka framförum með hverju nýju verkefni í skólanum. Ef þú leggur þig samviskusamlega fram verður framförin smám saman augljós, bæði sjálfum þér og öðrum. (1. Tím. 4:15) Skólinn hjálpar þér að þroska hæfileika þína.
Verður þú taugaóstyrkur þegar þú hugsar til þess að tala til safnaðarins? Það er ofur eðlilegt, jafnvel hjá þeim sem hafa verið nemendur í skólanum um tíma. En það eru ýmis ráð til að draga úr kvíðanum. Vendu þig til dæmis á að lesa upphátt heima og gerðu það oft. Taktu reglulega þátt í boðunarstarfinu ef þú ert boðberi og svaraðu oft á safnaðarsamkomum. Þannig æfirðu þig í að tala til áheyrenda. Og undirbúðu þig tímanlega fyrir nemendaverkefnin og æfðu þig upphátt í að flytja þau. Mundu að áheyrendur eru vinsamlegir. Biddu til Jehóva áður en þú flytur ræðu. Hann er meira en fús til að miðla þjónum sínum, sem biðja hann, af anda sínum. — Lúk. 11:13; Fil. 4:6, 7.
Gerðu þér hóflegar væntingar. Það tekur sinn tíma að öðlast reynslu sem ræðumaður og verða góður kennari. (Míka 6:8) Ef þú ert nýlega byrjaður í skólanum skaltu ekki búast við að flytja fágaðar ræður þegar í stað. Leggðu þig fram við að ná tökum á einum þjálfunarlið í einu. Farðu fyrir fram yfir þann námskafla sem fjallar um hann. Helst ættirðu að gera æfingarnar sem stungið er upp á. Þannig færðu nokkra reynslu í því, sem ráðleggingar skólahirðisins fjalla um, áður en að því kemur að skila af sér verkefninu. Framfarirnar eiga sér stað smám saman.
Að búa sig undir upplestrarverkefni
Þegar þér er úthlutað upplestrarverkefni í söfnuðinum þarftu að geta lesið orðin í textanum rétt. En þú þarft líka að reyna að fá góða tilfinningu fyrir merkingu textans. Lestu yfir efnið með þetta í huga jafnskjótt og þú færð verkefnið. Reyndu að skilja merkinguna í hverri setningu og koma auga á hugsunina í hverri efnisgrein þannig að þú getir komið henni nákvæmlega til skila með réttri tilfinningu. Kannaðu framburð framandlegra orða hjá einhverjum sem þekkir málið vel. Settu þig vel inn í efnið. Foreldrar gætu þurft að aðstoða börn sín við þetta.
Hefurðu fengið það verkefni að lesa upp biblíukafla eða kannski greinarhluta í Varðturninum? Ef til vill gætirðu fengið einhvern góðan lesara til að lesa efnið upp fyrir þig og hlustað eftir framburði, hrynjandi, áherslum og raddbrigðum og reynt síðan að líkja eftir honum.
Þú skalt byrja þetta verkefni á því að fara vel yfir námskaflann um þann þátt ræðumennsku sem þú átt að æfa. Eftir að þú hefur æft þig nokkrum sinnum að lesa úthlutað efni upphátt ættirðu að renna yfir námskaflann að nýju. Fylgdu síðan tillögum námskaflans eins vel og þú getur.
Þessi þjálfun ætti að koma þér að góðum notum í boðunarstarfinu því að þar bjóðast þér mörg tækifæri til að lesa fyrir aðra. Orð Guðs býr yfir krafti til að breyta lífi fólks, svo að það er mikilvægt að lesa það vel. (Hebr. 4:12) Þú getur ekki búist við að eitt eða tvö upplestrarverkefni nægi til að ná tökum á öllum þáttum góðs upplestrar. Páll postuli skrifaði kristnum öldungi með áralanga reynslu að baki: „Ver þú . . . kostgæfinn að lesa úr Ritningunni.“ — 1. Tím. 4:13.
Viðfangsefni og sviðsetning
Hvernig áttu að bera þig að þegar þér er falið verkefni í skólanum ásamt sviðsetningu?
Huga þarf að þrennu: (1) úthlutuðu efni, (2) sviðsetningu og viðmælanda og (3) þjálfunarliðnum sem þér er falið að vinna að.
Þú þarft að taka saman efni til að gera verkefninu skil. En áður en þú leggur mikla vinnu í það skaltu hugsa alvarlega um sviðsetninguna og viðmælanda þinn því að það hefur áhrif á hvaða efni þú velur og hvernig þú kemur því á framfæri. Hver er sviðsetningin? Áttu að sýna hvernig þú kynnir fagnaðarerindið fyrir einhverjum sem þú þekkir? Eða áttu að sýna hvað getur gerst þegar þú hittir einhvern í fyrsta sinn? Er viðmælandinn eldri eða yngri en þú? Hvaða afstöðu gæti hann haft til þess efnis sem þú ætlar að fjalla um? Hve mikið máttu ætla að hann viti um efnið? Hvaða markmiði viltu ná með umræðunum? Svörin við þessum spurningum setja þér ákveðinn ramma.
Hvar finnurðu efnivið í ræðuna? Á blaðsíðu 33 til 38 í þessari bók er kafli um „Rannsóknir og efnisleit.“ Lestu hann og notaðu síðan þær handbækur og hjálpargögn sem þú hefur aðgang að. Í flestum tilfellum ertu fljótur að safna meira efni en þú getur notað. Lestu nægilega mikið til að átta þig á því hvaða möguleika þú hefur, en hafðu samt hugfast hvernig þú átt að sviðsetja samtalið og hver viðmælandinn er. Merktu við atriði sem henta.
Áður en þú ferð að raða niður efni og ákveður endanlega hvað þú notar skaltu gefa þér tíma til að lesa námskaflann um þann þjálfunarlið sem þú átt að vinna að í þetta skipti. Þessi þjálfunarliður er ein aðalástæðan fyrir því að þú hefur fengið verkefnið.
Ef þú vilt fá að ljúka ræðunni með þeim niðurlagsorðum, sem þú hafðir í huga, þarftu að komast yfir efnið innan úthlutaðra tímamarka vegna þess að gefið er merki þegar ræðutíminn er á enda. Tíminn skiptir þó ekki alltaf máli í boðunarstarfinu. Taktu mið af tímanum þegar þú undirbýrð þig en leggðu samt aðaláherslu á áhrifaríka kennslu.
Fáein orð um sviðsetningu. Skoðaðu tillögurnar á blaðsíðu 82 og veldu sviðsetningu sem hentar fyrir boðunarstarfið og gefur þér færi á að nota hið úthlutaða efni á raunhæfan hátt. Ef þú hefur verið nemandi í skólanum um skeið skaltu líta á þetta sem tækifæri til að tileinka þér nýja tækni í boðunarstarfinu.
Líttu á það sem spennandi verkefni ef umsjónarmaður Boðunarskólans úthlutar þér sviðsetningu. Flestar sviðsetningar tengjast boðunarstarfinu. Ef þú hefur aldrei vitnað við þær aðstæður, sem lýst er, geturðu fengið hugmyndir með því að tala við boðbera sem hafa reynslu af því. Reyndu síðan að ræða við einhvern um það efni, sem þér er úthlutað, við svipaðar aðstæður og þú átt að gera í skólanum. Þannig nærðu mikilvægu markmiði með þjálfun þinni.
Þegar þú átt að flytja ræðu
Karlmenn fá gjarna það verkefni að flytja stutta ræðu frammi fyrir söfnuðinum. Við undirbúning slíkrar ræðu þarf að hafa í huga sömu grundvallaratriði og nefnd hafa verið varðandi samtalsverkefni. Munurinn er aðallega fólginn í markhópnum og flutningsforminu.
Að jafnaði er æskilegt að færa efnið í þann búning að allir viðstaddir hafi gagn af því. Flestir þekkja undirstöðusannindi Biblíunnar. Ef til vill eru þeir vel heima í því efni sem þér er falið að fjalla um. Taktu mið af því sem þeir vita um efnið. Leggðu þig fram um að skila verkefninu þannig að þeir hafi gagn af. Spyrðu þig: ‚Hvernig get ég notað viðfangsefnið þannig að ég og áheyrendur fái meiri mætur á Jehóva sem persónu? Hvað í efninu hjálpar okkur að koma auga á vilja Guðs? Hvernig getur þetta efni auðveldað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir í heimi sem stjórnast af vilja holdsins?‘ (Ef. 2:3) Til að svara þessum spurningum á fullnægjandi hátt þarftu að rannsaka málið og viða að þér efni. Þegar þú notar Biblíuna í ræðunni skaltu rökræða með hliðsjón af ritningartextanum og sýna fram á hvernig draga megi ályktanir af honum. (Post. 17:2, 3) Láttu þér ekki nægja að lesa aðeins textann. Reyndu ekki að komast yfir of mikið efni heldur skaltu flytja efnið þannig að áheyrendur eigi auðvelt með að muna það.
Flutningur ræðunnar skiptir miklu máli þannig að þú þarft líka að undirbúa hann vel. Æfðu þig að flytja ræðuna upphátt. Þú hefur veruleg áhrif á framfarir þínar ef þú leggur þig fram við að tileinka þér hina ýmsu þætti góðrar ræðutækni sem um er fjallað í námsköflum þessarar bókar. Jafnt reyndir ræðumenn sem nýir ættu að undirbúa sig vel þannig að þeir geti talað af þeim sannfæringarkrafti og þeirri tilfinningu sem hæfir efninu. Og þegar þú skilar af þér verkefnum þínum í skólanum skaltu hafa hugfast það markmið að nota málið, sem Guð gaf þér, til að heiðra hann. — Sálm. 150:6.
-
-
Að semja ræður ætlaðar söfnuðinumAflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
-
-
Að semja ræður ætlaðar söfnuðinum
DAGSKRÁ Boðunarskólans er samin til gagns fyrir allan söfnuðinn. En fræðandi efni er einnig komið á framfæri á öðrum safnaðarsamkomum og á svæðis- og umdæmismótum. Það er mikil ábyrgð að fá verkefni á einhverri af þessum samkomum. Páll postuli hvatti Tímóteus, sem var kristinn umsjónarmaður, til að hafa gát á sjálfum sér og fræðslunni. (1. Tím. 4:16) Þeir sem sækja kristnar samkomur hafa tekið frá dýrmætan tíma — og sumir lagt mikið á sig — til að vera viðstaddir og fá fræðslu um mál sem varða samband þeirra við Guð. Það er einstakur heiður að fá að veita slíka fræðslu. Hvernig geturðu gert henni góð skil?
Höfuðþættir biblíulesefnisins
Þessi þáttur skólans er byggður á þeim biblíuköflum sem safnaðarmenn eru hvattir til að lesa í vikunni. Leggja skal áherslu á gildi efnisins fyrir nútímaþjóna Guðs. Eins og fram kemur í Nehemía 8:8 lásu Esra og félagar hans upp úr orði Guðs og „útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna.“ Þú hefur tækifæri til að gera slíkt hið sama þegar þér er falið að fara yfir höfuðþætti biblíulesefnisins.
Hvernig er best að undirbúa sig fyrir þetta verkefni? Ef þú getur skaltu lesa úthlutaða biblíukafla með minnst viku fyrirvara. Hugsaðu síðan um söfnuðinn þinn og þarfir hans. Leggðu málið fyrir Jehóva í bæn. Hvaða ráðleggingar, hvaða dæmi og hvaða meginreglur í lesköflunum eiga við þarfir safnaðarins?
Þú þarft að lesa þér til og leita fanga. Geisladiskurinn Watchtower Library og efnisskráin Watch Tower Publications Index koma að góðum notum ef þú getur notfært þér þau á erlendu máli, og eins gæti efnisskráin í desemberheftum Varðturnsins komið þér að gagni. Með því að kanna hvað hefur verið sagt um þau vers, sem þú hefur ákveðið að einbeita þér að, geturðu fundið ýmiss konar undirstöðufróðleik, skýringar á spádómum og uppfyllingu þeirra, ábendingar um það sem læra má um Jehóva af vissum textum eða umfjöllun um meginreglur. En reyndu ekki að fara yfir of mörg atriði. Það er betra að einbeita sér að fáeinum, völdum versum og ræða þau vel.
Þetta verkefni getur líka boðið upp á að áheyrendur tjái sig um það gagn sem þeir hafa haft af biblíulesefni vikunnar. Hvað rákust þeir á sem getur komið þeim að gagni í einkanámi, fjölskyldunámi, boðunarstarfi eða lífinu almennt? Hvaða eiginleikar Jehóva birtust í samskiptum hans við menn og þjóðir? Hvað lærðu áheyrendur sem jók trú þeirra og mætur á Jehóva? Gleymdu þér ekki við umfjöllun um flókin smáatriði heldur leggðu áherslu á merkingu og hagnýtt gildi þeirra atriða sem þú ákveður að ræða um.
Kennsluræða
Þessi ræða er byggð á efni sem birst hefur í Varðturninum eða Vaknið!, eða á kafla í einhverri bók. Yfirleitt er vísað á meira en nóg efni til að fjalla um á þeim tíma sem til umráða er. En ræðan á ekki að vera einföld efnisyfirferð heldur áhrifarík kennsla. Umsjónarmaður þarf að vera „góður fræðari.“ — 1. Tím. 3:2.
Gott er að hefja undirbúninginn með því að kynna sér heimildarefnið vel. Flettu upp á ritningarstöðum og hugleiddu þá. Reyndu að gera þetta með allgóðum fyrirvara. Mundu að bræðurnir eru hvattir til að lesa það efni, sem ræðan er byggð á, fyrir samkomuna. Hlutverk þitt er ekki aðeins að rifja það upp eða draga það saman heldur sýna fram á hvernig það eigi við eða hvernig eigi að fara eftir því. Notaðu viðeigandi kafla úr efninu á þann hátt að söfnuðurinn hafi gagn af.
Hver söfnuður hefur sín sérkenni líkt og hvert barn hefur sérstæðan persónuleika. Faðir, sem er góður kennari, þylur ekki einungis siðferðisreglur yfir barninu heldur rökræðir við það. Hann tekur mið af persónuleika þess og þeim vandamálum sem það á við að glíma. Kennarar í söfnuðinum leitast sömuleiðis við að átta sig á þörfum þess hóps, sem þeir ávarpa, og laga kennsluna að honum. En skynugur kennari gætir þess að nota ekki dæmi sem gætu gert einhvern í hópnum vandræðalegan. Hann bendir á hvernig allir njóta góðs af því að ganga á vegum Jehóva og dregur fram biblíuleg ráð til að auðvelda söfnuðinum að glíma við vandamál sín.
Góð kennsla nær til hjartans. Hún er ekki aðeins fólgin í því að greina frá staðreyndum heldur einnig að miðla skilningi á þýðingu þeirra. Til þess að gera það þarf kennarinn að bera umhyggju fyrir áheyrendum. Andlegir hirðar ættu að þekkja hjörðina, og ef þeir hafa vandamál hinna ýmsu safnaðarmanna í huga eru þeir uppörvandi, hvetjandi, skilningsríkir og umhyggjusamir.
Góður kennari veit að ræða þarf að hafa skýrt markmið. Hann þarf að koma efninu þannig á framfæri að aðalatriðin skeri sig úr og áheyrendur muni eftir þeim. Þeir ættu að muna eftir raunhæfum ábendingum sem hafa áhrif á líf þeirra.
Þjónustusamkoman
Ræða byggð á grein í Ríkisþjónustu okkar er svolítið annars eðlis. Nú áttu ef til vill að koma öllu til skila sem stendur í greininni í stað þess að velja úr það sem best á við. Þú þarft að hjálpa áheyrendum að draga ályktanir af ritningartextum sem eru undirstaða leiðbeininganna í greininni. (Tít. 1:9) Tíminn er takmarkaður og í fæstum tilfellum er ráðrúm til að auka við efnið.
Málið horfir öðruvísi við ef þér er falið að fjalla um efni sem er ekki byggt á grein í Ríkisþjónustu okkar. Kannski er vísað í grein í Varðturninum eða stutt verkefnislýsing gefin. Þá er það undir sjálfum þér komið að íhuga þarfir safnaðarins og fjalla um efnið í samræmi við þær. Þú gætir þurft að koma með stutta en hnitmiðaða líkingu eða segja viðeigandi frásögu. Mundu að verkefnið er ekki einungis fólgið í því að ræða um efnið heldur áttu að fjalla um það á þann hátt að það hjálpi söfnuðinum að vinna það verk, sem honum er falið í orði Guðs, og að njóta þess að gera það. — Post. 20:20, 21.
Veltu fyrir þér aðstæðum safnaðarmanna þegar þú semur ræðuna. Hrósaðu þeim fyrir það sem þeir gera og sýndu þeim fram á hvernig tillögurnar í greininni, sem þú sækir efnið í, geta hjálpað þeim að hafa ánægju af þjónustu sinni og skila henni betur af hendi.
Er sýnikennsla eða viðtal innifalið í verkefninu? Þá þarftu að undirbúa þig með góðum fyrirvara. Það er freistandi að biðja einhvern annan að sjá um sýnikennslu eða viðtal en árangurinn er ekki alltaf sem skyldi. Ef þess er nokkur kostur skaltu láta æfa sýnikennsluna eða viðtalið áður en samkomudagurinn rennur upp. Fullvissaðu þig um að þessi þáttur verkefnisins skili sér þannig að það styrki kennsluna.
-