Námskafli 53
Að hvetja og styrkja áheyrendur
ÓHÁÐ þeim vandamálum, sem þjónar Guðs eiga við að etja, ættu þeir að geta fengið hvatningu og uppörvun í söfnuðinum. Öldungar þurfa þess vegna að gæta þess vel að ræður þeirra og ráðleggingar séu hvetjandi. Þeir ættu að vera eins og „hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ — Jes. 32:2.
Ertu öldungur? Eru ræður þínar þá hressandi og hughreystandi? Eru þær endurnærandi fyrir þá sem leitast við að þjóna Jehóva dyggilega? Styrkja þær áheyrendur til að halda áfram að gera vilja Guðs þrátt fyrir áhugaleysi eða andstöðu almennings? Og eru einhverjir í áheyrendahópnum niðurdregnir, finnst þeir vera að kikna undan erfiðu efnahagsástandi eða eru að berjast við alvarlegan og ólæknandi sjúkdóm? Þá geturðu ‚styrkt bræður þína með munni þínum.‘ — Job. 16:5.
Þegar þú flytur ræðu skaltu nota tækifærið til að hjálpa bræðrum þínum og systrum að sækja von og styrk til Jehóva og til alls þess sem hann lætur þeim í té. — Rómv. 15:13; Ef. 6:10.
Minntu á hvað Jehóva hefur gert. Það er góð leið til að telja hug í aðra að benda á hvernig Jehóva hefur áður hjálpað fólki sínu gegnum erfiðleika. — Rómv. 15:4.
Jehóva sagði Móse að ‚telja hug í‘ Jósúa og ‚gera hann öruggan‘ áður en Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið sem var byggt óvinaþjóðum á þeim tíma. Hvernig gerði Móse það? Að Jósúa viðstöddum minnti hann alla þjóðina á það sem Jehóva gerði fyrir hana þegar hún yfirgaf Egyptaland. (5. Mós. 3:28; 7:18) Hann rifjaði upp hvernig Ísraelsmenn hefðu sigrað Amoríta með hjálp Jehóva. Síðan hvatti hann Jósúa: ‚Vertu hughraustur og öruggur.‘ (5. Mós. 31:1-8) Reynirðu að hvetja og uppörva bræður þína með því að minna þá á hvað Jehóva hefur gert fyrir þá fram að þessu?
Stundum finnst fólki vandamál sín svo yfirþyrmandi að það efast um að það geti fengið að njóta þeirrar blessunar sem Guðsríki veitir. Þá skaltu minna á að Jehóva heldur alltaf loforð sín. — Jós. 23:14.
Í sumum löndum standa bræðurnir frammi fyrir því að yfirvöld banna boðun fagnaðarerindisins. Þá geta kærleiksríkir öldungar styrkt trúsystkini sín með því að vísa í reynslu postula Jesú Krists. (Post. 4:1–5:42) Og það er óneitanlega hvetjandi og styrkjandi fyrir alla ef minnt er á hvernig Guð stýrði atburðarásinni sem sagt er frá í Esterarbók.
Þess eru dæmi að einstaka maður sæki safnaðarsamkomur en taki ekki framförum í trúnni. Kannski finnst þeim þeir hafa gert svo margt rangt að Guð geti aldrei fyrirgefið þeim. Þú gætir ef til vill bent þeim á hvernig Jehóva meðhöndlaði Manasse konung. (2. Kron. 33:1-16) Eins gætirðu sagt þeim frá Korintubúum forðum daga sem Guð lýsti réttláta eftir að þeir höfðu breytt líferni sínu og gerst kristnir. — 1. Kor. 6:9-11.
Finnst einhverjum að vandamál sín séu merki þess að þeir hafi glatað velþóknun Guðs? Þá gætirðu minnt þá á það sem Job fékk að reyna og á þá ríkulegu blessun sem hann uppskar af því að hann var Jehóva ráðvandur. (Job. 1:1-22; 10:1; 42:12, 13; Sálm. 34:20) Falshuggarar Jobs héldu því ranglega fram að hann hlyti að hafa drýgt einhverja synd. (Job. 4:7, 8; 8:5, 6) Þeir stungu í stúf við Pál og Barnabas sem „styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni“ og sögðu: „Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar.“ (Post. 14:21, 22) Eins getur þú styrkt þá sem ganga gegnum prófraunir með því að benda á að allir kristnir menn verði að vera þolgóðir í þrengingum og að það sé mikils virði í augum Guðs. — Orðskv. 27:11; Matt. 24:13; Rómv. 5:3, 4; 2. Tím. 3:12.
Hvettu áheyrendur til að hugleiða hvernig loforð Jehóva hafa ræst á þeim. Með lítils háttar hjálp frá þér átta þeir sig ef til vill á því að Jehóva hefur gert margt fyrir þá persónulega eins og hann hefur lofað. Við lesum í Sálmi 32:8: „Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér.“ Ef þú hjálpar áheyrendum að rifja upp fyrir sér hvernig Jehóva hefur leiðbeint þeim eða styrkt þá gera þeir sér grein fyrir að honum er mjög annt um þá persónulega og að hann er reiðubúinn að hjálpa þeim að standast hverja þá prófraun sem þeir eru að ganga í gegnum. — Jes. 41:10, 13; 1. Pét. 5:7.
Sýndu að þú hafir yndi af því sem Guð er að gera núna. Reyndu að hvetja og uppörva bræður þína með því að vekja athygli á því sem Jehóva er að gera núna. Ef orð þín bera með sér að þú hefur sjálfur yndi af því vekur það sams konar tilfinningu í hjörtum áheyrenda þinna.
Hugleiddu hvernig Jehóva hjálpar okkur að standast álag lífsins. Hann vísar okkur farsælustu leiðina í lífinu. (Jes. 30:21) Hann segir okkur hver sé ástæðan fyrir glæpum, ranglæti, fátækt, sjúkdómum og dauða, og lýsir hvernig hann ætlar að binda enda á það allt. Hann umlykur okkur kærleiksríku bræðrafélagi. Hann gefur okkur þá einstæðu gjöf að mega leita til sín í bæn. Hann trúir okkur fyrir því að vera vottar sínir. Hann opnar augu okkar fyrir því að Kristur er sestur í hásæti á himnum og að síðustu dagar hins gamla heimskerfis eru alveg að taka enda. — Opinb. 12:1-12.
Við þetta má svo bæta safnaðarsamkomunum og mótunum. Þegar þú sýnir með orðum þínum hve mikils þú metur allt þetta gerir þú bræðurna einbeittari í því að vanrækja ekki safnaðarsamkomurnar. — Hebr. 10:23-25.
Það er einnig styrkjandi að frétta af því hvernig Jehóva blessar viðleitni okkar í boðunarstarfinu. Páll og Barnabas „vöktu mikinn fögnuð meðal allra bræðranna“ er þeir voru á leið til Jerúsalem og greindu ítarlega frá hvernig menn af þjóðunum hefðu snúist til trúar. (Post. 15:3) Þú getur sömuleiðis glatt bræður þína með því að segja þeim uppbyggjandi frásagnir.
Það er jafnframt hvetjandi fyrir aðra þegar hægt er að sýna þeim fram á gildi þess sem þeir gera. Hrósaðu þeim fyrir framlag þeirra til boðunarstarfsins. Hrósaðu þeim sem eru þolgóðir og trúfastir þrátt fyrir að aldur eða veikindi setji þeim þröngar skorður. Minntu þá á að Jehóva gleymir ekki kærleikanum sem þeir sýna nafni hans. (Hebr. 6:10) Trúarstaðfesta í prófraun er ómetanleg. (1. Pét. 1:6, 7) Við þurfum að minna bræðurna á þetta.
Talaðu af innlifun um vonina. Hin innblásnu fyrirheit um hið ókomna eru mikil uppörvun og hvatning fyrir þá sem elska Guð. Flestir áheyrendur þínir hafa kannski heyrt þessi fyrirheit nefnd margsinnis. En með því að tala um þau af innilegu þakklæti geturðu gætt þau lífi, treyst tiltrúna á að þau rætist og fyllt hjörtu áheyrenda þinna af þakklæti. Það sem þú hefur lært í Boðunarskólanum getur hjálpað þér til þess.
Það er Jehóva sem öllum öðrum fremur styrkir fólk sitt, hvetur það og uppörvar. En þú getur unnið með honum að því að miðla þessari blessun. Notaðu tækifærið til að gera það þegar þú ávarpar söfnuðinn.