Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be bls. 13-bls. 16 gr. 5
  • ‚Gætið að hvernig þið heyrið‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • ‚Gætið að hvernig þið heyrið‘
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Snúðu hjarta þínu að því
  • Einbeittu þér
  • Að hlusta á ræður
  • Að hlusta á umræður
  • Að hlusta á mótum
  • Kenndu börnunum að hlusta
  • Vertu góður áheyrandi
    Ríkisþjónusta okkar – 2001
  • Þannig leiðir Jehóva okkur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
  • ‚Hlýðið á og aukið lærdóm ykkar‘
    Ríkisþjónusta okkar – 2001
  • Dagskrá sérstaka mótsdagsins
    Ríkisþjónusta okkar – 2004
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be bls. 13-bls. 16 gr. 5

‚Gætið að hvernig þið heyrið‘

AÐ HEYRA og hlusta er mikilvægur þáttur í námi. Það getur einnig haft áhrif á lífshorfur manns. Er Jehóva bjóst til að frelsa fólk sitt úr ánauðinni í Egyptalandi gaf hann Móse ákveðin fyrirmæli og Móse sagði öldungum Ísraels hvað þeir þyrftu að gera til að vernda frumgetninga sína fyrir engli dauðans. (2. Mós. 12:21-23) Öldungarnir létu hvert einasta heimili vita. Boðin voru borin munnlega og menn urðu að hlusta vel. Biblían segir um viðbrögð þeirra: „Allir Ísraelsmenn gjörðu svo, þeir gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni.“ (2. Mós. 12:28, 50, 51) Fyrir vikið var Ísrael frelsaður með stórbrotnum hætti.

Jehóva er að undirbúa okkur undir enn mikilfenglegri frelsun núna, þannig að við ættum sannarlega að taka vel eftir fyrirmælum hans. Þessi fyrirmæli eru gefin á safnaðarsamkomum. Notfærirðu þér samkomurnar sem best þú getur? Það er að miklu leyti undir því komið hvernig þú hlustar.

Tekst þér að muna eftir aðalatriðum þess sem kennt er á samkomum? Temurðu þér, viku eftir viku, að reyna að fara eftir því og segja öðrum frá því?

Snúðu hjarta þínu að því

Við þurfum að snúa hjarta okkar að fræðslunni á safnaðarsamkomum til að hafa fullt gagn af henni, eins og glögglega má sjá af atburðum sem áttu sér stað í stjórnartíð Jósafats Júdakonungs. Jósafat tók djarfmannlega afstöðu með sannri tilbeiðslu. Hann „afnam . . . fórnarhæðirnar og asérurnar úr Júda“ og sendi höfðingja, levíta og presta til að kenna lögmál Jehóva í öllum Júdaborgum. En „þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar.“ (2. Kron. 17:6-9; 20:33) Dýrkun falsguða og óleyfileg tilbeiðsla á Jehóva, sem fram fór á heiðnum fórnarhæðum, var svo rótgróin að henni varð ekki útrýmt.

Hvers vegna hafði fræðslan, sem Jósafat beitti sér fyrir, ekki varanleg áhrif? Frásagan heldur áfram: „Enn þá sneri lýðurinn eigi hjörtum sínum til Guðs feðra þeirra.“ Menn heyrðu það sem kennt var en fóru ekki eftir því. Ef til vill þótti þeim ekki henta að ferðast til Jerúsalem til að færa fórnir. Að minnsta kosti var það ekki trú sem knúði hjörtu þeirra.

Til að dragast ekki aftur út í háttalag þess heims, sem er á valdi Satans, þurfum við að snúa hjörtum okkar að þeirri fræðslu sem Jehóva veitir núna. Hvernig gerum við það? Bænin er mikilvægur þáttur í því. Við ættum að biðja Jehóva að gera okkur móttækileg og þakklát fyrir fræðslu hans. (Sálm. 27:4; 95:2) Það hjálpar okkur að virða það sem bræðurnir leggja á sig, þótt ófullkomnir séu, til að kenna fólki Jehóva eins og hann mælir fyrir. Það fær okkur til að þakka Jehóva bæði fyrir hið nýja sem við lærum og fyrir tækifærið til að skilja betur það sem við höfum áður lært. Við þráum að gera vilja Guðs að fullu og öllu og biðjum: „Vísa mér veg þinn, Drottinn, . . . gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ — Sálm. 86:11.

Einbeittu þér

Margt getur torveldað okkur að hlusta með athygli. Til dæmis geta alls konar áhyggjur eða hljóð og hreyfingar inni á samkomustaðnum eða utan hans truflað einbeitingu okkar. Líkamleg óþægindi geta einnig spillt eftirtektinni. Og athygli foreldra með ung börn er oft tvískipt. Hvað getum við gert til að einbeita okkur sem best að dagskránni?

Augun hafa sterk áhrif á hvert athygli okkar beinist. Láttu augun stuðla að einbeitingu með því að horfa á ræðumanninn. Þegar hann vitnar í ritningargrein, jafnvel kunnuglega, skaltu fletta henni upp og fylgjast með þegar hann les. Reyndu að standast freistinguna að snúa höfðinu við hvert hljóð sem þú heyrir eða hreyfingu sem þú sérð út undan þér. Sé hugurinn að drukkna í truflandi upplýsingum frá augunum ferðu á mis við stóran hluta af því sem fram fer á ræðupallinum.

Ef „miklar áhyggjur“ torvelda þér að einbeita þér að dagskránni skaltu biðja Jehóva um þá hjarta- og hugarró sem til þarf. (Sálm. 94:19; Fil. 4:6, 7) Gerðu það aftur og aftur ef nauðsyn krefur. (Matt. 7:7, 8) Safnaðarsamkomurnar eru ein af ráðstöfunum Jehóva og þú mátt treysta því að hann vill að þú njótir góðs af þeim. — 1. Jóh. 5:14, 15.

Að hlusta á ræður

Sennilega geturðu rifjað upp ýmis uppáhaldsatriði úr ræðum sem þú hefur heyrt. En að hlusta á ræðu er meira en upplýsingasöfnun. Ræða er eins og ferðalag. Þó svo að það geti verið margt áhugavert að sjá á leiðinni er það áfangastaðurinn eða markmiðið sem máli skiptir. Ræðumaðurinn reynir kannski að leiða áheyrendur að ákveðinni niðurstöðu eða hvetja þá til verka af einhverju tagi.

Lítum til dæmis á ræðu sem Jósúa flutti og frá er greint í Jósúabók 24:1-15. Markmið hans var það að hvetja þjóðina til að taka einbeitta afstöðu með sannri tilbeiðslu og forðast alla snertingu við skurðgoðadýrkun grannþjóðanna. Hvers vegna var það svona mikilvægt? Útbreidd falsguðadýrkun stofnaði góðu sambandi þjóðarinnar við Jehóva í hættu. Fólkið brást vel við beiðni Jósúa og sagði: „Fjarri sé það oss að yfirgefa Drottin og þjóna öðrum guðum. . . . Vér viljum einnig þjóna Drottni.“ Og sú varð raunin. — Jós. 24:16, 18, 31.

Þegar þú hlustar á ræðu skaltu reyna að koma auga á markmið hennar. Veltu fyrir þér hvernig það sem ræðumaðurinn bendir á eru áfangar að þessu markmiði og spyrðu þig hvað þú þurfir að gera með hliðsjón af því sem hann segir.

Að hlusta á umræður

Varðturnsnámið, safnaðarbóknámið og hluti af þjónustusamkomunum fer fram með spurningum og svörum þar sem byggt er á tilteknum biblíufræðsluritum.

Að hlusta á umræður er að vissu leyti áþekkt því að taka þátt í samræðum. Til að hafa sem mest gagn af þeim er nauðsynlegt að hlusta vel. Fylgstu með hvert umræðurnar stefna. Taktu eftir hvernig stjórnandinn leggur áherslu á stef og aðalatriði. Svaraðu spurningum hans í huganum. Hlustaðu á svör og skýringar annarra og taktu eftir hvernig þeir heimfæra efnið. Með því að sjá efnið frá sjónarhóli annarra geturðu kannski séð nýja hlið á kunnuglegu máli. Og leggðu þitt af mörkum með því að tjá trú þína. — Rómv. 1:12.

Með því að lesa vel yfir hið úthlutaða efni fyrir fram geturðu einbeitt þér betur að umræðunum og fylgst betur með svörum og ábendingum annarra. Ef aðstæður torvelda þér að undirbúa þig vel skaltu að minnsta kosti gefa þér nokkrar mínútur til að renna yfir efnið fyrir samkomuna. Þá hefurðu meira gagn af umræðunum.

Að hlusta á mótum

Búast má við að truflanir séu fleiri á fjölmennum mótum en á safnaðarsamkomum og þá kostar það enn meira átak að hlusta. Hvað er þá til ráða?

Miklu máli skiptir að vera úthvíldur. Leggðu stefið á minnið áður en dagskráin hefst hvern dag. Líttu á hvert ræðuheiti og reyndu að sjá fyrir hvað fjallað verður um. Notaðu Biblíuna vel. Margir hafa þá reynslu að þeir einbeiti sér betur að dagskránni ef þeir skrifa hjá sér stutta minnispunkta. Punktaðu niður leiðbeiningar sem þú áformar að nota í lífi þínu og boðunarstarfi. Ræddu við samferðafólkið um fáein atriði dag hvern á leiðinni að og frá mótsstað. Það auðveldar þér að muna efnið.

Kenndu börnunum að hlusta

Kristnir foreldrar geta hjálpað börnum sínum, jafnvel smábörnum, að hljóta „speki til sáluhjálpar“ með því að taka þau með sér á safnaðarsamkomur og mót. (2. Tím. 3:15) Þar eð lunderni og einbeiting barna er misjöfn þarf að beita góðri dómgreind til að hjálpa þeim að einbeita sér og hlusta. Eftirfarandi tillögur gætu komið að gagni.

Vendu börnin á það heima að sitja hljóð og lesa eða skoða myndir í biblíufræðsluritum. Það er ekki heppilegt að taka leikföng með á samkomur handa þeim. Börnin koma á samkomur til að ‚hlýða á og til að læra,‘ líkt og gert var í Ísrael forðum daga. (5. Mós. 31:12) Stundum láta foreldrar mjög ung börn jafnvel fá sín eigin eintök af þeim biblíunámsritum sem notuð eru hverju sinni. Þegar börnin stækka skaltu hjálpa þeim að búa sig undir að taka þátt í dagskrárliðum þar sem samkomugestum er boðið upp á þátttöku.

Ritningin bendir á að það séu náin tengsl milli þess að hlusta á Jehóva og hlýða honum. Það má glöggt sjá af orðum Móse til Ísraelsmanna: „Ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, . . . með því að elska Drottin Guð þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann.“ (5. Mós. 30:19, 20) Við verðum líka að hlýða á fræðslu Jehóva og fara eftir henni til að hljóta velþóknun hans, blessun og eilíft líf. Okkur er lífsnauðsyn að fara eftir hvatningu Jesú: „Gætið því að, hvernig þér heyrið.“ — Lúk. 8:18.

NOKKUR GÓÐ RÁÐ UM HLUSTUN

  • Biddu Jehóva um hjálp til að einbeita þér að dagskránni.

  • Horfðu á ræðumanninn.

  • Flettu upp á ritningarstöðum sem vitnað er í og fylgstu með í Biblíunni.

  • Reyndu að koma auga á markmið ræðunnar.

  • Svaraðu spurningum í huganum og hlustaðu vel á svör annarra.

  • Skrifaðu niður stutta minnispunkta.

  • Punktaðu sérstaklega hjá þér atriði sem þú ætlar að nýta þér.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila