Námskafli 1
Nákvæmni í lestri
BIBLÍAN segir að það sé vilji Guðs að allir menn „komist til nákvæmrar þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tím. 2:4, NW) Við viljum miðla nákvæmri þekkingu þegar við lesum upp úr Biblíunni þannig að það ætti að hafa áhrif á hvernig við lesum.
Það er verðmætt bæði fyrir börn og fullorðna að geta lesið upphátt úr Biblíunni og biblíuskýringarritum. Þar sem við erum vottar Jehóva berum við ábyrgð á því að koma þekkingunni á Jehóva á framfæri við aðra. Í tengslum við það þarf oft að lesa upphátt fyrir aðra, ýmist einn eða fleiri. Við lesum líka upphátt innan fjölskyldunnar. Jafnt bræður sem systur og ungir sem aldnir geta fengið viðeigandi leiðbeiningar í Boðunarskólanum um það hvernig þeir geti lesið betur.
Það fylgir því talsverð ábyrgð að lesa upp úr Biblíunni, hvort heldur lesið er fyrir eina manneskju eða heilan söfnuð. Biblían er innblásin af Guði. Og „orð Guðs er lifandi og kröftugt og . . . dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebr. 4:12) Í orði Guðs er ómetanlegur fróðleikur sem er hvergi annars staðar að fá. Hún getur hjálpað fólki að kynnast hinum eina sanna Guði og eignast náið samband við hann, og hún kennir hvernig hægt sé að standa sig í glímunni við vandamál lífsins. Hún vísar veginn til eilífs lífs í nýjum heimi Guðs. Við ættum því að vanda okkur sem best þegar við lesum upp úr Biblíunni. — Sálm. 119:140; Jer. 26:2.
Að temja sér nákvæmni í lestri. Góður upplestur er samspil margra þátta en nákvæmni er það fyrsta sem fólk þarf að tileinka sér. Með nákvæmni í lestri er átt við að menn leggi sig fram um að lesa prentað mál nákvæmlega rétt. Þú þarft að gæta þess að hlaupa hvorki yfir orð né endingar eða mislesa eitt orð fyrir annað líkt.
Til að lesa rétt er nauðsynlegt að skilja samhengið, og það kostar góðan undirbúning. Þér lærist smám saman að sjá hvað er framundan í textanum og koma auga á hugsanatengslin og þá eykst lestrarnákvæmnin.
Greinarmerki eru mikilvæg í rituðu máli. Þau benda meðal annars á hvar gera skuli málhvíld og hve langa, og geta jafnframt verið vísbending um tónbreytingu. Með rangri tónbreytingu er jafnvel hægt að breyta spurningu í fullyrðingu og öfugt eða gerbreyta merkingu texta. Stundum þjóna greinarmerki þó aðeins setningafræðilegum tilgangi. Glöggvaðu þig vel á því hvernig greinarmerki eru notuð í íslensku og hvað þau þýða, og taktu mið af þeim í upplestri. Mundu að markmiðið með lestrinum er að miðla hugmyndum en ekki að lesa upp orð.
Það kostar talsverða æfingu að lesa rétt og nákvæmlega. Byrjaðu á því að lesa eina efnisgrein og lestu hana síðan aftur og aftur uns þú getur lesið hana reiprennandi og villulaust. Snúðu þér síðan að næstu efnisgrein. Reyndu síðan að lesa nokkrar blaðsíður án þess að hlaupa yfir orð, endurtaka orð eða mislesa. Þessu næst skaltu biðja einhvern annan að fylgjast með þér lesa og benda þér á mistök sem þú hugsanlega gerir.
Stundum geta óhentug gleraugu, slæm sjón eða óhentug lýsing torveldað lestur. Ef hægt er að ráða bót á því stuðlar það eflaust að betri lestri.
Þegar fram líða stundir eru bræður, sem lesa vel, gjarnan beðnir að lesa upp námsefnið í safnaðarbóknáminu og Varðturnsnáminu. Til að gera þessu verkefni góð skil er ekki nóg að bera orðin rétt fram og lesa þau rétt. Sá sem les upphátt fyrir aðra þarf að temja sér góðar lestrarvenjur þegar hann les fyrir sjálfan sig. Hann þarf til dæmis að hafa hugfast að hvert orð þjónar ákveðnu hlutverki í setningu. Ef einhverju er sleppt er hætta á að heildarmyndin verði óskýr. Ef þú mislest orð, jafnvel þegar þú lest fyrir sjálfan þig, brenglar það merkingu setningarinnar. Þú getur til dæmis mislesið texta ef þú sleppir endingum orða eða tekur ekki tillit til samhengis. Leggðu þig fram um að skilja hvað hvert orð þýðir í því samhengi sem það stendur í. Greinarmerki geta einnig haft áhrif á merkingu setningar. Mundu að yfirleitt eru notuð orðasambönd, orðasamstæður og setningar til að tjá hugmyndir. Vertu vakandi fyrir þeim svo að þú lesir þau ekki sem stök orð heldur sem heild. Það er mikilvægt að skilja texta vel til að geta lesið hann á þann hátt að hann miðli nákvæmri þekkingu til áheyrenda.
Páll postuli var að skrifa reyndum safnaðaröldungi er hann sagði: „Ver þú . . . kostgæfinn að lesa úr Ritningunni.“ (1. Tím. 4:13) Við getum augljóslega öll bætt okkur í upplestri.