Námskafli 7
Áhersla á aðalhugmyndir
GÓÐUR lesari horfir ekki aðeins á eina málsgrein eða jafnvel efnisgreinina sem hún stendur í heldur hefur hann í huga aðalhugmyndir alls efnisins sem hann er að lesa. Og það hefur áhrif á hvar hann staðsetur áherslurnar.
Ef þess er ekki gætt verða engir toppar í flutningnum. Ekkert sker sig greinilega úr. Þegar flutningnum er lokið getur verið erfitt að muna að nokkuð hafi staðið upp úr.
Sé viðeigandi áhersla lögð á meginhugmyndir getur það aukið áhrifin til muna þegar biblíukafli er lesinn upp. Rétt áhersla getur styrkt upplestur efnisins á safnaðarsamkomu eða þegar þú kennir í heimahúsi. Og þetta er sérstaklega mikilvægt þegar ræða er flutt eftir handriti eins og stundum er gert á mótum.
Hvernig á að fara að? Segjum að þér sé falið það verkefni í skólanum að lesa upp biblíukafla. Á hvað áttu að leggja áherslu? Ef einhver meginhugmynd kemur fram í leskaflanum eða hann segir frá merkum atburði er rétt að láta það skera sig úr.
Áheyrendur hafa gagn af góðum upplestri, hvort sem þú ert að lesa ljóðrænan texta eða laust mál, orðskviði eða frásögu. (2. Tím. 3:16, 17) En til að lesa vel þarftu bæði að taka tillit til leskaflans og áheyrenda.
Ef þér er falið að lesa upp úr einhverju riti á biblíunámskeiði eða safnaðarsamkomu þarftu að glöggva þig á aðalhugmyndunum sem leggja þarf áherslu á. Þú getur litið svo á að svörin við námsspurningunum séu aðalhugmyndirnar. Leggðu jafnframt áherslu á hugmyndir sem tengjast millifyrirsögninni næst á undan textanum.
Að jafnaði er ekki ráðlegt að semja handrit að ræðum sem flytja á í söfnuðinum. Einstaka ræður á mótum eru þó fluttar eftir handriti í þeim tilgangi að sama hugsunin komi fram með sama hætti á öllum mótunum. Til að leggja áherslu á aðalhugmyndirnar í slíku handriti þarf ræðumaðurinn að byrja á því að brjóta efnið til mergjar. Hver eru aðalatriðin? Hann ætti að geta komið auga á þau. Aðalatriðin eru ekki einfaldlega þær hugmyndir sem honum þykja athyglisverðar heldur lykilhugmyndirnar sem efnið er byggt á. Stundum er hnitmiðuð og gagnorð lýsing á ákveðinni meginhugmynd höfð sem inngangur að frásögu eða rökfærslu í handriti. Þó er algengara að áhrifamikil staðhæfing komi eftir að rökin hafa verið lögð fram. Þegar ræðumaður hefur komið auga á þessi aðalatriði ætti hann að merkja við þau í handritinu. Yfirleitt eru þau ekki mörg, sennilega ekki nema fjögur eða fimm. Því næst þarf hann að æfa sig í að lesa þau þannig að áheyrendur taki greinilega eftir þeim. Þetta eru topparnir í ræðunni. Ef efnið er flutt með viðeigandi áherslum eru meiri líkur en ella á því að áheyrendur muni eftir aðalhugmyndunum. Það ætti að vera markmið ræðumannsins.
Hægt er að beita ýmsum áhersluaðferðum til að auðvelda áheyrendum að taka eftir aðalatriðunum. Til dæmis má auka ákafann, breyta hraðanum, leggja meiri tilfinningu í orðin eða nota viðeigandi tilburði, svo nokkuð sé nefnt.