Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 15 bls. 131-bls. 134 gr. 4
  • Snyrtilegt útlit

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Snyrtilegt útlit
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Klæðnaður okkar og útlit skiptir máli
    Von um bjarta framtíð – biblíunámskeið
  • Snyrtilegur og smekklegur klæðnaður sýnir Guði virðingu
    Ríkisþjónusta okkar – 2003
  • Heiðrar þú Guð með klæðaburði þínum?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • Af hverju erum við vel til fara á samkomum?
    Hverjir gera vilja Jehóva?
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 15 bls. 131-bls. 134 gr. 4

Námskafli 15

Snyrtilegt útlit

Hvað þarftu að gera?

Vertu snyrtilegur og hreinn, til sóma í klæðaburði og vel greiddur. Sýndu með líkamsstellingum að þú sért vakandi og áhugasamur.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Útlit þitt getur haft áhrif á afstöðu annarra til trúar þinnar og þeirrar lífsstefnu sem þú fylgir.

ÚTLITIÐ segir margt um þig. Jehóva sér hvað býr í hjarta mannsins en við mennirnir drögum yfirleitt ályktanir af útliti fólks. (1. Sam. 16:7) Sértu hreinn og snyrtilegur álykta aðrir sennilega að þú berir virðingu fyrir sjálfum þér og hlusta því frekar á þig. Viðeigandi klæðnaður gefur öðrum líka jákvæða mynd af því skipulagi sem þú tilheyrir og þeim Guði sem þú dýrkar.

Viðmiðunarreglur. Biblían setur ekki ýkja margar reglur um snyrtimennsku og útlit heldur lætur nægja góðar meginreglur sem styðjast má við til að taka heilbrigðar ákvarðanir. Allar eru þær byggðar á þeirri forsendu að við ‚gerum allt Guði til dýrðar.‘ (1. Kor. 10:31) Hvaða meginreglur snúa að útliti og snyrtimennsku?

Í fyrsta lagi: Biblían hvetur okkur til að vera hrein og vera í hreinum fötum. Jehóva gerði kröfur um hreinlæti í lögmálinu sem hann gaf Ísrael forðum daga. Til dæmis áttu prestarnir að baða sig og þvo föt sín á tilteknum tímum meðan þeir gegndu embætti. (3. Mós. 16:4, 24, 26, 28) Kristnir menn eru ekki settir undir Móselögin en meginreglurnar eru góðar og gildar enn þann dag í dag. (Jóh. 13:10; Opinb. 19:8) Þegar við sækjum safnaðarsamkomur eða tökum þátt í boðunarstarfinu ætti bæði líkami, fatnaður og andardráttur að bera vott um hreinlæti svo að við virkum ekki fráhrindandi á aðra. Þeir sem flytja ræður eða eru með önnur verkefni á sviðinu frammi fyrir söfnuðinum ættu að vera til fyrirmyndar að þessu leyti. Við sýnum Jehóva og skipulagi hans virðingu með því að huga að útliti okkar.

Í öðru lagi: Biblían hvetur okkur til að sýna af okkur látleysi og heilbrigt hugarfar. Páll postuli hvatti kristnar konur til að ‚skrýða sig . . . með blygð og hóglæti [„látleysi og heilbrigðu hugarfari,“ NW], ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum, heldur með góðum verkum, eins og sómir konum, er Guð vilja dýrka.“ (1. Tím. 2:9, 10) Karlar þurfa einnig að sýna látleysi og heilbrigt hugarfar í klæðaburði og hársnyrtingu.

Látlausum manni er umhugað um að sýna öðrum tillitssemi og draga ekki óþarfa athygli að sjálfum sér. Heilbrigt hugarfar birtist í varfærni og góðri dómgreind. Sá sem hefur þetta hugarfar til að bera sýnir af sér það jafnvægi sem virðing fyrir mælikvarða Guðs hefur í för með sér. Það útilokar ekki að maður geti klætt sig með aðlaðandi hætti en það hjálpar okkur að sýna skynsemi og forðast öfgar í klæðaburði og snyrtingu. (1. Jóh. 2:16) Við viljum virða þessar meginreglur bæði á tilbeiðslustað, í boðunarstarfinu og annars staðar. Hversdagsfötin ættu meira að segja að endurspegla látleysi og heilbrigt hugarfar. Okkur gefast tækifæri til að vitna óformlega í skóla eða á vinnustað. Þó að við séum ekki klædd eins og við erum á samkomum og mótum ættum við engu að síður að vera hrein, snyrtileg og látlaus til fara.

Auðvitað er rétt að hafa í huga að menn klæða sig ekki allir eins og það er ekki heldur ætlast til þess. Smekkur manna er misjafn og það er eðlilegt. En við eigum samt alltaf að hafa meginreglur Biblíunnar í heiðri.

Pétur postuli bendir á að „hinn huldi maður hjartans“ sé mun mikilvægari en hárgreiðslur og viðhafnarbúningur. (1. Pét. 3:3, 4) Sé hjartað fullt af kærleika, gleði, friði, góðvild og sterkri trú eigum við andlegan búning sem er Guði til lofs.

Í þriðja lagi: Biblían hvetur okkur til að athuga hvort klæðaburður okkar sé til sóma. Í 1. Tímóteusarbréfi 2:9 er minnst á ‚sæmandi búning.‘ Páll beinir orðum sínum til kvenna en meginreglan gildir ekkert síður um karla. Sæmandi búningur er smekklegur og snyrtilegur, og við getum verið snyrtilega til fara óháð efnahag.

Hárið er eitt það fyrsta sem aðrir taka eftir í útliti okkar. Við ættum að vera snyrtileg um höfuðið. Siðvenjur og erfðir ráða nokkru um það hvernig fólk hefur hárið. Í 1. Korintubréfi 11:14, 15 eru ráðleggingar frá Páli postula um hárgreiðslu þar sem tekið er mið af hvoru tveggja. Það stríðir hins vegar gegn meginreglum Biblíunnar að vekja þá hugmynd með klippingu sinni eða hárgreiðslu að maður sé að reyna að líkjast hinu kyninu. — 5. Mós. 22:5.

Víða þurfa karlmenn að vera vel rakaðir til að teljast snyrtilegir til fara. Sums staðar er það talið virðulegt að vera með yfirvaraskegg og þá þarf það að vera vel snyrt.

Í fjórða lagi: Útlit okkar ætti ekki að endurspegla ást á heiminum og háttalagi hans. Jóhannes postuli varaði við því að ‚elska heiminn og þá hluti sem í heiminum eru.‘ (1. Jóh. 2:15-17) Margar syndsamlegar langanir einkenna þennan heim. Jóhannes minnist meðal annars á langanir hins synduga holds og að flíka eigum sínum. Biblían vekur einnig athygli á uppreisnaranda eða óhlýðni við yfirvöld. (Orðskv. 17:11; Ef. 2:2) Þessar langanir og þessi viðhorf birtast oft í klæðnaði fólks og klippingu. Margir eru þar af leiðandi ósæmilega, kynæsandi, glingurslega, kæruleysislega eða subbulega til fara. Við sem erum þjónar Jehóva forðumst tísku og stefnur sem bera vott um ókristilega lifnaðarhætti.

Taktu andlega þroskaða karla og konur í söfnuðinum til fyrirmyndar í stað þess að líkja eftir heiminum í klæðaburði og klippingu. Ungir menn, sem stefna að því að fá að flytja opinbera fyrirlestra, geta tekið bræður, sem hafa það verkefni, sér til fyrirmyndar. Allir geta lært af fordæmi fólks sem hefur tekið dyggan þátt í boðunarstarfinu um langt árabil. — 1. Tím. 4:12; 1. Pét. 5:2, 3.

Í fimmta lagi: Til að ákveða hvað sé viðeigandi ættum við að hafa hugfast að jafnvel „Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig.“ (Rómv. 15:3) Honum var fyrst og fremst umhugað um að gera vilja Guðs. Honum var annara um að hjálpa öðrum en að hugsa um eigin þægindi. Hvað ættum við að gera ef ákveðin fata- eða hártíska myndi reisa múr milli okkar og fólks þar sem við þjónum núna? Með því að líkja eftir auðmjúku hugarfari Krists getum við tekið viturlegar ákvarðanir. Páll postuli gaf meginregluna: „Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar.“ (2. Kor. 6:3) Þess vegna sneiðum við kannski hjá hár- eða fatatísku sem gæti virkað fráhrindandi á fólkið sem við viljum vitna fyrir.

Líkamsstellingar. Viðeigandi stellingar eru einnig þáttur í góðu útliti. Fas fólks og limaburður er auðvitað mismunandi og við reynum ekki að steypa okkur öll í sama mótið. En það er athyglisvert að Biblían setur það að standa beinn í samband við virðuleika og bjartsýni. (3. Mós. 26:13; Lúk. 21:28) Auðvitað getur verið að bróðir eða systir hafi þurft að vinna hokin árum saman og geti þar af leiðandi ekki staðið bein eða þurfi að styðja sig við eitthvað. Ellihrörnun eða sjúkleiki geta haft sömu áhrif. En þeir sem geta staðið þokkalega beinir ættu að gera það þegar þeir tala við aðra til að virka ekki kærulausir eða afsakandi. Og það er ekkert rangt af ræðumanni að hvíla hendurnar af og til á púltinu, en yfirleitt virkar það ekki vel á áheyrendur að hann halli sér fram á púltið.

Snyrtilegur búnaður. Sá búnaður, sem við notum í boðunarstarfinu, ætti að vera hreinn og snyrtilegur ekki síður en við sjálf.

Tökum Biblíuna sem dæmi. Það hafa ekki allir tök á að eignast nýja biblíu þegar sú gamla er orðin slitin. En hversu lengi sem við höfum átt Biblíuna ætti hún að bera merki um góða meðferð.

Hægt er að raða ritum í starfstöskuna með ýmsum hætti en það ætti alltaf að vera snyrtilega gert. Hefurðu einhvern tíma séð pappírsmiða detta úr Biblíunni hjá boðbera þegar hann var að lesa ritningarstað fyrir húsráðanda, eða hjá bróður sem var að flytja ræðu fyrir söfnuðinum? Virkaði það ekki truflandi á þig? Ef pappírsmiðar í Biblíunni eru truflandi ættirðu kannski að geyma þá annars staðar til að búnaður þinn sé snyrtilegur. Og hafðu í huga að í sumum menningarsamfélögum teldist það mikil óvirðing að leggja Biblíuna eða önnur trúarleg rit á gólfið.

Við ættum öll að láta okkur annt um að vera snyrtileg. Það hefur áhrif á viðhorf annarra til okkar. En umfram allt gefum við gaum að útlitinu vegna þess að við viljum ‚prýða kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum.‘ — Tít. 2:10.

HUGAÐU AÐ ÚTLITINU

  • Er allt hreint?

  • Ber útlit þitt vott um látleysi og góða dómgreind?

  • Er allt til sóma?

  • Er hárið snyrtilegt?

  • Er eitthvað í útliti þínu sem gæti endurspeglað ást á heiminum?

  • Er einhver ástæða til að ætla að hægt sé að hneykslast á útliti þínu?

ÆFING: Farðu yfir listann „Hugaðu að útlitinu“ á blaðsíðu 132 einu sinni á dag í heila viku, án tillits til þess hvað er á dagskrá hjá þér.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila