Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Varðveisla Biblíunnar skiptir þig máli
    Varðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 4
    • FORSÍÐUEFNI | BIBLÍAN – HVERNIG HEFUR HÚN VARÐVEIST?

      Varðveisla Biblíunnar skiptir þig máli

      Maður heldur á Biblíunni og er efins á svip.

      Biblían er einstök meðal trúarrita. Engin önnur bók hefur mótað trú jafnmargra í aldanna rás. En þó hefur engin önnur bók sætt jafnmikilli gagnrýni og verið rannsökuð eins rækilega og Biblían.

      Til dæmis efast sumir fræðimenn um að biblíurnar, sem við höfum undir höndum í dag, séu nákvæm afrit af frumtextanum. „Við getum hreinlega ekki verið viss um að textinn hafi verið afritaður nákvæmlega eftir frumtextanum,“ segir prófessor í trúfræðum. „Það eru eingöngu til afrit sem eru full af villum og flest þeirra voru gerð mörgum öldum eftir að frumtextinn var færður í letur. Þau eru eflaust frábrugðin frumritunum á ótal vegu.“

      Aðrir draga trúverðugleika Biblíunnar í efa vegna trúarlegs bakgrunns síns. Tökum Faizal sem dæmi en hann er ekki alinn upp í kristinni trú. Honum var kennt að Biblían væri heilög bók en að búið væri að breyta henni. „Ég var þar af leiðandi tortrygginn þegar fólk ræddi við mig um Biblíuna,“ segir hann. „Bókin, sem þau voru með, var ekki sú sama og upprunalega Biblían. Henni hafði verið breytt.“

      En skiptir einhverju máli hvort Biblíunni hafi verið breytt? Hugleiddu eftirfarandi: Geturðu treyst huggunarríkum loforðum Biblíunnar um framtíðina ef þú veist ekki hvort þau voru í frumtextanum? (Rómverjabréfið 15:4) Myndirðu fara eftir meginreglum Biblíunnar þegar þú tekur mikilvægar ákvarðanir varðandi vinnu, fjölskylduna eða tilbeiðslu þína ef hún er aðeins gallað afrit manna af frumtextanum?

      Jafnvel þótt upprunalegar bækur Biblíunnar séu glataðar getum við skoðað ævaforn afrit af þeim, þar á meðal mörg þúsund handrit. Hvernig var þessum handritum forðað frá skemmdum? Og hvernig varðveittist Biblían þrátt fyrir tilraunir manna til að ryðja henni úr vegi eða breyta boðskap hennar? Hvernig getur varðveisla handritanna byggt upp traust þitt á að boðskapur Biblíunnar sé sá sami nú og í upphafi? Skoðaðu svörin við þessum spurningum í eftirfarandi greinum sem fjalla um hvernig Biblían hefur varðveist.

  • Biblíunni forðað frá skemmdum
    Varðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 4
    • FORSÍÐUEFNI | BIBLÍAN – HVERNIG HEFUR HÚN VARÐVEIST?

      Biblíunni forðað frá skemmdum

      ÓGNIN: Papírus og bókfell er sá efniviður sem biblíuritararnir og afritarar notuðu aðallega til að skrifa á.a (2. Tímóteusarbréf 4:13) En hvernig stefndi þessi efniviður Biblíunni í hættu?

      Papírus rifnar auðveldlega, upplitast og slitnar. „Með tíð og tíma molna papírusarkir þannig að eftir standa þræðir og duft,“ segja Richard Parkinson og Stephen Quirke sem eru sérfræðingar í sögu og tungu Forn-Egypta. „Við geymslu geta papírusrollur myglað og rotnað vegna raka. Ef þær eru grafnar í jörð er hætta á að nagdýr eða skordýr, sérstaklega hvítir maurar, éti þær upp.“ Stundum hefur papírus skemmst eftir að hann hefur fundist. Til dæmis hefur raki eða sterkt ljós flýtt fyrir eyðingu hans.

      Bókfell endist betur en papírus en skemmist líka við ranga meðhöndlun eða ef það kemst í snertingu við hátt hitastig, raka eða ljós.b Skordýr herja líka á bókfell. Í bókinni Everyday Writing in the Graeco-Roman East segir að vegna þessa sé „varðveisla frekar undantekning en regla“ þegar ævafornar skrár eiga í hlut. Ef Biblían hefði eyðilagst hefði boðskapur hennar einnig dáið út.

      HVERNIG BIBLÍAN VARÐVEITTIST: Lög Gyðinga skylduðu alla konunga til að „gera afrit á bók af þessum lögum“, það er að segja fyrstu fimm bókum Biblíunnar. (5. Mósebók 17:18) Þar að auki bjuggu faglærðir afritarar til svo mörg handrit að á fyrstu öld voru ritningarnar til í samkunduhúsum um allt Ísraelsland og jafnvel í fjarlægu landi eins og Makedóníu. (Lúkas 4:16, 17; Postulasagan 17:11) Hvernig varðveittust sum af þessum fornu handritum allt fram á okkar daga?

      1. Leirkrukka; 2. Slitur af Dauðahafshandriti.

      Dauðahafshandritin svokölluðu varðveittust í margar aldir í leirkrukkum sem voru geymdar í hellum í þurru loftslagi.

      Hellir þar sem biblíuhandrit fundust.

      „Vitað er að Gyðingar settu bókrollur, sem innihéldu ritningarnar, í krúsir eða krukkur til að varðveita þær,“ segir nýjatestamentisfræðingurinn Philip W. Comfort. Kristnir menn héldu þessari venju greinilega áfram. Þess vegna hafa forn biblíuhandrit fundist í leirkrukkum en einnig í dimmum geymslum og hellum og á sérlega þurrum landsvæðum.

      ÁRANGURINN: Mörg þúsund brot af biblíuhandritum hafa varðveist fram á okkar daga og eru sum þeirra eldri en 2.000 ára. Ekki er til slíkur fjöldi ævafornra handrita af nokkru öðru fornriti.

      a Papírus er búinn til úr samnefndri sefplöntu. Bókfell er búið til úr dýraskinnum.

      b Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna var til dæmis upprunalega skrifuð á bókfell. Núna, næstum 250 árum síðar, hefur skjalið upplitast svo mikið að það er varla hægt að lesa það.

  • Biblían varðveittist þrátt fyrir andstöðu
    Varðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 4
    • FORSÍÐUEFNI | BIBLÍAN – HVERNIG HEFUR HÚN VARÐVEIST?

      Biblían varðveittist þrátt fyrir andstöðu

      ÓGNIN: Margir stjórnmálamenn og trúarleiðtogar höfðu uppi hugmyndir og áform sem gengu þvert á boðskap Biblíunnar. Þeir notuðu oft vald sitt til að koma í veg fyrir að fólk gæti átt Biblíuna, afritað hana eða þýtt. Lítum á tvö dæmi:

      • Í kringum árið 167 f.Kr.: Antíokos Epífanes, konungur af ætt Selevkída, reynir að þvinga grískri trú upp á Gyðinga. Hann fyrirskipar að öllum afritum af Hebresku ritningunum skuli eytt. Embættismenn hans „rifu og brenndu bókrollur sem innihéldu Móselögin hvar sem þeir fundu þær og tóku af lífi alla þá sem sóttu huggun og styrk í að lesa ritningarnar,“ skrifar sagnfræðingurinn Heinrich Graetz.

      • Á miðöldum: Sumir trúarleiðtogar kaþólikka eru æfir yfir því að ólærðir menn boða það sem Biblían kennir í stað kenninga kaþólsku kirkjunnar. Þeir stimpla sem villutrúarmenn alla óprestlærða menn sem eiga í fórum sínum aðrar biblíubækur en Sálmana á latínu. Kirkjuráð eitt bætir um betur með því að fyrirskipa mönnum sínum að „leita vel og vandlega að villutrúarmönnum ... með því að rannsaka öll hús og neðanjarðarbyrgi sem þykja hið minnsta grunsamleg ... Leggja skal hvert hús í rúst þar sem villutrúarmaður finnst“.

      Ef andstæðingum Biblíunnar hefði tekist ætlunarverk sitt hefði boðskapur hennar dáið út.

      Blaðsíða úr enskri biblíuþýðingu Williams Tyndales.

      Ensk biblíuþýðing Williams Tyndales varðveittist þrátt fyrir bannfæringu, biblíubrennur og aftöku Tyndales árið 1536.

      HVERNIG BIBLÍAN VARÐVEITTIST: Antíokos konungur beindi spjótum sínum að Ísrael en Gyðingar höfðu flust víða svo að Gyðinganýlendur voru til í mörgum öðrum löndum. Reyndar áætla fræðimenn að á fyrstu öld hafi meira en 60 prósent Gyðinga búið erlendis. Þeir geymdu afrit af ritningunum í samkunduhúsum sínum – sömu ritningum og komandi kynslóðir notuðu, þar á meðal kristnir menn. – Postulasagan 15:21.

      Á miðöldum héldu þeir sem annt var um Biblíuna áfram að þýða og afrita ritningarnar þrátt fyrir ofsóknir. Jafnvel áður en prentvél, þar sem notast var við lausaletur, var fundin upp um miðja 15. öld var hluti Biblíunnar til á sennilega allt að 33 tungumálum. Eftir það var Biblían þýdd og prentuð í meiri mæli en nokkru sinni fyrr.

      ÁRANGURINN: Þrátt fyrir ógnir valdamikilla konunga og afvegaleiddra presta er Biblían útbreiddasta og mest þýdda bók í sögu mannkyns. Hún hefur mótað lög landa og haft mikil áhrif á tungumál þjóða. Biblían hefur haft áhrif á líf milljóna manna.

  • Biblían varðveittist þrátt fyrir tilraunir til að breyta boðskap hennar
    Varðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 4
    • Biblíuafritari við vinnu sína.

      Masoretarnir afrituðu ritningarnar af ýtrustu nákvæmni.

      FORSÍÐUEFNI | BIBLÍAN – HVERNIG HEFUR HÚN VARÐVEIST?

      Biblían varðveittist þrátt fyrir tilraunir til að breyta boðskapnum

      ÓGNIN: Þrátt fyrir utanaðkomandi ógnir, eins og skemmdir og andstöðu manna, hefur Biblían varðveist. Þar að auki hafa sumir afritarar og þýðendur reynt að breyta boðskap hennar. Stundum hafa þeir reynt að samræma texta Biblíunnar kenningum sínum í stað þess að laga kenningar sínar að boðskap Biblíunnar. Lítum á nokkur dæmi:

      • Tilbeiðslustaður: Á milli fjórðu og annarrar aldar f.Kr. bættu samverskir afritarar Fimmbókaritsins eftirfarandi orðum aftan við 2. Mósebók 20:17: „í Aargaareezem. Og þar skaltu byggja altari.“ Með því reyndu Samverjar að láta ritningarnar styðja byggingu musteris síns í „Aargaareezem“, það er að segja á Garísímfjalli.

      • Þrenningarkenningin: Innan við 300 árum eftir að Biblían var fullrituð bætti afritari, sem studdi þrenningarkenninguna, eftirfarandi orðum við 1. Jóhannesarbréf 5:7: „í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt.“ Þessa staðhæfingu var hvergi að finna í upprunalegum texta Biblíunnar. Biblíufræðingurinn Bruce Metzger segir: „Frá og með 6. öld er þessi orð að finna í æ fleiri fornlatneskum handritum og í [latnesku] Vúlgata-þýðingunni.“

      • Nafn Guðs: Margir biblíuþýðendur hafa fjarlægt nafn Guðs úr ritningunum og vísað í hjátrú Gyðinga því til stuðnings. Þeir settu inn titla á borð við „Guð“ og „Drottinn“ í stað nafnsins, en í Biblíunni eru slíkir titlar ekki einungis notaðir um skaparann heldur menn, falsguði og jafnvel djöfulinn. – Jóhannes 10:34, 35; 1. Korintubréf 8:5, 6; 2. Korintubréf 4:4.a

      HVERNIG BIBLÍAN VARÐVEITTIST: Þó að sumir biblíuafritarar hafi verið óvandvirkir eða jafnvel falsað textann vísvitandi voru margir afritarar mjög færir og vandvirkir. Masoretar afrituðu Hebresku ritningarnar á sjöttu til tíundu öld. Þessi afrit eru nefnd masoretatextar. Samkvæmt heimildum töldu þeir orðin og stafina til þess að fullvissa sig um að engin villa hefði slæðst inn. Ef þá grunaði að villa væri í forskriftinni, sem þeir notuðu, skrifuðu þeir athugasemd á spássíuna. Masoretarnir vildu alls ekki breyta texta Biblíunnar. Prófessor Moshe Goshen-Gottstein skrifaði: „Að þeirra áliti hefði það verið hinn versti glæpur að breyta textanum af ásettu ráði.“

      Þar að auki hjálpa þau fjölmörgu handrit, sem til eru í dag, biblíufræðingum að koma auga á villur. Tökum dæmi: Trúarleiðtogar héldu því fram í margar aldir að latneskar þýðingar þeirra innihéldu upprunalegan texta Biblíunnar. Þó höfðu þeir sett inn í latneskar biblíur sínar viðbótina í 1. Jóhannesarbréf 5:7 sem minnst var á fyrr í greininni. Þessi villa slæddist meira að segja inn í hina mikils metnu King James Version. En hvað hafa aðrir handritafundir leitt í ljós? Bruce Metzger skrifaði: „Þessi orð [í 1. Jóhannesarbréfi 5:7] er ekki að finna í neinum öðrum fornum útgáfum (sýrlenskum, koptískum, armenskum, eþíópískum, arabískum, slavneskum), eingöngu í latneskum útgáfum.“ Þessa viðbót er því ekki að finna í endurbættri útgáfu af King James Version og fleiri biblíum.

      Chester Beatty P46, biblíuhandrit úr papírus frá um árið 200 e.Kr.

      Chester Beatty P46, biblíuhandrit úr papírus frá um árið 200 e.Kr.

      Sýna enn eldri handrit að boðskapur Biblíunnar hafi varðveist í tímans rás? Þegar Dauðahafshandritin fundust árið 1947 gátu fræðimenn loks borið hebreska masoretatextann saman við biblíubókrollur sem voru meira en þúsund árum eldri. Einn úr hópi ritstjóranna, sem rannsakaði Dauðahafshandritin, segir um eina bókrolluna: „[Hún] sannar ótvírætt að afritarar Gyðinga hafa á meira en þúsund ára tímabili varðveitt biblíutextann afar vel og vandlega.“

      Í Chester Beatty bókasafninu í Dyflinni á Írlandi er að finna safn papírushandrita af nánast öllum bókum Grísku ritninganna, þar á meðal handrit frá annarri öld – afrit sem voru rituð um 100 árum eftir að Biblían var fullrituð. „Þó að papírusritin gefi okkur heilmiklar upplýsingar um ýmis smáatriði í textanum sýna þau jafnframt fram á einstaka varðveislu biblíutextans í gegnum aldirnar,“ segir í The Anchor Bible Dictionary.

      „Óhætt er að fullyrða að ekkert annað fornrit hafi varðveist eins vel fram á okkar daga.“

      ÁRANGURINN: Þessi mikli fjöldi fornra biblíuhandrita hefur í raun bætt biblíutextann í stað þess að spilla honum. Sir Frederic Kenyon skrifaði um Grísku ritningarnar: „Ekki eru til eins margar og fornar heimildir fyrir nokkru öðru fornriti. Og enginn óhlutdrægur fræðimaður getur neitað því að textinn, sem við höfum undir höndum, sé efnislega sá sami og í upphafi.“ Og fræðimaðurinn William Henry Green sagði um Hebresku ritningarnar: „Óhætt er að fullyrða að ekkert annað fornrit hafi varðveist eins vel fram á okkar daga.“

      a Frekari upplýsingar er að finna í Handbók biblíunemandans, 1. og 2. kafla. Hún er fáanleg á rafrænu formi á www.pr2711.com/is.

  • Hvers vegna hefur Biblían varðveist?
    Varðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 4
    • Maður les í Biblíunni.

      FORSÍÐUEFNI | BIBLÍAN – HVERNIG HEFUR HÚN VARÐVEIST?

      Hvers vegna hefur Biblían varðveist?

      Biblían hefur varðveist. Þess vegna getum við orðið okkur úti um hana og lesið í henni. Ef þú velur þér góða biblíuþýðingu geturðu verið viss um þú hafir undir höndum áreiðanlegt afrit af upprunalegu ritningunum.a Varðveisla Biblíunnar er í raun stórmerkileg. En hvers vegna hefur Biblían bjargast frá skemmdum, varðveist þrátt fyrir harða andstöðu og staðið af sér gagngerar tilraunir til að breyta boðskap hennar? Hvað er svona einstakt við þessa bók?

      „Núna er ég sannfærður um að Biblían, sem ég á, sé gjöf frá Guði.“

      Margir sem hafa lesið og rannsakað Biblíuna eru á sama máli og Páll postuli sem skrifaði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Þeir trúa því að Biblían hafi varðveist vegna þess að í henni er einstakur boðskapur frá Guði og vegna þess að hann hefur verndað hana fram á okkar daga. Faizal, sem minnst var á í upphafsgreininni, ákvað að skoða þessar staðhæfingar með því að lesa og rannsaka Biblíuna sjálfur. Það kom honum á óvart að sjá að margar kenningar kristna heimsins eiga sér enga stoð í Biblíunni. Þar að auki var hann mjög hrifinn þegar hann komst að því hver fyrirætlun Guðs er með jörðina.

      „Núna er ég sannfærður um að Biblían, sem ég á, sé gjöf frá Guði,“ segir hann. „Ætli Guð sé ekki fær um að gefa mannkyninu bók og varðveita hana ef hann hefur skapað alheiminn? Ef við héldum öðru fram værum við að gera lítið úr mætti Guðs. Hvaða rétt hef ég til að efast um mátt hins alvalda?“ – Jesaja 40:8.

      a Sjá greinina „Hvernig er hægt að velja góða biblíuþýðingu?“ í Varðturninum júlí-september 2008.

      Hvernig getum við verið viss um að Biblían sé áreiðanleg?

      Í þessari greinaröð hefur verið fjallað um hvernig Biblían hefur varðveist. En hvernig geturðu verið viss um að Biblían sé í raun og veru ,orð Guðs‘ en ekki aðeins samansafn goðsagna og þjóðsagna? (1. Þessaloníkubréf 2:13) Horfðu á stutt myndband sem heitir Er Biblían áreiðanleg? á www.pr2711.com/is. (Sjá ÚTGÁFA > MYNDBÖND > FINNA FLEIRI KVIKMYNDIR.)

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila