Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Er erfitt að elska Guð?
    Varðturninn: Lygar sem gera það erfitt að elska Guð
    • [Myndir]

      FORSÍÐUEFNI | LYGAR SEM GERA ÞAÐ ERFITT AÐ ELSKA GUÐ

      Er erfitt að elska Guð?

      „,Þú skalt elska Jehóva Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál þinni og öllum huga þínum.‘ Þetta er mesta og æðsta boðorðið.“ – Jesús Kristur, árið 33. e.Kr.a

      Sumum finnst erfitt að elska Guð. Í augum þeirra er hann óskiljanlegur, fjarlægur eða jafnvel grimmur. Taktu eftir því sem sumir segja:

      • „Ég bað Guð um hjálp en samt fannst mér hann vera mjög fjarlægur og nánast ómögulegt að ná sambandi við hann. Fyrir mér var hann óskiljanleg vera án tilfinninga.“ – Marco, Ítalía.

      • „Ég hafði einlæga löngun til að þjóna Guði en mér fannst hann vera svo langt í burtu. Ég hugsaði um hann sem harðan og refsiglaðan Guð. Ég trúði ekki að hann hefði blíðar tilfinningar.“ – Rosa, Gvatemala.

      • „Sem barn trúði ég að Guð væri bara að leita að göllum okkar, reiðubúinn að refsa okkur ef við áttum það skilið. Seinna fannst mér hann bara fáskiptinn. Guð var eins og forsætisráðherra sem fer með stjórn fyrir hönd þjóðarinnar en hefur engan áhuga á henni.“ – Raymonde, Kanada.

      Hvað heldur þú? Er Guð elskuverður? Kristnir menn hafa velt því fyrir sér í aldaraðir. Á miðöldum báðu reyndar fáir í kristna heiminum til Guðs hins almáttuga. Hvers vegna? Fólk var sjúklega hrætt við hann. Sagnaritarinn Will Durant orðar þetta svona: „Hvernig gæti syndum vafinn maður haft kjark til að nálgast svo hræðilegt og fjarlægt hásæti?“

      Hvað varð til þess að fólk fór að líta á Guð sem ,hræðilegan og fjarlægan‘? Getur það að læra sannleikann um Guð hjálpað þér að elska hann?

      a Matteus 22:37, 38.

  • Lygi 1: Guð á sér ekki nafn
    Varðturninn: Lygar sem gera það erfitt að elska Guð
    • [Mynd]

      FORSÍÐUEFNI | LYGAR SEM GERA ÞAÐ ERFITT AÐ ELSKA GUÐ

      Lygi 1: Guð á sér ekki nafn

      ÞAÐ SEM MARGIR TRÚA

      „Við erum ekki sammála um hvort Guð eigi sér yfirhöfuð nafn eða hvaða nafn það gæti verið.“ Prófessor David Cunningham, Theological Studies.

      SANNLEIKUR BIBLÍUNNAR

      Guð sagði: „Ég er Jehóva. Það er nafn mitt.“ (Jesaja 42:8, NW) Jehóva er hebreskt nafn sem merkir ,hann lætur verða‘.

      Guð vill að við notum nafna hans. „Ákallið nafn hans,“ segir Biblían. „Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna. Hafið í minnum að háleitt er nafn hans.“ – Jesaja 12:4.

      Jesús notaði nafn Guðs. Hann sagði við Jehóva í bæn: „Ég hef kunngert þeim [lærisveinum Jesú] nafn þitt og mun kunngera það.“ Hvers vegna kunngerði Jesús lærisveinum sínum nafn Guðs? Hann heldur áfram: „Svo að þeir sýni sama kærleika og þú sýndir mér og ég sé sameinaður þeim.“ – Jóhannes 17:26.

      HVERS VEGNA ÞAÐ SKIPTIR MÁLI

      „Sá sem þekkir ekki Guð með nafni getur ekki þekkt hann sem persónu,“ skrifaði guðfræðingurinn Walter Lowrie, „og hann getur ekki elskað hann ef hann þekkir hann aðeins sem ópersónulegan kraft.“

      Að fela nafn Guðs eða skipta því út fyrir eitthvað annað er eins og skera það burt af síðum Biblíunnar.

      Maður að nafni Victor sótti kirkju í hverri viku en honum fannst hann ekki þekkja Guð. „En þá lærði ég að Guð heitir Jehóva og mér fannst eins og ég væri kynntur fyrir honum,“ segir hann. „Það var eins og ég væri loksins búinn að hitta þann sem ég hafði heyrt svo mikið um. Ég fór að líta á hann sem raunverulega persónu og mynda vináttu við hann.“

      Jehóva nálgast á sama hátt þá sem nota nafn hans. Hann lofar þeim sem „virða nafn hans“: „Ég mun vægja þeim eins og maður vægir syni sínum sem þjónar honum.“ (Malakí 3:16, 17) Guð umbunar líka þeim sem ákalla nafn hans. Biblían segir: „Allir sem ákalla nafn Jehóva bjargast.“ – Rómverjabréfið 10:13.

  • Lygi 2: Guð er ráðgáta
    Varðturninn: Lygar sem gera það erfitt að elska Guð
    • [Mynd]

      FORSÍÐUEFNI | LYGAR SEM GERA ÞAÐ ERFITT AÐ ELSKA GUÐ

      Lygi 2: Guð er ráðgáta

      ÞAÐ SEM MARGIR TRÚA

      Kristin trúarbrögð „í þremur helstu birtingarmyndum þeirra, rómversk-kaþólskri trú, rétttrúnaðarkirkjunni í austri og mótmælendatrú, játa trú á einn Guð í þremur persónum: Guði föðurnum, Guði syninum og Guði heilögum anda. Samkvæmt kristinni guðfræði felur þetta ekki í sér að játa þrjá guði heldur að þessar þrjár persónur séu ein persóna.“ – The New Encyclopædia Britannica.

      SANNLEIKUR BIBLÍUNNAR

      Jesús sonur Guðs hélt því aldrei fram að hann væri jafn föður sínum eða samur föðurnum. Hann sagði aftur á móti: „Ég fer til föðurins því að faðirinn er mér æðri.“ (Jóh. 14:28) Hann sagði líka við fylgjendur sína: „Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“ – Jóh. 20:17.

      Heilagur andi er ekki persóna. Frumkristnir menn ,fylltust heilögum anda‘ og Jehóva sagði: ,Ég mun úthella nokkru af anda mínum yfir alls konar fólk.‘ (Post. 2:1–4, 17) Heilagur andi er ekki hluti af þrenningu. Hann er starfskraftur Guðs.

      HVERS VEGNA ÞAÐ SKIPTIR MÁLI

      Kaþólsku fræðimennirnir Karl Rahner og Herbert Vorgrimler segja að þrenningarkenningin „væri ekki þekkt án opinberunar og það er ekki hægt að skilja hana til fulls jafnvel eftir opinberunina“. Er hægt að elska einhvern sem hvorki er hægt að þekkja né skilja? Þrenningarkenningin hindrar fólk í að kynnast Guði og elska hann.

      Marco, sem áður er vitnað í, leit á þrenningarkenninguna sem hindrun. Hann segir: „Ég hélt að Guð væri að halda leyndu hver hann væri. Fyrir vikið virtist erfitt að nálgast hann, hann virtist fjarlægur og dularfullur.“ En „Guð er ekki Guð ruglings“. (1. Kor. 14:33, American Standard Version) Hann hefur ekki haldið leyndu hver hann er. Hann vill að við kynnumst sér. Jesús sagði: „Við tilbiðjum það sem við þekkjum.“ – Jóh. 4:22.

      „Þegar ég fékk að vita að Guð væri ekki hluti af þrenningu,“ segir Marco, „gat ég loksins myndað persónulegt samband við hann.“ Þegar við lítum á Jehóva sem raunverulega persónu en ekki einhvern sem ekki er hægt að kynnast eða skilja verður miklu auðveldara að elska hann. Biblían segir: „Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.“ – 1. Jóh. 4:8.

  • Lygi 3: Guð er grimmur
    Varðturninn: Lygar sem gera það erfitt að elska Guð
    • [Mynd]

      FORSÍÐUEFNI | LYGAR SEM GERA ÞAÐ ERFITT AÐ ELSKA GUÐ

      Lygi 3: Guð er grimmur

      ÞAÐ SEM MARGIR TRÚA

      „Sálir þeirra sem deyja sekir um dauðasynd stíga niður til helvítis strax eftir dauðann og hljóta þar hegningu vítis, eilífan eld.“ (Catechism of the Catholic Church) Sumir trúarleiðtogar halda því fram að helvíti sé fólgið í því að vera algerlega aðskilinn frá Guði.

      SANNLEIKUR BIBLÍUNNAR

      „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ (Esekíel 18:4, Biblían 1981) „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) Ef sálin deyr og veit ekki neitt, hvernig ætti hún þá að geta þjáðst í „eilífum eldi“ eða fundið til vegna aðskilnaðar frá Guði?

      Hebreska orðið „séol“ og gríska orðið „hades“ í frumtexta Biblíunnar eru stundum þýdd „helvíti“ á sumum tungumálum. Þau eru oftast þýdd „hel“ í íslensku Biblíunni en nokkrum sinnum „dánarheimar“ og „undirheimar“. Frummálsorðin tákna hins vegar sameiginlega gröf mannkyns. Þegar Job var sárveikur og kvalinn af sársauka bað hann til Guðs: „Æ, að þú vildir fela mig í undirheimum [„í gröfinni“, Biblían 1841].“ (Jobsbók 14:13) Job vildi fá hvíld, ekki á kvalarstað eða aðskilinn frá Guði, heldur í gröfinni.

      HVERS VEGNA ÞAÐ SKIPTIR MÁLI

      Grimmd laðar okkur ekki að Guði heldur er hún fráhrindandi. „Mér var kennt að helvíti væri til frá því að ég var barn,“ segir Rocío sem býr í Mexíkó. „Ég var svo óttasleginn að ég gat ekki ímyndað mér að Guð hefði nokkurn góðan eiginleika. Ég hélt að hann væri reiður og umburðarlaus.“

      Það sem Biblían segir um dóma Guðs og eðli dauðans fékk Rocío til að líta Guð öðrum augum. „Mér fannst ég frjáls – þungu fargi var af mér létt,“ segir hann. „Ég byrjaði að treysta því að Guð vilji það besta fyrir okkur og að hann elski okkur. Ég fór að elska hann. Hann er eins og faðir sem heldur í hönd barna sinna og vill það besta fyrir þau.“ – Jesaja 41:13.

      Margir hafa reynt að lifa guðrækilega vegna ótta við eld helvítis. En Guð vill ekki að þú þjónir honum vegna ótta við hann. Jesús sagði: „Þú skalt elska Jehóva Guð þinn.“ (Markús 12:29, 30) Þegar við áttum okkur á því að Guð er aldrei óréttlátur getum við líka treyst að hann dæmi réttlátlega í framtíðinni. Líkt og Elíhú vinur Jobs getum við sagt af sannfæringu: „Fjarri fer því að Guð breyti ranglega og Hinn almáttki aðhafist illt.“ – Jobsbók 34:10.

  • Sannleikurinn getur veitt þér frelsi
    Varðturninn: Lygar sem gera það erfitt að elska Guð
    • [Mynd]

      FORSÍÐUEFNI | LYGAR SEM GERA ÞAÐ ERFITT AÐ ELSKA GUÐ

      Sannleikurinn getur veitt þér frelsi

      Einu sinni þegar Jesús var í Jerúsalem ræddi hann um föður sinn, Jehóva, og afhjúpaði falstrúarleiðtoga síns tíma. (Jóhannes 8:12–30) Það sem hann sagði getur hjálpað okkur að leggja mat á útbreiddar kenningar um Guð. Hann sagði: „Ef þið fylgið orðum mínum staðfastlega eruð þið sannir lærisveinar mínir og þið munuð þekkja sannleikann og sannleikurinn veitir ykkur frelsi.“ – Jóhannes 8:31, 32.

      „Fylgið orðum mínum.“ Hér setur Jesús mælikvarðann til að meta hvort trúarleiðtogar kenna „sannleikann“. Þegar eitthvað er sagt um Guð skaltu spyrja sjálfan þig: „Er þetta í samræmi við það sem Jesús sagði og allt annað sem stendur í Biblíunni?“ Líktu eftir þeim sem hlustuðu á Pál postula og „rannsökuðu Ritningarnar daglega til að kanna hvort það sem þeir heyrðu væri rétt“. – Postulasagan 17:11.

      Marco, Rosa, og Raymonde, sem minnst er á í fyrstu greininni í þessari greinaröð, skoðuðu vandlega trú sína með því að kynnast Biblíunni með aðstoð votta Jehóva. Með hvaða árangri?

      Marco: „Biblíukennari okkar notaði Biblíuna til að svara öllum spurningum okkar hjónanna. Kærleikurinn til Jehóva fór að vaxa og við urðum nánari sem hjón.“

      Rosa: „Ég hélt fyrst að Biblían væri bók sem styðst við hugmyndir manna til að útskýra hver Guð er. En smátt og smátt sá ég að Biblían svaraði spurningum mínum. Jehóva er mér raunverulegur núna. Ég treysti honum.“

      Raymonde: „Ég bað Guð um hjálp til að kynnast honum. Stuttu seinna byrjuðum við eiginmaðurinn minn að rannsaka Biblíuna. Loksins kynntumst við sannleikanum um Jehóva! Við vorum yfir okkur glöð að hafa uppgötvað hvers konar Guð hann er.“

      Biblían afhjúpar ekki aðeins lygar um Guð heldur opinberar hún líka sannleikann um aðlaðandi eigileika hans. Hún er innblásið orð hans og hjálpar okkur að ,skilja hvað Guð hefur í góðvild sinni gefið okkur‘. (1. Korintubréf 2:12) Hví ekki að komast að því sjálfur hvernig Biblían getur svarað algengum og áleitnum spurningum um Guð, fyrirætlun hans og framtíð okkar? Kynnstu svörunum við sumum þessara spurninga á www.pr2711.com undir flipanum „Biblían og lífið > Biblíuspurningar og svör“. Þú getur líka beðið um biblíunámskeið á vefsetrinu eða með því að hafa samband votta Jehóva. Við trúum því að þér muni þá finnast auðveldara að elska Guð en þig óraði fyrir.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • Íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila